Fimmtudagur, 8. mars 2007
Hef frá því ég man eftir mér horft á vitann við Skaftárós úr fjarlægð. Þegar út "að ós" var komið var stoppað og kíkirinn tekinn upp, kíkt á vitann sem hilti undir í fjarska. Hann var eins og fjarlægur draumur, eitthvað sem maður var búinn að heyra frá en aldrei fengið að snerta. Svolítið eins og hann væri ekki til. Að komast þangað var ekki einu sinni í myndinni, var jafn fjarlægt og að ferðast um eigin drauma. Þetta var alltaf jafn spennandi. Hann var risastór.
Snúið var við og leiðin lá aftur austur fjöru og nestið étið í skýlinu við Síkið. Í vestri var vitinn orðinn smærri, vart greinanlegur. "Hvílíkar fjarlægðir", hugsaði ég og stökk inn í skýlið. Þar var allt við það sama, kexið, blysin, talstöðin.
Mörgum árum seinna var stefnt á fjöru. Ekki Sléttabólsgötuna eins og venjulega, heldur að Skaftárósvita í þetta skiptið. Fram allt Landbrot og fram í Meðalland, hjólin tekin af hjá Steinsmýri. Hörður frændi var í fararbroddi í þessari ferð, enda á heimaslóð. Þar fór ákveðinn og einbeittur maður sem vissi nákvæmlega hvað hver polllur var djúpur og hvað var á bak við næstu pælu. Þegar komið var fram að fjörunni og sléttur sandurinn var framundan stoppaði Hörður og sagði." Hér er alltaf keyrt í botni það sem eftir er leiðarinnar að vitanum" Ég kinkaði kolli, lafmóður í hjálminum, en var ekkert að segja honum að ég væri búinn að vera í botni alla leiðina. Hann hvarf sjónum og ég stikaði í sporin han fram að vita. Hér var hann þá, blessaður vitinn. Loksins kominn að honum, eftir öll þessi ár. Hörður var þegar farinn að troða sér upp stigann, sem var eins og gerður fyrir aðra gerð af mönnum en okkur Hörð. Við vorum eins og tveir pípuhreinsarar þar sem við tróðumst upp stigann, alltof stórir í þetta rör. Á miðri leið stoppaði hann og sagði, svona eins og til útskýringar, að við værum svona móðir vegna þess að loftið væri farið að þynnast vegna hæðaraukningarinnar. Það hlaut að vera.
Útsýnið þarna uppi var skemmtilegt, sást heim að Fossi. Fjaran austan Veiðióss var á sínum stað.
"Hvar er svo Skaftárós?" Spurði ég Hörð, Hann svaraði ekki, hélt að hann hefði kannski verið að klóra sér eða eitthvað og ekki heyrt þess vegna. Ég spurði þvi aftur og þá snéri hann sér við og benti, svona eins og hann væri að benda bjána á það sem var augljóst. "Þarna rennur Skaftá í ósinn sinn"
Ég fattaði að hann vildi ekkert ræða þetta frekar, vildi ekki horfast í augu við það að Skaftá á engan ós lengur. Hún rennur einfaldlega til sjávar um Veiðós og Skaftárós er ekki lengur til. Við tróðum okkur aftur niður rörið.