Bót og betran

Nú er ég búinn að ákveða að láta af kergju minni í garð sveitunga minna á Klaustri. Nú er mál að linni og mér er farið að líða eins og ég sé ekki alveg í lagi. Veit samt að ég er nokkurvegin á öllum þó eitt og eitt feilpúst heyrist.
Veit fátt leiðinlegra en að vera að munnhöggvast við einhvern, lendi stundum í því en reyni að eyða því og koma á sáttum sem fyrst, sérstaklega ef maður veit upp á sig skömmina. Það er nú samt ekki sjálsagt að manni séu fyrirgefinir hlutirnir, þó nú væri.
Að pirrast á netinu er ekki gott, held að misskilningur geti frekar orðið til þar, maður sér ekki svipbrigðin á fólki, sér ekki hvernig það bregst við því sem maður segir ( skrifar) og það getur orðið heilmikið mál að vinda ofan af því. Broskallar hjálpa til við að koma til skila mans eigin líðan eða tlfinningum og nota sumir þá mikið.

Ég viðurkenni fúslega að mér  hljóp kapp í kinn og varð fúll en líka að ég dauð sé nú eftir því þegar ég horfi upp á vitleysuna og óþarfann.
Gerði eins og Ása, fletti til baka og sá að betur hefði farið að hnubbast minna.

Kannski maður brjóti odd af oflæti sínu og laumi inn einni og einni athugasemd inn á klaustur.is við og við, náttúrulega af mikilli yfirvegun og fágun.

kv
Helgi


klaustur.is- enn og aftur

Hún Ása sendir okkur  tóninn ( setur okkur í gæsalappir) á síðunni sinni og er það vel. Nú er ég, eins og kunnugt er, í varanlegri fýlu út í þá sem vilja ekki að ég tjái mig á klaustur.is og set því það sem mér í brjósti býr á prent hér, en les samt og fylgist með því sem þar fer fram.  Hef ekki hugmynd um það hvort Ása sér það en það verður bara að hafa það.
Það er alveg ljóst að íbúar Skaftárhrepps eiga vefsíðuna klaustur.is.
Þar á meðal Kjartan (27.feb 2007), Klaustrari (10 feb 2007), íbúi Skaftárhrepps ( 12. júlí 2006)og aðrir þeir sem mótmælt hafa skrifum okkar  þar. Það er einfaldlega almenn kurteisi siðaðra manna að víkja burt þegar eigendur vísa manni á dyr. Það gerði þetta fólk, vill ekki að við notum þeirra síðu til að tjá skoðanir okkar og tilfinningar í garð sveitarinnar og þá  lætur maður það vera.

Svona er þetta nú einfalt í mínum augum, maður notar ekki það sem annar á ef hann ekki vill.
Sé reyndar ekki hvernig við eyðileggjum síðuna með því að skrifa ekki. Þeir hljóta að geta skrifað þessir heimamenn.

kv
Helgi Pálsson


Skaftárós

Hef frá því ég man eftir mér horft á vitann við Skaftárós úr fjarlægð. Þegar út "að ós" var komið  var stoppað  og kíkirinn tekinn upp, kíkt á vitann sem hilti undir í fjarska. Hann var eins og fjarlægur draumur, eitthvað sem maður var búinn að heyra frá en aldrei fengið að snerta. Svolítið eins og hann væri ekki til. Að komast þangað var ekki einu sinni í myndinni, var jafn fjarlægt og að ferðast um eigin drauma. Þetta var alltaf jafn spennandi. Hann var risastór.
Snúið var við og leiðin lá aftur austur fjöru og nestið étið í skýlinu við Síkið. Í vestri var vitinn orðinn smærri, vart greinanlegur. "Hvílíkar fjarlægðir", hugsaði ég og stökk inn í skýlið. Þar var allt við það sama, kexið, blysin, talstöðin.
Mörgum árum seinna var stefnt á fjöru. Ekki Sléttabólsgötuna eins og venjulega, heldur að Skaftárósvita í þetta skiptið. Fram allt Landbrot og fram í Meðalland, hjólin tekin af hjá Steinsmýri. Hörður frændi var í fararbroddi í þessari ferð, enda á heimaslóð. Þar fór ákveðinn og einbeittur maður sem vissi nákvæmlega hvað hver polllur var djúpur og hvað var á bak við næstu pælu.  Þegar komið var fram að fjörunni og sléttur sandurinn var framundan stoppaði Hörður og sagði."  Hér er alltaf keyrt í botni það sem eftir er leiðarinnar að vitanum" Ég kinkaði kolli, lafmóður í hjálminum, en var ekkert að segja honum að ég væri búinn að vera í botni alla leiðina. Hann hvarf sjónum og ég stikaði í sporin han fram að vita. Hér var hann þá, blessaður vitinn. Loksins kominn að honum, eftir öll þessi ár. Hörður var þegar farinn að troða sér upp stigann, sem var eins og gerður fyrir aðra gerð af mönnum en okkur Hörð. Við vorum eins og tveir pípuhreinsarar þar sem við tróðumst upp stigann, alltof stórir í þetta rör. Á miðri leið stoppaði hann og sagði, svona eins og til útskýringar, að við værum svona móðir vegna þess að loftið væri farið að þynnast vegna hæðaraukningarinnar. Það hlaut að vera.
Útsýnið þarna uppi var skemmtilegt, sást heim að Fossi. Fjaran austan Veiðióss var á sínum stað.
"Hvar er svo Skaftárós?" Spurði ég Hörð, Hann svaraði ekki, hélt að hann hefði kannski verið að klóra sér eða eitthvað og ekki heyrt þess vegna. Ég spurði þvi aftur og þá snéri hann sér við og benti, svona eins og hann væri að benda bjána á það sem var augljóst. "Þarna rennur Skaftá í ósinn sinn"

Ég fattaði að hann vildi ekkert ræða þetta frekar, vildi ekki horfast í augu við það að Skaftá á engan ós lengur. Hún rennur einfaldlega til sjávar um Veiðós og Skaftárós er ekki lengur til. Við tróðum okkur aftur niður rörið.



Aðkomumenn ?

Nei, ekki er mér illa við aðflutta í sveitina mína. Það væri nú alltof mikil alhæfing. Sumir eru búnir að vera þar svo lengi að þeir hafa verið  lengur en ég sjálfur. Þeir eru náttúrulega sveitungar mínir í mínum huga. En svo eru aðrir sem eru búnir að vera þar í nokkur ár og vilja ekki með nokkru móti una okkur, sem elskum þessa sveit með því sem henni fylgir,  að fylgjast með og skipta okkur af því sem okkur jú kemur við á meðan okkar fólk er þarna. Til að taka allan vafa af, þó ekki eigi að níða skóinn af mönnum á netinu þá er maður einn sem hefur verið að munnhöggvast við okkur brottflutta á klaustur.is , gott dæmi um það sem ég er að meina. Tekur því afar illa að ég sé að skrifa inn á Klaustur.is. Ræðst á okkur með málflutningi sem byggður er á fáfræði, þ.e. eins og Valdi sagði, hann hefur ekki hugmynd um hvað við erum að bardúsa í þessi 20 skipti sem við komum í sveitina á ári. Þó við séum ekki í sjoppunni gætum við samt verið í sveitinni. Ég tel mig leggja mitt lóð á vogaskálarnar í búskap foreldra minna og það stendur ekki til að það breytist.
Svona viðhorf fara í taugarnar á mér og svona aðkomumenn þoli ég ekki og ég geri mér grein fyrir að það er gagnkvæmt, alveg eins og þegar Einar Bárðarson sagðist aldrei hafa þolað saltfisk og Elías á Sléttu velti því upp hvort það gæti verið gagnkvæmt.

Þá hafa menn það á hreinu hvað varðar "aðflutta" og mína skoðun á þeim.

kv
Helgi Páls

PS. Ef menn vilja svara fyrir þetta þá er þeim það velkomið hér, þeir sem þetta sjá og taka þetta til sín. Menn verða jú að geta varið sig.


Þjóðlendur

Það er eins gott að maður er alinn upp á góðu og gegnu framsóknarheimili. Annars er hætt við að maður gæfi skít í allt það dót. Þessi ályktun á flokksþinginu um þjóðlenduruglið er náttúrulega ekki alveg í lagi, þeir koma þarna eins og einhverjir bjargvættir og ætla núna að fara að gera eitthvað í því máli. Það er eins og þeir hafi verðið í stjórnarandstöðu allan tímann.
Maður á það til að halda að það sem maður þekkir ekki sé merkilegra en það er. Þannig er það með þingmennina, maður er bara ekki að trúa því hvað þeir eru hortugir. Þeir halda að við séum algerir hálfvitar. Að halda að maður kaupi svona vitleysu er bara ekki í lagi, er maður nú samt engin sérstök mannvitsbrekka, eins og áður hefur komið fram í sögunni.
Fjármálaráðherra setti lög og eftir þeim fór þeirra hyski, að því sem virðist í óþökk stjórnvalda, án þess að nokkuð hafi verið að gert.
Nei, þetta er nú of mikil bjartsýni, ég held að það verði að svara betur fyrir þetta, kæru Framsóknarmenn.

39 ára gamall Skaftfellingur

Jamm, nei, ekiki er nú það, ekki er maður nú að yngjast en ég ræddi þetta við vin minn í dag, hvort honum hefði þótt 39 ára menn í gamla daga svona miklir vitleysingar eins og við í raun erum og hann taldi að í þá daga hefðum við verið svo miklir vitleysingar að allir hafi þótt gáfulegir í okkar augum. Tek ég það gott og gilt.
Ég er nú svo vitlaus enn að mér þykir alltaf jafn gaman að eiga afmæli. Börnin eru eitthvað svo upptekin af því að gara manni glaðan dag að það er ekki annað hægt en að vera mjög glaður. Ekki spillir fyrir að frúin er farin að kaupa allar gjafir handa húsbóndanum í aukahlutadeild Strorms.

Takk fyrir allar kveðjurnar, vinir mínir og vandamenn.
kv
Helgi


Kemur hún, eða ekki?

Það var komið sumar. Rútan kom í gær,ég beið við brúsapallinn og þóttist vera að bíða eftir mjólkurbílnum . Sólin skein og það var mjög heitt. Hitinn var svo mikill að fæturnir mínir voru að stikna þegar sólin skein á stígvélin. Ég dinglaði löppunum til og frá til að flugurnar skriðu ekki ofání stígvélin. Hefði kannski átt að þvo þau betur í gær. Skyndilega birtist rútan í Draugasteinunum og hjartað tók kipp. Skyldi hún vera með henni? Allt í einu fór ég að hafa áhyggjur af fótabúnað mínum. Hvaða eiginlega rugl er þetta? Hefði maður nú ekki átt að vera betur búinn til fótanna? Hefði maður ekki átt að fara í gúmmískóna fyrst maður var nú að bíða eftir rútunni. Hvað ef ég þarf nú að fara inn í rútuna og flugnagerið á eftir mér. Rútan full af Reykvíkingum, kannski. Jæja, það var og seint og ekki var nú bót af því að fara út þeim. Rútan nálgaðist óðfluga eftir óvenju holóttum veginum og ég þóttist sjá það á ökulagi bílstjórans að hann ætlaði að stoppa. Hún er þá líklega með.  Ég spratt á lappir og hundinum brá svo illilega, þar sem hann lá í fasta svefni við hlið mér að hann datt fram af pallinum með látum. Rútan staðnæmdist við pallinn og bílstjórinn opnaði harmónikkuhurðina. Ég vatt mér að hurðinni og stakk hausnum inn í gættina. Rútan var smekkfull af ferðamönnum sem ráku stór augu þegar þau sáu kappklæddann sveitamanninn í 23 stiga hitanum. Ferðamennirnir voru allir í stuttbuxum og berfættir í Jesússkónum sínum. Það þótti mér nú bjánalegt enda fóru þeir fljótt að finna fyrir mistökunum þegar flugurnar gerðu orrahríð að fögrum leggjum fransmannana.
Ég kannaðist við bílstjórann frá því í fyrra. " Jæja stráksi, ertu kominn að taka á móti henni? Ha,,,? Ég er nú bara að ,,, var að ná í kýrnar".  Stamaði ég. "Jæja, en hún er ekki með í þessari ferð. Hún kemur á fimmtudaginn. " Sagði bílstjórinn og virtist algerlega sjá í gengum mig. " Nú er það svo?" sagði ég og þóttist nokkuð sama. Vonbrigði mín voru mikil og sporin þung þegar ég gekk heim traðirnar. Ég fór beint til upp í gamla bæ.
"Sveinn, verkfærakistan þín kemur ekki fyrr en á fimmtudaginn"
" Nú, jæja? Það gerir ekkert " Sagði Sveinn og Laufey gaf mér flatköku fyrir ómakið.


Snjór og skemmtan á Klaustri

Það var sól og blíða,  snjór yfir öllu. Steingrímur var að moka Kaupfélagsplanið en það hafði verið hálf ófært alla vikuna. Hilmar gekk hjá, stoppaði og horfði stoltur á félaga sinn. Hvað þeir hugsuðu hvor um annan verður varla sett á prent. Gæti samt hafa veið svona:"Dæmalaust er er þetta nú mikill garmur hjá kall anganum" hefur Hilmar liklega hugsað. " Ætlar karl fáráðurinn nú að láta bakka yfir sig?" hefur hinn hugsað á móti, með síkarettuna í kjaftinum.

Vestur á Hlaði var allt annað í gangi. Hvergi var nokkurn skafl að finna sem ekki var búið að jafna um. Jeppagarmar ýmist fastir eða bilaðir hreint um allt. einn og einn Volvo líka. Meira að segja skurðirnir voru út strikaðir. Vestast í skurðinum vestan við sláturhúsið mátti sjá reyk stiga upp. Í fyrstu var líklegt að halda að Lárus væri að brenna baggaböndum en þegar nær dró mátti sjá í kollinn á bláum Willys með Volvo vél og í trékofa með Range Rover vél. Var þar að finna þá frændur Kára og Andra. Annar bíllinn fastur og hinn úrbræddur.  Önnur eins sólskinsbros var þó ekki annarstaðar að sjá. Kátínan og hamingjan var slík að ég er þess handviss að ekki í nokkrum öðrum skurði hafi verði slík hamingja , ekki af nokkru tagi.  Samt átti Kári örugglega eftir að þrífa sögina frá því á föstudaginn eða að bæta á kælipressurnar ,eða ná í ryksuguna fyrir ömmu sína.
Eftir svona daga var farið inn til Kára og drukkið te og spáð í nýjustu amerísku jeppablöðin. Talað fram og til baka um kosti og galla hlutanna, allt var á hreinu. Af umræðunum að dæma mátti víst telja að farskjótarir fyrir utan væru af allt öðrum toga en raunin var. Dana 44 og kaldir knastásar voru ekki að finna í flatheddaranum eða Land Rovernum. Samt var eitthvað svo gaman að kljást við allt þetta vonlausa dót. Þótt vonlítið væri að komast af hlaðinu á fleirum en  2 bílum var það samt skemmtilegt. Viðgerðin fróðleg eða veltan snyrtileg.
Það var hann Kári sem gerði þetta svona gott, alltaf í sama góða skapinu, alltaf til í að leggja okkur vonleysingjunum lið, hjálpa okkur með varahluti, gera við draslið með okkur eða jafnvel fyrir okkur.
(Hér er rétt að árétta að maðurinn er ekki dauður og þetta því ekki minningargrein um hann látin.)
Kára  þyrfti að þakka á einhvern hátt fyrir ótrúlega þolinmæði og fyrir allt sem hann kenndi okkur pjökkunum, fyrir allar sögurnar.
Eftir tedrykkju fram á nótt var það undir hælinn lagt hvort maður nennti að taka keðjurnar undan Land Rovernum. Hann fór hvort eð er ekki hratt yfir.

Mikið gat þetta verið skemmtileg og mikið er nú gaman að geta yljað sér við þessar minningar.

Kveðja
Helgi Páls


Mistök.

Gerði mistök um helgina. Var í sveitinni minni að vinna svolítið fyrir ömmu mína ásamt frændum mínum tveimur, Steinari og Davíð, syni Berglindar konu Steinars. Sóttist okkur verkið illa, enda annálaðir klaufabárðar í einu og öllu.  Eftir tómt basl og endalaus mistök létum við verki niður falla kl 3 eftir hádegi. Sól skein í heiði og var stefnan tekin til fjalla á. Brunuðum við inn Brunahraun í blankalogni og einstakri stemningu. Ferðin gekk vel og ekki sást til nokkurar kindar. Í Miklafelli var allt með kyrrum kjörum og hjarn á velli. Kofinn í góðu standi en einhver ferðamaðurinn hefur ekki getað látið hjá leiðast að drulla í klósettið, sem var læst, enda ónothæftað vetri til sökum frosta og vantsleysis. Verður þetta að lagast með lagni og heitu vatni. Svei þeim auma manni sem þetta gerði.
Þegar til byggða var komið beið okkar steik hjá mömmu og var tekið hraustlega til matarins. Hryggur og læri með alles.
Daginn eftri var tekið til við ömmuvinnuna á ný og sóttist verkið mun betur en daginn áður, ekkert fát og ekkert fum, hver gekk í sitt með natni.
Það var svo í bakaleiðinni , á leiðinni í bæinn, að mistökin áttu sér stað. Kjaftagangurinn var svo mikill í bílnum og ákafinn að komast að með næstu sögu af Pétri svo mikill, að ég gleymdi að loka fyrir loftinntakið í bílinn þegar við keyrðum í gegnum Vík.
Ligg því með flensu og hef gert frá því ég kom heim.


Klaustur.is / burtmeðykkur.is

Enn er Kjartan að pirra sig út í skrif í gestabókina á klaustur.is. Hvað ætlar maðurin að vera lengi að átta sig á því að svona verkir eru bara til að gera hlutina leiðinlega. Er hann kannski svona hund leiður á að vera á Klaustri? Spyr sá sem ekki veit og manninn þekki ég ekki neitt. Finnst þetta svolítið skrítin hugsun og ekki laust við að manni þyki hún loða við þá sem aðfluttir eru , finnst þeir kannski eitthvað merkilegri en við sveitalúðarnir. Sjálfsagt er það nú misjafnt eftir fólki.

Eftir stendur fastar en áður, væntumþykja mín gagnvart Skaftfellingum.


Lakavegur

Það er hægt að sætta sig við ýmis spjöll, menn hafa þurft að horfa upp á ýmislegt í gegnum tíðina í þeim efnum, t.d í kringum vegalagningar, lagningar ljósleiðara og annara opinberra framkvæmda. Mörgu hafa menn þurft að kyngja þar, í góðri trú um bætta þjónustu. Gott og vel.
Steininn stekur úr þegar menn, í heimsku sinni, dettur í hug að gera nýjan Lakaveg upp með Hverfisfljóti. Nýjan veg? Hvers vegna er ekki sá gamli lagaður , árnar brúaðar og það gert sem til þarf til að gera þann veg góðan. Að halda það að nýr vegur, upp með Hverfisfljóti, inn með Miklafelli sé betri kostur en það sem ég nefndi áður er skortur á skynsemi ef ekki alger heimska.

Ég segi nei, þetta verður ekki gert.

kv

Helgi Pálsson
Fos


Stígvélafótbolti á Klaustri

Hvenær eigum við að hafa stígvélafótboltann?


Alvöru kall, Guðni

Asskoti var Guðni góður í sjónvarpinu á kvöld.  Tók þennan pirraða pappakassa frá Bónus alveg í nefið. Ánægður með minn mann.

Óþolandi pésar þessar búðalokur sem ekkert vilja sjá nema innflutning án þess að spá í eitt eða neitt er varðar framtíðina. Lifa bara í núinu, horfa aðeins á gróða morgundagsins en átta sig ekki á að þeir eru allir komnir af bændum og búaliði. Átta sig ekki á því að það þarf að standa saman í því að halda landinu í byggð og átta sig ekki á þvi að landslagið væri allt annað ef ekki nyti bændanna. Bændana sem halda lífi í öllu þessu sem hundrað og einn maðurinn telur að spretti af sjálfu sér í sveitinni. Heldur að vegirnir sjái um sig sjálfir, að símalínur endist bara endalaust, verða vitlausir ef þeir komast ekki í adsl samband. Eru kannski helvíti kátir í einn eða tvo dag með að vera í einverunni  í sveitinn, þurfa svo að komast í samband, fá upplýsingar um hvað skuli gera næst, hvað skuli vera á döfinni. Mataðir í einu og öllu. Finnst allt koma af sjálfu sér,  veltast einhvernveginn um sjálfan sig, sjálfum sér og öðrum til skammar. Verða alkar og aumingjar og heimta þá fulla þjónustu þótt ekkert hafi verið lagt af mörkum. Vera á móti öllum framkvæmdum útá landi en vilja fleiri kaffihús og meira af pöbbum í Reykjavík. Uss og svei.

Sem  betur fer eru nú ekki allir svona.


Mótorhjólakeppni

Svakalega er þetta allt skrítið með þetta skellinöðrumót. Mótshaldarinn setur fram fullyrðingu um að landið sé ekki falt, allt verður vitlaust á veraldarvefnum, svo hittir maður bóndann og hann kemur af fjöllum ( eða úr hólunum) og hefur aldrei stefnt annað en að keppninni, eins og undanfarin ár.
Þarna  held ég að einhver sé ekki heill í sínum málflutningi. Ekki það að mér komi það við, ég er bara svo langrækinn að ég er búinn að skellihlæja að þessu rugli. Auðvitað er í lagi að keyra um hólana á hjóli, ekki er nú eins og það sé verið að skemma eitthvað, og þó eitthvað skemmist, þá sést það ekki fyrir næsta helv...hól.
Skritnir þessir hólar.


Skandall.

það er alger skandall að hann Siggi skuli hafa verið sendur heim. Ég er sammálla Einari að hún Ellý er ekki alveg í lagi, það var deginum ljósara að hann var mikið betri en GÍS .


Duglausir þingmenn Sunnlendinga. Allir. ( Líka Guðni)

Alveg er það magnað hvað sveitin okkar er aftarlega á merinni þegar kemur að framkvæmdum. Ég lá upp í sófa í hádeginu og horfði á vegamálastjóra fara yfir 12 ára vegaáætlun samgönguráðherra og var farið hringinn, réttsælis, landsfjórðung til landfjórðungs. Endalausar útskýtrinigar á hinum og þessum stórframkvæmdum, hin og þessi heiðin þveruð. beið spenntur eftir því hvað væri á dagskrá í austurhluta Vestur Skaftafellssýslu , Ekkert. Nákvæmlega ekki neitt!! Það var ekki minnst á eina einsstu framkvæmd á næstu 12 árum. geri þó ráð fyrir að breikkaðar verði nokkrar brýr en mamma mín, hvað er eiginlega að þessum dæmalausu, svokölluðu, þingmönnum okkar. Ég held að þeir viti bara ekkert um eitt eða neitt fyrir austan Vík.
 Ég hugsaði: Djöfullinn sjálfur, og set það nú á prent.


Stress

Flensan ætlar öllu um koll að keyra, annar hver maður veikur og hinn lamaður vegna þess að hinn vantar. Ekkert má útaf bregða í ys og þys stórborgarstemningarinnar,  öll plön hrynja. byrja verður upp á nýtt að skipuleggja, mánuðurinn ónýtur og þeim næsta verður að fórna. Alveg eins og 5000 kallinn er eins og 500 kallinn var fyrir 10 árum, er mánuðurinn orðinn jafn rýr og vikan var í denn.
( Shift, enter) Er ekki tími til kominn  að slaka á og hugsa sinn gang?


Fossmaður-fyrst og fremst

Púff. Mér líður svolítið eins og ég sé kominn heim. Líður svolítið eins og ég hafi verið þar sem ég má ekki vera en langar samt að vera þar. Hrökklast síðan í burtu og heim. Nú er ég komin heim, á mína eigin síðu og er hættur að skrifa á Klaustur.is. Hættur að pirra kerlingarnar sem enganvegin geta unt okkur sveitamönnunum þess að tjá okkur um það sem er að gerast. Geta alls ekki hugsað sér að við séum á þeirra svæði. Þetta er eins og framhald af því sem ég upplifði stundum í gamla daga á Klaustri. Maður vildi plássinu vel og fólkinu hins sama, fékk að vera þar á meðan maður hélt kjafti og gerði eins og manni varr sagt. Maður var í rauninni ekki tekinn í hópinn og um leið og maður fór sínar leiðir, fór inn á þeirra svæði, þá var maður úthrópaður sveitamaður. Þetta á við einstaka kerlingar á þessum ágæta stað, ekki allan hópinn.

Magnað að þetta skuli vera svona enn þann dag í dag. Magnað að fólkið vilji vera eitt og sér með sínar duldu skoðanir, skoðanir sem enginn fær að vita slík er dulúðin.

Fátt fer meira í taugarnar á mér en þegar aðkomumenn stíga á stokk og telja sig meiri Skaftfelling en mig. Stolt mitt særist sjaldnar meir því það vita þeir sem mig þekkja að ég er Skaftfellingur í húð og hár. Hef staðið í því að verja og útskýra fyrir borgarfókinu lífið í sveitinni. Hefur sveitamaðurinn í sjálfum mer staðið í vegi fyrir mér margoft, hef þó ekki viljað sleppa honum.

Hef stundum velt því fyrir mér hvort það hefði ekki bara verið betra að fæðast í Breiðholtið og vefa þannig sama þótt maður færi aldrei út úr Reykjavík.Hef borið þetta undir menn sem vit eiga að hafa á en ekki fengið stuðning.

Hvað vita menn um átthagatryggð sem aldrei hafa hleypt heimdraganum? Hvað vita aðkomumenn fyrir austan um tengsl mín við sveitina mína? Af hverju halda aðfluttir að þeir séu betri en brottfluttir.

Mér hundleiðist þessi gerð af fólki.

kv

HP Foss


Nýtt blogg

Hef fært blogg mit af Amersíku vefsvæði yfir á moggann.

Setti gömlu bloggin mín hér að framan.

kv

Helgi P


Tillitsleysi

Saturday, February 03, 2007

Hvað er alltaf verið að nudda mani uppúr því þó maður sé ekki´í réttri þyngd? Hvað fær fólk til að slengja því framan í mann að maður sé orðinn of feitur? Heldur fólk að maður viti það ekki sjálfur? " Hva, helvíti hefurðu bætt á þig maður?" Hvuslags eiginlega helvítis dónaskapur er þetta? Þessa hluti veit maður sjálfur betur en aðrir og vill ekkert að menn séu að velta sér uppúr því sem því kemir ekki við.
Svo eru allir með allar lausnir á hreinu og vita nákvæmlega hvernig ég á að haga mínu eigin lífi . Erum við orðin svona hreinskilin að við eru orðin frek og dónaleg? Ég held það og ég held að ég sé ekkert betrui en aðrir í þessum efnum. Það er svo auðvelt að telja sig alltaf á réttu brautinni og hinir fari villu vega. Hinir eru nefnilega að feta sinn veg vegna þess að þeir telja hann þann rétta. Annars færu þeir annan veg. Hjálp getur maður þurft á að halda og þá er gott að eiga góða að til að leita til. En það er ekki hægt að vaða að næsta manni og segja honum hvað mani finnst hann ómögulegur og ístöðulaus.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband