Föstudagur, 29. janúar 2010
Sandurinn
Og ekki voru sandsmalanir síðri. Seint á vorin var farið á sandinn og féð rúið þar. Einhvernvegin í minningunni var vestan logn alla morgna, Fossinn með sinn hugljúfa hljóm, hundarnir stökkvandi um hlaðið og allt það. Beljurnar bíta gras í brekkunni, blágresið, gleym-mér-eiin og vinnukonurnar allt um kring.
Kallarnir hafa litið út í öll þessi ár eins og þeir líta út í dag, svipsterkir, hvassbrýndir og enganvegin neitt sérstaklega fyrir augað. Innri hafa þeir þó fegurri menn að geyma.
Réttirnar á sandinum voru nokkrar, Sléttabólsrétt, þar sem mest allan tímann var réttað í einu lagi og stóð réttin langt fram á nótt, stundum til kl 8 á morgnana. Sigríður á Hraunbóli og Veiga á Sléttabóli sáu mannskapnum fyrir mat og drykk, kaffi í glerflöskum, stungnum í ullarsokka og terturnar svo margar, fallegar og góðar að annað eins verður aldrei gert, og þá meina ég aldrei.
Á ýmsu gekk í þessum smölunum, svæðið stórt og smalar frekar fáir, allir á hestum. Frikki í smalaskapinu sínu, einbeittur og ákveðinn, ákveðinn í að koma fénu heim í rétt.Svo langt gat orðið á milli smala að ekki sást á milli, er þó þetta svæði marflatt. Hvílík víðátta og ýkjum líkast.
Ofar á sandinum, á svæðunum var Svæðnarétt. Færra fé og vel viðráðanlegt að mati okkar krakkanna. Sú rétt er fram af Tangalæknum, læknum sem gengur fram úr hrauninu á leið fram að Hraunbóli. Réttarbyrgið stendur út á miðri sléttunni og því ekki fyrir neina aukvisa að koma fénu þar inn. Það gekk alltaf vel.
Þarna voru Foss og sandmenn, ekki fleiri.
Það gekk aldrei og hefur aldrei gengið, fé frá öðrum bæjum en Fossi og sandbæjum, Hraunbóli, Sléttabóli, Hruna, Sléttu og Teygingalæk, á Brunasandi, sandinum austan Fossála.
Þegar þarna var komið við sögu var komið fram í heyskap, kallarnir farnir að ókyrrast, færri brandarar en í fyrri réttum eða kannski búið að segja þá alla í þessari síðustu vorrétt vorsins.
Ærnar skokkuðu frá réttinni, skokkuðu áleiðis fram í á Svæður eða jafnvel fram í mela, þangað sem þær voru nýbúnar að koma sér þegar smala bar að garði.
Ómetanlegar eru þessar stundir æskunnar, verður vart með orðum lýst.
Athugasemdir
Gaman að sjá að þú hefur firrt þið bloggvinaútstrikun.
Sigurður Hreiðar, 29.1.2010 kl. 15:32
Já, það var ekki um annað að ræða...allt komið á eindaga :)
HP Foss, 29.1.2010 kl. 16:01
Eindagarnir eru víða þessa dagana kæru vinir.
Bestu kveðjur úr Tungunni frá K. Tomm.
Karl Tómasson, 29.1.2010 kl. 17:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.