Beðið eftir rútunni.

  Það var komið sumar. Rútan kom í gær,ég stóð við brúsapallinn og þóttist vera að bíða eftir mjólkurbílnum . Sólin skein og það var mjög heitt. Hitinn var svo mikill að fæturnir mínir voru að stikna þar sem sólin skein á stígvélin. Ég dinglaði löppunum til og frá til að flugurnar skriðu ekki ofaní stígvélin. Hefði kannski átt að þvo þau betur í gær.

Skyndilega birtist rútan í Draugasteinunum og hjartað tók kipp. Skyldi hún vera með henni?
Allt í einu fór ég að hafa áhyggjur af fótabúnaði mínum. Hvaða eiginlega rugl er þetta? Hefði maður nú ekki átt að vera betur búinn til fótanna? Hefði maður ekki átt að fara í gúmmískóna fyrst maður var nú að bíða eftir rútunni. Hvað ef ég þarf nú að fara inn í rútuna og flugnagerið á eftir mér. Rútan full af Reykvíkingum, kannski. Jæja, það var og seint og ekki var nú bót af því að fara út þeim.

 Rútan nálgaðist óðfluga eftir óvenju holóttum veginum og ég þóttist sjá það á ökulagi bílstjórans að hann ætlaði að stoppa. Hún er þá líklega með.  Ég spratt á lappir og hundinum brá svo illilega, þar sem hann lá í fasta svefni við hlið mér að hann datt fram af pallinum með látum. Rútan staðnæmdist við pallinn og bílstjórinn opnaði harmónikkuhurðina. Ég vatt mér að hurðinni og stakk hausnum inn í gættina.

Rútan var smekkfull af ferðamönnum sem ráku stór augu þegar þau sáu kappklæddan sveitamanninn í 23 stiga hitanum. Ferðamennirnir voru allir í stuttbuxum og berfættir í Jesússkónum sínum. Það þótti mér nú bjánalegt enda fóru þeir fljótt að finna fyrir mistökunum þegar flugurnar gerðu orrahríð að fögrum leggjum fransmannana.
Ég kannaðist við bílstjórann frá því í fyrra. " Jæja stráksi, ertu kominn að taka á móti henni? Ha,,,? Ég er nú bara að .... var að ná í kýrnar".  Stamaði ég. "Jæja laxi, en hún er ekki með í þessari ferð. Hún kemur á fimmtudaginn. " Sagði bílstjórinn og virtist algerlega sjá í gengum mig. " Nú er það svo?" sagði ég og þóttist nokkuð sama. Vonbrigði mín voru mikil og sporin þung þegar ég gekk heim traðirnar. Ég fór beint til upp í gamla bæ.
"Sveinn, verkfærakistan þín kemur ekki fyrr en á fimmtudaginn"
" Nú, jæja? Það gerir ekkert " Sagði Sveinn og Laufey gaf mér flatköku fyrir ómakið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband