Leiðtogarnir

Svífa á milli skýja
Svika fuglar
Svartir englar
Af illum eldsins krafti knýja
Kaldir vindar
Og kvikir djöflar
Hatri heimum vígja

Vígamenn nú er stjarnan rauð
Aftur enn er vonin dauð
Vígamenn farnir heim

Þið svikuð okkar þjóð
Og heima alla
Brátt mun renna blóð

Þið af öllum ljúgið
Með bros á vör
Og burtu fljúgið svo
Á burtu ykkar böl
Ykkar bræður svíkja
Engra kosta völ.

ÞK


Kvenfólk.

  Haustið var komið. Þá var kominn tími skólans og fyrir lá að fara þangað. Ég hafði verið svo lánsamur að þurfa ekki að hitta skólafélagana  um sumarið. Þessir krakkar voru ágætir, misjafnir, en samt ágætir. Ég veit ekki hvað það var , en það var eins og allt í sambandi við skólann skyldi gleymast um sumarið. Eins og sumarið væri byggt á því að ekkert í sambandi við hann kæmi í hugskot mitt. Það var til dæmis stöku sinnum farið í sund á Klaustri og þá fékk ég ónot í magann þegar ég kom inn í skólann. Það var ekki það að félagarnir væru slæmir, því sumir þeirra voru mínir bestu vinir. Það var bara eins og þessir árstímar yrðu að vera aðskildir.

Við gengum, systkinin vestrí Miðbæ og þar var rússinn í startholunum, nýmálaður og spegilfagur. Nonni hafði verið skólabílstjóri frá því að ég mundi eftir mér og var hann almennt talinn sá albesti í faginu. Hann hafði brottfarartíma frá Fossi klukkan korter fyrir níu á hverjum morgni og var alltaf mættur á réttum tíma, tíu mínútur yfir níu í, seinasta lagi. Þá gat maður náð áttum áður en  klukkan hringdi svo hátt og snjallt.

Við vorum um 12-14 í bekknum og afskaplega sundurleitur hópur. Stelpurnar krunkuðu sig saman og jafnvel í tvo eða fleiri hópa. Við strákarnir tókum hinsvegar höndum saman um hvert verk sem þurfti að inna af hendi enda  þroskaðri en þær.

Það er annars með ólíkindum hvað konur hafa haft lítið upp úr því að ganga menntaveginn svokallaða, ekkert nema þvermóðskuna. Einnig hefur þetta uppátæki okkar, að leifa þeim þetta, haft það í för með sér að þær eru að glata niður þeim hæfileikum sem þurfa að prýða góða húsmóður. Það er undir hælinn lagt hvort einhver sé heima, hvað þá að maturinn sé klár. Er ekki furða þó menn horist upp og líti út eins og riðuveikar rollur. Sú kona er vart til lengur sem hefur þessa einstöku lífsgleði , hamingju og þjónustulund  sem ömmur okkar hafa. Allt er fyrir mann gert á þeim bænum. Stoppað í sokkana, brauðið er ekki aðeins sett á borðið, heldur smurt og því klárt til átu. Ekkert er gert til að tefja hina vinnandi stétt landsins.

Ég er elstur minna systkina og  get ég sagt sögu af því hve veður skipast skjótt í lofti . Þar var vinnuregla sem ekki var deilt um á heimilinu. Við karlmennin vorum í útiverkum og konurnar sáu um heimilið. Gekk þetta ávallt vel. Það var því einn sumardag fyrir margt löngu, að þetta skipulag var lagt af.. Það átti að vera dansleikur í félagsheimilinu um kvöldið og var stefnan sett þangað. Hótelstýran  hafði ráðið slíkan hóp af utansveitar stúlkum til vinnu um vorið að við, hinir ólofuðu piltar, gátum vart okkar eigin augum trúað. Hver annarri föngulegri og hafði nú dæmið snúist við frá því að allt flæddi af iðnaðarmönnum úr bænum. Á þeim tímum var eins og við værum ókunnugir en þeir heimamenn. Slík var hrifning stelpnanna af þessum kaffibrúnu steratröllum.

Við gátum nú valið okkur kvonfang ,eins og  úr kvellelistanum Var ég búinn að sjá föngulega mær sem var álitleg til undaneldis.Var því mikið atriði að koma vel fram á dansleiknum og vera snyrtilegur í alla staði. Þennan dag var maður í hinum daglegu störfum og samkvæmt verkaskiptingu fyrri ára gat maður verið úti fram á síðustu stundu, stokkið inn í sturtu og þar biðu fötin pressuð, skyrtan straujuð og skórnir stífbónaðir. Þetta hafði litla systir mín alltaf gert fyrir mig , möglunarlaust. En á þessari ögurstundu brast krosstréð. Hvergi var leppana að sjá og fann ég þá inn í skáp, samankrumpaða frá því á þorrablótinu. Spurði ég hverju þetta sætti, hvort kannski væri búið að kaupa á mig ný föt eða hvort hún hefði gleymt sér. Þótti mér það reyndar ósennilegt þar sem hún var greinilega tilbúin á ballið sjálf. Hún tjáði mér það að ég gæti nú séð um þessa leppa sjálfur! Þetta var mjög slæmur tími til að vera með uppreisn. Mamma var á ættarmóti á Flúðum og mér því allar bjargir bannaðar.

Eftir langan tíma, mikið fát og  lélegan árangur var ekki um annað að ræða en drífa sig í samkomuhúsið, enda orðið áliðið og dansinn vafalítið farinn að duna. Það er ekki kvenþjóðinni að þakka að maður skuli vera búinn að ná sér í konu. Þegar ég loks komst í Klaustur, var fjörið löngu byrjað og mátti engu muna að félagar mínir væru búnir að krækja í stelpuna. Var þar snarræði mínu að þakka að konan sem ég bý með er ekki tengdadóttir annars manns en hans pabba. Þarna kom ég askvaðandi inn á dansgólfið, kófsveittur í illa krumpuðum fermingarfötunum mínum og reif stúlkuna úr fangi strákanna. Ekki þarf að lýsa því nánar sem á eftir fór en það kom ekki að sök að hún sér illa og þar að auki settist slík móða á gleraugun hennar vegna uppgufunarinnar frá skyrtunni minni sem var nýkomin úr steypibaði gufustraujárnsins, að hún sá ekki krumpurnar í fötunum.

Þarna skall hurð nærri hælum. Kvenrembuskapurinn var nærri búinn að hafa af mér þessa úrvals konu. Strákarnir voru í mörg ár eftir þetta, kvenmannslausir og sumir ekki enn komnir með konur.

                                                                                 

                                                                                                                            


Orustuhóll.

okt 09 245

Orustuhóll stendur á mörkum Foss á Síðu og Þverár. Sagt er að í gamla daga hafi Fossmennn og Þverármenn barist á hólnum. Fanney gamla á þverá sagði að Þverármenn hafi unnið....en þar er ekki nokkur maður þannig að það hlýtur að hafa verið á hinnveginn.


Gömul saga- en þó í fullu gildi.

  Rakst á gamla sögu og fannst rétt að kíkja á hana, þar sem við þurfum kannski að fara aftur á hestum í afréttinn. 

Austur -Síðu  afréttur

 Hvað er það sem dregur mann í afrétt, ár eftir ár. Streðið, hangsið í kofanum, kamarinn á torfunni? Nei, slíkt gleymist ótúrulega fljótt.

Eftir mikið kjötsúpuát hjá ömmu og óhemju magn af kökum á Þverá, tekur á móti manni faðmlag fjallanna fyrir austan. Blágilin skarta sínu fegursta, líkt og þau fagni manni persónulega eftir langa fjarveru. Hvernig er hægt að þykja svo ósköp vænt um fjöll, skriður og fossa, með iðagrænum grasbölum, þar sem drifhvítar kindurnar standa á beit.
Hvernig er hægt að fyllast slíkri lífsfyllingu við það eitt að standa og horfa á æskustöðvarnar. Ekki er víst að maður myndi upplifa þetta ef maður hefði ekki flutt á mölina, því enginn veit hvað átt hefur, fyrr en misst hefur.  Pelinn í brjóstvasanum gengur á milli manna.  Hver með sína sortina, sumt gott, annað minna gott. Pelarnir ganga hring eftir hring, brátt veit enginn hver var búinn að fá hvað eða hver átti hvað. Stigið á bak og klárarnir færast í aukana við hvert pelastoppið. Inn við Stein eru menn farnir að ræða málin umbúðalaust. Bros á hverju andliti og orðvarir menn láta allt flakka, kyssast og hrósa til hægri og vinstri.

Við Ufsatangann eru klárarninr farnir að sýna takta sem ekki var vitað um , töltið ægilegt og viljinn varhugaverður. Miklafellið skartar sinni þekktu fegurð og hundar, hross og menn fyllast innri gleði og ró er inn á torfuna er riðið í ótrúlega fögrum hópi reiðmanna af Austur Síðu. Eftir að hafa velt sér og fengið sér vatn, stíga hrossinn í kofa sína en gangnamenn stíga dans og syngja fagra söngva fram eftir kvöldi uns þeir sofna svefni hinna sælu, sáttir við Guð og menn.

Það er þetta sem dregur mann aftur og aftur í afrétt.

Kveðja ,

HP Foss

 


Rafvæðin sveitanna

Á árunum eftir 1970 stormaði RARIK um héruð með háspennulínur til handa búendum þeirra og þótti  mikil bót að þessu rafsambandi. Sem litlum dreng þótti mér mikill heiður af því að hafa þessa vel lyktandi tjörubornu staura í túnunum. Þegar svo þessi sami pjakkur fékk að spóka sig á traktorunum með fjölfætlur og rakstrarvélar voru þessir staurar svo alveg nýr vinkill á tilveruna, dansinn í kringum þá gat verið langur og farið var eins og köttur í kringum heitan graut til að tækin næðu ekki til þeirra.

Í dag þykir þetta sjálfsagður hlutur af tilverunni, ef rafmagnið fer verða menn pirraðir og fáir sjá fegurðina í staurunum.

Vissulega geta þeir verið fyrir.

okt 09 048


Þrifleg Blómarós

Naumast yrði í sinni súr,
þó svæfi dúr í fjósum.
Í sæng er veldi sjáfur úr,
Síðu Blómarósum


Við Þórutjörn

Júlí-ágúst 09 179

2.safn 2009

Við fórum í annað safn á föstudaginn og tókum 2 góða daga í það.

2.safn 09 007

Inn við girðingu við Steinbogann

2.safn 09 008

Inn við Skeggtoppslæk

2.safn 09 032

Beðið eftir að safni komi niður í Merkidal

2.safn 09 042

Safnið að tínast niður í Harðavallabrekkuna.


Afi á Fossum

 

Í dag hefði afi minn á Fossum orðið 93 ára,  væri hann enn á lífi.

Og einmitt í dag fara Landbrytlingar í Leiðólfsfell, sinn 3ja smaladag fara þeir fram fyrir Hellisá og geyma safnið í byrgi rétt austar. Gista síðan í Leiðólfsfelli, í gömlum og gildum kofa, þar sem hver á sína koju, ein þeirra er einmitt merkt afa, þar stendur einfaldlega DAVÍÐ. Þá koju mun í þetta skiptið, eins og mörg síðustu skipti, skipa maður að nafni Kristján Böðvarsson. Tel ég fullvíst að gamli maðurinn muni hafa auga með tengdasyni sínum þetta kvöld, ekki síður en önnur kvöld.
Vonandi fær Kristján sér vel neðan í því.
Ég fór einu sinni fyrir afa í afrétt og fundu karlarnir aðallega að því að ég gæti ekki drukkið nóg og því síður sungið,  ég komst ekki í sporin hans afa.

Ljúfa Anna verður líklega sungin þar en afi söng Ljúfu Önnu meira en flestir aðrir, hann kunni fjölmörg erindi af Ljúfu Önnu en gaman væri einmitt ef einhver kynni þessi erindi eða vissi hvar þau er að finna.

Ljúfa Anna, láttu mig vissu fá,
þú ein getur, læknað mín hjartasár,
Í kvöld er ég sigli á sænum,
í svala ljúfa blænum,
æ komdu þá, svo blíð á brá,
út í bátinn mér einum hjá.

Margir sakna afa, hann var þannig að allir sem honum kynntust kunnu vel við hann og fjölskyldan hans elskaði hann af hreinu hjarta.  Hann sagði fátt en það sem hann sagði var rétt. Hann tók aldrei undir last í garð annars manns,  hann var hjartahreinn maður.

Ekki það að ég geti úttalað mig um mannkosti afa,  honum kynntist ég ekki nærri nóg, þó hann væri aðeins í næstu sveit, þá var það nóg, við vorum þó fyrir víst líkir að einu leiti í þá daga, hann fór ekki langt af bæ og ég ekki heldur. Því hittumst við ekki oft fyrr en ég hafði hleypt heimdraganum, þá fór maður að þvælast meira og heimsóknir mínar að Fossum urðu mörgum sinnum fleiri en þær höfðu verið fram að því. Alltaf var gott að koma til afa og ömmu, létt og skemmtilegt spjall við eldhúsborðið var nærandi fyrir sálina. Randalína og mjólk hjá ömmu, kaffi hjá afa.

Til hamingju með afmælið afi minn.

 

Miklafell- 28. ágúst 2009 073
Leiðólfsfell


Frá Fremri Eyrum- Sveinstindur i fjarska

Miklafell- 28. ágúst 2009 017

.

Flatey 26.07.09 012

Lára systir fertug!!

 Það er svo ótrúlega einkennilegt að hún Lára skili vera orðin fertug.  Litla systir, sem var lengst af alveg magnaður óviti orðin fertug og nálgast mig óðfluga að aldri. Hún er sjálfsagt eitthvað að bauka núna á afmælisdaginn sinn, eins og vant er , enda dugnaðarforkur á ferð. Hún hefur alltaf verið dugleg hún Lára sívinnandi frá því ég man eftir mér. Það er til ágætismynd af okkur frændunum, mér og Helga B, svona kannski 5-6 ára pjakkar, úti að hlaði í rigningu, haugblautir og drulluskítugir eftir einhverja bölvaða gloríuna, tel ég víst. Allavega gefur svipurinn á okkur til kynna að það hafi nú ekki verið neitt sérstaklega gáfulegt, það sem við vorum að gera. En á bak við okkur stendur Lára, algölluð í rigningunni að gefa heimalningnum. Sú mynd segir allt, meira þarf í raun ekki að segja.

En eitt var það sem Lára var ekki sátt við, það var að koma með okkur pabba að gefa á fjárhúsin. Það var alveg sama hvað við reyndum að gera þetta skemmtilegt,( þetta var um þennan sama aldur, ég 6 ára, hún 5 ára) alltaf máttum við keyra hana heim áður en við vorum búnir að gefa. Svo var það í eitt skiptið að við fórum út í Fjall að gefa og Lára kom með.
Við byrjuðum í Harðavellinum, gamla fjárhúsinu þar sem hlaðan var undir sama þaki en þil á milli í um 2ja metra hæð. Við brugðum á það ráð að setja Láru inn í hlöðu, upp á heyið. Þar gæti hún leikið sér og við karlmennirnir gefið í snarhasti á meðan.
Varla höfðum við snúið okkur við, tæplega búnir að sópa garðann, þegar Lára kom svífandi í stórum boga ofan úr hlöðu og beint á höfuðið niður á fjárhúsgólfið. Lára hafði séð, að á heyinu var hin besta aðstaða til að æfa kollhnísa. Við keyrðum hana heim. Þvílíkt org! 

En þetta er líka það eina sem Lára hefur ekki leyst af hendi umyrðalaust, hún möglar hvorki né maldar í móinn yfir sínum verkum. Hvílíkt gæðaskap,  alltaf er Lára kát og glöð.
Ég er þess alveg viss, að skaparinn hafi ætlað mér hluta af þessu skapi,  hann hafi einfaldlega gleymt að gefa mér þann eðlilega skammt sem hverri manneskju er venjulega gefið, tekið of seint eftir því en látið það allt í það næsta. Og það var Lára.
 

Til hamingju með daginn elsku Lára mín, takk fyrir að vera systir mín. J


Þá....

...var það færra sem truflaði huga ungdómsins, á útvarp var varla hlustað, ekki var hangið í tölvunni facebook var ekki til. Við styttum okkur þó að sjálfsögðu stundir. Á sumrin var farið í leiki hvert kvöld sem ekki var verið í hirðingu, krakkarnir á Fossi, heimakrakkar, vinnufólk og gestkomandi börn hópuðust saman, í allskonar leiki. Á túninu heima mátti traðka og ærslast að vild, pabbi amaðist aldrei við því þó 20 krakkar væru það samankomin í slægjunni, þegar hann var ungur voru þau upp í 40.  Við máttum leika okkur í lok dags að vild enda var verið í leikjum fram í rauðamyrkur, þegar sumri var tekið að halla.

En við vorum líka að vinna á daginn, það var verið að raka heyi, reka beljurnar, sækja beljurnar, hjálpa til við mjaltir, mála hús, snúa, binda eða hirða hey. Smala í vorréttir, rýja, stússast eitthvað í fé, þurrka ull og margt fleira. Meira að segja getur maður ornað sér við minningar þeirra daga sem var verið að þurrka ull. Það þótti þó ekki sérlega góð nýting á sólríkum sumardögum, að mati okkar krakkanna.
Ekki man ég eftir því að við höfum talið það eftir okkur að hjálpa til, það var einfaldlega hluti af tilverunni. Að sofa fram að hádegi þekktist ekki þá.

Á haustin, þegar skólar hófust, fóru sumarkrakkarnir úr sveitinni og eftir sátum við með sárt ennið.  Að sjá á eftir félögunum suður og að það að skólinn væri í sjónmáli, með allri þeirri setu út á Klaustri, allan liðlangan daginn, gerði haustið að kvíðvænlegum tíma hjá sveitastráknum. Fátt gat gerst gott þær næstu vikur. Einverunni þurfti að venjast á ný, finna sér eitthvað að gera á kvöldin og í stað þess að skella sér á facebook, var kannski farið út í fjós og flórinn mokaður, skolaður og þrifinn. Það var ágætis verk, svona þegar maður þurfti að hugsa sinn gang.

Svo gekk veturinn í garð og vissulega var margt brallað í skólanum en mikið skelfing var maður orðinn svangur þegar heim var komið rúmlega fjögur með skólabílnum. Það er eiginlega það sem uppúr stendur varðandi skólagönguna á Klaustri, hungrið í lok dags.

Þá var líka jafn gott að koma heim og eiga þar mömmu vísa, meðheitt brauð með bræddum osti, þegar best lét, alltaf eitthvað tilbúið handa okkur krökkunum.  Við þurftum ekki lykil um hálsinn til að komast inn heima,  amma og mamma voru heima.

Kannski er þarna skýringin komin á hraustlegu mataræði þessa sveitspillts, þetta mikla hungur í 9 vetur hefur kannski markað slík spor í sálina að hún hefur ákveðið að svangur skyldi hann ekki framar verða. Hver veit?

Sumarleikir

 


Helga Sara

Miklafell 27.-28. júní 2009 063

 


Gríla og Leppalúði.

Gríla og Leppalúði ofan frá, kynjamyndir austan Hundhamars.

Gríla
Gríla

Leppalúði
Leppalúði

 


Ristin

Rafallinn í stöðinni var 35 kw og  túrbínan afkastaði 25 kw. Ristin var, eðli málsins samkvæmt, við inntaksrörið, þannig að þegar rafmagnið fór, sem var yfirleitt í  leiðindaveðri, þurfti að vaga upp á brún til að taka úr ristinni.

Ristin


Rafstöðvaskurðurinn uppi í heiði.

Rafstöðvaskurður

Tuddagjót.

Hvítasunna 2009 190

Fossrétt.

Fossrétt

Fossrétt.


Bæjarklif

Bæjarklif

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband