Færsluflokkur: Bloggar
Fimmtudagur, 8. maí 2008
Og enn á fjöru
Enn var komið að því að fara á fjöru. Fossmenn höfðu hug á því að athuga með reka á fjörunni sem var nú öll orðin austan við Síkið. Það var fallegur sólríkur dagur á Fossi þennan júní morgun. Kýrnar voru komnar út í haga og hundarnir stukku um hlaðið fullir eftirvæntingar . Farið var á traktorum með vagna og gúmmíbáturinn sem Fossmenn fundu á fjörunni um árið var með í för. Við strákarnir sátum í bátnum sem var á einum vagnanna .
Hugur var í mannskapnum og máttum við þakka fyrir að tolla á tuðrunni þegar vagninn fór í verstu holurnar og við skutumst upp í loftið eins og pílur. Ekki hefur þetta þótt árennilegur hópur sem brunaði fram fjörugötuna og hefði eflaust ókunnugur maður orðið smeykur að mæta slíkri fylkingu. Jafnvel þó hann hefði þekkt til. Þarna voru Foss- og Sandmenn mættir, gráir fyrir járnum.
Á augabragði voru menn komnir að Síkinu. Fór hver maður á sinn stað og leysti sitt verk af hendi, fumlaust. Báturinn var gerður klár, pumpað í þau hólf sem voru orðin vindlaus síðan heima á Fossi, árarnar á sinn stað og mannskapurinn hoppaði um borð. Fleytan var fullmönnuð.
Einn var hafður þar sem venjulega er hafður mótor en þar sem enginn var slíkur með í för var notast við stunguskóflu. Reyndar voru árarnar allar af þeirri tegundinni. Restin af áhöfninni raðaði sér til helminga, ýmist á bakborða eða stjórnborða, utan eins, sem var greinilega formaðurinn, því hann sat í stafni og stjórnaði áralagi og hélt uppi andanum í hópnum ásamt lífsvon.
Var þessu stjórnað af mikilli röggsemi, með miklum hrópum, köllum, skömmum og handapati. Fórst honum þetta vel úr hendi.Af öryggisástæðum var hafður vaður úr bátnum í land. Fengum við þrír sem þar voru það hlutverk, að gefa slakann og standa klárir færi eitthvað úrskeiðis. Ekki voru þeir komnir langt frá landi þegar áhöfnin tók að ókyrrast. Menn æddu fram og aftur um bátinn og hafði formaðurinn upp þvílík köll að heyrðist langleiðina upp að Sléttabóli. Var þá vatn tekið að flæða inn í bátinn af miklum krafti. Þarna var augljós hætta á ferðum þar sem helstu höfðingjar sveitarinnar voru saman komnir í einum báti sem var að fyllast af vatni og virtirst ekki eiga annað eftir en sökkva til botns.
Réðust menn í það að finna upptök lekans, um leið og aga var aftur náð. Sáu menn þá hvers kyns var, skóflan í skutnum hafði kippt neglunni úr gatinu. En sem betur fer hékk hún þar í spotta og var snarlega sett á sinn stað. Var þar bráðri hættu afstýrt af mikilli fagmennsku, enda menn með áratuga reynslu af útræði.
Þá var ausið og för haldið fram. Við gáfum út vaðinn eftir því sem þeir mjökuðust út í óvissuna. Út í miðju Síki fór að taka í og hægja á körlunum, þá löngu komnir úr kallfæri og loks stoppaði fleytan. Vissum við ekki hvað var á seyði, svipað uppnám var meðal áhafnarinnar og þegar neglan fór úr, þarna við bakkann í upphafi ferðar, og gerðum við okkur strax grein fyrir alvöru málsins. Þarna voru þeir mitt í úthafinu, bjargarlausir og greinilega vitstola af hræðslu.
Urðu menn nú að bregðast skjótt við ef eitthvað ætti að vera hægt að gera í málinu. Við sáum að þeir voru að niðurlotum komnir, jafnvel að menn væru að gera sig líklega til að stökkva frá borði, því frá landi séð var eins og menn væru komnir með annan fótinn í beljandi jökulvatnið. Myndi slíkur skaði seint bættur. Það var talið erfitt að smala í Mýrdalnum eftir að Ragnar á Höfðabrekku velti bíl sínum í Kerlingadalsánna með alla smalahunda sveitarinnar meðferðis. Þar komst aðeins einn lífs af, Ragnar sjálfur. Ekki er gott að ímynda sér smalamennsku á Fossi með eintóma hunda en öngva karla. Hætt við að það færi handaskolum.
Tókum við þá til við að toga bátinn með karlagreyjunum í land og forða þeim þannig frá bráðum bana. Þeir nálguðust óðfluga enda toguðum við sem mest við máttum. Þarna sátu þeir, flötum beinum og áttum við von á að sjá ljómann í andliti þeirra yfir þessum snöru handtökum og frækilegu björgun.
En við gátum ekki greint gleði í andlitum þeirra þegar þeir renndu að bakkanum. Var lífsreynsla þeirra slík að öll gleði væri horfin úr þessum léttlyndu körlum á einni svipstundu? Nei, þeir voru öskuillir og í stað þess að fá þakkir fyrir afrekið fengum við skammir fyrir uppátækið. Við vissum ekki hvaðan á okkur stóð veðrið þar sem við lágum lafmóðir og másandi eftir átökin. Þeir voru þá víst aldrei í neinni hættu.
Sögðust hafa strandað á sandeyri og voru alveg að komast yfir hana, með því að sitja klofvega á flotholtunum og mjaka bátnum áfram með annarri löppinni. Þá skyndilega hafi þeim verið kippt afturábak þannig að þeir þutu til baka, á tíföldum þeim hraða sem þeir sjálfir gátu með góðu móti náð.Við á vesturbakkanum vorum skömmustulegir þegar við tókum til við að gefa út vaðinn aftur.
Ferðin þeirra í þetta skiptið tókst vel og komust þeir einnig til baka.En ef eitthvað hefði farið úrskeiðis í þessari seinni tilraun, þá er ekki gott að segja til um það hvort við hefðum brugðist við af sömu snerpu og áður. Ekki er einu sinni víst að við hefðum bara yfirleitt tekið eftir nokkrum sköpuðum hlut.
Bloggar | Breytt 6.12.2013 kl. 23:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 7. maí 2008
Aftur á fjöru
Þegar Roverarnir voru um það bil að ná hámarkshraða á rennisléttum ísnum, þar sem Helgi litli 10 ára sat á hækjum sér aftan við varadekkið , stífur af spenningi í þessari miklu kappkeyrslu og Bjarni í Miðbænum stjarfur af hræðslu í framsætinu, brast ísinn undan okkur og ég þeyttist af alefli upp í toppinn og þar eftir niður á gólfið . Roverinn tók þvílíkt stökk upp úr þessari vilpu, enda á ofsahraða, að sá undir öll hjól. Ferðin hélt áfram eins og ekkert hefði í skorist og þetta væri ósköp venjulegur akstursmáti þeirra Fosskarla.
Á fjöruna var alltaf gaman að koma, að sjá sjóinn þegar ekið var fram á kambinn í kollunum. Í þá daga var ekki farið oft á fjöru, í það minnsta ekki eins og síðar varð ,þegar ferðirnar voru reglulegar, nokkrum sinnum í viku. Þessar stundir með Fossköllunum verða alltaf kærar í hugskoti mínu, karlarnir alltaf léttir og skemmtilegir,sagðar sögur og mikið hlegið. Þá var alltaf komið í skýlið og jafnvel étið þar nesti.Fjaran gat oft reynst erfið yfirferðar, barðarnir sukku í gljúpann sandinn og þá dró niður í 62ja hestafla díselmótorunum sem þó yfirleitt skorti ekki afl. En fram með Hvalssíkinu var för heitið og fram í flæðarmál. Þar var harðara undir og það var eins og við manninn mælt, upphófst þessi líka kappaksturinn. Við sjóndeildarhring hillti undir eitthvað sem menn höfðu ekki áður séð og stefna þeir þangað, í rauðabotni. Aldrei bar mikið í milli, báðir fóru svipað hratt yfir og nálguðumst við hið óþekkta óðfluga. Var þetta hvalur? ekki tré, Hnúfubakur? sjórekinn maður? Nei, þetta var gúmmíbátur. Sódíakk af bestu gerð. Þótti þetta mikill fengur og menn æði búralegir yfir þessu. Sáu menn fyrir sér að nú yrðu háskalegar ævintýraferðir austur yfir Síki með öðru sniði og hættuminni. Aldrei verða slíkar ferðir samt með öllu hættulausar enda höfðu menn drukknað í Hvalssíkinu hér á árum áður. Bátnum var skellt á toppinn á þeim bláa og haldið heim.
Ekki man ég annað en heimferðin hafi gengið vel, Siggeiri skilað heim til sín og voru menn bara æði sperrtir að renna í hlað með þennan feng. Báturinn hefur verð notaður æði mikið í ferðum Foss- og Sandmanna austur á fjörur með misjöfnum árangri en alltaf hefur ýtrustu varkárni verið gætt í meðferð þessarar fleytu. Það er önnur saga og verður sögð á morgunBloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 6. maí 2008
Fjöruferð
Ferðin gekk ekki vel og tók það okkur u.þ.b. 4 klst að paufast niður að Breiðuleiru. Siggi fór fremstur á Zetornum atturdrifna, alkeðjaður og þurfti að brjóta sér leið í gegnum ísinn sem ekki hélt en var samt hnausþykkur. Það hafðist að lokum og eftir að menn höfðu kastað óþolinmæðinni, var stefnan tekin á austasta melkollinn. Siggi fremstur og allt gefið í botn eftir allt helv. hjakkið.
Rennisléttur ísinn sindraði í vestanáttinni og steig ég Massann í botn á eftir Jónssyni. Hann var með gamla sturtuvagninn attaní og það var eins og skrattinn hefði sturtað honum niður, traktorinn á nasirnar, niður um skel og hafnaði á 30 sm þykkum ísveggnum . Hann stöðvaðist á lengd sinni á augabragði.Hundarnir sitthvorumegin við Sigga, þeyttust fram í rúðu á hraða ljóssins. Skyldu þeir ekki hafa orðið hissa? Siggi greyið skutlaðist í stýrið sem bognaði. Vagninn attaní var fullur eftirvæntingar og gáska og fékk þetta líka höggið á nefið.
Ég tók strax til við að hægja niður ferðina á Massanum sem var kominn á fulla gjöf og á þvílíka ferð að ekki var ljóst í fyrstu hvernig að verki yrði staðið. Með lagni gekk það, enda Massinn vel búinn til aksturs að vetrarlagi. Siggi skjögraði út úr vélinni og eftir smá basl og viðgerðir höfðum við hann upp.
Ferðir Fossmanna austur yfir Hvalsíkið hafa aldrei verið neitt sérstakt hættuspil, menn ganga á undan með fimmtíu kílóa járnkarla enda myndu menn, "drukkna eins og kettir í poka" ef ísinn gæfi sig.
Þegar á fjöruna var komið var rekaviðurinn um allt, eins og skæðadrífa en allur beingaddaður niður í sandinn. Hefðu ekki allir menn haft burði til að ná þessum djöfsum lausum en allt gekk þetta að lokum . Heimferðin gekk vel, timrið dregið að Syðstubót og sótt seinna. Með kveðju, Helgi Páls.Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur, 5. maí 2008
Íslenska þjóðin á móti Lúpínunni
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 2. maí 2008
Óheiðarleg íslensk olíufélög
Með ólíkindum er að fylgjast með þessum félögum grípa hvert tækifærið sem gefst til að hækka en þegar færi er á að lækka, Þá koma útskýringar sem ekki einu sinni börn kaupa.
Hættum að kaupa nokkuð annað en það eldsneytið af þessum óheiðarlegu mönnum.
Óþarfi er að styrkja þá enn frekar með kaupum á matvöru og öðru slíku sem hægt er að fá annarsstaðar.
Olíuverð lækkar enn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 30. apríl 2008
Skaftfellskt vor
Brekkurnar okkar fyllast angan af gróðrinum og sinan hverfur undir iðagrænan svörðinn. Ræfilslegt jarm rýfur þögnina, ærnar komnar að burði. Fossinn skartar sínu fegursta í sólskininu, skaflinn nýfarinn og sólskríkjan hefur orpið í grenitréð sem pabbi gróðursetti, sumarið sem hann gaf mér folaldið.
Vinnumennirnir koma einn af öðrum, með splunkunýja takta eftir veturinn. Allt er svo unaðslegt á þessum dásamlegu dögum. Menn og skepnur leika við hvern sinn fingur og sletta úr klaufum. Amma með pönnukökurnar tilbúnar þegar við komum inn eftir leiki kvöldsins og þeim skolað niður með ískaldri mjólkinni.Já, það eru forréttindi að fá að alast upp við slíka hamingju. Þessi hamingja æskunnar á eftir að fylgja Skaftfellingi um ókomna tíð, alla tíð, ylja honum um hjartaræturnar þegar hann lætur hugann reika um ótal minningar. Þessa minningar eru það sterkar að hreinlega hvarflar að manni að um heimþrá sé að ræða eða átthagafjötra.Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 30. apríl 2008
Vinnutörn
Nú er komið að hinni árlegu 2ja vikna vinnutörn íslenska bóndans. Bóndinn hefur kviðið þessari törn í 50 vikur, eða frá því törnin kláraðist í fyrra. Ekkert fær raskað einbeitingu bóndans þessar 2 vikur, fréttir af lækkandi gengi eða Meistaradeild Evrópu hreyfir ekki við þeim.
Hinar 50 vikurnar eru líka erfiðar. Þreytan er slík að allur þessi tími fer í að jafna sig og ef ekki væri göngutúrinn út í póstkassa að ná í beingreiðslurnar myndu þeir sennilega ekki ná að jafna sig fyrir næstu törn.
Já, hvílík törn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 27. apríl 2008
Sendingin frá Siggu á Prestsbakka.
Hér á eftir kemur frekar væmin saga þannig að vatnsberar og vogir eru beðin að vara sig.
Við fórum út að Prestsbakka. Sigga var með þessar líka kökurnar og í minningunni var heklaður dúkur á borðstofuborðinu, kakó, þeyttur rjómi, pönnukökur og flest það sem upp í hugann kemur þegar hugsað er um góðgæti. Það kann að vera að þetta hafi verið eitthvað allt annað en hjartalag Siggu á Prestsbakka, vingarnlegheit og hlýja, verður þess valdandi að maður man þetta svona. Ég var fljótur að drífa í mig sætindin því kötturinn á bænum lá út í horni með 6 kettlinga, nýlega fædda.
Á meðan mamma ræddi við Siggu og Pabbi við Jón, lá ég í kettlingahópnum. Sérstaklega var einn þeirra blíður við mig, lá hjá mér og vildi láta gæla við sig.
Þarna var ég langt fram á kvöld og heimsókn þessi fellur aldrei úr mínu minni, er reyndar ekki viss um að ég hafi í annan tíma farið í heimsókn að Prestsbakka. Ekki nema til að ná í plóg eða eitthvað annað sem Búnaðarfélagið átti.
Morgun einn nokkrum vikum seinna, þegar ég fór á fætur, sátu pabbi og mamma frammi í eldhúsi og voru skringileg á svipinn. Þennan svip þekkti ég svo sem , það var eitthvað í vændum og það ekki af verri endanum. En hvað það var, gat ég nú ekki vitað.
Mér var bent á að kíkja inn í herbergi, sem ég gerði. Stóð þar á miðju gólfi, kettlingurinn frá Prestsbakka, leit á mig og mjálmaði góðlátlega.
Köttinn nefndi ég Kisu, sennilega lítið frumlegt en mikið óskaplega var þetta mikill vinur minn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 19. apríl 2008
Lúpínan- þunglyndi rofanna.
Veturinn er loks að baki. Hálfgerður leiðindavetur þar sem skafið hefur í afkima sálarinnar frá því fyrir jól. Fannbarin rofin hafa látið á sjá og tekur þau langan tíma að verða eins og áður. Þessi rof sálarinnar hafa rokið á haf út, sokkið til botns í Faxaflóann. Fátt er til ráða, best er að láta hlutina jafna sig á sinn hátt, grípum ekki inní gang náttúrunnar með gerræðislegum ákvörðunum, látum ekki umhverfissóða vaða áfram með lúpínufræ í poka, skvettandi til hægri og vinstri, án nokkurrar hugsunar. Hugsunarleysis sem á eftir að verða okkur dýrkeypt. Lúpínan á eftir að kaffæra sálarró gróandi rofa, spilla þeim og eyða endanlega, vakni menn ekki til vitundar.
Fátt er fegurra en rofabarð í eðlilegum gangi náttúrunnar, minnkar, grær, verður aftur að fallegri torfu, stækkar, hækkar, byrjar aftur að eyðast, fýkur á brott. Næringarefni rofabarðsins verða kærkomin á grýtta mela, mela sem ekki áttu von án þeirra. Von melsins felst ekki í að hópur skólakrakka frá útlöndum vaði yfir þá undir stjórn illa upplýstra leiðbeinanda, sem oft á tíðum hafa lítið annað en kennarapróf upp á vasann.
Förum varlega í skottulækningar hvort heldur er á líkama, sál eða íslenska náttúru.
Látum fagmenn annast þessi mál.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Mánudagur, 14. apríl 2008
Móðuharðindin hin síðari.
,,1783 tók sá alvitri guð að, bæði í vöku og svefni að benda mér og öðrum að vér skyldum taka vara á oss og búa oss við yfirhangandi og ókomnu straffi. Eldroði sást á lofti og teikn, ormar og pestarflugur á jörðu, skrímsli í vötnum og eldmaurildi á jörðu, item; hljóð og veinan í hennar iðrum, vanskapan á nokkrum lömbum. Drambsemin sté upp, sem ávallt er fallinu næst. Marga skikkanlega menn dreymdi það sem eftir kom.''
,,Hér lifðu menn í sælgæti matar og drykkjar, sumir orðnir svo matvandir, einkanlegast þjónustufólk, húsgangs-lýður og letingjar, að ei vildu nema þá allra bestu og krydduðu fæðu. Drykkjuskapur og tóbakssvall fór að sama lagi, að á einu ári upp gekk hér í gildi, heimboð og þess kyns brennivín upp á 4000 fiska, eftir sem ég með öðrum vitanlega sannreiknuðum,
er svo hátt steig, að prestar fundust þeir hér, sem ei þóttust geta framflutt með reglu og andakt guðsþjónustugjörð nema fyrir brennivíns tilstyrk, hverjum og svo urðu síðan sín hús í eyði látinn og margra annarra sem féllu á sömu sveif.''
Þannig ritar eldklerkurinn í ævisögu sinni.
Óhugnanlega er þetta eitthvað líkt ástandinu á vorum dögum. ´
Ég ætla að hafa varan á.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)