Gýgjarhólskot

Í dag eru 25 ár síðan saklausi sveitapilturinn frá Fossi kom að Gýgjarhólskoti í Biskupstungum í fyrsta skiptið á ævinni. Með Sérleyfisbílum Selfoss hann ég sem leið lá frá BSÍ að Geysi í Haukadal. Hann átti að vera í verknámi í þrjá mánuði frá Hvanneyri, því kenna átti sveitapiltinum af Síðunni hin helstu handtök, er sem kunna skyldi við útskrift að loknu búfræðinámi.

Leiðin var ógnvænlega löng, 17 ára mömmustrákurinn frá Fossi hafði ekki áður ekið jafn langt frá sjó, var hann  þó ekki alinn upp á sjávarkambinum. Hann var búinn að velta nafninu töluvert fyrir sér, Gýgjarhólskot, hóllinn gat varla verið lítill og hann gat varla verið kot verandi á lista yfir býli sem taka nema í betrunarvist. Hver hóllinn á fætur öðrum fór hjá, Ingólfsfjall hafði hann jú séð, ekki var það hóllinn, þá kom fljótt hóll, veit í dag  að það er Kerið, Búrfell, Vörðufell....rútufjandinn brunaði fram hjá öllum mögulegum hólum sem til greina komu.

Það var ekki fyrr en við Geysi í Haukadal að rútan stoppaði...þó var þar enginn hóll. Endastöð hér, sagði bílstjórinn og 70 kílóa pjakkurinn rölti feimnislega inn í sjoppuna á staðnum. Skimaði yfir staðinn og sá engan sem gat verið að ná í hann. Hann settist á stól og hugsaði málið. Hvernig gat Magnúsi dottið í hug að senda mann svona langt að heiman. Jæja, þetta var þó skárra en Skagafjörðurinn. Héðan var vel hægt að ganga heim.

Skyndilega hvarf sjoppuplanið í reyk og út úr kófinu kom Blazerjeppi með Land Rovervél. Út úr bílnum stökk snaggaralegur maður og gekk rakleiðis í áttina til mín. "Helgi?"  Spurði hann glaðlegur og við vorum komnir af stað. Ég sat frammí þessu undratæki sem ská skaut sér framhjá ótrúlegum foravilpum á veginum. Hann var að vora í Tungunum.

Þetta var um þrjúleitið og ég var samstundis sendur upp í eldhús til næringar, Ranka var með soðinn fisk. Ég sat þegjandalegur við eldhúsborðið í Kotinu og hugsaði hvað ég gæti nú sagt, þögnin var óbærileg. Bærinn stendur sunnan í dálítilli hlíð og því lá beinast við að spyrja: " Hvað heitir þetta sker hér við bæinn'" Jón bóndi ræskti sig djúpt og innilega og svaraði: " Ja, við köllum þetta nú fjall, og það heitir Gýgjarhólsfjall!"

Ekki byrjaði þetta nú vel en það er skemmst frá því að segja að þessir 79 dagar sem ég átti í Gýgjarhólskotinu vorið 1985, frá 23. apríl til 10 júlí, voru algerir dýrðardagar og þar lærði ég mikið af þeim sómahjónum, Jóni og Rönku.

Þennan sama dag eignuðust þau sitt fyrsta barnabarn, Sigga dóttir þeirra eignaðist stelpu, sem kölluð var Jabú, svona til að kalla hana eitthvað fram að skírninni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband