Vonda skapið

 

Þó morgnarnir í sveitinni geti verið fagrir þá kemur fyrir að slæmir dagar líta dagsins ljós. Hvað veldur er ekki gott að átta sig á. Meltingartruflanir um nætur gætu valdið rofnum svefni og þar með úrillsku að morgni. Allavega var það svo að einn fagran haustmorgun vaknaði ég í slíku skapi. Ég átti vonda fótaferð, kaffisopinn var rammur og ég fór rakleiðis út til að undirbúa daginn en hann var skipulagður í þaula. Ég fór að rogast um hlaðið  með hitt og þetta til verksins og var svona hálfpartinn að vonast eftir liðsauka. Bakið var bogið, hausverkur eftir bjórinn í bragganum og hryssingslegt veður. Ekki bólaði á neinum á tröppunum þó hreyfingu væri að sjá í eldhúsinu.

Ég ruddist upp í Zetorinn til að flytja með honum þyngstu hlutina. Hann var hættur að hlaða og því hafður í halla til að láta hann renna í gang. Til þess þurfti afar lítinn halla. En halla þurfti hann nú samt en sá sem var með traktorinn daginn áður hafði ákveðið að best væri að láta skófluna síga svo hann rynni örugglega hægar en þurfti til að hann hrykki í gang.

Þegar þarna var komið, var ég kominn í frekar vont skap. Þessir hlutir eiga að vera í lagi, hugsaði ég. Í þessu kom pabbi vagandi og taldi langbest að hann tæki litla Zetorinn og drægi mig í gang. Ég batt spottann í þann stóra og beið eftir pabba með lykkjuna í lúkunum.

Pabbi bakkaði til mín, stoppaði en ekkert meira gerðist." Á ég að láta krókinn síga?" spurði pabbi þegar hann sá að ég gerði ekkert til að binda í þann gamla.

"Já" svaraði ég að bragði, frekar ákveðið.

Ég skellti lykkjunni á krókinn og stökk upp í traktor.

Þá sá ég að pabbi gamli æddi af stað en hafði ekki sett krókinn upp. Spottinn vippaðist að sjálfsögðu upp af króknum og pabbi ók lengst vestur á hlað. Þarna var farið að síga vel í mig, svo ekki sé meira sagt. Pabbi kom afturábak austur eftir hlaðinu, þangað sem ég stóð á sama stað og áður, með spottann í hendinni. Ég setti lykkjuna á krókinn og pabbi spurði" Á ég að setja krókinn upp?" Já!" Svaraði ég, alveg að verða brjálaður!

Ég stökk upp í Zetorinn og pabbi ók af stað. Það strekktist á tóginu og traktorinn hrökk í gang á fyrsta metranum. Ég flautaði, en pabbi hélt áfram. Þá steig ég svolítið á bremsuna, þannig að það dró svolítið niður í gamla Zetornum en þá kúplaði pabbi frá og gaf vel inn, æddi svo af stað af fullu afli. Var mér þarna öllum lokið. Einfaldasta verkefni, að draga traktor í gang, eitthvað sem hafði verið gert frá því annar traktorinn kom á bæinn, var að fara í tóma vitleysu. Ég trampaði bremsurnar á fjórhjóladrifs Zetornum alveg í botn þannig að hann klossbremsaði á öllum hjólum og stoppaði náturulega á punktinum.

Tógið á milli traktoranna varð pinnstrekkt og gamli Zetorinn, sem togaði soldið á ská, tók slíka sveiflu að ég hélt að hann færi á hliðina. Pabbi gamli, sem var nú að gera sitt allra besta til að létta frumburðinum tilveruna, kastaðist á milli brettanna á meðan traktorinn gróf sig ofan í hlaðið. Í hinum endanum sat sá er þetta skrifar með blóðsprungin augu af bræði og beið eftir að látunum linnti.

Pabbi bakaði upp úr pælunni og ég tók spottann.

Ég sá að hann fór inn í bæ, þar sem fjölskyldan sat í morgunmat hjá mömmu, og sagði víst um leið og hann helti sér kaffi í bolla, " Ef þið farið út, takið þá sveig framhjá Helga Pálssyni. Hann er í vondu skapi"

Reiðikastið


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Það er eðlilegt að vera morgunfúll -- en fyrr má nú vera geðvonskan! Skemmtilegt ævisögubros.

Sigurður Hreiðar, 13.11.2010 kl. 12:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband