Færsluflokkur: Bloggar

Sumarið '75

  Það var komið að slætti. Massinn var glansandi eftir veturinn, enda ekki nema veturgamall, glimrandi tæki, vökvastýri og veltigrind. Hann kom haustið áður, 1974, sumri seinna en til stóð. Það voru því miklar væntingar gerðar til þessa mikla grips. Sá morgun rennur mér seint úr minni, þegar pabbi sendi mig út á stétt einn morguninn. Ég var sex ára pjakkur og ætlaði vart mínum eigin augum að trúa þegar ég opnaði hurðina og sá'ann. Það var rigning þannig að hann hefur glansað enn meira fyrir vikið. Hvarflað hefur að mér að árin hafi myndað þennan mikla glans en ég sá það um daginn að svo er ekki, hann glansar hreint ekki neitt í dag.
Á nótunni frá Kaupfélaginu stendur:
3 brauð
1 sekkur hveiti
2 saltsteinar
1 Massey Ferguson
3 baunadósir

Sláttuþyrlan sem pabbi keypti af Ditta í Mörk var eins og hugur mans, dagsverkið með greiðunni var tekið á 3 klukkutímum. Það var hugur í Vesturbæingum þetta vor, a.m.k. mér og hundinum. Það var reyndar alltaf hugur í honum, blessuðum karlinum.

Ekki var maður nú til stórræðanna, þetta sumar, gat náttúrulega ekkert gert, náði ekki á kúplinguna á Massanum, fékk því ekki að keyra hann nema rétt til hátíðabrigða. Það var ekki fyrr en ég féll ofaní mýrarpyttinn í neðsta stykkinu í Surtteignum að ég fékk að keyra heim til að skipta um föt. Það var um haustið , þá sáu menn að þetta var allt í góðu lagi. Ég mátti ekki fara hraðar en í þriðja og lét hann þá snúast frekar létt í staðinn. Þórhallur tók á móti mér með aðfinnslum, ég setti það á bak við eyrað.

Oft lá mikið á í heyskapnum, brauðþurr taðan mátti ekki tapast út í veður og vind, henni var mokað upp á vagn með gamla Ferguson 59 módelinu, disel. Mokað í blásarann og svo brunað aftur út á tún að sækja næsta vagn. Þetta var, svona eftir á séð, hálfgert puð en menn þekktu svo sem bara meira puð í þessu sambandi. Heybandslestirnar voru liðin tíð en í fersku minni þeirra sem glaðir létu blásarann um að þeyta heyinu alveg inn í enda á hlöðunni og alveg upp í rjáfur.

Á sparidögum, mér þótti þeir dagar allavega spari, var rakstrarvélin sett aftaní Land Roverinn og sett í snúningsstöðuna. Síðan brunaði mamma um túnin og snéri heyinu eins of herforingi, ég sat við hlið hennar og þótti afar gaman.

Þetta voru, eins og svo margir aðrir dagar í sveitinni, góðir dagar.

 

 

 

 


Fegurð ungviðisins.

Ungviðið er alltaf fallegt.
Sakleysið algert, varnarleysið og traust Þess á móðurina sömuleiðis algert.

maí jún 2008 051

maí jún 2008 077

maí 2008 107


Leiðindaverk.

  En þá var komið að því. Í nokkrar vikur lá þetta í loftinu, við vissum að að þessu kæmi, ræddum það aldrei, nefndum það aldrei við nokkurn mann.  Þetta var skugginn sem fylgdi sólskinsdögunum, kvíðinn var undirliggjandi alla þessa daga fram að  þessum degi. Ekkert verk var talið leiðinlegra, ekkert verk í sveitinni. Þó var þetta verk óumflýjanlegt, sérstaklega ef vorið var rekjusamt. Við krakkarnir fórum þó í þetta möglunarlaust, ég held að ég geti sagt það, því ég man ekki eftir því að maður hafi maldað í móinn yfir því sem fyrir mann var lagt,  það var einfaldlega ekki einn af möguleikunum.

Sennilega er hluti af skýringunni sá að pabbi gekk sjálfur í mestu skítverkin, hlífði okkur krökkunum við því sem hann vissi að var okkur um megn að kljást við. Þetta féll þó ekki innan þess ramma, enda fyrst og fremst leiðinlegt verk, frekar en erfitt eða ógeðfellt.

Já, það var komið að því að þurrka ullina.

Ullarþurrkunþurrkun ullar á Halldórsstöðum í Laxárdal
( Við sáum líklega ekki ástæðu til að taka mynd af á þessum degi)

Réttin inni í Horni, í máli og myndum.

Þetta bull mitt um heimahagana verður til þess að heimþráin ( með einu enni) magnast upp og verður nánast óviðráðanleg.
Um síðustu helgi fór ég inn í Krókasker, inn i Horn, eingöngu til að rifja upp gamlar minningar og taka nokkrar myndir. Lokaði í leiðinni hliðinu fram í Þorpsheiði og hysjaði okkar upp úr drullunni.
maí 2008 160Gamla réttin i Horninu, framan í Krókaskerinu

maí 2008 162Hún hefur svolítið látið á sjá eftir að hætt var að nota hana en  ósköp er hún nú samt falleg, hver spýta hafði sitt hlutverk. Skrítið hvað hlutir geta haft mikla sál.

maí 2008 170Enda fer margt um hugann á svona stundum.

 

 

 


Sandsmölun

  Og ekki voru sandsmalanirnar síðri. Seint á vorin var farið á sandinn og féð rúið þar. Einhvernvegin í minningunni var vestan logn alla morgna, Fossinn með sinn hugljúfa hljóm,  hundarnir stökkvandi um hlaðið og allt það. Beljurnar bíta gras í brekkunni,  blágresið, gleym-mér-eiin og vinnukonurnar allt um kring.

Kallarnir hafa litið út í öll þessi ár eins og þeir líta út í dag, svipsterkir, hvassbrýndir og enganvegin neitt sérstaklega fyrir augað. Innri  hafa þeir þó fegurri menn að geyma.

Réttirnar á sandinum voru nokkrar, Sléttabólsrétt, þar sem mest allan tímann var réttað í einu lagi og stóð réttin langt fram á nótt, stundum til kl 8 á morgnana. Sigríður á Hraunbóli og Veiga á Sléttabóli sáu mannskapnum fyrir mat og drykk, kaffi í glerflöskum, stungnum í ullarsokka og terturnar svo margar, fallegar og góðar að annað eins verður aldrei gert, og þá meina ég aldrei.

Á ýmsu gekk í þessum smölunum, svæðið stórt og smalar frekar fáir, allir á hestum. Frikki í smalaskapinu sínu, einbeittur og ákveðinn, ákveðinn í að koma fénu heim í rétt.Svo langt gat orðið á milli smala að ekki sást á milli, er þó þetta svæði marflatt. Hvílík víðátta og ýkjum líkast.

Ofar á sandinum, á Svæðunum var Svæðnarétt, mun færra fé og vel viðráðanlegt að mati okkar krakkanna. Sú rétt er suðvestur af Tangalæknum, læknum sem gengur fram úr hrauninu á leið fram að Hraunbóli.  Réttarbyrgið stendur út á miðri sléttunni og því ekki fyrir neina aukvisa að koma fénu þar inn. Það gekk alltaf vel.

Þarna voru Foss og sandmenn,  ekki fleiri.

Það gekk aldrei og hefur aldrei gengið, fé frá öðrum bæjum en Fossbæjum og sandbæjum, Hraunbóli, Sléttabóli, Hruna, Sléttu og Teygingalæk, á Brunasandi, sandinum austan Fossála. Að halda því fram, eiðsvarinn fyrir dómi, að fé frá Þorpsbæjum, Hörgslandskoti, Hörgslandi og Múlakoti, hafi gengið austan Fossála, er lygi og sá sem hefur haldið því fram hefur því borið ljúgvitni fyrir dómi, en það er bannað.

Þegar þarna var komið við sögu var komið fram í heyskap, kallarnir farnir að ókyrrast, færri brandarar en í fyrri réttum eða kannski búið að segja þá alla í þessari síðustu vorrétt vorsins.

Ærnar skokkuðu frá réttinni, skokkuðu áleiðis fram í mela, þangað sem þær voru nýbúnar að koma sér þegar smala bar að garði.

Júní 2007 069 Á Brunasandi

 


Réttin við Krókasker

maí 07 035Við Krókasker, Lómagnúpur í fjarska. 

Það átti að fara í heiðina. Hin fullkomna vestanátt réði ríkjum þennan fagra júnímorgun. Nánast logn og döggin sindraði í brekkunum sem voru iðjagrænar, já eins og þær verða fegurstar, brekkurnar á Fossi. Hestarnir voru bundnir við kampinn á gamla hesthúsinu og bitu sem mest þeir máttu. Pjakkur gamli sat hjá og virtist spenntur.

Við krakkarnir vorum svo sem engu minna spenntir, stukkum yfir hlaðið í stígvélunum, sem voru nánast notuð í allt. Hefðum farið í þeim út að Klaustri ef við hefðum mátt það og haft þangað erindi. Þau voru einfaldlega brúkleg í hvaða veðráttu sem er, hvort heldur var suðaustan óveður eða heiðbjartur himinn með glaðasólskini eins og þennan morgun. Við vorum klár í slaginn

Við lögðum á og fórum fetið niður á veg, röltum svo austurúr, austur að gömlu brú, inn með vatni og upp Hjalla. Kýrnar hans Davíðs voru á leið í hagann og veittu okkur Fossmönnum verðskuldaða athygli. Komu stökkvandi upp  Stekkatúnið og voru svona frekar heimóttalegar. Hreyfingu sáum við enga á Þverá, sjálfsagt verið að hvíla lúin bein eftir morgunmjaltirnar.

Eftir korters hvíld við gamla túngarðinn neðan Hjalla var haldið af stað og klárarnir látnir puða upp brekkurnar, ekkert gefið efir fyrr en við girðinguna í Húsadalnum. Vestari- Húsadal, sem er æði dalur með miklu grasi enda mýrlendið þannig að stundum var erfitt að finna trausta leið yfir á hestunum.

Miðbæjarmenn fóru upp Merkidalinn og komu að fénu vestanmegin, við austanmegin ásamt austurbæingum. Við fórum inn með Hálsi, tókum Kvíguhvammana, inn í Króka og inn í Krókasker. Þar var kallað inní Horni, í daglegu tali og er náttúrulega gert enn.

Þessar vorréttir eru reyndar af lagðar enda féð rúið á vetri í húsum.

Alltaf voru traktorar með í för, frá sitthvorum bænum, Vesturbæ og Miðbæ, til að keyra ullinni heim í lok dags ásamt því að flytja þær vistir sem til þurfti þennan dag. Þessi dagur var sá fyrsti af þremur-fjórum, minnir mig en þrjár ferðir voru farnar á þennan hátt og sú síðasta var þannig að féð að framheiðinni var teið niður á Borgarholt, rúið þar og síðan sleppt á ný upp í heiði. Lang flest féð var í þeirri rétt.

Þegar inní Horn var komið var byrjað á því að fá sér nesti. Settust menn í lítið gil austan við byrgið og maulaði þar hver úr sinni kistu. Miðbæjarmenn sátu vestast, við Vesturbæingar svo, Austurbæingar austast. Ég veit ekki hvers vegna þetta var svona en ósjálfrátt röðuðu menn sér í sömu röð og bæirnir standa heima á Fossi.Ég skoðaði þetta gil í fyrravor og það var með það eins og annað sem hætt er að nota, það hafði látið heilmikið á sjá, blautt og tuskulegt, varla hægt að finna blett til að setjast niður. Ég gerði það nú samt til að upplifa stað og stund.

Rúningurinn stóð oft fram á kvöld, rekið inn í réttina í hæfilegum skömmtum, rollurnar rúnar, það sem klárlega átti saman fór beint út, annað noðrí, sumt austrí, undanvillingar og lamblaust í sér hólf .Klippt með handklippum og stundum tekið skarð í spýtuna fyrir hverja rúna kind.

Svona hömuðumst við krakkarnir allan daginn, þangað til allt var búið. Þá var lagt á klárana og gjarnan farið í einum spretti fram heiði, alla leið niður að Merkiklifi.

Þetta voru frábærir dagar, eins og aðrir dagar í sveitinni.

HP Foss

18.mai 2008

 

 


Jet Black Joe tónleikar.

Fór á tónleika í gærkvöldi, nauðugur viljugur.  Hef aldrei þolað þessa hljómsveit.
Hér kemur kalt mat:

Upphitun kom frá Eyjum- fór út á meðan, hræðilegt gól.

Gospelkór, Jói Ásumunds á bassa, Kjartan Vald á hammond, Gulli Briem á trommur, fleiri góðir, helvíti gott og skemmtilegt áheyrnar. Snilldar spilarar og Páll Rós í formi. Edgar Smári héllt aftur af sér, sennilega af tillitssemi við Pál.

Löng bið eftir Jet black joe. Fáránleg bið og nánast dónaskapur.

JBJ hefja leik, hræðilegt fyrsta lag, trommarinn út á túni og þeim hálfgerð vorkunn að koma í kjölfar snillinganna.

Samantekt:
Tónleikarnir fóru vel af stað þarna en verulega dró af þeim þegar aðalnúmerið steig á svið. Rættist þó úr þessu, trymbillinn færðist allur í aukana eftir því sem á leið í samvinnu við hljóðmanninn sem a köflum virtist í smók. Endirinn var mjög góður.

Fékk ekki aukið álit á Jet Black Joe en Páll óx hjá mér, Gunnar Bjarni var einnig góður á sinn hátt, þó ég sé ekki að fíla þessi lög. Mér leið svolítið eins og boðflennu, að var greinilega sá eini sem var ekki að fíla bandið. 

Fór í þessa ferð með sama hugarfari og maður stefnir í ælupest en þetta var mun skárra.

 


Voru Fossmenn slæmir menn?

 Enginn skildi ásælast það sem aðrir eiga, eða eins og Móses skrifaði um árið, ekki girnast yfirleitt nokkuð það sem náunginn á. Ekki einu sinni konuna hans.

En svo kom stóra spurningin, þegar Jesús var endalaust að tala um og vitna í þennan náunga okkar, þá spurði loksins einn úr bekknum, hver er náungi okkar??

Þá kom Jesú með söguna um miskunnsama Samverjann, en Jesús var svipaður Guðjóni á Völlunum ,að þessu leiti, gat helst ekki svarað afdráttarlaust svaraði gjarnan með sögu. Þeir voru ekki líkir að öðru leiti.  

Í þessari sögu segir frá karlgarmi sem lá í vegkantinum og gat sér enga björg veitt.  Maður eftir mann gekk hjá án þess að hjálpa karli. Það var ekki fyrr en þessi Samverji kom að maðurinn fékk aðstoð. Eftir þetta var Samverjinn kallaður “Miskunnsami Samverjinn.” 

Út frá þessu er hægt að sjá að náungi okkar sé þessi manngerð, hjálpsamur og hugsar ekki aðeins um eigin hag. En þá eru það allir hinir, þeir sem strunsuðu hjá án þess að rétta fram hjálparhönd, þeir eru ekki náungi.  Það ætti sem sagt að vera í lagi að girnast það sem þeir eiga, húsið þeirra, bílana og konurnar.

 Og þá spyr ég: Hvers vegna voru Fossmenn í seinni hópnum?Menn girntust jú land Fossmanna, veiðiár og fleira gott.

Hvar höfðu Fossmenn misstigið sig á refilsstigum lífsins til að verðskulda þennan fjanda?  

Spyr sá sem ekki veit.


Mamma á afmæli í dag, hún Óla á Fossi

Þessi hláturmilda, trausta og góða kona á afmæli í dag.  Alltaf stendur mamma með okkur krökkunum sínum, eins og kletturinn í hafinu, ekkert fær hana til að efast um börnin sín. Setur hiklaust ofaní við tengdabörn sín, vogi þau sér að hallmæla okkur.

Í þau skipti sem ég kem einn í sveitina gerir hún sérstaklega vel við mig, þá eru oftar en ekki steikt hjörtu, í brúnni sósu, rabbabarasulta og ef sérlega vel liggur á henni, á er líka kartöflumús. Þetta lostæti kunna nú fáir að meta í fjölskyldunni og er það sennilega skýringin á því að þetta er haft í matinn í þessi skipti.

Mamma er sértaklega lagin við að sjá björtu hliðarnar á málunum,  vill gera gott úr hverju sem er , vill öllum vel. Enda held ég að hún mamma eigi sér afar  fáa óvini,  enda væri það skárri andskotinn og þá sennilega byggt á misskilningi, því hún mamma er einfaldlega besta konan í öllum heiminum, var það þegar ég var lítill og er það enn!!

Til  hamingju með afmælið mamma mín.


Rekinn.

 Þegar rekanum hafði verið keyrt upp á Sléttabóli, var ekkert annað eftir en skipta honum. Þetta var oft orðin myndarleg hrúga, heilmikið af timbri, sem lá austan við túngarðinn á Sléttabólinu.  Þegar maður skaust á fjöru, renndi sér fram hjá Sléttabóli var Öræfajökullinn í austri, og timbrið, en Mýrdalsjökullinn í vestri, og Veiga í glugganum. Veiga og Siggeir fylgdust vel með ferðum fram fjörugötuna og í bakaleiðinni var Veiga á tröppunum og Siggeir gjarnan að sýsla eitthvað í kringum bæinn.Þau þyrsti í fréttir af fjörunni, hvort það hafi verið reki, hvar Síkið væri og hvort við hefðum eitthvað veitt. Gott var að koma að Sléttabóli og þyngra en tárum taki að sá tími sé liðinn að hitta þau systkin þar.

En timbrinu var skipt í þrjú köst,  og þess vandlega gætt að jafnt væri í öllum köstunum. Þetta tók nú gömlu jaxlana ekki langan tíma, því þó karlarnir væru ekki mikið fyrir augað, var þeim ekki fisjað saman og heljarmenni til vinnu.  

Að þessu loknu var komið að því að ákveða hver ætti hvað, hvaða kast bæirnir vestan lækjar ættu, sem voru Bjarni og pabbi, hvaða kast austurbæirnir fengu en þeir voru Siggi og Bjössi og hvaða kast sandmennirnir ættu, Frikki og Siggeir, bændur á Hraunbóli og Sléttabóli.

Einn karlanna tók sig út úr hópnum, gekk nokkurn spöl í átt til fjalla og horfði upp að Fossi. (Ég geri ráð fyrir að þangað hafi verið horft, því ég hef prófað að standa þarna og þá gat ég ekki annað en horfði í þá átt. ) Þar stóð hann smá stund með hendur fyrir aftan bak eða þar til hann heyrði spurt: “Hver á það?” Spurði annar úr hópnum og benti á eitt kastið. Þá svaraði sá sem til fjalla horfði “ Austurbær ( eða vesturbæir eða sandmenn)Þá var það ákveðið og hinum köstunum gerð sömu skil. Þessi stund var ætið magnþrungin, spennandi og algerlega heilög. Saumnál hefði mátt heyra detta, hefði ekki verið dúnmjúkur móinn undir og spóinn syngjandi um allt. Menn gengu hver að sinni hrúgu og virtu fyrir sér, glaðir í bragði, sáu not fyrir hvern drumb, hverja spíru, hvert sprek.  

Fossmenn settu sitt á vagna og ekki var krafturinn minni þá, var líkt og aflið hefði tvöfaldast eftir að eign hafði verið slegið á fenginn. Ekki var þó athöfn lokið, því siður sá var viðhafður að austurbæingar tóku þá smognustu, fúnustu og óhrjálustu spýtu sem á þeir áttu, færðu vesturbæingum að gjöf, afhentu með virðingu og gjafmildi hinni mestu. Var gjöfinni ávalt tekið sem höfðinglegri, og svipaður gripur, sem settur hafði verið til hliðar við fermingu vagnsins, gefinn til baka, með sama þakklætinu og sömu djúpu virðingunni. 

 Gömlu góðu minningarnar frá þessum föstu verkum Fossmanna eru með því dýrmætasta sem ég á, þar sem menn voru alltaf í góðu skapi, léku við hvurn sinn fingur, léttir á brún og brá. Þeim á ég margt að þakka.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband