Færsluflokkur: Bloggar

Gýgjarhólskot

Í dag eru 25 ár síðan saklausi sveitapilturinn frá Fossi kom að Gýgjarhólskoti í Biskupstungum í fyrsta skiptið á ævinni. Með Sérleyfisbílum Selfoss hann ég sem leið lá frá BSÍ að Geysi í Haukadal. Hann átti að vera í verknámi í þrjá mánuði frá Hvanneyri, því kenna átti sveitapiltinum af Síðunni hin helstu handtök, er sem kunna skyldi við útskrift að loknu búfræðinámi.

Leiðin var ógnvænlega löng, 17 ára mömmustrákurinn frá Fossi hafði ekki áður ekið jafn langt frá sjó, var hann  þó ekki alinn upp á sjávarkambinum. Hann var búinn að velta nafninu töluvert fyrir sér, Gýgjarhólskot, hóllinn gat varla verið lítill og hann gat varla verið kot verandi á lista yfir býli sem taka nema í betrunarvist. Hver hóllinn á fætur öðrum fór hjá, Ingólfsfjall hafði hann jú séð, ekki var það hóllinn, þá kom fljótt hóll, veit í dag  að það er Kerið, Búrfell, Vörðufell....rútufjandinn brunaði fram hjá öllum mögulegum hólum sem til greina komu.

Það var ekki fyrr en við Geysi í Haukadal að rútan stoppaði...þó var þar enginn hóll. Endastöð hér, sagði bílstjórinn og 70 kílóa pjakkurinn rölti feimnislega inn í sjoppuna á staðnum. Skimaði yfir staðinn og sá engan sem gat verið að ná í hann. Hann settist á stól og hugsaði málið. Hvernig gat Magnúsi dottið í hug að senda mann svona langt að heiman. Jæja, þetta var þó skárra en Skagafjörðurinn. Héðan var vel hægt að ganga heim.

Skyndilega hvarf sjoppuplanið í reyk og út úr kófinu kom Blazerjeppi með Land Rovervél. Út úr bílnum stökk snaggaralegur maður og gekk rakleiðis í áttina til mín. "Helgi?"  Spurði hann glaðlegur og við vorum komnir af stað. Ég sat frammí þessu undratæki sem ská skaut sér framhjá ótrúlegum foravilpum á veginum. Hann var að vora í Tungunum.

Þetta var um þrjúleitið og ég var samstundis sendur upp í eldhús til næringar, Ranka var með soðinn fisk. Ég sat þegjandalegur við eldhúsborðið í Kotinu og hugsaði hvað ég gæti nú sagt, þögnin var óbærileg. Bærinn stendur sunnan í dálítilli hlíð og því lá beinast við að spyrja: " Hvað heitir þetta sker hér við bæinn'" Jón bóndi ræskti sig djúpt og innilega og svaraði: " Ja, við köllum þetta nú fjall, og það heitir Gýgjarhólsfjall!"

Ekki byrjaði þetta nú vel en það er skemmst frá því að segja að þessir 79 dagar sem ég átti í Gýgjarhólskotinu vorið 1985, frá 23. apríl til 10 júlí, voru algerir dýrðardagar og þar lærði ég mikið af þeim sómahjónum, Jóni og Rönku.

Þennan sama dag eignuðust þau sitt fyrsta barnabarn, Sigga dóttir þeirra eignaðist stelpu, sem kölluð var Jabú, svona til að kalla hana eitthvað fram að skírninni.


Sandurinn.

  Og ekki voru sandsmalanir síðri. Seint á vorin var farið á sandinn og féð rúið þar. Einhvernvegin í minningunni var vestan logn alla morgna, Fossinn með sinn hugljúfa hljóm,  hundarnir stökkvandi um hlaðið og allt það. Beljurnar bíta gras í brekkunni,  blágresið, gleym-mér-eiin og vinnukonurnar allt um kring.

Kallarnir hafa litið út í öll þessi ár eins og þeir líta út í dag, svipsterkir, hvassbrýndir og enganvegin neitt sérstaklega fyrir augað. Innri  hafa þeir þó fegurri menn að geyma.

Réttirnar á sandinum voru nokkrar, Sléttabólsrétt, þar sem mest allan tímann var réttað í einu lagi og stóð réttin langt fram á nótt, stundum til kl 8 á morgnana. Sigríður á Hraunbóli og Veiga á Sléttabóli sáu mannskapnum fyrir mat og drykk, kaffi í glerflöskum, stungnum í ullarsokka og terturnar svo margar, fallegar og góðar að annað eins verður aldrei gert, og þá meina ég aldrei.Ofar á sandinum, á Svæðunum var Svæðnarétt, mun færra fé og vel viðráðanlegt að mati okkar krakkanna. Sú rétt er suðvestur af Tangalæknum, læknum sem gengur fram úr hrauninu á leið fram að Hraunbóli. Eigum við þaðan margar góðar minningar og verður sagt frá síðar.
Svo var rúið upp við gömlu brú, féð af Aurunum og þar í kring.

Smalamennskan á sandinum vafðist aldrei fyrir köllunum, við krakkarnir skottuðumst með, á misgóðum klárunum, samt var eins og Frikki kallinn ætti alltaf þverasta klárinn. Hann stoppaði og fékk sér að drekka þegar hann var þyrstur, úr þeim læk sem honum sýndist, þegar honum sýndist.  Kannski var það hið mjög svo ákveðna fas Frikka á slíkum stundum sem fær mann til  að muna þetta svona vel, ég var eiginlega hissa á klárnum að láta þetta detta sér í hug aftur, slíkar voru skammir gamla höfðingjans við hraunbrúnina. Hundurinn fylgdi með í bandi, ýmist standandi eða dreginn á bakinu. Það gilti einu, hann var aftanvið.

 Víðátturnar á sandinum eru æði miklar og ekki alltaf gott að sjá til næsta manns, hópar fjár gátu hæglega leynst á bakvið einhverja af ótal  bótum sem eru þarna framfrá en kvikir klárarnir og fumlausir Fosskrakkarnir sáu yfirleitt við slíkum skrímum.  Hrunamenn komu austanað og fóru að engu óðslega, yfirvegun og gott skap einkenndi þann hópinn. Einnig var þar Ólafur á Læk, hann var með annarskonar skap, einhverskonar smalaskap, sem hann notaði þegar fé var við það að sleppa. Þá koma þetta smalaskap sér afar vel, skipanir heyrðust marga kílómetra, kannski ekki orðaskil en meiningin komst til skila. Þetta smalaskap átti til að smita út frá sér og helst var Jón Reynir veikur fyrir smitinu og beitti þá þessu sama skapi, að sama skapi, til baka.

Þegar í réttina á Sléttabóli var komið var slíkur og þvílíkur fjöldi fjár að það tók fram á morgun að rýja rollurnar, eins og ég nefndi áður.  Við ýmist héldum eða klipptum krakkarnir, best var að fá vinnukonuna á næsta bæ til að halda rollunni og gat maður verið alveg ótrúlega lengi að komast í gegnum ullarkragann á hálsinum.

En þetta var nú alger undantekning, oftar var þetta Bergur gamli eða einhver af gömlu mönnunum sem hélt og eins gott að halda vel áfram.

Í tóftinni austan við réttina var kaffið og kökurnar. Enga kökuna hef ég séð með jafn fögru kremi og brúnkökuna hennar Sigríðar á Hraunbóli , það var sá fegursti guli litur sem ég hef á æfi minni séð og bragðið eftir því unaðslegt.

Já, þetta voru góðir dagar, dagarnir með köllunum, þegar allir voru saman.

 

 


.

Sept 08 027-1

Foss á Síðu

feb 2010 002

Fossinn minn kæri skartaði sínu fegursta um helgina :)


Sveitastrákar /málarar

Hér á árum áður í sveitinni, voru mjög margir sem unnu hjá Hagi hf. Þar unnu á bilinu 15-30 manns og stundum fleiri. Sumarstörfin voru fjölbreytt og skemmtileg, fátt var það sem Hagur gat ekki leyst með sínum eigin mannskap. Þó var það einn verkliðurinn sem helst var settur í hendur utansveitarmanna en það var málningin. Þar drógu sveitamenn línuna, niður á það plan var ekki farið.

Þegar vorið nálgaðist voru sveitastrákarnir með töglin og hagldirnar. Ekkert virtist laust í reipum og stelpurnar hreinlega kiknuðu í hnjánum þegar þessir þó frekar illa tilhöfðu sveitamenn sögðu brandarann sinn, enn einu sinni. Þetta var án fyrirhafnar, allt lék í lyndi.

Vorið kom með sinni dásemd allri, bíltúrarnir fram og til baka eftir Klaustursveginum virtust alltaf jafn spennandi, fjölbreytni virtist ekki þörf. Á böllunum í félagsheimilinu voru menn kóngarnir, alveg var sama hversu bjánagangurinn gekk langt, stelpurnar véku ekki frá okkur.

En þá hrönnuðust óveðursskýin upp. Fámennt var á rúntinum,  bílarnir reyndar jafn margir en ekki nema einn í hverjum bíl.  Stelpurnar virtust hafa horfið eins og dögg fyrir sólu, við enduðum qllir samaní einum bíl, einir. Í eftirlitsferð okkar kom í ljós að bílar merktir slippfélaginu höfðu sést á svæðinu, þar var eins og við óttuðumst, málararnir voru mættir!

Þessir frekar renglulegu drengir, í hvítu smekkbuxunum með kríuskítinn í hárinu,  virtust hafa tekið völdin,  við áttum ekki möguleika. Ef svo vildi til að við næðum að króa þær af, vildu þær ekki við okkur líta. Enginn brandari virtist nógu góður, hallærislegheitin voru slík að við vorum eins og skipperinn í Himmelbla í þeirra augum.

Tíminn hjá Hagi var skemmtilegur, þar lærði maður það sem maður þó kann í smíðum en svona eftirá séð, þá hefðum við kannski átt að mála sjálfir.


Getraun

007

Hvar er myndin tekin?


Haustið og reykkofarnir.

okt 09 240

Hann Óli á Læk var að reykja kjötið sitt þegar ég fór þar hjá á sunnudagsmogni í október.  Reykurinn liðaðist úr kofanum í hauststillunni, jökullinn skartaði sínu fegursta og sá gamli sat á stól við bæinn og fylgdist með. Tíminn stóð eins og hann var, fátt virtist geta raskað ró hins fullorðna bónda. 

 Ilmurinn úr reykkofunum á haustin er eitthvað sem alltaf fær mig til að færast örlítið til baka, til þess tíma þar sem staður skipti máli en ekki endilega stund.

 


Sandurinn

  Og ekki voru sandsmalanir síðri. Seint á vorin var farið á sandinn og féð rúið þar. Einhvernvegin í minningunni var vestan logn alla morgna, Fossinn með sinn hugljúfa hljóm,  hundarnir stökkvandi um hlaðið og allt það. Beljurnar bíta gras í brekkunni,  blágresið, gleym-mér-eiin og vinnukonurnar allt um kring.
Kallarnir hafa litið út í öll þessi ár eins og þeir líta út í dag, svipsterkir, hvassbrýndir og enganvegin neitt sérstaklega fyrir augað. Innri  hafa þeir þó fegurri menn að geyma.

Réttirnar á sandinum voru nokkrar, Sléttabólsrétt, þar sem mest allan tímann var réttað í einu lagi og stóð réttin langt fram á nótt, stundum til kl 8 á morgnana. Sigríður á Hraunbóli og Veiga á Sléttabóli sáu mannskapnum fyrir mat og drykk, kaffi í glerflöskum, stungnum í ullarsokka og terturnar svo margar, fallegar og góðar að annað eins verður aldrei gert, og þá meina ég aldrei.

Á ýmsu gekk í þessum smölunum, svæðið stórt og smalar frekar fáir, allir á hestum. Frikki í smalaskapinu sínu, einbeittur og ákveðinn, ákveðinn í að koma fénu heim í rétt.Svo langt gat orðið á milli smala að ekki sást á milli, er þó þetta svæði marflatt. Hvílík víðátta og ýkjum líkast.

Ofar á sandinum, á svæðunum var Svæðnarétt.  Færra fé og vel viðráðanlegt að mati okkar krakkanna. Sú rétt er fram af Tangalæknum, læknum sem gengur fram úr hrauninu á leið fram að Hraunbóli.  Réttarbyrgið stendur út á miðri sléttunni og því ekki fyrir neina aukvisa að koma fénu þar inn. Það gekk alltaf vel.
Þarna voru Foss og sandmenn,  ekki fleiri.
Það gekk aldrei og hefur aldrei gengið, fé frá öðrum bæjum en Fossi og sandbæjum, Hraunbóli, Sléttabóli, Hruna, Sléttu og Teygingalæk, á Brunasandi, sandinum austan Fossála.

Þegar þarna var komið við sögu var komið fram í heyskap, kallarnir farnir að ókyrrast, færri brandarar en í fyrri réttum eða kannski búið að segja þá alla í þessari síðustu vorrétt vorsins.
Ærnar skokkuðu frá réttinni, skokkuðu áleiðis fram í á Svæður eða jafnvel fram í mela, þangað sem þær voru nýbúnar að koma sér þegar smala bar að garði.

Ómetanlegar eru þessar stundir æskunnar, verður vart með orðum lýst.


Velferðarlausir tuskujeppar og yfirlætislausar drossíur.

Hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga Willysjeppa.....

imagesCAM9TMTJ

 ...einnig Land Rover....

land-rover-mk1-

..að maður tali nú ekki um Löduna...

lada-1200-2895138_b_1e082850c376d808

 ...allir áttu þeir þátt í því að ég get gert við bílana mína sjálfur að miklu leiti.


Beðið eftir rútunni.

  Það var komið sumar. Rútan kom í gær,ég stóð við brúsapallinn og þóttist vera að bíða eftir mjólkurbílnum . Sólin skein og það var mjög heitt. Hitinn var svo mikill að fæturnir mínir voru að stikna þar sem sólin skein á stígvélin. Ég dinglaði löppunum til og frá til að flugurnar skriðu ekki ofaní stígvélin. Hefði kannski átt að þvo þau betur í gær.

Skyndilega birtist rútan í Draugasteinunum og hjartað tók kipp. Skyldi hún vera með henni?
Allt í einu fór ég að hafa áhyggjur af fótabúnaði mínum. Hvaða eiginlega rugl er þetta? Hefði maður nú ekki átt að vera betur búinn til fótanna? Hefði maður ekki átt að fara í gúmmískóna fyrst maður var nú að bíða eftir rútunni. Hvað ef ég þarf nú að fara inn í rútuna og flugnagerið á eftir mér. Rútan full af Reykvíkingum, kannski. Jæja, það var og seint og ekki var nú bót af því að fara út þeim.

 Rútan nálgaðist óðfluga eftir óvenju holóttum veginum og ég þóttist sjá það á ökulagi bílstjórans að hann ætlaði að stoppa. Hún er þá líklega með.  Ég spratt á lappir og hundinum brá svo illilega, þar sem hann lá í fasta svefni við hlið mér að hann datt fram af pallinum með látum. Rútan staðnæmdist við pallinn og bílstjórinn opnaði harmónikkuhurðina. Ég vatt mér að hurðinni og stakk hausnum inn í gættina.

Rútan var smekkfull af ferðamönnum sem ráku stór augu þegar þau sáu kappklæddan sveitamanninn í 23 stiga hitanum. Ferðamennirnir voru allir í stuttbuxum og berfættir í Jesússkónum sínum. Það þótti mér nú bjánalegt enda fóru þeir fljótt að finna fyrir mistökunum þegar flugurnar gerðu orrahríð að fögrum leggjum fransmannana.
Ég kannaðist við bílstjórann frá því í fyrra. " Jæja stráksi, ertu kominn að taka á móti henni? Ha,,,? Ég er nú bara að .... var að ná í kýrnar".  Stamaði ég. "Jæja laxi, en hún er ekki með í þessari ferð. Hún kemur á fimmtudaginn. " Sagði bílstjórinn og virtist algerlega sjá í gengum mig. " Nú er það svo?" sagði ég og þóttist nokkuð sama. Vonbrigði mín voru mikil og sporin þung þegar ég gekk heim traðirnar. Ég fór beint til upp í gamla bæ.
"Sveinn, verkfærakistan þín kemur ekki fyrr en á fimmtudaginn"
" Nú, jæja? Það gerir ekkert " Sagði Sveinn og Laufey gaf mér flatköku fyrir ómakið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband