Færsluflokkur: Bloggar

Truntur

Nafnið trunta hefur lengi verið notað um leiðinleg hross, gjarnan löt hross, þrjósk og gjarnan slæg. Nánast illaeigandi skepnur.
Slíkar truntur reita mann oft til reiði, kalla fram það versta í mans eigin fari, jafnvel hafa blótsyrði fallið af vörum á slæmum stundum.

Trunta er einnig notað um konur.
Ekki eru öllum gefið að umgangast slíkar konur, þær eru ólíkindatól, geta birst þeim sem ekki þekkja sem stórhættuleg tígrisdýr. Raunin er önnur.

Þessar konur eru með eftirfarandi "eiginleika"

  • Ákveðnar ( mjög)
  • Frekar en vita það
  • Vilja gjarnan eiga fyrsta orðið
  • Vilja gjarnan eiga síðasta orðið
  • Vilja gjarnan eiga orðin þar á milli
  • Eru óánægðar ef umræðan snýst um annað en þær vilja
  • Eru gjarnan með bros á vör
  • Eru skemmtilegar
  • Eru blíðar innan við skrápinn
  • Eru hrókur alls fagnaðar
  • Eru til staðar þegar á þarf að halda
  • Eru uppáhalds frænkurnar.

Dæmigerðar truntur
Ágúst 08 106

 


Stígvélafótboltinn fór vel.

Stígvélafótboltinn fór vel, margir voru á staðnum og þátttaka góð.

Fyrst kepptu fullorðnir og fór jafnt, þá kepptu krakkarnir og fóru þeir  leikar nokkuð jafnt.
Að lokum kepptu krakkarnir á móti fullorðnum og skemmst er frá því að segja að fullorðnir steinlágu fyrir sprækum og báráttuglöðum krökkunum, 3-7.

Júlí 2008 111

Júlí 2008 121

Júlí 2008 123

Júlí 2008 124

Júlí 2008 131

 

 


Stígvélafótbolti á Klaustri um verslunarmannahelgina!

 Hinn árlegi stígvélafótbolti, verður haldinn 3. árið í röð, á sparkvellinum á Klaustri,  laugardaginn 2. ágúst kl 16.

Allir eru velkomnir að spila með, karlar, konur, börn gamalmenni, sköllóttir, síðhærðir, brotfluttir, innfæddir, kyrrsettir, háttsettir og lágtsettir.

Það eina sem til þarf til að vera gjaldgengur, er að vera í stígvélum.

Reglurnar verða settar á staðnum, fer eftir fjölda þátttakanda.

Hver leikur verður u.þ.b. 2x15 mínútur.

Sjáumst öll hress að vanda!

Stígvélafótboltinn var settur á fyrir 3 árum til að rétta hlut sveitamanna sem höfðu borið ljót ör á sálum sínum eftir viðureignir við Klausturstrákana í fótboltanum í frímínútum í Kirkjubæjarskóla.

Iðulega settu þeir þau skilyrði á spilað væri "Klaustur á móti rest" Það fór sjaldan vel. Klaustursstrákarnir voru synir læknisins, dýralækninins, bankastjóranna, skólastjórans, kennaranna,kaupfélagsstjórans og slíkra fyrirmanna hreppsins, ss, af góðum mönnum komnir.Áttu þeir því allir takkaskó.

Við sveitamenn vorum hinsvegar í stígvélum.Því var stígvélafótboltinn, fyrsta árið, spilaður "Klaustur á móti rest" en þá allir í stígvélum og hugsuðu sveitamenn sér gott til glóðarinnar, nú skyldi ná fram hefndum.

Leikurinn var flutaður af í stöðunni 10-0, fyrir Klaustursstrákunum.

Ekki er lengur skipt í lið  eftir uppruna.

 


Foss á Síðu.

Eyvindur Karpi nam land milli Almannafljóts og Geirlandsár. Hann bjó á Fossi.


Júlí 2008 021 

Það hefði ég líka gert.

 

 


Kamína í kofum til fjalla

Hef verið að spá í hvernig best sé að hita upp gagnamannakofa á fjöllum og sleppa við gasið. Hef Enga reynslu af kamínum en vantar að vita hvort þær hita eitthvað, hvað þetta kostar.

Veit að þetta er notað á einhverjum stöðum.


Ádrátturinn í Hólmunum.

Hér áður fyrr stunduðu menn ádráttinn í Hólmunum eins og til þurfti til heimilis. Fóru Fosskarlarnir nokkrir saman og veiddu yfirleitt vel. Stórir og fallegir sjóbirtingar sem ýmist voru étnir nýir, saltaðir eða reyktir.  Þetta var hluti af lífsbjörginni hér áður fyrr, að nota það sem landið gaf.  Engir voru betur til þess fallnir að gæta náttúrunnar en einmitt þeir sem á henni þurftu að halda.  Það var ekki nóg að hafa farið í kennaraskólann í Reykjavík eða álíka fyrirbæri til að fá tilfinningu fyrir því sem náttúran gaf, því eins og meistarinn koms að, þá voru kennararnir þar ekkert betri en sauðsvartur almúginn, höfðu hvorki visku né lausn á spurningum lífsins.

Það voru því vonsviknir menn, já sviknir, sem þurftu að beygja sig undir ákvörðun veiðifélagsins sem stofnað var og bannaði ádráttinn. Veiða skyldi á stöng!

Er það von að karlarnir væru hissa, hissa á því að fá ekki lengur að nytja sitt land sem best þeir kunnu? Hvað var næst? Væri það næsta að bíða þyrfti leyfis menntamanna hvort og hvenær féð á fjall mætti renna? Já, það var nefnilega það næsta.

Forræðishyggjan ríður ekki við einteyming þessa dagana, menn virðast fátt mega gera nema vera með pappírssnifsi í vasanum, undirritað af hinum og þessum, þú mátt ekki ferðast um þitt eigið land, án leyfis, þú mátt ekki skipta um járn á húsinu þínu án leyfis, ekki brenna ruslinu án leyfis, yfirleitt ekkert nema vera með leyfi fyrir því.

Eru þeir sem leyfin gefa þó tæplega betur gefnir en þeir sem leyfið þurfa, fáviska og áhugaleysi tefur og stöðvar hluti sem hratt þyrftu, gætu og ættu, að ganga.

Við því er aðeins eitt að gera, hætta aldrei að draga á í Hólmunum, þó heimskulegt veiðifélag segi annað og búið sé að stela landinu.

Taki maður eitthvað ófrjálsri hendi,  verður það ekki eign mans, heldur telst það þýfi. Það veit þjófurinn og eigandinn.


Friður á Fossi

Fátt veitir mér meiri frið en Fossinn minn fríði.  Að leggjast með strá í munni á milli steina,  hundurinn vappandi í kring, lækurinn seitlar á milli steina. Urriðatittirnir skjótast undan einum steininum undir annan, virðast leika sér í kvöldrökkrinu. Á klöppina fyrir aftan mig fellur hann,  mildur og hlýr. Hann tekur á móti mér opnum faðmi, hjörtu okkar slá í takt. Jafnvel stráið í munni mér er með sérstöku sniði.

Hugurinn reikar aftur um nokkur ár, ekki í fyrsta sinn. Reikar til áranna þegar kvöldin voru okkar krakkanna, þegar ég maður gat leyft sér að vera krakki. Krakki án klukku, án tíma, án síma. Krakki í stórum hópi þar sem leikur og líðandi stund var það eina sem í kollinum bjó, á kvöldin í sveitinni. Úti fram í myrkur, þar til kallað var: Koma inn að sofa.

Alltaf frekar snemmt, fannst okkur, fullorðnir höfðu fingurinn á tímanum. Annars hefðum við líklega vakað til morguns. Varla orðið til stórræðanna þann daginn.

Friðurinn á Fossi er fullkominn, fullkomið jafnvægi ríkir í sálartetri brottflutts belgs sem hallar sér utan í brekkuna.

03072008(001)

 


Skoðunarferð um Síðuafrétt.

  Ferð var heitið inn til fjalla , með skömmum fyrirvara. Hörður á Fossum var við stjórn. Hann vildi ólmur fara þessa ferð, sagðist verða að sjá, og helst fá, beisli eitt mikið og merkilegt. Hefur það legið á öræfum áratugum saman, án þess að nokkur maður hirti um það. Mun þetta beisli vera hið mesta djásn og menn eins og Hörður á Fossum sjá það sem ekki aðrir sjá. Var lagt af stað fyrir allar aldir úr byggð. 

Hörður á Fossum hefur verið fremstur í flokki  í sinni sveit, í því að koma auga á verðmæti í hlutum ,sem almúginn heldur að sé einskis virði , jafnvel rusl. Má þar nefna skip nokkuð, sem lengi hefur legið á sandfjörum Síðumanna og menn brunað þar fram hjá án þess að virða það viðlits. Hörður á Fossum sá að þetta gat ekki gengið lengur og gekkst í að bjarga fleygi þessu. Fékk til þess tæki og tól, stórvirkar vélar og flutti til byggða. Þar með munu mikil menningarverðmæti vera  hólpin. Reyndar stendur hann í einhverjum deilum við flutningsaðilann sem kyrrsett hefur gripinn.

Nú, fjallferðin hófst á því að brunað var fram hjá Þverárbóndanum á miklu spani, enda ekki gott að verða á hans leið, þó ekki sé reyndar annað hægt, inn allt hraun, til Mikla Fells. Þar var ráðgert að gera stutt stopp. Komust ferðalangar að því, að með í för var úttektarmaður hreppsins á fjallaskálum og var gerð allsherjar úttekt á kofanum. Þetta var Hörður á Fossum. Reyndar var farið í hvern þann skála sem sást og gerð slík úttekt. Tafði þetta heldur ferð okkar. Mikið span var á ferðamönnum þessum og hefði ekki verið gott að vera með konur í þessari ferð , slík var ferðin.

Inn með Blæng var haldið, niður með giljum að sunnan og upp með þeim að norðan, allt eins og menn þekktu þetta sem sína eigin lófa. Blöstu þá herlegheitin við, andlit fararstjórans ljómaði líkt og sólin sjálf, eins og barn á jólum. Kolryðguð járnahrúgan lá þar í drullunni og botnaði hvorki upp, né niður. Hvað vildi allur þessi flokkur að gera hingað? Er skollið á okkur stríð, eða  er búið að sleppa öllum vitleysingum landsins á afréttinn? Hingað hafa menn ekki vanið komur sínar, hvað þá að menn kæmu hér og virtu mig fyrir sér eins og ég væri fegurðardrottning, úr ryðfríu stáli. Nei hjálpi mér allir vírburstar. Einu gestir mínir undanfarna áratugi hafa verið rollur, í þeim eina tilgangi að ná kláðanum úr rassgatinu með allsherjar  nuddi. Þá hefur einn og einn smali stoppað hér, étið nestið sitt og kvatt með því að míga utan í mig.

Hörður á Fossum mældi þennan kostagrip og stikaði fram og aftur. Myndir teknar og við svo búið var haldið heim. Þessu skyldi bjarga og það fljótt.


Esjan og illgresið

  Ég er ekki hissa þó skógræktin gangi illa hér um slóðir. Á göngu minni á Esjuna um daginn, sá ég  ástæðuna. Allar girðingar í drullunni. Ekkert spáð í að kippa þeim niður, hvað þá að hisja þær í það ástand að gagn verið af  þeim.
Á minni löngu ævi hef ég áttað mig á því að umgengnin lýsir innri manni. Þar sem hlutirnir eru bara látnir dankast, verður enginn árangur. Hvað þá þegar ekkert er um þá hirt. Það er eins og mig rámi í árekstra skógar "bænda" og fjárbænda í kringum þessa reiti þarna í Esjuhlíðum. Ekki hvarflaði að mér að skógarmenn hefðu ekki rænu til að girða í kringu hríslurnar sínar. Rjúka svo til með látum, þegar ærnar , skógarmönnum til mikillar undrunnar,  leita í sprekið.

 Hverslag eiginlega er þetta. Maður fleygir ekki niður trjám til hægri og vinstri og ætlast svo til að þetta spretti bara af sjálfu sér og kindurnar sitji bara hjá og dáist af fegurðinni og fuglasöngnum.

 


Vatnajökulsþjóðgarður

Á  laugardaginn var stofnaður formlega Vatnajökulsþjóðgarður.  Frábær stund  í félagsheimilinu á Klaustri, þar sem flutt voru tónlistaratriði, lesin ljóð og bein útsending var frá Skaftafelli, þar sem formaður þjóðgarðsins og Umhverfisráðherra fluttu ávörp og reglugerðin um þjóðgarðinn var undirrituð.

Kaffi og með því ásamt rólegri og notalegri stemningu gerði þessa stund  einstaka sem endaði á því að þrjú börn drógu fána Vatnajökulsþjóðgarðs að húni með dyggri hjálp Kára Kristjánssonar landvarðar.

Í alla staði vel heppnað og stjórnað listavel af Þórunni Pétursdóttur, dótturdóttur Ólafar frá Mörtungu.

Þessi garður verður án efa samfélaginu lyftistöng, gestastofa verður byggð á Klaustri á næsta ári og blómlegt líf kviknar í kringum þetta góða framtak.

Vatnajmerki

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband