Færsluflokkur: Bloggar

Týndu sauðirnir.

Á árum áður reis áburðarverksmiðja í Reykjavík sem framleiddi áburð fyrir landsmenn. Þessi verksmiðja var mikil búbót fyrir bændur landsins sem gátu keypt tilbúinn áburð að vild og aukið uppskeru sína mjög mikið.
Svo stækkaði byggðin í Reykjavík og teygði sig upp undir verksmiðjuna. Þegar húsbyggjendur réttu úr bognum bökum sínum eftir uppbygginguna litu þeir yfir sundin blá og sáu þar  áburðarverksmiðju þessa. Hún var fara umsvifalaust.
Nú flytja menn inn áburð sem kostar hvítuna úr augunum.

Á árum áður bjuggu allir í sveit, enda engir bæir til.  Synir byggðu sér á jörðum feðra sinna  og stofnuðu fjölskyldur þar, og þeir áttu síðan börn sem brátt þurftu sitt jarðnæði.  Fólk fór að hópast saman í bæi  sem stækkuðu og þéttbýlið jókst. Bændurnir voru eftir á jörðum sínum og voru fljótt undir bæjarbúa komnir með þá aðdrætti sem sífellt voru fjölbreyttari og hluti af nútíma þess tíma. Kaupmenn höfðu gjarnan þessa bændur í vasa sínum.
Kaupstaðir stækkuðu og döfnuðu vel, fólk gat mentað sig og notið lífsins.

Svo réttu menn úr bökum sínum og sáu að bændur voru að framkvæma á jörðum sínum upp á sitt einsdæmi. Nú er það svo komið að þeir allra hörðustu kaupstaðabúar vilja fá að kjósa um deiliskipulag í sveitarfélögum landsins, eins og  holdgervingur þessa Andri Snær Magnason lét út úr sér á dögunum , eignarétt manna skal endurskoða, sérstaklega ef menn eiga jarðir.

Sennilega vilja slíkir menn að ríkið eignist allar jarðir á landinu og þeir geti leigt sem vilja.

já, þeir eru komnir til baka, týndu sauðirnir.

 


Austursíðu afréttur

Hvað er það sem dregur mann í afrétt ár eftir ár? Streðið, hangsið í kofanum, kamarinn á torfunni? Nei, slíkt gleymist ótúrulega fljótt.
Eftir mikið kjötsúpuát hjá ömmu og óhemju magn af kökum á Þverá, tekur á móti manni faðmlag fjallanna fyrir austan. Blágilin skarta sínu fegursta, líkt og þau fagni manni persónulega eftir langa fjarveru.
Hvernig er hægt að þykja svo ósköp vænt um fjöll, skriður og fossa, með iðagrænum grasbölum, þar sem drifhvítar kindurnar standa á beit?  Hvernig er hægt að fyllast ró við það eitt að standa og horfa á æskustöðvarnar? Ekki er víst að maður myndi upplifa þetta ef maður hefði ekki flutt á mölina, því enginn veit hvað átt hefur, fyrr en misst hefur. 
Pelinn í brjóstvasanum gengur á milli manna og í Öxlinni er tekið duglegt stopp. Hver er með sína sortina, sumt gott, annað minna gott. Pelarnir ganga hring eftir hring, brátt veit enginn hver var búinn að fá hvað eða hver átti hvað.

Loks er stigið á bak og klárarnir færast í aukana við hvert pelastoppið. Inn við Stein eru menn farnir að ræða málin umbúðalaust. Bros á hverju andliti og orðvarir menn láta allt flakka, kyssast og hrósa til hægri og vinstri.Við Ufsatangann eru klárarninr farnir að sýna takta sem ekki var vitað um , töltið ægilegt og viljinn varhugaverður.
Miklafellið skartar sinni þekktu fegurð og hundar, hross og menn fyllast innri gleði og ró er inn á torfuna er riðið í ótrúlega fögrum hópi reiðmanna af Síðunni. Eftir að hafa velt sér og fengið sér vatn, fara menn og skepnur í sína kofa og gangnamenn stíga dans og syngja fagra söngva fram eftir kvöldi uns þeir sofna svefni hinna sælu, sáttir við Guð og menn.

Það er þetta sem dregur mann aftur og aftur í afrétt.

img324

Lagt af stað í afrétt.

img319

Guðjón Bergsson-Baldur Þ Bjarnason-Steingrímur Lárusson-Bjarni Kristófersson-Helgi Pálsson,
inn við Stein.

img320

Sigurður Lárusson-Helgi Pálsson-Páll Helgason-Ólafur J Jónsson-Björn Helgason, í Fellinu

img323

Steini-Óli-Pabbi og Bjössi við Blængskofann.

 


Haust.

Hvað mig snertir er haustið átakatími fyrir líkama og sál. Kólnandi veðurfar gerir hvert áhlaupið á veikburða líkamann á fætur öðru sem fyrir vikið verður af nauðsynlegum næringarefnum, jafnvel dögum saman. Kemur sér þá vel að hafa hugsað um að nærast vel um sumarið og halda hreyfingu í lágmarki. Hinsvegar togast sá þáttur svolítið á í sálartetrinu, hefði kannski verið gott að rölta svolítinn spöl á degi hverjum því það er sárt að sjá hvernig sauðkindin er farin að stíla inn á að vera á minni smalaleið. Þar geta þær verið þokkalega rólegar og sárt að horfa til þeirra glottandi, þegar löðursveittur, másandi smalinn skríður eftir kindagötunni, styðstu leið til byggð.
Einnig er það greipt í barnssálina, að á haustin fara krakkarnir úr sveitinni til síns heima. Vinnukonan á næsta bæ er farin án þess að maður hafi svo mikið sem fengið að leiða hana á eftir beljunum. Vinnumaðurinn á þar næsta bæ fer með sömu rútu og ég sé að hann sest við hliðina á henni, límdur við hana. Ég horfi út í myrkrið og það eina sem ég heyri er niðurinn í Fossinum.

 Skyndilega heyrast vélarhljóð úr fjarska og nálgast hratt. Þeir eru  að fara í heiðina!  Ég stekk af stað og hugsa, þeir hafa sennilega ekki náð í mig í gær til að láta mig vita. Hleyp eins og fætur toga inn í bragga og dreg fjórhjólið undan rúgbagganum frá því í fyrrahaust. Skelli bensíni á tankinn, treð mér í regngallann, set á mig hjálminn og lít niðrá veg. En þeir fara framhjá án þess að hægja á. Þeir skilja mig eftir. Þeir hafa þá ekki reynt að ná í mig í gær.  

Ég tek af mér hjálminn, klippi utan af mér regngallann og rölti upp í Foss. 

Sept 08 027-1


Ágúst

það rann upp fyrir mér í dag að það er ekki sjálfsagður hlutur að hlakka til haustsins. Hér áður fyrr var ágústmánuður mánuðurinn sem krakkarnir fóru aftur til Reykjavíkur eftir sumarsvölina á Fossi, eins og margoft hefur komið fram í sögunni. Treginn gerði vart við löngu áður en þeir fóru, mánuðurinn var eiginlega hálf lélegur af þessum sökum. Ekki var það til að bæta það að Sveinn og Laufey fóru líka í bæinn í þessum mánuði, Sveinn bað mig um að fara með verkfæratöskuna í rútuna sem mér fannst ég vera nýbúinn að sækja í rútuna.  Helgi B  átti þó afmæli þann 24. og þá var kátt á hjalla, sumarið virtist í algleymi og ekki virtist fararsnið á nokkrum manni.

Félagi minn sagði nefnilega við mig í dag að það væri allt skemmtileg búið að árinu. Sumarfríið búið og hann búinn að ná í hreindýrið sitt. Hva, haustið er allt eftir, sagði ég glaður í bragði, búinn fyrir mörgum árum að taka þá árstíð í sátt. Þú getur trútt um talað sagði hann, allar smalamennskurnar og áð allt.

Það er nefnilega svo stórkostlegt að fá vorið bókstaflega upp að olnbogum í sauðburðinum löngu áður en nokkur er farinn að hugsa um sumarið hér í vestrinu og svo að hnýta aftan við sumarið heilum stórkostlegum tíma sem getur varið í 2 mánuði, blessaðar smalamennskurnar og stússið í kringum þær. Stillurnar, drifhvítu lömbin, tæru pollarnir og fersku fjallalækirnir blása lífi í glæður sumarsins sem vöknuðu um vorið á hnjánum með lítið lamb í fangi og hrossagaukinn allt um kring.

Fullkomnun þessara tíma virðist alger þegar litið er um öxl á liðnar stundir,  samt ekkert hreindýr og ekki heldur 10.000 manna útihátíð.
Sveitin gefur mér það sem á vantar.

ágúst sept 054


Hlíðin fagra.

Himnarnir virtust hrynja yfir mann í maí, að upplifa þessar hörmungar verður líklega, þegar fram líða stundir, eitthvað sem verður manni vel minnisstætt. Að lesa nú lýsingar Sr Jóns Steingrímssonar um fyrstu daga eldgossins í Lakagígum, er allt öðruvísi en áður en maður upplifði öskufallið á eigin skinni. Lýsingarnar hans,  þar sem skriðurnar verða gráar, grasið visnar, myrkrið....þetta sá maður nú fyrir sér með öðrum hætti, maður upplifir stað og stund. Að ganga í kringum lambféð, yfir hlöðin, líta yfir húsin, allt þakið ösku, verður ekki með orðum lýst. Þetta var eitthvað sem maður las um í gömlum heimildum, sá í fréttum frá útlöndum, árinu áður undir Eyjafjöllum. Maður taldi sig geta sett sig í spor þessa fólks, en það var svo fjarri því að maður hefði nokkurn tíman getað ímyndað sér líðanina.

Að komast ekki á milli húsa fyrir myrkri, sjá ekki fram fyrir þurrkublöðin á bílnum þrátt fyrir sterk ljós, komast ekki til kindanna, geta ekki neitt nema sitja við eldhúsborðið og vonað.  Vonað að þetta taki fljótt af, vita ekkert um það, hvort þetta verða klukkutímar, dagar, vikur eða mánuðir.

Það létti eftir hádegið og við Valdi gátum klárað ferðina heim að Fossi, vorum búir að vera fastir á Klaustri í 3 langa klukkutíma, reyndar í góðu yfirlæti hjá Elínu Vald.  Höfðum skotist á milli húsa, farið fetið án þess að sjá nema á gangstéttabrúnina við hlið okkar, vonlaust var að anda að sér þessum óþverra nema í gengnum grímu eða fötin sín.  Við brunuðum heim og ég var smeykur um að okkar hlutverk yrði að keyra um túnin og tína upp dauð lömb, varla höfðu þau átt góða vist í þessu helvíti.

því kom það skemmtilega á óvart að sjá kindur á beit og lömbin stökkva til og frá í leik, eins og eftir góða regnskúr. Við fórumí það að koma heyrúllum á þá staði sem ærnar voru, opna hlið til að þær kæmu ekki að lokuðum dyrum, að þær gætu komst leiðar sinnar. En vatnið var ekki björgulegt, þeir tæru fjallalækir, sem í gegnum áratugina höfðu ekki orðið annað en vel mórauðir í stórrigningum voru nú eins og sementseðja. Engin vissi hvað var í öskunni, hvort hún væri eitruð eða eins og hún sem betur fer reyndist vera, fremur skaðlítil í vatninu. Blessaðar kindurnar reyndu að drekka þennan óþverra því ekki var annað að hafa.

219

Öskufall á Fossi 21 maí 2011

En þrátt fyrir ömurleikann sem blasti við manni hefur þetta skánað og mun verða betra með tímanum þótt askan sé allstaðar, Síðan hefur ávallt verið gjöful sveit og þar drýpur smjör á hverju strái í skilningi gróðurfars.  Heyfengur reyndar rýrari en í meðalári vegna þéttrar ösku í sverðinum og ekki allstaðar heyjað af þeim sökum.
Oft hafa hrotið af vörum mínum orð Gunnars á Hlíðarenda, Fögur er hlíðin og satt best að segja gat ég ekki séð í vor að hún yrði fögur í bráð en annað koma á daginn, iðagrænar, blómstrandi brekkur, með ösku í sverði, Fögur er hlíðin .

Júl 2011 033

Foss á Síðu 31. júlí 2011

 

 

 


Slæmar aðstæður eystra.

  Vorið sem sveitamaður hefur beðið eftir frá því seinast vor kláraðist, var vart komið þegar það breyttist í skelfingu. Vorið sem hingað til hefur skotið von og birtu í drungafull brjóstu vetrardvalinna hjörtu, sem í ofanálag hefur hafa verið kramin af endalausum vonbrigðum hvað svokallaða endurreisn landsins varðar , umbreyttist á einni nóttu í hreina hörmung. Blessuð fallega sveitin situr eftir þetta áhlaup náttúrunnar sem flakandi sár, pakkfullar brekkur af ösku, túnin vart beitarhæf, úthagi brostinn.  Eina ráð bændanna er að hafa lambfé á túnum á flestum bæjum. Uppskera sumarsins 2011 er undir,  verður engin á nokkrum bæjum og lítil á mörgum. Tilraunir manna til að ná þó einhverju í hús mun sennilega skila lélegum heyjum og biluðum eða ónýtum tækjum.

Grafalvarlegri stöðu sveitanna í austanverðum Skaftárhreppi verður vonandi mætt með einhverjum hætti og augljóst er að mikið hey þarf á svæðið ásamt ýmsu öðru sem úrskeiðið mun fara í þessari ótrúlegu stöðu sem fólkið býr við og mun þurfa að búa við næstu misserin.

Sem betur fer er hópur manna, allskonar sérfræðinga, að skoða allar hliðar þessa máls og vonandi verður  þeim niðurstöðum sem úr þeim skoðunum koma, fylgt eftir með aðgerðum sem verða til þess að þessi  sveit nái að yfirstíga þessi ósköp með sæmilegum hætti.

 


Skaftfellskt vor

  Er ekki lífið yndislegt? Sunnan blærinn strýkur vanga sveitamannanna sem sitja úti við túngarðinn og bíða þess að vorið gangi í garð með allri þeirri dýrð sem því fylgir. Kýrnar taka að ókyrrast á básum sínum og föðurlandið orðið vel sveitt eftir amstur vetursins. Brátt hverfur bóndinn ofaní  skurð og og fer úr vetrarfötunum. Þá er vorið komið. Brekkurnar okkar fyllast angan af gróðrinum og sinan hverfur undir iðagrænan svörðinn. Ræfilslegt jarm rýfur þögnina, ærnar komnar að burði. Fossinn fallglaði skartar sínu fegursta í sólskininu, skaflinn nýfarinn og sólskríkjan hefur orpið í grenitréð sem pabbi gróðursetti, sumarið sem hann gaf mér folaldið.

Vinnumennirnir koma einn af öðrum, með splunkunýja takta eftir veturinn. Allt er svo unaðslegt á þessum dásamlegu dögum. Menn og skepnur leika við hvern sinn fingur og sletta úr klaufum. Amma með pönnukökurnar tilbúnar þegar við komum inn eftir leiki kvöldsins og þeim skolað niður með ískaldri mjólkinni.

Já, það er ljúft að alast upp við þessar aðstæður. Þessar minningar æskunnar eiga eftir að fylgja manni um ókomna tíð, alla tíð, ylja um hjartaræturnar þegar maður lætur hugann reika. Þessar minningar eru það sterkar að hreinlega hvarflar að manni að um heimþrá sé að ræða eða jafnvel átthagafjötra.

 Með kveðju, HP Foss.

Foss 3 011

 


Sumrin .

  Grasið spratt og tilhlökkunin jókst að sama skapi. Réttastússið var senn á enda og það stóð á endum að heyskapurinn hófst   þá þegar.  Hvanngræn túnin bylgjuðust í vestanáttinni, heitur vindurinn strauk vanga sveitapiltsins þar hann brunaði út á Borgarholt á gamla Ferguson, með uppbrettar ermar og í tandurhreinum stígvélum. Leiðin út í Fjall gat verið mjög holótt og ef maður ætlaði að halda ferðinni, án þess að annað hvort skjótast úr traktorum eða hljóta varanleg bakmeiðsl, eða önnur verri meiðsl, þurfti maður að þekkja hverja holu.
Gat þetta verið mikil rússíbanareið, stýrinu snúið borð í borð, í 4ða gír og í rauða botni. Ef þetta klikkaði og traktorinn lenti í holu, hoppaði maður upp út sætinu, ámoksturstækin fóru á háaloft,  lentu á tjökkum sínum á sama augnabliki  í maður sjálfur skall á grjóthörðu járnsætinu.
Þetta var ávallt mikið högg, tennur skullu þannig saman að njólinn, sem  maður var með í kjaftinum frá því um morguninn í kúarekstrinum, hrökk í sundur.
Veghefillinn kom endrum og sinnum og eyðilagði vandrataðan krákustíginn. Það marga daga að læra á nýjar holur.
Reimin og stykkið neðan við lá í ljánni, sumarið var framundan, fátt stóð í vegi.

Já, svona voru nú sumrin.´

 


Vorveiði-skömm veiðimannanna.

Ég ætla svo sannarlega að vona að svokallaðir “veiðimenn” sem nú æða út í skaftfellsku árnar, fái ekki bröndu. Ekki á ég von á að mér verði að ósk minni, vegna þess að fiskurinn sem nú er á niðurleið tekur hvað sem er.
Það er gott fyrir menn sem veiða yfirleitt lítið að fara í vorveiði.
Einnig er það gott fyrir menn sem ekki hafa þroska til að bíða eftir að fiskurinn komi til baka að skella sér í vorveiði.
Vorveiði er kjörin fyrir menn sem ná ekki að kallast veiðimenn.
Á seinni árum hafa menn reyndar farið út í að veiða aðeins á flugu og bráðinni er sleppt, ef hægt er. Það er nú líka það eina sem hægt er að gera við niðurgöngufiskinn, nema ef vera skyldi að setja hann í ruslagáminn á Klaustri.Þessir menn sem vorveiðina stunda, vilja meina að þeir séu að veiða nýgengna fiska. Það er fjarri sanni en þeir kunna að líta út sem slíkir, gljáandi á hreistrið og lúsugir. Það er hinsvegar vegna ferða fisksins fram og til baka fram að sjó og upp í ánna til að ná rétta saltmagninu í sig, .Mér þykir það súrt í broti að horfa upp á þetta háttarlag, áratugum saman, án þess að nokkur hreyfi mótmælum. Landeigendur sjá þarna aura og á meðan þetta er löglegt verða alltaf nokkrir gráðugir landeigendur sem þetta leyfa.
Kv
Helgi Pálsson. 

Hjössa nythæsta kýrin árið 2010

Kýrin Hjössa á Höskuldsstöðumí Austur-Húnavatnssýslu varnythæsta kýrin árið 2010 á svæðiBúnaðarsambands Húnaþings ogStranda með 10.278 kg og lenti húní 35. sæti yfir landið hvað þennanþátt varðar.Þetta kemur fram í niðurstöðumúr skýrsluhaldi nautgriparæktarinnarfyrir árið 2010 og fjallað er um í nýjastafréttabréfi BSH.Þar kemur einnig fram að meðalnytá svæði sambandsins hækkaði á milliára og endaði í 5.190 kg/árskú sem erþó aðeins undir landsmeðaltalinu semer 5.342 kg/árskú.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband