Og enn á fjöru

Enn var komið að því að fara á fjöru. Fossmenn höfðu hug á því að athuga með reka á fjörunni sem var nú öll orðin austan við Síkið. Það var fallegur sólríkur dagur á Fossi þennan júní morgun. Kýrnar voru komnar út í haga og hundarnir stukku um hlaðið fullir eftirvæntingar . Farið var á traktorum með vagna og gúmmíbáturinn sem Fossmenn fundu á fjörunni um árið var með í för. Við strákarnir sátum í bátnum sem var á einum vagnanna .

Hugur var í mannskapnum og máttum við  þakka fyrir að tolla á tuðrunni þegar vagninn fór í verstu holurnar og við skutumst upp í loftið eins og pílur. Ekki hefur þetta þótt árennilegur hópur sem brunaði fram fjörugötuna og hefði eflaust ókunnugur maður orðið smeykur að mæta slíkri fylkingu. Jafnvel þó hann hefði þekkt til. Þarna voru Foss- og Sandmenn mættir, gráir fyrir járnum.

Á augabragði voru menn komnir að Síkinu. Fór hver maður á sinn stað og leysti sitt verk af hendi, fumlaust. Báturinn var gerður klár, pumpað í þau hólf sem voru orðin vindlaus síðan heima á Fossi, árarnar á sinn stað og mannskapurinn hoppaði um borð. Fleytan var fullmönnuð.

Einn var hafður þar sem venjulega er hafður mótor en þar sem enginn var slíkur með í för var notast við stunguskóflu. Reyndar voru árarnar allar af þeirri tegundinni. Restin af áhöfninni raðaði sér til helminga, ýmist á bakborða eða stjórnborða, utan eins, sem var greinilega formaðurinn, því hann sat í stafni og stjórnaði áralagi og hélt uppi andanum í hópnum ásamt lífsvon.

Var þessu stjórnað af mikilli röggsemi, með miklum hrópum, köllum, skömmum og handapati. Fórst honum þetta vel úr hendi.Af öryggisástæðum var hafður vaður úr bátnum í land. Fengum við þrír sem þar voru það hlutverk, að gefa slakann og standa klárir  færi eitthvað úrskeiðis. Ekki voru þeir komnir langt frá landi þegar áhöfnin tók að ókyrrast. Menn æddu fram og aftur um bátinn og hafði formaðurinn upp þvílík köll að heyrðist langleiðina upp að Sléttabóli. Var þá vatn tekið að flæða inn í bátinn af miklum krafti. Þarna var augljós hætta á ferðum þar sem helstu höfðingjar sveitarinnar voru saman komnir í einum báti sem var að fyllast af vatni og virtirst ekki eiga annað eftir en sökkva til botns.         

Réðust menn í það að finna upptök lekans, um leið og aga var aftur náð. Sáu menn þá hvers kyns var, skóflan í skutnum hafði kippt neglunni úr gatinu. En sem betur fer hékk hún þar í spotta og var snarlega sett á sinn stað. Var þar bráðri hættu afstýrt af mikilli fagmennsku, enda menn með áratuga reynslu af útræði.

 Þá var ausið og för haldið fram. Við gáfum út vaðinn eftir því sem þeir mjökuðust út í óvissuna. Út í miðju Síki fór  að taka í og hægja á körlunum, þá löngu komnir úr kallfæri og loks stoppaði fleytan. Vissum við ekki hvað var á seyði, svipað uppnám  var meðal áhafnarinnar og þegar neglan fór úr, þarna við bakkann í upphafi ferðar, og gerðum við okkur strax grein fyrir alvöru málsins. Þarna voru þeir mitt í úthafinu, bjargarlausir og greinilega vitstola af hræðslu.

Urðu menn nú að bregðast skjótt við ef eitthvað ætti að vera hægt að gera í málinu. Við sáum að þeir voru að niðurlotum komnir, jafnvel að menn væru að gera sig líklega til að stökkva frá borði, því frá landi séð var eins og menn væru komnir með annan fótinn í beljandi jökulvatnið. Myndi slíkur skaði seint bættur. Það var talið erfitt að smala í Mýrdalnum eftir að Ragnar á Höfðabrekku velti bíl sínum í Kerlingadalsánna með alla smalahunda sveitarinnar meðferðis. Þar komst aðeins einn lífs af, Ragnar sjálfur. Ekki er gott að ímynda sér smalamennsku á Fossi með eintóma hunda en öngva karla. Hætt við að það færi handaskolum.     

Tókum við þá til við að toga bátinn með karlagreyjunum í land og forða þeim þannig frá bráðum bana. Þeir nálguðust óðfluga enda toguðum við sem mest við máttum. Þarna sátu þeir, flötum beinum og áttum við von á að sjá ljómann í andliti þeirra yfir þessum snöru handtökum og frækilegu björgun.

En við gátum ekki greint gleði í andlitum þeirra þegar þeir renndu að bakkanum. Var lífsreynsla þeirra slík að öll gleði væri horfin úr þessum léttlyndu körlum á einni svipstundu?  Nei, þeir voru öskuillir og í stað þess að fá þakkir fyrir afrekið fengum við skammir fyrir uppátækið. Við vissum ekki hvaðan á okkur stóð veðrið þar sem við lágum lafmóðir og másandi eftir átökin. Þeir voru þá víst aldrei í neinni hættu.

 Sögðust hafa strandað á sandeyri og voru alveg að komast yfir hana, með því að sitja klofvega á flotholtunum og mjaka bátnum áfram með annarri löppinni. Þá skyndilega hafi þeim verið kippt afturábak þannig að þeir þutu til baka, á tíföldum þeim hraða sem þeir sjálfir gátu með góðu móti náð.Við á vesturbakkanum vorum skömmustulegir þegar við tókum til við að gefa út vaðinn aftur.

Ferðin þeirra í þetta skiptið tókst vel og komust þeir einnig til baka.En ef eitthvað hefði farið úrskeiðis í þessari seinni tilraun, þá er ekki gott að segja til um það hvort við hefðum brugðist við af sömu snerpu og áður. Ekki er einu sinni víst að við hefðum bara yfirleitt tekið eftir nokkrum sköpuðum hlut. 


Aftur á fjöru

 Roverarnir voru staðnir yfir ísilagða Breiðu-leiruna og mátti vart á milli sjá hvor færi hraðar yfir, Björn á sínum græna Land Rover eða Páll á þeim bláa,´66 módelinu . Björn hafði þá yfirburði að hann var á stórum dekkjum sem skiluðu jeppanum vel áfram í þungu færinu. En einstök lagni Vesturbæingsins og endalaus þolinmæði fleyttu honum líka vel.

 Þegar Roverarnir voru um það bil að ná hámarkshraða á rennisléttum ísnum, þar sem Helgi litli 10 ára sat á hækjum sér aftan við varadekkið , stífur af spenningi í þessari miklu kappkeyrslu og Bjarni í Miðbænum stjarfur af hræðslu í framsætinu, brast ísinn undan okkur og ég þeyttist af alefli upp í toppinn og þar eftir niður á gólfið . Roverinn tók þvílíkt stökk upp úr þessari vilpu, enda á ofsahraða, að sá undir öll hjól. Ferðin hélt áfram eins og ekkert hefði í skorist og þetta væri ósköp venjulegur akstursmáti þeirra Fosskarla.

Á fjöruna var alltaf gaman að koma, að sjá sjóinn þegar ekið var fram á kambinn í kollunum. Í þá daga var ekki farið oft á fjöru, í það minnsta ekki eins og síðar varð ,þegar ferðirnar voru reglulegar, nokkrum sinnum í viku. Þessar stundir með Fossköllunum verða alltaf kærar í hugskoti mínu, karlarnir alltaf léttir og skemmtilegir,sagðar sögur og mikið hlegið.  Þá var alltaf komið í skýlið og  jafnvel étið þar nesti.

Fjaran gat oft reynst erfið yfirferðar, barðarnir sukku í gljúpann sandinn og þá dró niður í 62ja hestafla díselmótorunum sem þó yfirleitt skorti ekki afl. En fram með Hvalssíkinu var för heitið og fram í flæðarmál. Þar var harðara undir og það var eins og við manninn mælt, upphófst þessi líka kappaksturinn. Við sjóndeildarhring hillti undir eitthvað sem menn höfðu ekki áður séð og stefna þeir þangað, í rauðabotni. Aldrei bar mikið í milli, báðir fóru svipað hratt yfir og nálguðumst við hið óþekkta óðfluga. Var þetta hvalur? ekki tré, Hnúfubakur? sjórekinn maður?  Nei, þetta var gúmmíbátur. Sódíakk af bestu gerð. Þótti þetta mikill fengur og menn æði búralegir yfir þessu. Sáu menn fyrir sér að nú yrðu háskalegar ævintýraferðir austur yfir Síki  með öðru sniði og hættuminni. Aldrei verða slíkar ferðir samt með öllu hættulausar enda höfðu menn drukknað í Hvalssíkinu hér á árum áður. Bátnum var skellt á toppinn á þeim bláa og haldið heim.

 Ekki man ég annað en heimferðin hafi gengið vel, Siggeiri skilað heim til sín og voru menn bara æði sperrtir að renna í hlað með þennan feng. Báturinn hefur verð notaður æði mikið í ferðum Foss- og Sandmanna austur á fjörur með misjöfnum árangri en alltaf hefur ýtrustu varkárni verið gætt í meðferð þessarar fleytu. Það er önnur saga og verður sögð á morgun 

Fjöruferð

 Sem dagur var risinn var haldið á fjöru. Þetta var ein af þessum góðu ferðum þar sem allir Fossmenn voru saman, utan Skákarmanna sem eiga ekki fjöru. Þar voru einnig komnir sandmenn. Farið var á rússum og traktorum.

Ferðin gekk ekki vel og tók það okkur u.þ.b. 4 klst að paufast niður að Breiðuleiru. Siggi fór fremstur á Zetornum atturdrifna, alkeðjaður og þurfti að brjóta sér leið í gegnum ísinn sem ekki hélt en var samt hnausþykkur. Það hafðist að lokum og eftir að menn höfðu kastað óþolinmæðinni, var stefnan tekin á austasta melkollinn. Siggi fremstur og allt gefið í botn eftir allt helv. hjakkið.

 Rennisléttur ísinn sindraði í vestanáttinni og steig ég Massann í botn á eftir Jónssyni. Hann var með gamla sturtuvagninn attaní og það var eins og skrattinn hefði sturtað honum niður, traktorinn á nasirnar, niður um skel og hafnaði á 30 sm þykkum ísveggnum . Hann stöðvaðist á lengd sinni á augabragði.Hundarnir sitthvorumegin við Sigga, þeyttust fram í rúðu á hraða ljóssins. Skyldu þeir ekki hafa orðið hissa? Siggi greyið skutlaðist í stýrið sem bognaði. Vagninn attaní var fullur eftirvæntingar og gáska og fékk þetta líka höggið á nefið.

Ég tók strax til við að hægja niður ferðina á Massanum sem var kominn á fulla gjöf og á þvílíka ferð að ekki var ljóst í fyrstu hvernig að verki yrði staðið. Með lagni gekk það, enda Massinn vel búinn til aksturs að vetrarlagi. Siggi skjögraði út úr vélinni og eftir smá basl og viðgerðir höfðum við hann upp.

Ferðir Fossmanna austur yfir Hvalsíkið hafa aldrei verið neitt sérstakt hættuspil, menn ganga á undan með fimmtíu kílóa járnkarla enda myndu menn, "drukkna eins og kettir í poka" ef ísinn gæfi sig.

Þegar á fjöruna var komið var rekaviðurinn um allt, eins og skæðadrífa en allur beingaddaður niður í sandinn. Hefðu ekki allir menn haft burði til að ná þessum djöfsum lausum en allt gekk þetta að lokum . Heimferðin gekk vel, timrið dregið að Syðstubót og sótt seinna.                                                            Með kveðju, Helgi Páls.  

Íslenska þjóðin á móti Lúpínunni

Þá er það ljóst, eftir skoðanakönnun á síðunni minni  geta stjórnvöld farið í að senda atvinnulausa og einstæðar  mæður í  að slíta upp Lúpínuflákana hér á landi, því 52% þjóðarinnar telur Lúpínu ofnotaða á Íslandi.

Óheiðarleg íslensk olíufélög

Með ólíkindum er að fylgjast með þessum félögum grípa hvert tækifærið sem gefst til að hækka en þegar færi er á að lækka, Þá koma útskýringar sem ekki einu sinni börn kaupa.

Hættum að kaupa nokkuð annað en það eldsneytið af þessum óheiðarlegu mönnum.

Óþarfi er að styrkja þá enn frekar með kaupum á matvöru og öðru slíku sem hægt er að fá annarsstaðar.


mbl.is Olíuverð lækkar enn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skaftfellskt vor

Er ekki lífið yndislegt? Sunnan blærinn strýkur vanga sveitamannanna sem sitja úti við túngarðinn og bíða þess að vorið gangi í garð með allri þeirri dýrð sem því fylgir. Kýrnar taka að ókyrrast á básum sínum og föðurlandið orðið vel sveitt eftir amstur vetursins. Brátt hverfur bóndinn ofaní  skurð og og fer úr vetrarfötunum. Þá er vorið komið. 

Brekkurnar okkar fyllast angan af gróðrinum og sinan hverfur undir iðagrænan svörðinn. Ræfilslegt jarm rýfur þögnina, ærnar komnar að burði. Fossinn  skartar sínu fegursta í sólskininu, skaflinn nýfarinn og sólskríkjan hefur orpið í grenitréð sem pabbi gróðursetti, sumarið sem hann gaf mér folaldið.

Vinnumennirnir koma einn af öðrum, með splunkunýja takta eftir veturinn. Allt er svo unaðslegt á þessum dásamlegu dögum. Menn og skepnur leika við hvern sinn fingur og sletta úr klaufum. Amma með pönnukökurnar tilbúnar þegar við komum inn eftir leiki kvöldsins og þeim skolað niður með ískaldri mjólkinni.Já, það eru forréttindi að fá að alast upp við slíka hamingju. Þessi hamingja æskunnar á eftir að fylgja Skaftfellingi um ókomna tíð, alla tíð, ylja honum um hjartaræturnar þegar hann lætur hugann reika um ótal minningar. Þessa minningar eru það sterkar að hreinlega hvarflar að manni að um heimþrá sé að ræða eða átthagafjötra.                                   

Vinnutörn

Nú er komið að hinni árlegu 2ja vikna vinnutörn íslenska bóndans. Bóndinn hefur kviðið þessari törn í 50 vikur, eða frá því törnin kláraðist í fyrra. Ekkert fær raskað einbeitingu bóndans þessar 2 vikur, fréttir af lækkandi gengi eða Meistaradeild Evrópu hreyfir ekki við þeim. 

Hinar 50 vikurnar eru líka erfiðar. Þreytan er slík að allur þessi tími fer í að jafna sig og ef ekki væri göngutúrinn út í póstkassa að ná í beingreiðslurnar myndu þeir sennilega ekki ná að jafna sig fyrir næstu törn.

Já,  hvílík törn.


Sendingin frá Siggu á Prestsbakka.

Hér á eftir kemur frekar væmin saga þannig að vatnsberar og vogir eru beðin að vara sig. 

Við fórum út að Prestsbakka. Sigga var með þessar líka kökurnar og í minningunni var heklaður dúkur á borðstofuborðinu, kakó, þeyttur rjómi, pönnukökur og flest það sem upp í hugann kemur þegar hugsað er um góðgæti. Það kann að vera að þetta hafi verið eitthvað allt annað en hjartalag Siggu á Prestsbakka, vingarnlegheit og hlýja, verður þess valdandi að maður man þetta svona. Ég var fljótur að drífa í mig sætindin því kötturinn á bænum lá út í horni með 6 kettlinga, nýlega fædda.

Á meðan mamma ræddi við Siggu og Pabbi við Jón, lá ég í kettlingahópnum. Sérstaklega var einn þeirra blíður við mig, lá hjá mér og vildi láta gæla við sig.

Þarna var ég langt fram á kvöld og heimsókn þessi fellur aldrei úr mínu minni, er reyndar ekki viss um að ég hafi í annan tíma farið í heimsókn að Prestsbakka. Ekki nema til að ná í plóg eða eitthvað annað sem Búnaðarfélagið átti.

 Morgun einn nokkrum vikum seinna, þegar ég fór á fætur, sátu pabbi og mamma frammi í eldhúsi og voru skringileg á svipinn. Þennan svip þekkti ég svo sem , það var eitthvað í vændum og það ekki af verri endanum. En hvað það var, gat ég nú ekki vitað.

Mér var bent á að kíkja inn í herbergi, sem ég gerði. Stóð þar á miðju gólfi, kettlingurinn frá Prestsbakka, leit á  mig og mjálmaði góðlátlega.

Köttinn nefndi ég Kisu, sennilega lítið frumlegt en mikið óskaplega var þetta mikill vinur minn.


Lúpínan- þunglyndi rofanna.

Veturinn er loks að baki.  Hálfgerður leiðindavetur þar sem skafið hefur í afkima sálarinnar frá því fyrir jól. Fannbarin rofin hafa látið á sjá og tekur þau langan tíma að verða eins og áður.  Þessi rof sálarinnar hafa rokið á haf út, sokkið til botns í Faxaflóann.  Fátt er til ráða, best er að láta hlutina jafna sig á sinn hátt, grípum ekki inní gang náttúrunnar með gerræðislegum ákvörðunum, látum ekki umhverfissóða vaða áfram með lúpínufræ í poka, skvettandi til hægri og vinstri, án nokkurrar hugsunar. Hugsunarleysis sem á eftir að verða okkur dýrkeypt.  Lúpínan á eftir að kaffæra sálarró gróandi rofa, spilla þeim og eyða endanlega, vakni menn ekki til vitundar.

Fátt er fegurra en rofabarð í eðlilegum gangi náttúrunnar, minnkar, grær,  verður aftur að fallegri torfu, stækkar, hækkar, byrjar aftur að eyðast, fýkur á brott. Næringarefni rofabarðsins verða kærkomin á grýtta mela, mela sem ekki áttu von án þeirra.  Von melsins felst ekki í að hópur skólakrakka frá útlöndum vaði yfir þá undir stjórn illa upplýstra leiðbeinanda, sem oft á tíðum hafa lítið annað en kennarapróf upp á vasann.

Förum varlega í skottulækningar hvort heldur er á líkama, sál eða íslenska náttúru.

Látum fagmenn annast þessi mál.


Móðuharðindin hin síðari.

,,1783 tók sá alvitri guð að, bæði í vöku og svefni að benda mér og öðrum að vér skyldum taka vara á oss og búa oss við yfirhangandi og ókomnu straffi. Eldroði sást á lofti og teikn, ormar og pestarflugur á jörðu, skrímsli í vötnum og eldmaurildi á jörðu, item; hljóð og veinan í hennar iðrum, vanskapan á nokkrum lömbum. Drambsemin sté upp, sem ávallt er fallinu næst. Marga skikkanlega menn dreymdi það sem eftir kom.''

,,Hér lifðu menn í sælgæti matar og drykkjar, sumir orðnir svo matvandir, einkanlegast þjónustufólk, húsgangs-lýður og letingjar, að ei vildu nema þá allra bestu og krydduðu fæðu. Drykkjuskapur og tóbakssvall fór að sama lagi, að á einu ári upp gekk hér í gildi, heimboð og þess kyns brennivín upp á 4000 fiska, eftir sem ég með öðrum vitanlega sannreiknuðum,
er svo hátt steig, að prestar fundust þeir hér, sem ei þóttust geta framflutt með reglu og andakt guðsþjónustugjörð nema fyrir brennivíns tilstyrk, hverjum og svo urðu síðan sín hús í eyði látinn og margra annarra sem féllu á sömu sveif.''

Þannig ritar eldklerkurinn í ævisögu sinni.

Óhugnanlega er þetta eitthvað líkt ástandinu á vorum dögum. ´

Ég ætla að hafa varan á.


Þórutjörn

Á heiðinni fyrir ofan Foss á Síðu er stöðuvatn. Vatnið sem bæjarlækurinn kemur úr. Bæjarlækurinn á Fossi verður seint talinn til stórfljóta, hálfgerð spræna. En hann gerir nú samt þennan stað að þeim stað sem hann er því fossinn minn, Foss á Síðu, er jú einmitt helsta kennileiti staðarins. Fallglaður árið um kring gleður hann hjarta sveitamannsins sem í heimahagann leitar eins oft og hann getur, jafnvel oftar.  Eyvindur karpi nam land á milli Almannafljóts (Hverfisfljóts) og Geirlandsár og bjó á Fossi. Hann bjó ekki í Þorpinu, hann bjó á Fossi. Ég er ekki hissa á því , hefði sennilega gert hið sama.
2.safn 04 055-1

Vatnið sem um ræðir er Þórutjörn.  Sá sem hefur gefið henni nafn hefur verið hlédrægur maður því tjörnin er bara nokkuð stór, tæplega 20 hektarar, heldur stærra en t.d. Hæðargarðsvatn, sem er rúmir 16 ha.  Vífilstaðavatn er 28 ha.
Þórutjörn heitir eftir vinnukonu á Fossi en hún gætti ekki að sér og fór á bak gráum hesti sem stóð við vatnið. Reyndist þar vera nykur, sem samstundis stökk með hana út í vatnið og lét hún þar lífið.

Þórutjörnin er full af fiski, urriða sem bítur vel á og er sprækur á stönginni.   Margir veiðimann leggja leið sína upp í heiði á sumrin, sumir koma ár  eftir ár en veiðileyfi eru seld á Fossi og verði stillt  mjög í hóf. Rúmlega hálftíma ganga er upp að vatninu með fallegu útsýni yfir sveitina.

Hei╨in 2004 003


Morgunganga

Þaut í birtingu upp í Kaldársel og skellti mér á Helgafellið. Skokkaði frá bílastæðinu að rótum fjallsins með fallega nafnið og sótti á brattan. Verkið sóttist mér vel, enda í fínu formi og hundinn tók ég í fangið því mér leist ekki á hvað hann var orðinn móður. Mikið óskaplega er fallegt að horfa yfir Fjörðinn á svona fallegum morgni. Hvílík kyrrð, hvílíkt útsýni. Hvílík lygi.

Endalok sauðfjárbúskaps!

Það tók ekki langan tíma hjá núverandi ríkisstjórn að taka þá ákvörðun að stefna að endalokum hefðbundins landbúnaðar í Íslandi. Enginn möguleiki er fyrir íslenska bændur að keppa við innfluttar landbúnaðarvörur í verði. Gæðin segja fátt í þessu sambandi, verðið verður það sem stjórnar því hvað keypt er.

Það er gott að þetta sé komið á hreint, þá er einfaldlega hægt að pakka saman í sveitum landsins, hóa fé af fjalli í haust og leiða til slátrunar. Mikill munur verður að ferðast um landið eftir þessa stórkostlegu  breytingu, ekkert sem truflar höfuðborgarbúann á ferðalaginu, engar vegarollur, engir bændur á afgömlum traktorum að flækjast fyrir.

Reyndar verður nú eitthvað lítið um þjónustu, engar búðir, þannig að innflutta hráa kjötið verður að kaupa í Reykjavík og hafa í kæliboxinu, sjoppur fáséðar og því verða rauðu bensínbrúsarnir,  sem kanninn var auðþekktur af, aftur komnir á topp bílanna sem um landið dröslast. Já, dröslast, í það minnsta um Suðurlandið, því enginn virðist viljinn hjá ráðherrum þessarar ríkistjórnar vera til að leggja peninga í vegabætur í dag, hvað þá þegar þeir verða búnir að hrekja 90% íbúanna í burtu með illa ígrunduðum lagasetningum.

Það er vont fyrir bændur landsins að hafa svona ráðherra í brúnni. Ráðherrar þessarar ríkistjórnar eiga eftir að koma flestu í hendur einkaaðila, Baugur flytur til okkar ketið á góður verði, þangað til íslenska ketið verður horfið, þá selja þeir það dýrt.
Heilbrigðisþjónustan verður orðin einkavædd innan fárra ára, ríkið veður orðið svo aumt að við verðum einfaldlega sett í hendurnar á þeim í Brussel.

Þetta er ekki góð stjórnun.


mbl.is Landbúnaðarráðherra boðar tímamótabreytingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimþrá

Feikigott veður er hér í dag og ekki laust við að hugurinn hvarfli í heimahagana. Hætt við að þar sé nú sinan ein enn um sinn en innst inni finnst manni þar allt vera í blóma árið um kring.

Held ég skelli mér, eða ekki... og þó ?

( Sumum þykir skrítið að vera með heimþrá á annan stað en heim. Á maður þá heima á réttum stað ?)


Mosfellingurinn Karl Tómasson

Fyrir nákvæmlega 19 árum, þann 1. apríl 1989, fékk ég vinnu við smíði sumarbústaða i Mosfellssveit. Þa' var snjór þennan morgun en fallegt veður. Mennina þekkti ég ekki neitt sem ráku þetta fyrirtæki en frændi minn útvegaði mér þessa vinnu,  þar sem hann vissi að ég hafði unnið við smíðar sumarið áður.  Ég var með dálítinn kvíða,  svona aleinn sveitamaðurinn

. Á planinu fyrir framan gamla fjósið á Blikastöðum stóðu 3 bústaðir, misjafnlega langt komnir.  Hér var verk að vinna.

Ég heyrði að bræðurnir, eigendurnir,  ræddu um það hvort rétt vææri að láta þá vinna saman Helga og Karl. Þessi Karl var einnig að hefja störf  þennan dag. Það setti að mér enn meiri kvíða. Karl!  Ég þekkti engan Karl og hafði aldrei gert. Karl var stórt nafn á manni, ekkert komst nær því að lýsa manni en að heita einfaldlega Karl.  Eitthvað sem þurfti ekki nánari útskýringar við.

Karl þessi koma líðandi eftir Blikastaða afleggjaranum á bílnum sínum. Það var 1974 módelið af Ford Bronco, appelsínugulur. Bíllinn sagði mér að hann var greinilega orginal maður, án aukahluta.  Kvíðinn náði hámarki.  Karl þessi stökk inn, léttur í fasi og ég sá að kátínan og hlýlegt viðmótið hlaut að gefa svolítið tóninn og ég róaðist mikið. Við unnum saman þenann dag og marga aðra daga í næstu mánuðum. 

Svona byrjaði kunningsskapur okkar Kalla, kunningsskapur sem átti eftir að eflast jafnt sem árin liðu.  Ýmislegt brallað, hlegið og gert að gamni sínu, rætt um heima og geyma. Mágur minn segir að Kalli hafi bjargað tónlistarsmekk mínum frá glötun en þar kynntist ég alvöru rokki og róli, alvöru tónlist. Tónleikar með Gildrunni, á Fimmunni, Tveim vinum, Þrúðvangi og mikið fleiri stöðum voru sveitamanninum ómetanleg upplifun, stórkostleg skemmtun. Karl var í forsvari sveitarinnar og hann naut virðingar sveitunga sinna,  vina sinna,  tónleikagesta og veitingamannanna, ásamt einfaldlega öllum þeim sem þekktu til hans Kalla.  Það reyndist rétt sem ég óttaðist þarna 1. apríl um árið,  þessi maður stóð algerlega undir nafni, þurfti ekki útskýringar við eða sérstakrar skrúðmælsku, það var nóg að kynnast honum, þarna var vænn maður.  

Þetta kann að hljóma eins og minningagrein um látinn vin en hvað gerir það til þó hann lesi þetta líka. Nú svo er ekkert víst að ég lifi hann, sem betur fer veit nú enginn hvernig það allt endar.  Mér er það einnig til efs að hann hafi áttað sig á því hverslags móttökur hann fengi og hvernig ágjöfin yrði í moldviðri pólitíkurinnar. Mér hefur hingað til ekki verið skipað í sama flokk og vinur minn Karl,  hef  hingað til ekki viljað kenna mig við Vinstri græna. En vinátta skal yfir flokkapólitík hafin, eigi maður vin,  virðir maður skoðanir hans, setur hann ekki út t í horn fyrir það að vera með aðra skoðun á einhverju máli eða tilheyra öðrum hópi í einhverju.   Ég hef alltaf sagt að þeir sem gefa sig í  pólitík verða að hafa skráp til að þola gagnrýni. Málefnaleg gagnrýni er eitthvað sem allir þurfa að vera í stakk búnir til að taka á móti í þeim bransa.

 En ég verð að segja að sú gagnrýni sem Kalli hefur á sig fengið í Mosó hefur ekki öll verið upp á marga fiska.  Ótrúleg skrif fólks sem er á annari skoðun en Kalli,  birtast á bloggsíðu hjá Vísi.is, hjá persónugervingi sem nefndur er Valdi Sturlaugz. Sorasíða sem virðist einungis vera haldið út til að lítilsvirða Karl Tómasson, forseta bæjarstjórnar Mosfellsbæjar og vini hans.  Er þar skrifað undir hinum ýmsu dulnöfnum en tjáður Valdi fer þar með völd.   Má þar sjá samsvörun við ýmis skrif fólks sem hefur farið offari að mínu mati geng persónu Kalla. Hef ég aðeins reynt að bera hlaupa undir bagga með Kalla,  bent þessu fólki á ýmis ósannindi eða villur sem það hefur farið með. Þetta fólk hefur svarað mér  fullum hálsi, hent að mér gamni og reynt að gera lítið úr mér fyrir það eitt að standa við bak vinar míns.  

Einu sinni setti ég inn athugasemd á bloggið hjá Gunnlaugi B Ólafssyni, talaði þar á léttu nótunum um girðingavinnu, eða öllu heldur niðurrif girðinga og einmitt þann sama dag setti ég eitthvað álika á síðu Valda Sturlaugz. Gunnlaugur eyddi athugasemd minni af síðu sinni og bað mig um að láta sig ekki þurfa að eltasts við dritið mitt út og suður. Hvað átti hann við með þvi?  Átti hann þar við gbo.blog.is  og blogg.visir.is/valdist. ? Sennilega, því eins og hefur verið bent á, er líklegt að síðunni sé haldi út af hópi fólks sem finnst það hafa harma að hefna gagnvart Kalla. Tala “út og suður” um lýðræðisleg vinnubrögð en vilja samt aðeins að þeirra sjónarmið verið ofaná. Gleyma því að kosið var til bæjarstjórnar einmitt í lýðræðislegum kosningum og meirihlutinn myndaður eftir þeim leikreglum sem í gildi eru.

Ótal dæmi get ég talið upp sem benda í sömu átt en sjón er sögu ríkari.  Ef einhver hefur vogað sér að vera á sömu skoðun og Kalli, að ég tali nú ekki um að vera á móti “þeim”, er hann samstundis jarðaður á sorasíðu Valda Sturlaugs. Má þar nefna Hjördísi Kvaran, konu sem gerði ekki annað en reka ósannindi framan þetta fólk, gerði það kröftuglega en án dónaskaps. En fram af henni var gengið þegar persóna hennar var í svaðið troðin og svaraði hún því í sömu mynt.

Mikil skömm er af  svona fólki, fólki sem eru slíkir hugleysingjar að þora ekki að koma undir nafni. Ég hef fengið minn skerf af þessu meðali og nafnlausar sendingar. Sendingar sem koma úr sama fyrirtæki og frænka mín vinnur hjá.  Stundum  kommenterar hún á bloggsíðu mína úr vinnu sinni, og sá ég þannig að nafnlausi maðurinn, “ frændi”,  hefur aðgang að tölvu á sama stað.  Þar vinna, Íris frænka mín, Ása Stína frænka mín og Gunnlaugur B Ólafsson.  Fleiri þekki ég ekki i Borgarholtsskóla. 

Ég vona að ég eigi ekki eftir að sökkva svona djúpt í fúafen hatursins,  vona að Guð gefi mér áframhaldandi heilsu til að sleppa við slíkt.  


Skaftárhreppur- griðland fuglanna

Mér hefur áður dottið í hug hvort við getum ekki friðað alla fugla í Skaftárhreppi, sleppt því að veiða nokkurn einasta fugl.  Fuglarnir eru hvort eð er ekki svo margir, bölvað ónæði af skyttunum, ljúgandi hver að öðrum um hver er með leyfi hvar, vaðandi um lönd heimamanna án þess að spyrja kóng eða prest.  

Ég held að það sé tímabært að íhuga þetta, allavega gagnvart þeim fuglategundum sem ekki gerir nokkurn hlut til þótt sé svolítið sé af í náttúrunni. Má þar nefna rjúpuna og andategundirnar allar. Skokkandarpörin á læknum heima hafa verið sjálfsagður hluti af tilverunni á Fossi hingað til en nú sjást þær ekki, vegna skotglaðra manna sem enganvegin geta hamið sig og sína drápsfíkn.  Gæsin á það til að gera usla í túnum en það er varla orð á því gerandi, frekar að álftin skemmi á vorin, en hún er nú þegar friðuð.

Prófum að friða hreppinn í svo sem 4 ár, sjáum hvort þessi unaðsreitur verði ekki enn betri, þar sem náttúran og maðurinn eru í fullkominni sátt.

Kv-Helgi

 


Vorveiði- veiðimennska eða villimennska?

 Ég ætla svo sannarlega að vona að svokallaðir “veiðimenn” sem nú æða út í skaftfellsku árnar, fái ekki bröndu. Ekki á ég von á að mér verði að ósk minni, vegna þess að fiskurinn sem nú er á niðurleið bítur á hvað sem er. Það er gott fyrir menn sem veiða yfirleitt lítið að fara í vorveiði. Einnig er það gott fyrir menn sem ekki hafa þroska til að bíða eftir að fiskurinn komi til baka að skella sér í vorveiði. Vorveiði er kjörin fyrir menn sem ná ekki að kallast veiðimenn.

Á seinni árum hafa menn sem betur fer farið út í að veiða aðeins á flugu og sagt er að veiðinni sé sleppt, ef hægt er. Það er nú líka það eina sem hægt er að gera við niðurgöngufiskinn, nema ef vera skyldi að setja hann í ruslagáminn á Klaustri, eins og sagan hefur sannað.

Þessir menn sem vorveiðina stunda, vilja meina að þeir séu að veiða nýgengna fiska. Það fer fjarri sanni en þeir kunna að líta út sem slíkir, gljáandi á hreystrið og lúsugir. Það er hinsvegar vegna ferða fisksins fram og til baka fram að sjó og upp í ánna til að ná rétta saltmagninu í sig, kallast að smolta sig.

Mér þykir það súrt í broti að horfa upp á þetta háttarlag, áratugum saman, án þess að nokkur hreyfi mótmælum. Landeigendur sjá þarna aura og á meðan þetta er löglegt verða alltaf nokkrir gráðugir landeigendur sem þetta leyfa.

Látum af þessum ósóma, gefum náttúrunni smá sjens.

KvHelgi Pálsson. 

Jökulsárlónið hverfur brátt

Menn hafa áhyggjur af breytingu á Jökulsárlóninu sem Jökulsá á Breiðamerkursandi rennur úr. Menn telja að þarna verði stór og mikill fjörður innan fárra áratuga. Menn hafa af þessu áhyggjur, austan Jökulsár. Við vestanmenn ættum hinsvegar að kætast hið mesta af þessu afturhvarfi til fortíðar, þegar hringvegurinn rofnar við þessar breytingar.  Ný tækifæri gefast í ferðamennskunni, ferðamaðurinn æðir ekki lengur austur á land, heldur hægir ferð sína þegar birta tekur við Skálmina eftir slagviðri Mýrdalsins. Bílarnir fara að ná fyrri gangi, þræðir og lok þorna og vinnukonurnar hætta að æða fram og til baka eftir framrúðunni. Brátt blasir jökullinn við og Síðufjöllin lyftast við sjóndeildarhring. Fagur er á fjöllum, hugsar ferðamaðurinn og hlakkar svo sannarlega til dvalarinnar.

Þegar ferðamaðurinn hefur ákveðið hvar hann gistir, hvort hann er á Bökkunum, Geirlandi, Efri Vík, Núpum eða Hvoli, er tími til að ákveða hvað gjöra skal næstu daga. tilvalið virðist í fyrstu að aka upp á Skaftárvirkjun, taka bátinn þar og sigla um Lakagígana. Jafnvel stoppa á Laka sjálfum, fara þar úr bátnum, rölta upp  á topp og fá sér síðan veglegan hádegisverð á veitingastaðnum sem þar verður, velja sér lamb, velja hvort að sé alið í Tröllahamri, Langaskeri eða í Laka sjálfum. Það yrði að vísu dýrasta steikin.

Eftir þessa dýrðarstund er beðið eftir næstu ferð bátsins og farið á ný í bílinn niður við virkjun. Farið heim á hótel og næsti dagur skipulagður. Þá er líklegt að farið verði í Skaftafell, menn skoði sig um þar og skreppi um kvöldið austur að Jökulsá og skoði þar Jökulsárstofu, þar sem hægt verður að skoða myndir af hinu forna lóni.

Svona getur hver dagurinn á fætur öðrum liðið eins  og í draumi, í faðmi stórkostlegrar náttúrunnar, þar sem hún og heimamaðurinn hafa náð fullri sátt.

Með kveðju- Helgi


Malbikið burt

Það er komið að þvi að við tökum upp malarvegina á ný. Gömlu góðu malarvegirnir verða það sem við eigum eftir að venjast á ný, vegirninr semvoru með sínum ávölu og formfögru holum, sem hver hafði sinn karakter. Hverri einustu holu þurfti maður að kynnast vel, það vel að ekkert gæti komið í veg fyrir samlyndið á milli hennar og ökumans. ´

Með þessu næst verulegur ávinningur. Ökuhraði minnkar og þar með alvarlegum slysum, dekkja og bifreiðaverkstæði landsbyggðarinnar blómstra sem aldrei fyrr, svifrykið breytist úr tjörujukkinu i vistvænt ryk, mold og drullu.

Vegir landsins eru nefnilega að eyðileggjast með síauknum landflutningum, sem eru tilkomnir vegna aflagningar strandflutninga.  Undirlag veganna eyðilegst í titringi þungaflutninganna, slitlagið gefur sig og lífshættulegar holur myndast. Þessar holur eru allt annarara tegundar en þær gömlu góðu sem við þekktum, skarpar brúnirnar á hyldjúpum skelfingunum stórskaða bifreiðarnar þegar þær, á ofsahraða skella með látum þar á . Auðveldlega getur slík bylta endað með skelfingu.

 Já, enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur, blessaðir malarvegirnir.


Páskarnir/ Hvítasunnan

 Páskarnir verða ekki aftur svona snemma aftur fyrr en tvöþúsund tvöhundruð og eitthvað, sagði veðurfræðingurinn.  Það er gott því mér þykja páskarnir of snemma. Allt í kulda, trekki, skít og drullu, klaki í jörð og fátt hægt að gera að viti. Drekka kaffi og spæna aðeins um á hjólinu. Koma til baka með hor afturá háls, gaddaða fingur og götótta sál.

Afleysingayfirtrunta fjölskyldunnar stakk upp á því að skipta á páskunum og Hvítasunnunni. Víxla bara. Hvítasunnan er hvort eð er allt og stutt. Þá gæti landinn stormað í sveitirnar og tekið til við sauðburð og annað ganglegt í sveitinni á meðan pólverjarnir lumbra hver á öðrum í bænum.

Mér líst vel á þessa hugmynd Díönu frænku, með því skásta sem frá henni hefur komið lengi. Er hún þó talin frekar málgefin.

Ef þetta hefði verið orðið, hefði göngutúr fjölskyldunnar ekki verið á móti NA garranum í dag, heldur hefði suðvestan blærinn strokið vanga. Sögustundin hefði að vísu verið til staðar en kjánahrollurinn verið fljótari að hverfa. Börnin stokkið um holtin á eftir mófuglinum sem í forundran flýgur af einum steininum á annan. Flekkótta ærin sem Veiga gaf afa þeirra stendur hjá og segir fátt. Horfir róleg á leik barnanna, barnanna sem ærslast langt fram á kvöld. Þar sem páskarnir yrðu seinnipart maí, skiptir ekki máli hvað þau vaka lengi, hvort þau sofna kl 10 eða vaka fram á morgun. Vaka svo lengi að þau verða vör við það þegar Hrossagaukurinn fer í ró um miðnóttina. Vaka jafnvel svo lengi að þau upplifa sælu og dýrðarstundina þegar Gaukurinn sá vaknar til lífsins með morginum, hlusta á Gauk sælu í suðri, sofna svo hjá pabba sínum, værum blundi út í Guðsgrænni náttúrunni.

Já, færum páskana.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband