Færsluflokkur: Bloggar
Mánudagur, 15. september 2008
Sandsmölun.
Fossmenn smöluðu "Sandinn um helgina. Eftir einn mesta úrhellismorgunn í manna minnum, stytti loks upp og menn undu sér í verkefnið. Hver maður renndi sér á sinn stað og máttlitlir veðurguðirnir hrökkluðust undan með skottið á milli lappanna. Skildu þó eftir slatta af vatni sem við ösluðum upp undir kvið. Réttað var í gömlu réttinni á Hraunbóli, eftir fráveitingar úr réttargólfinu og áveitingar að magahólfinu, var miskunarleust dregið í sundur, Bjössa, Bjarna og Palla fé, til hægri og vinstri, allt eftir settum leikreglum. Leikreglum sem voru samdar fyrir mjög löngu og hefur ekki þurft að breyta.
Hraunbólsmenn voru síðan sem stoðin og styttan á bak við kallana, sem betur fer, því ber er hver að baki, nema sér bróður eigi.
Frábær helgi!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 7. september 2008
Heiðin
Sól skein í heiði í vestan logninu. Menn og hundar í sínu besta skapi, klárarnir nöguðu kampinn á gamla hesthúsinu. Þeir voru búnir að jafna sig eftir afréttisferðina, vel í stakk búnir til að smala heiðina. Múgur og margmenni tóku þátt, heil hersing af upprennandi smölum fóru með nokkrum alvönum upp Bröttubrekku og vestur brúnir. Enn aðrir upp Merkidal. Inn með Þverárvatni fór hestamaðurinn í hópnum, með tvo til reiðar, strá í munni og raulaði lag sem var vinsælt þegar rakstrarvélin var ný. Nokkrir voru á hjólum, fóru sér að engu óðslega, inn í Horn og fram heiði á móti sólinni. Drifhvítar ærnar runnu á undan smölunum á þessum unaðslega degi. Björn settist á brún Bjarnarháls, horfði yfir Seldalinn og hugsaði málið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Miðvikudagur, 3. september 2008
V1710 Allison
Svona var mótorinn hans Hoffmanns. Ekki amalegur rokkur, 28 lítra, V 12
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 2. september 2008
Fjallkóngurinn
Nokkrir fjallkóngar hafa verið á afréttinum heima síðan ég byrjaði að fara. Bjarni á Fossi var þegar ég fór fyrst og var í mörg ár. Frábær kóngur og auðvitað þekkti maður kallinn vel. Kiddi á Hörgslandi var seinna einnig Jói á Breiðabólstað.
Sá sem nú er og er búinn að vera í nokkuð mörg ár, er Siggi á Hörgslandi. Nýjum mönnum fylgja oft nýir siðir. Ein sú nýbreytni sem hann tók upp og féll mér vel var að hann tók að senda mann á staði sem maður hafði ekki áður smalað. Hver bær átti gjarnan sitt svæði, hver fór sína leið eins og hann var vanur og hafði lært af sínum föður. Það gekk undantekningalítið vel, margir voru á afrétti, maður frá hverjum bæ og stundum fleiri en einn, allir á hestum og féð vant að vera smalað.
Að fá að smala þar sem "hinir" voru vanir að smala, opnaði manni nýja sýn, loks áttaði maður sig á helvítis biðinni, hvers vegna í ósköpunum þeir gátu verið svona lengi. Snilldar leikur hjá Sigga og skyndilega voru allir vanir að smala hvar sem var.
Fyrsta kvöldið er oft glatt á hjalla í kofanum, eftir ljúffengan kvöldmat hjá kokknum og smá leggju (ekki hjá kokknum) fá menn sér gjarnan smá tár og sungin eru óskaplega falleg lög, óskaplega fögrum röddum, fram eftir kvöldi.
Á hárréttu augnabliki (sem maður kannski skilur ekki alveg þá stundina) stendur kóngsi upp og segir, jæja, nú förum við að sofa. Sér um að allir skili sér í koju og eftir skamma stund tekur annar kór við, kór hinna fögru hrota.
Siggi er góður kóngur!
Þegar þetta er skrifað, kl tíu mínútur fyrir miðnætti, er sennilega verið að syngja, undir dalanna sól.
Ég er með Fellsþrá.
Bloggar | Breytt 3.9.2008 kl. 00:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sunnudagur, 31. ágúst 2008
Valdi Kaldi- Stórsmali
Vegna fjölda áskorana birti ég hér nokkrar myndir af honum Valda, tengdasyni Palla á Fossi. Hann er frá Klaustri og kom eins og ferskur andblær að Fossi, með vestanáttinni. Hann er vanur að smala með Fossköllunum og er einnig farinn að fara í afrétt, er þar orðinn einn af reynsluboltunum, uppáhald hvers fjallkóngs.
Skemmst er frá því að segja að hrein unun er að horfa á maninn koma að kind, alltaf rétt að málum staðið, hann og austurbæjarhjólið sem einnog sami hugurinn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 30. ágúst 2008
Ekkert, slítur þau bönd sem hann er bundinn heimahögunum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 29. ágúst 2008
Bell P-39 Airacobra
Yfirleitt voru orrustuflugvélar hannaðar utan um mótorana en þessi var sú fyrsta sem hönnuð var utan um byssu. Byssan var American Armament Corpurations 37 mm fallbyssa og skotið fram úr miðjum propp vélarinnar.
Þetta þýddi að mótorinn þurfti að vera mjög neðarlega í vélinni og aftan við flugmanninn. Og þess vegna þurfti vélin að vera með nefhjóli, sem ekki hafi áður verið á orrustuvél.
Fyrsta Airacobran var afhent í apríl 1939 .
Mótorinn var 12 sylendra, Allison V 1710, vatnskældur 1150 hestöfl.( Eittþúsundeitthundrað og fimmtíu)
Hámarkshraði var 600 km á klst og flugþol 2500 km.
Fyrir utan fallbyssuna í trjónunni voru 4 hríðskotabyssur á vélinni.
Vélin þótti nú víst ekkert framúrskarandi í bardaga en þó ágæt þar sem lágflug þurfti, þar sem áras var á skotmark á landi. Tæp 10 000 stk voru framleidd og Rússar keyptu nálægt helmingnum.
Vél af þessari gerð hrapaði við Miklafell á Austu Síðu afrétti haustið 1942 og fannst tveimur árum síðar. Flugmaðurinn lét þar lífið og hefur verið okkur fjallmönnum innan handa síðan.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 28. ágúst 2008
Sveitasæla
En kannski er það jafnvel enn betra, að geta skroppið í sveitina sína þegar maður vill, fylgst með börnunum sínum taka þátt í sveitastörfunum, hoppað í heyskap, réttir og allt það sem maðurinn á svölunum í Breiðholtinu veit ekki um og saknar þess vegna ekki. Lagst á koddann að kveldi og hlustað á Fossinn sinn. Krakkarnir sofa til morguns, stökkva á fætur og skoppa berfætt út á tún, leika við hundana, klappa kindinni sunnan við skurð, hún lítur á lömbin sín, jarmar og sannfærir þau um að allt sé í lagi. Þetta séu vinir þeirra.
Já. sælt er að vera sveitamaður.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Sunnudagur, 24. ágúst 2008
Sáttur sveitamaður á mölinni ?
Ég vildi að ég væri úr Breiðholtinu. Hefði alist upp í Bökkunum, gengið í Breiðholtsskóla, síðan farið í FB og tekið verklega hlutann hjá GG. Væri enn hjá þeim, hefði yfirumsjón með girðingunni utan við holuna sem verið er að taka fyrir nýja púttvöllinn utan við safnaðarheimilið.
Væri sallarólegur með haustið, það skipti engu máli hvað það væri langt, hvað það bæri í skauti sér, hvenær veturinn skellur á. Sumarið er að baki og ein vel heppnuð útilega í Húsafell toppaði sumarið. Þar voru 6 þúsundir, brjáluð stemning, klukkutíma röð á klósettið sem var reyndar stíflað. Hitti félaga mína ú Hlaðgerðakoti og það var ákveðið að fara aftur út úr bænum eftir 2 ár.
Kem heim og ákveð að gera sveitasetur úr íbúðinni, það var svo helvíti næs að sitja úti í náttúrunni í Húsafelli, vera í kyrrðinni í fortjaldinu, þar voru 15 mans, gítarar og geislaspilarinn var þaninn í botn. Geðveikt stuð og sveitalífið frábært.
Ég fer í Júróprís, kaupi mér gervigras. Set það á svalagólfið, treð bast stólnum út, næ mér í einn kaldan, set nýja þjóðahátíðarlagið með Breimi í Hlandi og sonum í botn. Frábært! Þetta er fullkomin hvíld, ég hef skapað mér mína eigin útilegu og er fullkomlega sáttur.
Alinn upp í Breiðholtinu og langar aldrei að fara út úr Reykjavík. Slétt sama um sauðburð, heyskap, réttir og gangmál áa. Veit reyndar ekkert hvað það er. Er sáttur með svalirnar mínar og karton af sígarettum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Miðvikudagur, 20. ágúst 2008
Messa í Miklafelli
Síðastliðinn sunnudag var messað í Miklafelli. Í gegnum árin hefur mikið verið messað í Fellinu en þá meira hver að messa yfir öðrum, eins og gengur og gerist þegar margir koma saman og margt þarf að ræða.
Nú var það sóknarpresturinn á Klaustri sem messaði yfir söfnuðinum og áttum við þar æði góða stund, vorum tekin til altaris og kaffi var á eftir í kofanum í Fellinu.
Slíkur var sannfæringarkraftur séra Ingólfs, þar sem hann þrumaði yfir sálum okkar sem þarna vorum, að mér datt í hug Þórbergur Þórðarson þegar hann bað skólastjóra Kennaraskólans leyfis að fá að sækja um skólavist, hann gerði sig þar jafn aulalegan í framan og þegar maður gengur inn í kirkju þar sem engin sæt stelpa er. Slíkur var svipurinn á okkur í gilinu góða og meðtókum við þarna orð Drottins án uppgerðar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)