Færsluflokkur: Bloggar

Skaftárvirkjun.

Svo var það hugmyndin um Skaftárvirkjun, sem myndi nú heldur betur hleypa lífi í glæðurnar í hreppnum. Illa nýtt hraun og uppblásin rof yrðu að fallegu vatni þar sem , eins og ég hef áður nefnt, verður transportað með ferðamennina ( konur veiðimannanna) um lónið, komið við hér og þar og í einhverjum tilfellum gætu hrólfar tekið þær í léttar göngur um svæðið. Ekki amalegt að koma til byggða eftir slíkar ferðir um það leiti sem eiginmenn þeirra eru að renna í hlað, vígreifir og voldugir. Þær rjóðar og sælar eftir göngutúrana með sveitastrákunum, sem sýna á sér sýnar bestu hliðar í hlíðum gíganna sem kenndir eru við Laka.

Einu hlaupin yrðu þessi Skaftárhlaup en þau færu í áðurnefndan Langasjó því ánni yrði veitt í sinn gamla farveg.

Í stöðvarhúsinu væri hægt að skoða allskonar sýningar sem listamenn samtímans koma á legg eftir vetursetu í vinnustofum hússins.

Já, það er bjart yfir framtíðinni.

bilde


Helvítis Skaftáin

"Ég held að það væri gott að vera laus við þetta helvíti" sagði innfæddur Klaustursbúi þegar rætt var um afleiðingar þess að veita Skaftánni í Langasjó.  Hann sá nefnilega kostinn í því að losna við þessa kolmórauðu á úr farveginum. Eftir að hún færi, rynni þar kristaltær áin í fögrum lygnum. Ótal ár og lækir renna í farveg Skaftár á leiðinni til byggða og rynnu þar vitaskuld áfram.  Fiskur i hverjum hyl, veiðimenn biðu í röðum eftir gistingu í sveitinni  til að geta rennt fyrir lax og sjóbirting í þessari nýju perlu veiðimannanna. Restin af fjölskyldunni spókar sig um aðrar náttúruperlur sveitarinnar, þangað til veiðidegi lýkur og fjölskyldan sameinast á ný yfir skaftfellskri steikinni á einhverjum ferðaþjónustubænum.

Já, þetta sá hann í réttu ljósi, eins og svo margt annað.  Einnig væri búið að friða alla fugla í sveitinni, Skaftárhreppur væri griðastaður fuglanna. Tófan hefði úr nægu að moða þannig að blessuð lömbin hefðu frið til að stækka og dafna fyrir áðurnefndar kvöldvökur.

Skaftárhlaup framtíðarinnar hyrfu í Langasjó , sem yrði að vísu ekki lengur tær heldur aftur eins og hann var fyrir 1965, þegar Skaftá rann í hann og þaðan um útfallið austur í farveg sinn sem nú þekkist.  Leirburðurinn frá hlaupunum væri þá ekki lengur sú plága sem hún er í dag, þar sem allt virðist ætla að kaffærast í þessum fíngerða salla.

Að vísu þyrftu menn að finna sveitafélaginu annað nafn en manni dettur í hug svona í fljótheitum, Nýi Skaftárhreppur.

Já, hún er skítug, Skaftáin
Skaftá


Eins og það var.

Hei╨in 2004 006Hundarnir ruku saman og mátti halda á tímabili að ekki yrði hætt fyrr en annar lægi í valnum. Þrátt fyrir að búa sinn hvormegin við girðinguna alla sína hunds tíð, ruku þeir alltaf saman þegar þeir hittust. Svona í upphafi dags var þetta náttúrulega alveg frámunalega bjánaleg hegðun, gersamlega uppgefnir áður en komið var niður á veg.

Hrossin voru gæfari, jafnvel að maður greindi smá kátínu í annars sviplausum andlitum þeirra þar sem þau gjóuðu augunum á hvert annað þegar fetið var stikað austur fyrir Holt.

Fátt bar á góma austur að gömlu brú en farið var inn gamla veginn inn með Þverárvatni og síðan upp Hjalla. Fyrsta áningin var fyrir ofan Stekkatúni hans á Þverá en þaðan er fagurt útsýni yfir bæinn, Þverárbæinn þar sem Kristjana réði ríkjum í mörg herrans ár, natni og yfirvegun sveif þar yfir vötnum. Einnig bjó þar Davíð.

Þegar upp í Húsadal var komið lá hrossunum við köfnun, að pjakka brekkurnar með mislétta smalana, oft á heitum dögum, tók á eftir flatmagelsi sumarsins, þar sem eina hreyfing þeirra var að standa upp til að éta meira í Sótanum. Já, þeir voru misjafnir, dagarnir hrossanna. Hundurinn skellti sér á bólakaf í fyrsta pollinn sem hann fann í mýrinni, alblóðugur og tættur eftir átökin við Miðbæjarhundinn. Mér sýndist hann ekki sjá efir neinu.

Það er skemmst frá smalamennskunni að segja að eftir fjallsbrúnunum, niður blómstrandi brekkurnar, liðuðust drifhvítar ærnar í löngum röðum að sínu klifi, Páls niður Lækjarklif og Fera niður Merkiklif.

Svona virtust nú smalamennskurnar í bernskunni lekur einn.

 


Stöðugleiki - samstaða - traust.

 

 Smalaði á þverá um helgina. Ekki er það nú í frásögur færandi, nema fyrir þær sakir að aldrei hef ég fyrr á minni lífsleið smalað á Þverá.  Ekki veit ég svo sem ástæðuna en það er kannski nóg um austurferðir á haustin í aðrar smalanir, gjarnan á Fossi og í afréttinum.

Vorum á tveimur hjólum, ég og tengdasonurinn í miðbænum, báðir á Polaris hjólum, sem betur fer því í sköflunum kom stöðugleiki þessara yfirburðatækja sér vel.  Fórum rakleiðis upp Rauðárdal, inn fyrir Hálsenda og austur á brúnir. Þegar við komum austur að Baugagili, þar sem sér niður á Eynna og Eyjarlón, sást til hundsins Sigga í Hörgsdal. Slík tímasetning, slík nákvæmni, slík samstaða, verður ekki kennd hér.

Féð rann sína leið fram brúnir og niður Selklif og framan við Þveránna, niður í gamla fjárhúsið hans Davíðs. Voru menn þar samankomnir frá Fossi, Þverá og Hörgsdal. Ríkti þar algert traust.

 

Þverársmölun 035
Foss á Síðu

Þverársmölun 016
Norðan Nónskarðs. Þverárvatn neðst

Þverársmölun 011
Við Baugagilsbotna


Flosi

Í þetta skiptið var stefnan tekin austur. Eftir áfyllingu á Mestkönnuna, rjúkandi, óvenju sterkt, kaffi hjá Stebba Þormar, var slegið í og ekki slakað á fyrr en á KFC á Selfossi. Freistingarnar eru jú til þess fallnar að falla fyrir þeim, annars væru þær ekki freistingar.  Tvö kjúklingalærisbein eru í vegkantinum við Kjartansstaði, gersamlega hvítþvegin, þannig að fuglinn ekki einu sinni lítur við þeim. Næsta þjónustuhlé var ekki tekið fyrr en við Hvamm undir Eyjafjöllum. Byggði upp forskot á keppinautana þannig að ég kom úr hléinu enn í fyrsta sæti. Rauða hælúxfatið hafði reyndar puðast framúr rétt áður en ég held að hann hafi verið hring á eftir. Ég tók fram úr honum við Pétursey ásamt mörgum öðrum bílum sem virtust hafa hið mesta yndi af ljósum hvers annars í baksýnisspeglunum.

Já, mikið ósköp verður nú gott að komast í smá smölun. Hef ekki smalað í bráðum tvær vikur en fátt er fegurra en hópur af rollurössum stökkvandi á undan manni fram grasi gróna hvammana í heimahögunum blíðu. Sem taka á móti manni í hvert eitt sinn sem maður ráfast í sveitina, með opnum örmum umhyggju og endalausum minningum um liðnar unaðsstundir.

Bíllinn snéri nánast þversum á veginum og allar hugsanir um gömlu góðu stundirnar , þar sem maður vagaði á eftir beljunum með strá í munni og baggaband í vasanum, hurfu eins og dögg fyrir sólu þegar hin mesta barátta upphófst við að koma þessu fati á rétta braut, ásamt því að kerrudjöfullinn kæmi líka með austur að Fossi. Fljúgandi hálkan, norðan gaddrokð og skafrenningurinn tóku hér öll völd og  var um tíma alls ekki á hreinu hvert þessi för myndi enda.

Já, ef Flosi hefði verið fluttur í bæinn, hefði hann líka strekkt austur. Það er ég viss um.

HP Foss


...

maí 07 070

maí 07 073


Haust

null

Smalaárátta

Sept 08. safn 112

Að maður skuli haldinn smalaáráttu, að finnast smalamennska eitt það skemmtilegasta sem maður kemst í, er sennilega jafn vonlaust og þessi íþróttaáhugi Adolfs Inga. Aðeins áhorfandi.


...

Sept 08. safn 104

Frjálst er í fjallasal

Eftir ákveðinn akstur um blómleg héruð Suðurlandsins, með aðeins einu stoppi,  renndi ég í hlað á Fossi. Þetta eina stopp var gert á Gatnabrún en þar er gott að rétta úr sér og skoða drífandi framkvæmdirnar á Götum í Mýrdal.
Steikt hjörtu í brúnni sósu biðu sársvangs sveitamannsins, sem slafraði í sig lostætinu með mikilli áfergju, líkt og hann hefði komið fótgangandi úr bænum.
Að lokinni þessari stórkostlegu máltíð var ekki annað framundan en leggjast til svefns.

kl 7 næsta morgun renndi til fjalla samstilltur hópur Síðusmala í 2. safn haustsins, glaðir í hjörtum en þó ósteiktum.  Sólin gægðist framundan Öræfajöklinum þannig að glampaði á döggina á Orrustuhólnum. Þetta er fallegur morgun, hugsaði ég,  renndi peysunni betur uppí háls og skellti mér uppí 70. Ég rak lestina inn hraun, töluvert á eftir en missti þó sjaldan sjónar á félögunum.

Næstu 3 daga var afrétturinn smalaður, kindur hér og þar, líta upp þegar á þær er hóað. Líta upp og rölta í smáum hópum fram yfir hvert gilið á fætur öðru. Stika fram sömu göturnar og kindurnar á Austur Síðu afrétti hafa þrammað í margar aldir. Við setjumst utan í sömu brekkurnar og forfeður okkar hafa setið í  jafn margar aldir.  Þar hafa þeir setið, með sólina í andlitið, horft til Lómagnúps, í Hamarinn í Fellinu, horft fram á Stakkinn og klappað hundinum.

Já, gott er að eiga þessar stundir í faðmi fjallanna.

Sept 08. safn 017Sept 08. safn 031

Sept 08. safn 083Sept 08. safn 130

Sept 08. safn 142


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband