Færsluflokkur: Bloggar

Gýgjarhólskot vs Keldunúpur

Svona eru nú sómabú,
síðuna mun það bæta.
Spilltur krakki, spikuð frú,
og spjölluð heimasæta.

 Jón Karlsson

Þessa vísu fékk Palli vinur minn í kveðjugjöf frá Gýgjarhólskoti þegar hann kláraði verknámið frá Hvanneyri, ég held árið 1986.
Í Kotinu voru þá í heimili, Jón bóndi, Ranka kona hans, Grímur sonur þeirra 9 ára og Sigga dóttir þeirra var nýflutt heim með frumburðinn, skilin.


Sumarsaga

  Það var hásumar. Vestanáttin eins og áður hefur verið lýst, einstök. Vestanáttin er eiginlega það eina góða sem kemur frá Víkinni. Svona hlý og notaleg. Þá er ég að sjálfsögðu að skilja frá Elínu á Keldunúpi, Sólveigu í Prestsbakkakoti, Sveinbjörgu, Jóhönnu og allar þessar Kerlingar sem sóttar voru út yfir sand til að bæta annars furðugóðan stofninn sem fyrir var. Þær flokkast náttúrulega með vestanáttinni, voða hlýjar og notalegar.

Hundurinn var eins og ég, alveg sallarólegur og flatmagaði á stéttinni. Það sem skildi okkur þó að, þennan fallega þriðjudagsmorgun, var að ég sötraði kaffið en hann var í óða önn að gera á sér morgunverkin, þvoði sér mjög vandlega, hátt og lágt og afar vandlega á viðkvæmum stöðum. Gekk þetta drykklanga stund með ótrúlegu kjamsi og smjatti. " Svona, hættu nú!" sagði ég við hundhelvítið og ég kúgaðist.  Hundurinn spratt á lappir og ég líka þegar hann svo gerði sig líklegan til að sleikja mig  í framan.

Ég  rölti uppá tún með kaffibollan til að líta Fossinn minn, Fossinn sem hefur bara ekkert breyst í gengum árin. Alltaf jafn rólegur og staðfastur, fellur fram af brúninni með ótrúlegri mýkt,  nánast eins og hann leggðist  á klöppina ofurvarlega svo blessaður bæjarlækurinn gæti haldið sínu striki.

En árin líða og strax er maður sjálfur farinn að telja í ártatugum til baka, atvik sem eru eins og gerst hafi í gær. Þegar við krakkarnir vorum í þessari sömu brekku á kvöldin , í ótal leikjum og uppátækjum, þar er verið að tala um 25-30 ár. Sei, sei.

Ég gekk til baka og kallaði á hundinn sem leit upp, eins og bæði hissa og skömmustulegur , þar sem hann var að háma í sig hrossaskít. Svei mér þá, ég held að hann sé að verða ruglaður.Ég gekk inn í bæ, inn í eldhús.
Fyrri tuttuguárum hefði amma verið þar með morgunmat fyrir okkur öll, smurt brauð með eggjum og öllu tilheyrandi. Nú er öldin önnur, enginn er í eldhúsinu og ég fæ mér því ekki neitt.

Já, sumrin voru góð í sveitinni, alltaf nóg að gera og lagðist maður steinþreyttur á koddann á kvöldin, ýmist eftir baggahirðingu eða erfiða leiki. Næsta tún lá sennilega í ljánni eða var komið í næturmúga. Ef hirðingin gekk vel var farið til nágrannanna og létt undir með þeim, þannig fórum við krakkarnir á milli bæjanna eftir því sem þörf var á. Var því oft kátt á hjalla þegar margir söfnuðust saman og verkið gekk vel. Núna hýrast menn einir í traktorunum og það eina sem menn heyra er glamrið í tækjunum.

 

 


Fyrir Valda kalda

Stórkostlegt lag! Ekki gamalt.


1. apríl á morgun- dagur hinna vonlausu "veiðmanna"

  Ég ætla svo sannarlega að vona að svokallaðir "veiðimenn" sem nú æða út í skaftfellsku árnar, fái ekki bröndu. Ekki á ég von á að mér verði að ósk minni, vegna þess að fiskurinn sem nú er á niðurleið bítur á hvað sem er. Það er gott fyrir menn sem veiða yfirleitt lítið að fara í vorveiði. Einnig er það gott fyrir menn sem ekki hafa þroska til að bíða eftir að fiskurinn komi til baka að skella sér í vorveiði. Vorveiði er kjörin fyrir menn sem ná ekki að kallast veiðimenn.

Á seinni árum hafa menn sem betur fer farið út í að veiða aðeins á flugu og ég held að veiðinni sé sleppt, ef hægt er. Það er nú líka það eina sem hægt er að gera við niðurgöngufiskinn, nema ef vera skyldi að setja hann í ruslagáminn á Klaustri.

Þessir menn sem vorveiðina stunda, vilja gjarnan meina að þeir séu að veiða nýgengna fiska. Það er fjarri sanni en þeir kunna að líta út sem slíkir, gljáandi á hreystrið og lúsugir. Það er hinsvegar vegna ferða fisksins fram og til baka fram að sjó og upp í ánna til að ná rétta saltmagninu í sig, áður en þeir hverfa á veiðilendur hafsins, Þetta kallast að þeir smolti sig.

Mér þykir súrt í broti að horfa upp á þetta háttarlag, áratugum saman, án þess að nokkur hreyfi mótmælum. Landeigendur sjá þarna pening og á meðan þetta er löglegt verða alltaf nokkrir gráðugir landeigendur sem þetta leyfa, ánum til skaða.


Álftir á flugi

Fannhvíti vin,
ég finn það og heyri á vængjanna dyn,
komandi kvíðir þú leiðum,
kólnar á heiðum.

Saknaðarljóð,
syngur þú núna um læki og flóð,
blátærum ís eru bundin,
beisk verður lundin.

Upp rennur stund,
aftur þá líður vorið um grund,
lækirnir hoppa um hjalla,
hátt upp  til fjalla.

Blómanna fjöld,
beygir í þakklæti höfuð um kvöld,
lágnættið varlega vefur,
veröld sefur.

Vinur minn kær,
verður þá söngur þinn mjúkur og tær,
vindana lætur þig leiða,
langt upp til heiða.

Fannhvíti vin,
fljúgðu þá með mér við kvöldsólarskin,
þangað sem þögnin mun lofa,
þreyttum að sofa.

 

Arnar Sigurðsson Ytra Hrauni
fæddur 1935


Jón á Læk

Áður hér á árunum
ýmsir hleyptu klárunum.
Þar sem góð hross hlupu spræk,
þar var einmitt Jón á Læk.

Úlfur læknir


Liti´ð til Síðunnar

Naumast yrði í sinni súr,
þó svæfi dúr í fjósum.
Í sæng ef veldi sjálfur úr,
Síðu blómarósum.

 

Guðjón Ásmundsson. Lyngum í Meðallandi,
hann kvæntist konu frá af Síðunni.


Sveitin mín

Ég hef skoðað Íslands byggðir víðar
  og einnig þig.
Með tinda, jökla tún og grænar hlíðar,
  þú töfrar mig.

Hjá þér hef ég mesta fegurð fundið
  þú færð mín ljóð.
Og við þig allar vonir mínar bundið,
  sem varst mér góð.

Svo fór ég burt og fékk þá margt að reyna,
  á flæking þeim.
Nú veit ég fyrst, að ég elska þig eina.
 -Ég ætla heim.

 

Eiríkur Einarsson- Skaftfellingur


Foss á Síðu

mars 09 220

Pétur Davíðsson 65 ára.

  Pétur á afmæli í dag, fimmtudag og í tilefni þess set ég hér inn frásögn af leiðangri frá Fossum í Landbroti að Dalbæjarrétt fyrir um 15 árum:

 

 

Eldsnemma  morguns, fyrir allar aldir, er haldið af stað frá Fossum í Landbroti. Fer þar yfirleitt vasklegur hópur ungra sveina. Í fararbroddi er aldursforsetinn, Pétur.Glæsilegur á velli. Hann er vel búinn til slíkra ferða og ekki gott að sjá hvað það væri sem stöðvaði ferð þessa manns. Í vatnsheldum gúmmíbúningi frá tá og upp í háls, með tvöfaldan taum líkt og John Wayne hafði forðum. Það var nú reyndar aðeins vegna þess að Klaufi steig á tauminn og sleit hann þegar reiðmaðurinn var að festa sætið á sinn stað. Aldursforsetinn og forystusauðurinn hefur sérstaka ásetu, enda mikið atriði að hann beri sig vel, þar sem hann er sá sem eftir er tekið, eðli málsins samkvæmt. Hann hallar sér ávalt vel fram, u.þ.b. 45 gráður, með höfuðið beint fram og ótrúlega einbeittur á svip. Þá hefur hann annað axlarbandið á öxlinni en hitt niður á síðu. Mun þetta vera vegna byrgða þeirra sem hann þarf að hafa meðferðis. Klaufi er afburða fagur reiðhestur og skeiðar greitt með hálsinn þráðbeint fram, líkt og reiðmaðurinn, með snoppuna fremsta. Aðra löppina hefur svo forystusauðurinn niður með lend hestsins, eftir því sem vaxtarlag hans leyfir, en hinn fótinn hefur hann aftur á rassi klársins. Hrein unun er að fá að fylgjast með þessu reiðlagi . 

Strikið er tekið út veg og út í Landbrotshóla. Er þetta löng leið og illvíg og þarf því að gera stutt stopp, æði oft. Eru byrgðir aldursforsetans kannaðar og kannar hann einnig byrgðir hinna leiðangursmanna. Heldur þetta svona áfram upp úr hólum. Sögur eru sagðar frá hverjum stað og með ólíkindum hvað hefur verið brallað í gegnum tíðina. Svaðilfarir gamalla tíma rifjaðar upp og kemur þar ýmislegt upp á yfirborðið. Aldursforsetinn hefur ávalt orðið eins og vera ber. Eitt af því sem rifjað er upp eru vandræðagangurinn í kvennamálunum karlsins. Mun hann, af eigin sögn, hafa notið mikillar kvenhylli sem ungur maður. Þótti honum þó betra að beita ljúfum rómantískum aðferðum .En  það kom fyrir, skipti eftir skipti, að hann var búinn að tæla þær afsíðis og þær voru um það bil að falla fyrir fagurgala hans, að heyrðist í fjarska: tramp, tramp,tramp. Birtist  Hörður bróðir á harða hlaupum og settist fyrir framan þau og brosti sínu breiðasta. Var það að skilja að þessi strákskratti hafi átt stærstan þátt í því að Pétur náði sér ekki í konu fyrr en á gamals aldri.

          Eins og áður sagði er leiðin upp í Dalbæjarrétt, löng og ströng. Það ströng að Pétur og Klaufi ákváðu að leggja sig á leiðinni og lágu þeir í faðmlögum drykklanga stund þar sem þeir horfðust í augu og kváðu rímur.

          Mikill fögnuður brýst svo út meðal réttarmanna þegar við ríðum í hlað og almenn hamingja. Fer þar fyrir hópnum sem fyrr, Pétur. Hann fer rakleiðis inn í réttina og lætur vita að allt sé í lagi og hefjast menn þá handa að draga í sundur.

          Í bakaleiðinni, með reksturinn, kýs þessi  mikli leiðtogi vor að vera farþegi í trússbílnum. Reksturinn endar svo í einni mestu matarveislu sem haldin er milli sanda, í sviðaveislunni hennar Köru á Fossum.

           

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband