Heimþrá.

Rignig og suddi. Þokan leggst yfir fjörðinn og hugurinn leitar í heimahagana að þessu sinni. Það verður líklega þannig, svona fyrstu árin mín að heiman. Ekki síst þegar líður að kosningum og maður fær að heyra allan rógburðinn um þá sem hafa einna harðast barist fyrir bættum lífskjörum foreldra minna, fólksins sem bar mig á höndum sér öll mín æskuár, var ég þó engin léttavara.Fólkið sem fæddi mig og klæddi, horfði framhjá öllum mínum göllum, hefur sjálfsagt vonað að þeir myndu eldast af mér.
Hlusta á raddirnar sem óska þess að þetta fólk verði rænt vinnunni sinni, sett a Guð og gaddinn. Hlusta á raddir fólksins sem lepur cappuccino á kaffishúsum, fer svo heim til sín og gefur börnunum sínum jógúrt. Spyr hvort þetta sé ekki gott og barnið kinkar kolli sínum og brosir. Barnið hefur ekki hugmynd um hvaðan jógúrtin kemur. kannski veit foreldrið það ekki heldur.
Hlusta á raddir fólksins sem heldur að mamma og pabbi geti bara framleitt kjöt í samkeppni við ríkisstryrkt kjöt frá útlöndum, án þess að fá sjálf styrkinn.
Get ekki hlustað á þetta og fer út. Út í suddann og hugsa heim. Hugsa um hundinn sem stekkur um túnin á eftir pabba, lömbin allt í kring. Pabbi leggst utan í túngarðinn og horfir upp í Foss.
Fossinn fellur í stórum boga fram af brúninni.
Hann hefur gert það lengi.

Kv
HP Foss


Hestamenn

Það er nú meira hvað er mulið undir þessa hestamenn! Hér fyrir ofan bæinn er hið fallegasta hraun sem er búið að út strika með reiðvegum. Til hægri og vinstri, út um allar trissur. Þessa slóða bikkjast þeir í röðum. Hausarnir á hrossunum eru svo teygðir aftur að ekki er gott að átta sig á hvað snýr aftur eða fram á skepnunni. Knapinn lítur undantekningalaust til hliðar ef bíl er ekið hjá. Hvað er það?  Stígarnir eru rækilega merktir : Allur akstur bannaður.

Maður skellir sér því á gömlu góðu vegina sem eru þarna, eftir dalverpum og ásum, hlíðum og hraunbrúnum. Nei. Þá eru þeir þar lika, blessaðir hestamennirnir. Maður hægir niður á hæga Hrafnistuferð og víkur alveg út í kannt, því ekki virðast hestar höfuðborgabúans vera búnir til utanvegavags. Maður liftir hönd, svona til merkis um að maður sé bara í góðu skapi og allur að vilja gerður, en á móti kemur illt augnaráð. Líkt og standi á manni að maður sé glæpon. Glæpon á vélknúnu ökutæki.

Ekki tekur nú betra við á sunnudagsmorgnum. Maður hlunkast á fætur, skverar sig til og trítlar út í bakarí til að vera með heit rúnstykki og vínarbrauð þegar fjölskyldan vaknar af værum blundi. Þá standa þeir þar, hestamennirnir, grútskítugir að kaupa brauð. Hlandfýlan fyllir bakaríðið svo maður, nývaknaður, missir skyndilega alla matarlyst, er hún þó allmikil venjulega. Til að bæta gráu ofan á svart, fer karlinn lika inn í bakaríið, eins og bara til að tvöfalda pestina.

Mæli með að hestamenn hafi fataskipti áður en þeir fara út í búð, eins og bændurnir gera áður en þeir fara í Kaupfélagið. Hestapest er ekkert fínni en fjósalykt.

kv
Helgi Páls


Skaftfellingar hógværir?

Magnað er að hlusta á fambjóðendurna okkar ræða landsbyggðina. Það eina sem þeir sjá fyrir sér á svæðinu austan Mýrdalssands er að breikka brýrnar, sem ætti nú bara að vera sjálfsagt, aðeins til að geta verið skjótari í förum í gegnum þessar strjálu byggðir. Grétar Mar var þarna á ferð og greinilega Atli Gíslason líka og voru þeir sammála um þetta. Tillögur um leiðir til úrbóta verða að koma annarsstaðar en frá stjórnmálamönnunum. Atli nefndi Klausturbleikju, sem er gott framtak einstaklinga, ekki hafði hann annað. Og ekki var það honum að þakka, svo mikið er víst.

Heimamenn verða að bíta í skjaldarrendur og rísa á afturlappirnar, það gera það engir fyrir þá. Þingmenn virðast ekki hafa nokkurn einasta áhuga  á þessu svæði, til þess eru men líklega of fáir og þeir sem eru þar eru og hógværir. Það að ríkið sendi eitthvað af þeim störfum sem þeir tala um að senda út á land komi þangað er úr sögunni. Hefur líklega aldrei verið það.

Öll þjónusta fer halloka, pósturinn, bankarnir, sláturhúsið. Kannski heyrist ekki nóg frá fólkinu, kannski eru mótmælin aðeins muldur ofaní bringu. Það er nefnilega ekki Skaftfellingi sæmandi að belgja sig og ausa úr viskubrunnum, eins og sagt var um okkur brottflutta um daginn.

Talandi um það. Óttalega er nú lífllaust á Klaustur. is. Þetta er kannski akkúrat eins og fólkið vill hafa það , frið og afskiptaleysi? Tæplega.


Sumardagurinn fyrsti

Magnaður dagur, sumardagurinn 1., um daginn.  Fór í sveitina mína og skrapp á fjöru. Sumar ferðir í sveitina eru einhvernvegin vel heppnaðar. Þetta var ein af þeim. Frúin var ekki með í þetta skiptið. Kannski var það einmitt málið. Það er eitthvað við fjöruna sem er svo vinalegt, ekki það að hún sé neitt sérstaklega vinalegur staður, frekar hrjóstrug, en samt skemmtileg. Tengist sjálfsagt ferðunum í gamla daga, með köllunum. Það voru miklar svaðilfarir, farir sem ekki voru á færi allra.  Allir voru þá í spariskapinu, nesti og allt. Yfirleitt á 2. Land Roverum, annar á 750/16, hinn á 700/16.

Ferðin á sumardaginn 1. var ekki svaðilför. Lallað frammúr í rólegheitunum, nesti og allt. Það var samt ekki étið í skýlinu. Þótti ekki vistlegt.

Á Fossfjöru


Rjúpan og Öndin.

Mig langar til að velta upp hugmynd sem ég hef velt upp áður en var orðin gróin á ný.  Mig langar til að rjúpan verði friðuð, ásamt öndinni, á milli sanda. Að þar verði griðarstaður þessara tegunda sem ekki er of mikið til af. Hugsa mætti sér að fleiri tegundir féllu undir þann hatt, reyndar held ég að megnasti óþarfi sé að veiða aðrar tegundir en gæs, hrafna og máfa. Máfinn þarf að vera hægt að skjóta til að verja rúllurnar á túnunum, hjá þeim sem ekki hafa tíma til að hirða rúllurnar sínar jafn óðum. Er reyndar efins um gæsina, hún er varla orðin í túnum.

Þetta gæti verið ágætis viðbót við þjóðgarðinn, þjóðgarðinn sem nær nú langt inn í afrétt okkar Síðumanna.

 


Sveitasæla.

Hér er ró og er er friður. Dásamleg tilveran á Síðunni. Stundum er eitthvað svo magnað að vera hérna, eitthvað í loftinu sem er ekki annarsstaðar. Ég er ekki að tala um lyktina af forinni sem leggur frá túnunum. Ég er meira að tala um eitthvað sem er ekki hægt að skýra. Hamrarnir, Fossinn, lækurinn. Bjarni og Nonni, Bjössi,  allt á sínum stað einhvernvegin. Hundurinn flaðrandi upp um mann. Skógarþrösturinn er  í essinu sínu og gæsin mætt. Suðvestan skúrirnar heitar og sólin skær í kjölfarið. Bjórinn í bragganum ískaldur, kærkominn eftir grjúbánin hjá mömmu. Dæturnar trítla upp í Foss og sulla soldið í læknum. Koma rjóðar og sællegar til baka. Klappa hundinum og fara í bað. Heitt bað eftir langan dag í fjárhúsunum, kjassandi kindurnar. Sofa svo brosandi, heyra í Fossinum í gegnum svefninn. Hljóðið í Fossinum er ekki bara einfalt suð eins og í fossunum í bænum, enda eru þar ekki alvöru fossar. Álafoss? Bbbvvaaaha ha ha ha. Nei.getur varla talist foss. Hljóðið er þannig að maður getur hlustað endalaust. Eins og að hlusta á sögu. Alltaf nýr  og nýr kafli. Erfitt að lýsa.

Jafnvel þorpararnir eru fallegir í dag.

Kveðja
Helgi

 


Ágústa frá Svínadal

Finn bara ekki bloggið hennar, bráðvantar það samt til að setja það á linkinn. Hún gefur það kannski upp ef hún sér þetta. Hún hringdi í mig í kvöld því hún býr í Kelduhverfinu ( og ég sem geri grín að öllu sem norðlenskt er) og þau eru að spá í að vera með stígvélafótbolta í sumar. Helv gott.

 


Aldrei fór ég austur, um páskana.

Páskarnir eru nú senn liðnir. Þeir liðu án þess að ég færi austur. Það hefur ekki gerst í nokkur ár og mun ekki gerast í nokkur ár. Samt er eitthvað gott við að vera heima hjá sér í rólegheitunum, gera það sem maður hefur verið að trassa, leggja sig samt nokkrum sinnum, hella 20 sinnum á könnuna og setja 50 sinnum í uppþvottavélina. Hvað er málið með allt þetta uppvask. það getur ekki verið að þetta sé alltaf svona. Hef konuna grunaða um að óhreinka svo um munar til að láta mig halda að það sé voða mikið að gera hjá henni, svona dags daglega. Hefur greinilega fengið krakkana í lið með sér. Ég læt sem ekkert sé.


Jóna Hulda 20 ára í dag.

JHPHún litla systir mín er tvítug í dag. Fyrir tuttugu árum fæddist Jóna Hulda, lang yngst í hópnum, 19 árum yngri en ég. Ég skal ekkert reyna að fara í grafgötur með það að hún hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér og ég tek eftir því að það er svo hjá fleirum.

Hún hafði fljótt lag á að fá það sem hún vildi, gekk bara á milli okkar systkinanna og það kom náttúrulega að því að einhver sagði Já. Og ef við öll sögðum nei, þá sagði mamma já. Þrátt fyrir það varð hún ekki frek þó sumum finnist hún ákveðin. það er nú bara þannig að prinsessan á heimilinu fær það sem hún vill. Skárra væri það !

Til hamingju með daginn elsku Jóna Hulda. Wizard

 


Föstudagurinn langi.

Sól, logn, blíða. Mikið getur veðrið verið gott. Börnin vakna með bros á vör og segja, "þetta er fallegur dagur." Mamma þeirra er vöknuð fyrir þó nokkru og bíður með heitt kakó og eggjabrauð. Ilminn leggur úr eldhúsinu, það er verið að baka brauð. Ég ríf mig á lappir og dreg frá glugganum. Þvotturinn hangir á snúrunni, konan er búin að hengja út á snúru ásamt því að setja dínuna í hengirúmið og morgunblaðið liggur þar tilbúið . Á borðinu er rjúkandi kaffi í bolla.  Konan kemur með hrein föt handa mér, ég fer í þau og fer út í garð. Skríð uppí hengirúmið og leggst aftur með kaffibollann í hendinni. Ragnhildur tekur til við lesturinn, fer yfir það helsta sem er í mogganum í dag. Ég klára kaffið og læt hugann reika, reika í sveitina mína þar sem allt virðist grænna en annarsstaðar. Ég dotta og gott ef mig dreymir ekki Grágæsarhólinn, heyskapinn þar í kring, árin sem allt var bara eins og dagurinn bauð, mamma kom út í flekk með kjötbollur og kartöflumús. Ég vakna eftir hálftíma og heyri að Ragnhildur er komin í dánartilkynningarnar. Enginn hefur látist sem ég þekki, sem er útaf fyrir sig gott. Eftir annan hálftíma er lestrinum lokið og ég fæ aftir í bollann, skelli því í mig í einum teig. Polarisinn bíður gljáfægður í innkeyrslunni og er stefnan tekin til fjalla. Ég stekk inn, tek nestið sem konan fann til áður en ég vaknaði og fer í nýþveginn útivistargallann, Kyssi konuna bless, hún biður mig um að fara varlega og spyr hvenær best sé að hafa kvöldmatinn. "Líklega um átta leitið", segi ég , "þá er ég búinn að fara í bað og leggja mig aðeins." Ég legg af stað og fjölskyldan stendur á tröppunum og veifar.

Hvenær verður þetta svona? Ha?


Vorveiði

Ég ætla svo sannarlega að vona að svokallaðir “veiðimenn” sem nú æða út í skaftfellsku árnar, fái ekki bröndu. Ekki á ég von á að mér verði að ósk minni, vegna þess að fiskurinn sem nú er á niðurleið tekur hvað sem er.
Það er gott fyrir menn sem veiða yfirleitt lítið að fara í vorveiði.
Einnig er það gott fyrir menn sem ekki hafa þroska til að bíða eftir að fiskurinn komi til baka að skella sér í vorveiði.
Vorveiði er kjörin fyrir menn sem ná ekki að kallast veiðimenn.
Á seinni árum hafa menn sem betur fer farið út í að veiða aðeins á flugu og ég held að veiðinni sé sleppt, ef hægt er. Það er nú líka það eina sem hægt er að gera við niðurgöngufiskinn, nema ef vera skyldi að setja hann í ruslagáminn á Klaustri.Þessir menn sem vorveiðina stunda, vilja meina að þeir séu að veiða nýgengna fiska. Það er fjarri sanni en þeir kunna að líta út sem slíkir, gljáandi á hreystrið og lúsugir. Það er hinsvegar vegna ferða fisksins fram og til baka fram að sjó og upp í ánna til að ná rétta saltmagninu í sig, .Mér þykir það súrt í broti að horfa upp á þetta háttarlag, áratugum saman, án þess að nokkur hreyfi mótmælum. Landeigendur sjá þarna aura og á meðan þetta er löglegt verða alltaf nokkrir gráðugir landeigendur sem þetta leyfa.
Kv
Helgi Pálsson. 

Skagafjörður

Ekki tók nú betra við.  Slíkur var nú umgangurinn þar að maður gæti haldið að þar hafi menn verið fullir síðan í haust. Eða öll haust. Ekki hefur verð litið á girðingar í mörg ár, einu heldu girðingarnar eru ein og ein rafmagnsgirðing og hún þá hengd á gamla flækju sem er þar fyrir og að niðurlotum komin. Húsin eru flest einnig að hruni komin. Sussuss. Það var ekki gaman að sjá þetta, var verra en mig minnti. Getur verið að skýringin  sé sú að í Skagafirði er meira um hestamenn en á flestum öðrum stöðum landsins? Að þar ægir saman ósköpunum öllum af hnakkarónum? Getur verið að þeir velji frekar að spóka sig um á hestbaki frekar en stunda alvöru vinnu og geta þar með haldið við einhverju af húsum sínum? Getur verið að þeir séu svo illa stefndir þegar þeir koma úr útreiðartúrunum að þeir geti ekki lokað hliðunum á eftir sér og þess vegna nagi hrossin gat á rúllurnar? Getur verið að þeir séu svo þunnir um helgar að þeir geti ómögulega farið og varnað hrossunum að þau sparki upp öllum hlíðum og börðum á landareigninni? Spyr sá sem ekki veit.

Eyjafjörður

Hér er allt með allt öðru sniði en sunnan heiða. Matsölustaðirnir afgreiða hægar, sósurnar eru með minni rjóma, mjólkurfernurnar eru minni. Meira að segja umferðin er minni, varla er hræðu að sjá . Þessar fáu hræður eru utanbæjarmenn, annaðhvort að fara í fermingarveislu eða á skíði. Nema í bakarínu á sunnudagsmorgni, allir virðast fara þangað.Fram/ inn ( man ekki hvort þeir meina) í Eyjarfjörð var för heitið, í sveitina sem heillað hafði sunnlenska sveitastrákinn svo mikið fyrir fáum árum, allt svo grænt og gróið, býlin vel til höfð og greinilegt að bændur í þeirri sveit voru þeir allra bestu á landinu. Jarðirnar greinilega litlar en búin stór og reisuleg. Í dag var öldin önnur, eyfirskir bændur voru teknir í bólinu. Það er nefnilega þannig að snjó hefur greinilega tekið upp fyrr en þeir áttu von á, þannig að höldarskapurinn og slóðagangurinn blasir við þeim sem leið eiga hjá. Þeir hafa ekki þurft að hafa áhyggjur af því hingað til vegna þess að þegar snjóa leysir hér í venjulegu árferði eru vinnumennirnir komnir til að hrista draslið í lag. Bóndinn rekur þá hin kraftmiklu sunnlensku ættmenni út á tún að týna upp rúlluplast og dauðar rollur, hysja upp girðingar í giljum, mála húsin eftir átök vertrarins. Hvönnin og Heimulan hylja svo bílhræin.Já, svona er þetta þá í pottinn búið, þeir eru þá ekkert betir en við. Þeir bara þykjast vera það. KvHP Foss.

Ráðvillt ráfa.

Ég er þessa dagana algerlega ráðvilltur. Get í hvorugan fótinn stigið, veit hvorki í þennan heim né annann.  það er verið að spá í hvort stækka eigi álverið í Straumsvík. Bæjarstjórnin vill að við tökum afstöðu til deiliskiðulags sem kynnt hefur verið. Hélt að ég hefði verið að kjósa bæjarstjórn til að sjá um þessa hluti en kratakommarnir komust í meirihluta og geta ekki afgreitt einfalda hluti eins og deiliskipulag. Hvað gerist ef deiliskipulagið verður ekki samþykkt. Verður því þá breytt og kosið um annað? Eða verður bæjarstjórnin þá í stakk búin til að afgreiða málið?

Ég tel að álverið sé nógu stórt eins og það er og alveg í þótt það leggi upp laupana eftir 20 ár. Það var gott að fá álverið á sínum tíma, segja Hafnfirðingarnir, en eftir 20 ár verða hlutirnir væntanlega orðnir með þeim hætti að við sjáum ekki eftir því. Örfáir Hafnfirðingar koma til með að sitja út á Hrafnistu, góna út um gluggann og horfa á Straumsvíkina og segja barnabörnunum frá uppgangstímunum í kringum Ísal. Þetta voru góðir tímar og börnin kinka kolli, barn síns tíma hugsa þeir, eins og við vitum að það var gott að hafa kaupfélögin á sínum tíma en fáir sjá nú eftir þeim núna.

Ég held að þetta sé bara nóg eins og það er.


Fermingardagur Dagnýjar Valdimarsdóttur.

Það er oft gott að vera í sudda. Suddinn gerir manni ekkert illt en færir í sálina frið og ró. Regndroparnir falla einn og einn af þakbrúninni og detta á pallinn. Friðurinn alger. Nágranninn enn sofandi og verður það eflaust lengi enn. Sunnudagssuddinn setur svip sinn á daginn, daginn sem Dagný frænka, uppáhaldsfrænka mín  kemur til með að fermast. Þetta litla skott fermist í dag, öllum að óvörum.  Tíminn líður og börnin eldast, sem betur fer.

Til hamingju með daginn Dagný mín, suddinn er góður.


Bæjarlífið

Skrítið þetta líf á mölinni. Allir eru einhvernvegin í einni kös og þvælast hver um annan þveran. Allir að vinna hver fyrir annan, ef ekki að kaupa eitthvað af örðum , þá að selja honum eitthvað. Húsin standa þétt upp við hvert annað, varla hægt að skamma kerlinguna nema löggan sé kvödd á staðinn. Það verður svo til þess að hún veður uppi og ræður algerlega öllu því sem henni sýnist.
Krakarnir hrúgast í risastóra skóla, 20-30 í bekk, allir virðast samt vera vinir. Á mínum skólaárum vorum við 12-14, sundurleitur hópur og engir vinir. Varla hægt sossum að ætlast til þess því í sama bekkinn voru settir taugastrekktir Tungumenn, albrjálaðir Álftveringar, morðóðir Meðlendingar, leiðinlegir Landbrytilingar og settlegir Síðumenn. Allir í eina kös.

Furða var hvað þetta gekk, pústrarnir í frímínútunum voru gjarnan vegna ósættis á milli þeirra sem voru Fergusonmenn og svo þeirra sem voru Zetormenn, eins og það þyrfti nú að ræða það frekar, huhh.

Þegar í skólastofuna var komið var prúðmennskan slík að annað eins var víst ekki að finna á gervöllu landinu og það varð síðan til þess að menn voru teknir til skólastjórans fyrir minnháttar umgengnisbrot. Til að varpa ljósi á hvað ég er að tala um, þá vorum við Jón Reynir meira að segja látnir sitja hjá Jóni Hjartarsyni , man ég . Ekki er gott að átta sig á því fyrir hvað það hefur verið.

Hér í bænum er annað uppi á teningnum, í bekkjum þarf að hafa aðstoðarmenn til að halda aga uppi í tímum. Getur verið að kennarar nútímans séu ekki eins færir og þeir voru þegar við vorum unglingar. Sjálfsagt lifa þeir í minningunni , kennararnir okkar sem eru enn að í dag og láta hugann reika aftur um 20-30 ár, lygna aftur augunum og geta ekki greint á millli okkar og mófuglanna, slíkur var friðurinn yfir nemendum Kirkjubæjarskólans.


Jón Steinar

Hefði Ingibjörg spurt mig, hefði ég getað svara henni.
mbl.is Hefur eftir Jóni Steinari að þrýst hafi verið á hann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vitlaust fé

Mér er smalamenskan hugleikin og allt í kringum hana. Ekki það að ég sé sérstaklega sniðinn í iðju þessa, þvert á móti, þá ætti að banna menn eins og mig í smölun. Ég ætla þó að hafa smá skoðun á smalamenskum.
Á haustin, þegar allt leikur í lyndi á fjöllum, drifhvítar ærnar líða um grösugar torfur austursíðu afréttar, kallarnir halla sér utan í brekkurnar, hundarnir standa hjá og fylgjast grannt með gangi mála.  Sólin í hásuðri kemur í veg fyrir að maður sjái nokkuð í kíkinum en það kemur ekki að sök því hópurinn strollast fram heiðar í langri röð, hver kindin á eftir annari, rétta leið til byggða.
Smalinn stendur upp og rólar í humátt á eftir safninu.

Það er þá sem babbið kemur gjarnan í bátinn. Rolla með tvö lömb stendur og starir á okkur, tekur undir sig stökk þegar við nálgumst. Hefst þá yfirleitt mikill sprettur þegar við, Austursíðumenn, rjúkum af stað til að handsama þessa bévítans skjátu sem ekkert virðist vilja fara nema norður. Þegar við svo erum búnir að handsama þessar óvættir, kemur í ljós að rollan er úr Landbrotinu, á aðiens annað lambið. Allt er það nú samt úr Brotinu.

Það er á þessum stundum sem ég fer að spá í það hvers vegna Landbrytlingar eiga fé á afrétti. Hvers vegna er þetta bandvitlausa fé að ráfast um afréttinn, fé sem er alið upp í Landbrotshólunum og ratar fátt. Hefur ekkert séð nema í næsta hól.
Látum vera að féð sé að villast þetta. Það er nú ekki allt. Til að sækja þessar skjátur eru sendir eigendur þeirra, sem eru, eins og gefur að skilja, líka úr landbrotinu!
Þetta hættuspil gengur ekki lengur, byrjum brunninn áður en Landbrytlingurinn er dottinn í það og stoppum þetta, fáum þá til að hafa sitt fé í hólunum.

Það er best að þetta verði svona, Miðpartsmenn smala svo Vestur-afréttinn, þeir hafa rúman tíma.

kv
Helgi


Páskar-saga sem ég heyrði.

Nú eru páskarnir á næsta leiti. Þá liggur beinast við að bruna í sveitina, allir hópast í sveitina til að soga í sig ilminn af vorinu. Soga í sig allt það sem geymt hefur verið undir vetrinum sem senn fer að kveðja. Samt vill það bregða vð að páskarnir séu full snemma á ferðinni. Ilmurinn af vorinu er stundum aðeins rotnunarlyktin af kalinu í túnunum sem eru nýkomin undan svellalögunum. Hundaskítur um allt ásamt misnöguðum beinum sem þekja garðinn. Baggaböndin og rúlluplastið vafið utan um girðingarnar hvert sem litið er. Drullan af hlaðinu nær í ökkla enda frostið varla farið úr jörðu.

Um páskana, þar sem sólin skín og blankalogn er í þeim unaðsreit undir Fossinum, hvarflar hugurinn alltaf til fjalla. Upplagt þykir að þjóta inn í Fell eða Laufbala. Bensínið er sett á fákana, brunað austur veg og beygt inná Þverárafleggjarann. Miklafellið blasir við í allri sinni dýrð, snævi þakið og baðar sig í sólinni. Þetta lítur vel út og glampinn í augum ferðamanna er skær. Glampinn breytist þegar nær dregur hlaðinu á Þverá og hverfur alveg þegar við sjáum að bóndinn stendur í hliðinu. Samstundis sjá allir eftir að hafa lagt í þessa ferð. Fystu bílar ná ekki að stoppa í tæka tíð og lenda í kallinum. Hann er allt annað fallegur á svipinn í sloppnum sínum með risastóra lyklakyppu í hendinni og við sjáum glitta í lykilinn af hliðinu inn á millli ótrúlegs fjölda af öllum mögulegum tegundum af lyklum. Góðan daginn strákar!, segir hann  og er mjög hvass. Uuu,,,,, góðan daginn, segi ég og er strax kominn í megnustu vandræði, fyrsti bíll af 6 jeppum, allir með skóflur og tóg á stuðurunum. Hvaða ferðalag er á ykkur ? spyr hann og starir beint i augun á mér. Eee,,, við erum að ,sko,, að hérna,, að sko að leita að hundinum . Ha? hann fór að heiman í gær og hefur ekki sést. Hefur þú nokkuð séð hann?  stama ég upp úr mér og svitinn rennur af enninu á mér. Nei! segir kallinn og sveiflar kippunni eins og til að ergja okkur. Nú jæja,,, þakka þér fyrir, segi ég og fer að brasa við að snúa Land Rovernum við. Sumir í hópnum voru þá þegar komnir nirður á veg, vitstola af hræðslu. Höfðu ekki hugsað sé að lenda í honum þessum, karlinum sem þeir höfðu heyrt talað um en aldrei séð.

Stefnan eftir svona uppákomur er þá venjulega tekin á fjöru, svona til að koma ekki heim eftir 10 mínutur, með skottið á milli  fótanna. Sú ferð er þó sjaldan skemtiferð, frostið langt frá því farið úr jörðu, drullan og djöfulgangurinn yfirgengilegur og brasið endalaust. Þegar loks fjörunni er náð er krökkunum hent út en kuldinn, sandrokið og bílveikin kemur í veg fyrir að bros náist fram á nokkrum krakka. Þau ráfa um fjöruna eins og í þegnskylduvinnu við að tína upp netahringi, alveg eins og í fyrra.

Leiðin heim tekur venjulega langan tíma, margar festur og hungrið ógurlegt.


Dabbi dindill

Litli bróðir á afmæli í dag, 33 ára  sem er ótrúlegt.  Heldur hefur hann róast með árunum og mátti það nú sossum lagast. Óþekkari pjakkar fundust ekki  á Fossi en Davíð og Erlingur. Engu var hlíft þegar sá gállinn var á þeim og þeir voru yfirleitt á þeim gálnum. Hús, bílar, vagnar, ekkert var þess virði að ekki mætti brjóta, mála, velta, rífa.
Man samt þegar hann kom fyrst að Fossi, vorum vestur í gamla bænum þegar Pétur frændi renndi í hlað með hann og mömmu og við rukum eins og fætur toguðu austrí til að skoða þennan verðandi yfirprins og eftirlæti allra í fjölskyldunni sem voru nú að vona að fæðst hefði loksins viðráðanlegt barn. Stína Jóns kom lika á sprettinum og í ákafanum yfir komu þessa barns, sem allir höfðu beðið eftir, gaf hún sér ekki einu sinni tíma til að toga af sér stígvélin heldur þrammaði bara alla leið inn í hjónaherbergi og stóð þar á koddunum, alveg gáttuð yfir fegurð þessa nýfædda prins. Tekið skal fram að hún var aðeins 3ja ára. LoL Sorry Stína, mátti til að ljóstra þessu upp, við erum búin að brosa að þessu í 33 ár í vesturbænum án þess að þú hafir haft hugmynd um það.Wink
Nú, prinsinn var kominn og vantaði nú fáa til að líta á gripinn nema kannski virtingana 3. Þvílíkt barn, þvílík hamingja, þvílík eftirlátssemi sem þarna hófst og átti eftir að haldast fram eftir öllum árum. Ekki mátti heyrast bofs eða stuna, þá var rokið til . Oft lenti ég í því að troðast undir í látunum .
Ég gekk út í fjós, mokaði flórinn og hugsaði málið. Getur verið að þetta sé það sem koma skal, getur verið að ég verði gefinn til ókunnugra?

Drengurinn óx úr grasi og dafnað vel, enda alinn upp á sparifæði, komst vel til manna og spjarar sig nú bara vel.

Til hamingju með daginn, litli bróðir.

kv

Helgi


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband