Færsluflokkur: Bloggar

Hjössa nythæsta kýrin árið 2010

Kýrin Hjössa á Höskuldsstöðumí Austur-Húnavatnssýslu varnythæsta kýrin árið 2010 á svæðiBúnaðarsambands Húnaþings ogStranda með 10.278 kg og lenti húní 35. sæti yfir landið hvað þennanþátt varðar.Þetta kemur fram í niðurstöðumúr skýrsluhaldi nautgriparæktarinnarfyrir árið 2010 og fjallað er um í nýjastafréttabréfi BSH.Þar kemur einnig fram að meðalnytá svæði sambandsins hækkaði á milliára og endaði í 5.190 kg/árskú sem erþó aðeins undir landsmeðaltalinu semer 5.342 kg/árskú.

 


Fiskimjöl og lýsi.

 

Mér þótti alltaf hálf ónotalegt að teygja mig ofan í mjéltunnunna á dimmum vetrum, dimmt í húsunum og jafnvel lítið í tunnunni. Helvítis mýsnar voru seigar að koma sér í allsnægtir og demba sér í mélið. Þegar maður var svo kominn á hvolf, standandi á höndum með lappirnar beint í loft upp, skutust þær með ógnarhraða undan höndunum á manni, upp handlegginn og út í fjárhús. Við slíkri kveðju brást maður með því að spretta á fætur leiftursnöggt . Á þessi augnabliki birti þó í smá stund, sökum fölvans,  og maður gat séð hvort fleiri mýs voru í tunnunni.

Fóðurbætirinn var jú settur yfir heyið þegar það var komið á garðann. Áður var búið að renna lýsi yfir töðuna og að loknu þessu verki var maður kominn, fyrst með lýsið upp að olnbogum og svo fiskimjölið þar yfir. Lyktin af manni eftir þetta, með fjárhússlyktinni aukreitis, var slík, að vart verður með orðum lýst.  Hún var með manni þar til komið var að næstu gjöf.

Þennan ilm finn ég reglulega hér í bílskúrnum hjá mér og finnst þá að ég komist næst því að finnast ég vera bóndi, reyndar með því að loka augunum og berja í haus minn  fjarlægan draum.  Svo vakna ég upp af þessum dásamlega draumi  þegar ég opna augun og sé að þessi unaðslegi ilmur, sem framkallar þessar fögru minningar, er aðeins af hundafóðrinu sem ég kaupi í bónus og moka í Tuppevare plastdolluna.

En, mikið er samt gott að eiga þennan draum, svona aftur og aftur.


Fína ferðin

Sumar ferðir eru betri en aðrar, súsíðasta var með betri ferðum.

Des 2010 014

Des 2010 017

Des 2010 015

Des 2010 054


Vonda skapið

 

Þó morgnarnir í sveitinni geti verið fagrir þá kemur fyrir að slæmir dagar líta dagsins ljós. Hvað veldur er ekki gott að átta sig á. Meltingartruflanir um nætur gætu valdið rofnum svefni og þar með úrillsku að morgni. Allavega var það svo að einn fagran haustmorgun vaknaði ég í slíku skapi. Ég átti vonda fótaferð, kaffisopinn var rammur og ég fór rakleiðis út til að undirbúa daginn en hann var skipulagður í þaula. Ég fór að rogast um hlaðið  með hitt og þetta til verksins og var svona hálfpartinn að vonast eftir liðsauka. Bakið var bogið, hausverkur eftir bjórinn í bragganum og hryssingslegt veður. Ekki bólaði á neinum á tröppunum þó hreyfingu væri að sjá í eldhúsinu.

Ég ruddist upp í Zetorinn til að flytja með honum þyngstu hlutina. Hann var hættur að hlaða og því hafður í halla til að láta hann renna í gang. Til þess þurfti afar lítinn halla. En halla þurfti hann nú samt en sá sem var með traktorinn daginn áður hafði ákveðið að best væri að láta skófluna síga svo hann rynni örugglega hægar en þurfti til að hann hrykki í gang.

Þegar þarna var komið, var ég kominn í frekar vont skap. Þessir hlutir eiga að vera í lagi, hugsaði ég. Í þessu kom pabbi vagandi og taldi langbest að hann tæki litla Zetorinn og drægi mig í gang. Ég batt spottann í þann stóra og beið eftir pabba með lykkjuna í lúkunum.

Pabbi bakkaði til mín, stoppaði en ekkert meira gerðist." Á ég að láta krókinn síga?" spurði pabbi þegar hann sá að ég gerði ekkert til að binda í þann gamla.

"Já" svaraði ég að bragði, frekar ákveðið.

Ég skellti lykkjunni á krókinn og stökk upp í traktor.

Þá sá ég að pabbi gamli æddi af stað en hafði ekki sett krókinn upp. Spottinn vippaðist að sjálfsögðu upp af króknum og pabbi ók lengst vestur á hlað. Þarna var farið að síga vel í mig, svo ekki sé meira sagt. Pabbi kom afturábak austur eftir hlaðinu, þangað sem ég stóð á sama stað og áður, með spottann í hendinni. Ég setti lykkjuna á krókinn og pabbi spurði" Á ég að setja krókinn upp?" Já!" Svaraði ég, alveg að verða brjálaður!

Ég stökk upp í Zetorinn og pabbi ók af stað. Það strekktist á tóginu og traktorinn hrökk í gang á fyrsta metranum. Ég flautaði, en pabbi hélt áfram. Þá steig ég svolítið á bremsuna, þannig að það dró svolítið niður í gamla Zetornum en þá kúplaði pabbi frá og gaf vel inn, æddi svo af stað af fullu afli. Var mér þarna öllum lokið. Einfaldasta verkefni, að draga traktor í gang, eitthvað sem hafði verið gert frá því annar traktorinn kom á bæinn, var að fara í tóma vitleysu. Ég trampaði bremsurnar á fjórhjóladrifs Zetornum alveg í botn þannig að hann klossbremsaði á öllum hjólum og stoppaði náturulega á punktinum.

Tógið á milli traktoranna varð pinnstrekkt og gamli Zetorinn, sem togaði soldið á ská, tók slíka sveiflu að ég hélt að hann færi á hliðina. Pabbi gamli, sem var nú að gera sitt allra besta til að létta frumburðinum tilveruna, kastaðist á milli brettanna á meðan traktorinn gróf sig ofan í hlaðið. Í hinum endanum sat sá er þetta skrifar með blóðsprungin augu af bræði og beið eftir að látunum linnti.

Pabbi bakaði upp úr pælunni og ég tók spottann.

Ég sá að hann fór inn í bæ, þar sem fjölskyldan sat í morgunmat hjá mömmu, og sagði víst um leið og hann helti sér kaffi í bolla, " Ef þið farið út, takið þá sveig framhjá Helga Pálssyni. Hann er í vondu skapi"

Reiðikastið


Víst er vatn í fossinum

Raxi ætti að fá sér gleraugu því á myndinni sést greinilega hvar Fossinn fýkur örlítið til austurs. Enda hverfur hann aldrei alveg. Allt árið má heyra niðinn vinalega. Smile
mbl.is Foss á Síðu horfinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrossatungur- heimsókn að handan?

  Við vorum búin að taka að okkur að trússa fyrir göngufólk inn á Landbrotsafrétt. Fyrsta gönguleið fólksins var að Leiðólfsfelli og á öðrum degi var stefnan tekin á Hrossatungurnar. Við fluttum varninginn, við Káta, hundurinn minn, í kofann við Leiðólfsfell. Það hellirigndi þennan dag og við hinkruðum eftir göngugörpunum og enduðum reyndar á að sækja þá austur yfir Hellisá og ferja í kofann á kerrunni.

Þegar þetta var allt komið í höfn losuðum við Káta kerruna frá jeppanum og töltum af stað inn á afrétt. Við höfðum ákveðið að dvelja um nóttina í Hrossatungunum. Við ókum í miklum rólegheitum,  spókuðum okkur á milli skúra, önduðum að okkur tæru fjallaloftinu.  Fuglarnir skoppuðu um grundir, spóinn sat á stuðaranum og við þurftum að taka sveig framhjá rollum þar sem þær lágu jórtrandi með lömbin sín á miðjum veginum.

Já, lífið virtist ná nýjum hæðum á þessu fagra júníkvöldi.

Þegar við vorum búin að hreiðra um okkur í kofanum, velja okkur koju og bera inn matinn, fórum við að sækja vatn fyrir gönguhópinn sem von var á þarna daginn eftir. Við fórum inn að Varmá og fylltum mjólkurbrúsa af vatni á þessum stórfenglega stað, stað sem er án efa einn af fallegustu stöðum sem maður kemur á, þar sem vaðið er á Varmá.

Eftir bíltúr í Blágil, þar sem hin nýja, undurfagra bygging þjóðgarðsins hefur verið reyst, fórum við til baka í Hrossatungurnar.  Það var enginn annar í kofanum en ég og hundurinn minn. Ég hugsaði mér gott til glóðarinnar því ég hafði keypt í kaupfélaginu um morguninn bleikt síldarsalat og brauð.

En salatið reyndist ónýtt!

Sem betur fer var hafði ég einnig keypt ítalskt salat, með mæjónesi og baunum, svona til öryggis. Bleika salatið var sent rakleiðis í ruslið og baunasalatið tekið úr pokanum. Ég var hálf feginn því þó síldarsalatið sé gott, þá er svo helv vont að ná því úr fötunum.

Glaðbeittur svipti ég lokinu af dollunni en.....það var líka ónýtt!

Nú var farið að síga í sveitamanninn þar sem hann sat inn á fjöllum með megnið af matnum ónýtan.  Eitthvað hefur Maddý klikkað á að kippa sendingunni inn úr sólinni. Sem aftur, betur fer, hafði ég þarna í Kaupfélaginu um morguninn, slitið út úr rekstraraðilunum, lifrarpylsukepp til þrautavara.

Að lokinni máltíðinni, þar sem við Káta skiptum á milli okkar lifrapylsukeppnum,  fór ég að fletta myndalbúmunum sem þar eru . Margar og skemmtilegar myndir. Í miðju einu albúminu er mynd af afa mínum heitnum, afar glaðbeittum á góðri stundu. Hugurinn flögraði aftur í tímann og mér var hugsað til afa míns og til þessa tíma þar sem þessir kallar fóru til fjalla og héldu nokkurskonar árshátíð bændanna. Sungið fram á nótt og gleðinni gerð góð skil.

Þar sem ég sat með tárin í augunum, hugsandi um þessa liðnu tíma, aleinn við borðið um nóttina í Hrossatungunum, með 3 kalda á kantinum, leit hundurinn að útihurðinni og urraði.

Mér varð nú reyndar ekki um sel, hafði tekið hundinn með svona ekki síður til halds og trausts en annars, en nú var hundurinn orðinn hræddari en ég. Ég setti í mig kjark og fór til dyra. Kannski var þarna rolla á vappi sem Káta hafði orðið vör við þó ég hefði ekki orðið það.

Ég opnaði hurðina en þar var nákvæmlega ekkert að sjá. Ekki einu sinni fugl. Við vorum alein þarna, ég, Káta og þessi sem við sáum ekki.

Við fórum í bælið, sváfum til morguns og urðum ekki vör við meira af þessu taginu. Hver þarna kom til að athuga með okkur er ekki gott að geta um,  en óneytanlega hvarflar sumt frekar að mér en annað...

Júní-júlí 2010 022


Brottfluttur smali- ( gömul saga)

  Hvað mig snertir er haustið átakatími fyrir líkama og sál. Kólnandi veðurfar gerir hvert áhlaupið á veikburða líkamann á fætur öðru sem fyrir vikið verður af nauðsynlegum næringarefnum, jafnvel dögum saman. Kemur sér þá vel að hafa hugsað um að nærast vel um sumarið og halda hreyfingu í lágmarki. Hinsvegar togast sá þáttur svolítið á í sálartetrinu, hefði kannski verið gott að rölta svolítinn spöl á degi hverjum því það er sárt að sjá hvernig sauðkindin er farin að stíla inn á að vera á minni smalaleið. Þar geta þær verið algerlega óhultar og snúa gjarnan á þunglamalegan smalann, léttilega. Hefur örnefnið Grátklettur fengið nýja merkingu í minni sveit, þar sem rollurnar gráta af hlátri þegar löðursveittur, másandi smalinn skríður eftir kindagötunni, styðstu leið til byggð.


Einnig er það greipt í barnssálina, að á haustin fara krakkarnir úr sveitinni til síns heima. Vinnukonan á næsta bæ er farin án þess að maður hafi svo mikið sem fengið að leiða hana á eftir beljunum. Vinnumaðurinn á þar næsta bæ fer með sömu rútu og ég sé að hann sest við hliðina á henni, límdur við hana.
Ég horfi út í myrkrið og það eina sem ég heyri er niðurinn í Fossinum. Í gamla daga vissi barnið ekki hve undurfagurt það hljóð getur orðið þegar árin líða.

En bíddu við!

Vélarhljóð berst úr fjarska og nálgast. Þeir eru  að fara í heiðina! Ég stekk af stað, þeir hafa sennilega ekki náð í mig í gær til að láta mig vita. Hleyp eins og fætur toga inn í bragga og dreg fjórhjólið undan rúgbagganum frá því í fyrrahaust. Skelli bensíni á tankinn, treð mér í regngallann, set á mig hjálminn og lít niðrá veg. Þeir fara framhjá án þess að hægja á. Þeir skilja mig eftir. Þeir hafa þá ekki reynt að ná í mig í gær. Ég tek af mér hjálminn, klippi utan af mér regngallann og rölti upp í Foss.
Þetta verður slæmur dagur.

 

Heiðarsmölun 2006 121

2.safn 04 030

 


Rokstykkin

Flestir bæir eiga sitt rokstykki. Stykki sem sennilega gerir rok á  meðan það liggur flatt. Bóndinn fer afar varlega þegar að þessu stykki er komið og nágrannar slá lítið á meðan, helst ekkert. Svona fylgjast menn með rokstykkjum hvers annars,  mönnum hrís hugur þegar nágranninn fer í þann flekk með sláttuvélina.

Mínir alskörpustu morgnar voru þegar heyið var að fjúka af þessum stykkjum. Þar sem maður lá í fasta svefni, dreymdi lömb að leik í brekkunum, jórtrandi kýr úti á túni eða jafnvel sofandi hross í haga, sviptist svefnherbergishurðin upp. Tilviljun ein réði hvort hún opnaðist skráarmegin eða á lömunum. Bálæstur bóndinn hrópaði inn um dyrnar að drífa sig á lappir til að raka á undan bindivélinni. Þarna var klukkan yfirleitt um 5 að morgni.

Þá var ekkert sem hét að taka sig til, það varð hreinlega að stökkva í fötin og bregðast við sem á sökkvandi skipi. Pabbi var undantekningalaust kominn út í land Roverinn þegar ég kom hlaupandi út á hlað  ýmist með annað augað opið eða hvorugt. Hurðin var hafði ekki lokast þegar Roverinn var þaninn af stað og stundum tók hann spól á skraufþurru hlaðinu. Hann var ekki kominn út að gamla bæ þegar hann var kominn í 3ja gír og hvorki var litið til hægri eða vinstri.

Hífandi rok var þá gjarnan og heyið farið að velta. Valt í stórum ströngum eins og uppvafið teppi, annaðhvort út í skurð eða í girðingar. Stöku sinnum komu eins og vindsprengjur sem feyktu heyinu í allar áttir og á einu augnabliki var ekkert í múgavélinni og því síður fyrir framan bindivélina, sem þó var ekki nema nokkrum metrum aftar.

Svona gekk þetta, pabbi var þarna búinn að bíða frá sér alla þolinmæði og frekar þungur á brún. Þó eitthvað kæmist í bönd, var enn meiri vinna eftir, það var að moka upp úr skurðunum, raka dreif úr börðum og tína úr girðingunum, sem gjarnan lögðust undan þunganum.
Það kom fyrir að við ekkert var ráðið og þá var ýtt í vindmúga. Gamla heykvíslin var sett á traktorinn og ýtt sem mestu heyi í hrúgur sem menn lifandi gátu. Það voru kallaðir vindmúgar. Úr þeim var svo hægt að moka beint í bindivélina, þegar lægði.
Það er einmitt komið að því á meðfylgjandi mynd, þar sem vindmúgarnir liggja austan við Holtið, sem er einmitt rokstykkið hans pabba.
img108

 


Amma og Aladdin ofninn.

Dætur mínar hlusta með með fullri athygli þegar ég segi þeim sögur frá því ég var lítill. Þeim finnst ég alveg svakalega gamall á þeim stundum. Hálfgerður fornmaður. Þeim finnst með ólíkindum að ekki hafi verið til sjónvarp, að það hafi ekki verið til ávextir nema á jólum og margt fleira í þeim dúr sem við þekkjum.

Um daginn var ég að segja þeim frá því að að vetrin var ekkert sjálfsagt að hafa rafmagn. Eftir að ríkisrafmagnið tók yfir heimarafstöðina var það afar algengt að rafmagnslaust yrði í tíma en aðallega ótíma. Eldspýtur og kerti var alltaf á vísum stað svo hægt væri að bregðast við að skammri stundu. Í fjósinu þurfti að stökkva á kýrnar sem voru með tækjunum á til að ekki færi allt í svaðið.

á jólum var það alveg pottþétt að rafmagnið færi, svona á milli 5 og 7. Var því reynt að hafa hangikjetið soðið í tíma og beljurnar voru mjólkaðar í fyrra fallinu.

Svo gat rafmagnsleysið varað í marga daga, sérstaklega ef bilunin var í Mýrdalnum, þá voru það gjarnan kílómetrar af línum sem lágu á jörðu niðri eftir stórveðrin. Ef bilunin var í Tugunni, var þetta spurning um að Rarik menn kæmust á staðinn í fannferginu. Ef farmagnið fór, tók að kólna skart í steinhúsunum. Sváfum við krakkarnir þá inni hjá pabba og mömmu og reynt með öllum tiltækum ráðum að halda húsinu sæmilega heitu. Kom þá að góðum notum Aladdin ofninn góði, steinolíuofninn sem  hitaði svo vel. Hann var eining þeim gæðum gæddur að hægt var að taka hattinn af honum og þá var hann orðinn eldavél.  Þar voru eldaðir grautar, hitað kjet og amma var venjulega ekki lengi að komast í að hita vatni í kaffið, því kaffilaus var jú ekki gott að vera og það vissi amma manna best :)

Svo var það nú um helgina að konan mín fann þessa mynd sem ég tók heima af ömmu einmitt við að hita vatn í kaffið og hella á könnuna.

img106

BFH-sign-copy[1]


Stund með Jóni

Fyrir nokkrum árum átti ég leið í heimahagana og kom við hjá Jóni Reyni, sem þá var einn á bæ, konan að heiman. Þá var talið upplagt að dvelja aðeins þar og spá í ýmsa hluti. Ég hef komið að þessu atriði áður, atriðinu þegar við uppgötvuðum í pottinum um nóttina að við vorum svangir. Stukkum í ísskápinn og náðum okkur í steik að naga. Dýrðarinnar matur, töldum við en Jón fékk skammir frá konunni þegar hún kom heim, því steikin var óhreyfð, en hundamaturinn uppétinn.

Þegar ég, nokkrum árum seinna, tek mér tæknina í hendur og skanna inn mynd sem tekin var við þessa merkisstund, þar sem við Jón vorum að hakka í okkur hundamatinn, Þá sé ég, þar sem myndin er nú mikið stærri en í albúminu, að Jón er með sér bakka, með einhverju allt öðru en er í bakkanum mínum. Getur verið að þetta hafi verið einbeittur brotavilji hjá Jóni, að láta mig éta frá hundinum ? Hvað sýnist ykkur?

img002


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband