Færsluflokkur: Bloggar
Mánudagur, 11. maí 2009
Óla á Fossi á afmæli í dag.
Hún mamma mín á afmæli í dag, ég man ekki hvað hún er gömul en þó er hún orðin þrítug því ég man að hún fékk flekkóttu rolluna í þrítugsafmælisgjöf frá pabba. Hann hefur farið ágætlega frá þeirri gjöf, svona fjárhagslega. Nokkur ár eru nú frá þessu afmæli, rollan er a.m.k. orðin andskoti gömul, þrælskert og skakklappast varla út fyrir hússins dyr ( ég er enn að tala um rolluna). Rolla þessi var lengi þeim kúngstum gædd að strjúka að heiman þegar hún var komin að burði og sást svo á hamrabrúninni fyrir ofan fjarhúsin þegar borin var, alltaf með tveimur lömbum.
Til hamingju með daginn mamma mín,
Þinn uppahalds sonur ( nú fer hún að athuga hvort þetta sé bloggið hans Davíðs :) ) og hafðu það gott á afmælisdaginn.
Helgi
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 6. maí 2009
Zetor 25 A
Svo átti hann líka svona traktor, hljóðin úr honum eru nú reyndar eftirminnilegri.
Eymundur sló undir ventlana og lét okkur snúa þangað til olían var farin að volgna. Til að athuga það lét hann okkur smakka olíuna á kvarðanum.
Ég hallast að þvi að við höfum þarna verið hafðir að fíflum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 6. maí 2009
Zetor 3011
Gamli Zetorinn hans Sigga hvílir lúin beinin á barðinu við lækinn, hefur tölt um allar jarðir svo lengi sem ég man eftir mér, hefur verið einn hlutinn af náttúruhljóðum æskunnar, enda búinn til áður en ég fæddist en Zetor 3011, sem ég held að hann sé, var smíðaður á árunum 62-67. Þetta var mokstursvélin hans Sigga þar til hann fékk sér 4wd Zetorinn í kringum 87. Þessi ártöl eru nú ekki nákvæm, enda Siggi nágranni minn en ekki heimilismaður,en kallarnir á Fossi eru nú allir meira og minna í hjólförunum ftir hvorn annan, fáa skugga ber á samstillingu þeirra, að hverju verki er gengið sem einn maður, enda eru þær stundir sem Fossmenn eru saman í einhverju brasi, hvort heldur er smalamennska, girðingavinna, ádráttur eða fjöruferðir, mínar bestu stundir, utan barnanna að sjálfsögðu.
Nú skal hætt áður en maður er farinn að deila sínum innstu tilfinningum með Pétri eða Páli.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 3. maí 2009
Sennilega eini drátturinn af þessu taginu!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Laugardagur, 2. maí 2009
Fossinn.
Margar ferðir voru farnar upp í foss í gamla daga. Sá gamli var sem einn af fjölskyldunni, órjúfanlegur partur af æsku okkar sem ólust upp á þessum stað. Skelfing hlýtur hún móðir mín að hafa verið pirruð á blautum sokkum, stígvélum, buxum og jafnvel öllu heilla klabbinu. Nema hún amma hafi tekið við þessu. Sennilega höfum við nú reynt að stýra því þannig að hún væri til svara þegar heim var komið, óþarfi að trufla mömmu með þessum leiðindum þar sem hún hefur eflaust haft mörgum hnöppum að hneppa. Allavega var amma búin að sjá þetta allt áður, margoft.
Það var sífellt verið að gera eitthvað uppi í fossi, búa til stíflur, vaða, klifra, skríða undir steinana, fela sig og bralla eitthvað skemmtilegt. Hylirnir voru mis djúpir. Þar voru tveir aðalhylir, sá dýpri var ofar og náði uppundir hendur. Sá neðri var grynnri, náði aðeins í mitti og vorum við þar frekar, hann var aðgengilegri.
Upp á litla steininn var oft farið og stokkið af honum til allra átta. Menn virtust miskjarkaðir en ekki var um annað að ræða en láta sig vaða þó kjarkurinn væri á bak og burt. Stóri steinninn kom ekki fyrr en seinna, að komast upp á hann var gríðarlega mikill áfangi en maður var jú búinn að horfa á hann í mörg ár og beið eftir að komast upp, sem hafðist einhvern daginn, eftir ótal tilraunir, á mörgum árum.
Nú virðast hylirnir hafa grynnkað mikið og það sem skrítnara er, steinarnir hafa stækkað og sá stóri orðinn ókleifur á ný.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Sunnudagur, 12. apríl 2009
Hundhamarinn
Hundhamarinn á að hrynja ef í Vesturbænum er á sama tíma grá kvíga og vinnumaður. Á þetta hefur ekki reynt og verður ekki í bráð, því beljurnar eru dauðar og kvígan því tæplega væntanleg.
Hundhamarinn gnæfir yfir bænum og fátt sem bendir til annars en sáttartóns í garð okkar mannanna og vináttan og virðingin í hans garð frá okkur er alger. Austan við hann standa vaktina, Leppalúði og Grýla, kynjamyndir sem bera við himinn frá bænum séð og eru hluti af þeirri algeru sálarró þegar maður horfir til fjallanna sinna.
Eins og þessir hlutir hafa áhrif á mann, getur maður rétt ímyndað sér hve djúp áhrif þessir hlutir hafa haft á forfeður mína, þegar þeir áttu allt sitt undir náttúrunni og hæfileikunum til að lesa úr þeim merkjum sem voru til staðar.
Rafstöðin situr sem fastast í brekkunni fyrir neðan og man tímana tvenna.
Ég hefði viljað lifa þessa tíma.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)