19. júní.

Kvennréttindadagurinn er í dag. konan hefur verið óvenju erfið í dag og er ég þó ýmsu vanur í þeim efnum.

þegar ég fór á lappir í morgun var allt eins og þegar ég fór að sofa í gærkvöld. Ekki hafði verið gengið frá einu né neinu, gamli mogginn sem ég las í gær enn á borðinu, kaffibollinn minn var enn úti á palli, sokkarnir mínir á klósettgólfinu og fötin í sama kuðlinu. Var þetta þó allt við hendina hjá henni í sófanum. Hún er vön að sortera þetta og ákveða hvort ég skuli aftur í sokkana sem ég var í í gær, gerir þetta svona með öðru.  Hún hefur nefnilega svo gaman af að stússast í þvotti. Getur verið kvöld eftir kvöld að vesenast með sömu þvottakörfuna, upp og niður stigana, ýmist með hreint eða óhreint, á mig eða krakkana, stöku sinnum með þvott af sjálfri sér. þetta er nú bara liður í heimilishaldinu hjá henni, soldið truflandi á köflum. Hún á það til að vera með þetta eilífa vesen  á fréttatíma og einnig þegar ég er rétt nýbúinn að festa svefn. Þá verð ég nú svolítið pirraður, enda þarf nú varla að gera þetta alveg ofaní manni.

En í dag er hún búin að vera hálf gagnslítil, eldaði ekki og vingsaðist bara eithvað um.

En ég er fullkomlega sáttur við að hún eigi sér einn dag á ári þar sem hún getur látið svona, því ég veit að á morgun verður allt komi í samt lag þótt það bíði nú líklega eftir henni það sem hún trassaði í dag.

Hún vinnur það upp, hún er kjarnakerling.


Frekjur.

Ég hef tekið eftri því að fólk er farið að telja sig  þurfa að hafa skoðun á hinu og þessu sem það heyrir. Hvað er það sem segir fólki að það sem hinn er að segja, sé rétt eða rangt, gáfulegt eða vitlaust? Hvað er það sem gefur fólki þann rétt að taka það sem viðmælandinn segir  og gefa þvi einkunn? Hvað er það sem segir mér að  hlutirnir séu réttari hjá þeim en hinum?  Ég held að þetta kallist frekja.

Frekjur  tröllríða öllu, menn vaða áfram, hvað sem það kostar, öllum brögðum er beitt. Menn sagðir ljúga, blóðhlaupnir í  augum, stappandi niður fótum, garga menn á þá sem á vegi þeirra verða, ef ekki fer allt eftir þeirra höfði.

Ég hef óbeit á slíku fólki.


Bátsferð yfir Hvalsíkið, árið 1980

              Enn var komið að því að fara á fjöru. Fossmenn höfðu hug á því að athuga með reka á fjörunni sem var nú öll orðin austan við Síkið.

 
Það var fallegur sólríkur dagur á Fossi þennan júní morgun. Kýrnar voru komnar út í haga og hundarnir stukku um hlaðið fullir eftirvæntingar . Farið var á traktorum með vagna og gúmmibáturinn sem Fossmenn fundu á fjörunni um árið var með í för. Við strákarnir sátum í bátnum sem var á einum vagnanna . Hugur var í mannskapnum og máttum við  þakka fyrir að tolla á tuðrunni þegar vagninn fór í verstu holurnar og við skutumst upp í loftið eins og pílur. Ekki hefur þetta þótt árennilegur hópur sem brunaði fram fjörugötuna og hefði eflaust ókunnugur maður orðið smeykur að mæta slíkri fylkingu. Jafnvel þó hann hefði þekkt til. Þarna voru Foss- og Sandmenn mættir, gráir fyrir járnum.

Á augabragði voru menn komnir að Síkinu. Fór hver maður á sinn stað og leysti sitt verk af hendi, fumlaust. Báturinn var gerður klár, pumpað í þau hólf sem voru orðin vindlaus síðan heima á Fossi, árarnar á sinn stað og mannskapurinn hoppaði um borð.
Fleytan var fullmönnuð, Siggi Jóns, Siggeir á Sléttabóli, Páll á Fossi og Bjössi og Frikki á Hraunbóli. Einn var þar sem annars er hafður mótor en þar sem enginn var slíkur með í för var notast við stunguskóflu. Reyndar voru árarnar allar af þeirri tegundinn. Restin af áhöfninni raðaði sér til helminga, ýmist á bakborða eða stjórnborða, nema Frikki, sem var greinilega formaðurinn, því hann sat í stafni og stjórnaði áralagi og hélt uppi andanum í hópnum ásamt lífsvon.Var þessu stjórnað af mikilli röggsemi, með miklum hrópum, köllum, skömmum og handapati. Fórst honum þetta vel úr hendi.

Af öryggisástæðum var hafður vaður úr bátnum í land. Fengum við Bjarni og Eiður það hlutverk að gefa slakann og standa klárir  færi eitthvað úrskeiðis. Ekki voru þeir komnir langt frá landi þegar áhöfnin tók að ókyrrast. Menn æddu fram og aftur um bátinn og hafði formaðurinn upp þvílík köll að heyrðist langleiðina upp að Sléttabóli. Var þá vatn tekið að flæða inn í bátinn af miklum krafti. Þarna var augljós hætta á ferð þar sem helstu höfðingjar sveitarinnar voru saman komnir í einum báti sem var að fyllast af vatni og átti fátt eftir annað en sökkva til botns.  Réðust menn í það að finna upptök lekans, um leið og aga var aftur náð. Sáu menn þá hvers kyns var, skóflan í skutnum hafði kippt neglunni úr gatinu. En sem betur fer hékk hún þar í spotta og var snarlega sett á sinn stað. Var þar bráðri hættu afstýrt af mikilli fagmennsku, enda menn með áratuga reynslu af útræði. 
 Þá var ausið og för haldið fram.

Við gáfum út vaðinn eftir því sem þeir mjökuðust út í óvissuna en brátt fór hann að taka í og hægja á körlunum. Þegar þeir voru komnir út í mitt Síkið, löngu komnir úr kallfæri, stoppaði fleytan. Vissum við ekki hvað var á seyði, sama uppnámið var meðal áhafnarinnar og þegar neglan fór úr, þarna við bakkan í upphafi ferðar, og gerðum við okkur strax grein fyrir alvöru málsins. Þarna voru þeir mitt í úthafinu, bjargarlausir og sennilega vitstola af hræðslu. Urðu menn nú að bregðast skjótt við ef eitthvað ætti að vera hægt að gera í málinu.

Við sáum að þeir voru að niðurlotum komnir, jafnvel að menn væru að gera sig líklega til að stökkva frá borði, því frá landi séð var eins og menn væru komnir með annan fótinn í beljandi jökulvatnið. Myndi slíkur skaði seint bættur.

Það var talið erfitt að smala í Mýrdalnum eftir að Ragnar á Höfðabrekku velti bíl sínum í Kerlingadalsánna með alla smalahunda sveitarinnar meðferðis. Þar komst aðeins einn lífs af, Ragnar sjálfur. Ekki er gott að ímynda sér smalamennsku á Fossi með eintóma hunda en öngva karla. Hætt við að það færi handaskolum.    


 Tókum við þá til við að toga bátinn með karlagreyunum í land og forða þeim þannig frá bráðum bana. Þeir nálguðust óðfluga enda toguðum við sem mest við máttum. Þarna sátu þeir, flötum beinum og áttum við von á að sjá ljómann í andliti þeirra yfir þessum snöru handtökum og frækilegu björgun.
En við gátum ekki greint gleðina í hjörtum þeirra þegar þeir renndu að bakkanum. Var lífsreynsla þeirra slík að öll gleði væri horfin úr þessum léttlyndu körlum á einni svipstundu?  Nei, þeir voru öskuillir og í stað þess að fá þakkir fyrir afrekið fengum við skammir fyrir uppátækið. Við vissum ekki hvaðan á okkur stóð veðrið þar sem við lágum lafmóðir og másandi eftir átökin. Þeir voru þá víst aldrei í neinni hættu. Sögðust hafa strandað á sandeyri og voru alveg að komast yfir hana, með því að sitja klofvega á flotholtunum og mjaka bátnum áfram með annari löppinni. Þá skyndilega hafi þeim verið kippt afturábak þannig að þeir þutu til baka, á tíföldum þeim hraða sem þeir sjálfir gátu með góðu móti náð.
Við á vesturbakkanum vorum skömmustulegir þegar við tókum til við að gefa   út vaðinn aftur.


Ferðin þeirra í þetta skiptið tókst vel og komust þeir einnig til baka.En ef eitthvað hefði farið úrskeiðis í þessari seinni tilraun, þá er ekki gott að segja til um það hvort við hefðum brugðist við af sömu snerpu og áður. Ekki er einu sinni víst að við hefðum bara yfirleitt tekið eftir nokkrum sköpuðum hlut.
                                                                                                
HP.Foss.
           


Íslenskur Víkingur

Fínir dagar. laugardagar.

Skoðuðum fallega náttúru Íslands, tók mynd af einum fegursta fossi landsins.03012006(002)Sprændi í lækinn og hélt áfram suður í Fjörð,

lagði mig smá stund,

09062007

Tók svo til við að finna til eitthvaðí gogginn,09062007(001)

Tætti það svo í mannskapinn09062007(002)

 og rólaði mína leið.09062007(004)

 

Er svo að hita súpu fyrir til að hafa fyrir háttinn.09062007(003)


Fjöruferð Fossmanna árið 1978

Roverarnir voru staðnir yfir ísilagða Breiðu-leiruna og mátti vart á milli sjá hvor færi hraðar yfir, Björn á sínum græna Land Rover eða Páll á þeim bláa,´66 módelinu . Björn hafði þá yfirburði að hann var á stórum dekkjum sem skiluðu jeppanum vel áfram í þungu færinu. En einstök lagni Vesturbæingsins og endalaus þolinmæði fleyttu honum líka vel. Þegar Roverarnir voru um það bil að ná hámarkshraða á rennisléttum ísnum, þar sem Helgi litli 10 ára sat á hækjum sér aftan við varadekkið , stífur af spenningi í þessari miklu kappkeyrslu og Bjarni í Miðbænum stjarfur af hræðslu í framsætinu, brast ísinn undan okkur og ég þeyttist af alefli upp í toppinn og þar eftir niður á gólfið . Roverinn tók þvílíkt stökk upp úr þessari vilpu, enda á ofsahraða, að sá undir öll hjól. Ferðin hélt áfram eins og ekkert hefði í skorist og þetta væri ósköp venjulegur akstursmáti þeirra Fosskarla.Á fjöruna var alltaf gaman að koma, að sjá sjóinn þegar ekið var fram á kambinn í kollunum. Í þá daga var ekki farið oft á fjöru, í það minnsta ekki eins og síðar varð ,þegar ferðirnar voru reglulegar, nokkrum sinnum í viku. Þessar stundir með Fossköllunum verða alltaf kærar í hugskoti mínu, karlarnir alltaf léttir og skemmtilegir,sagðar sögur og mikið hlegið.  Þá var alltaf komið í skýlið og  jafnvel étið þar nesti. Fjaran gat oft reynst erfið yfirferðar, barðarnir sukku í gljúpann sandinn og þá dró niður í 62ja hestafla díselmótorunum sem þó yfirleitt skorti ekki afl. En fram með Hvalssíkinu var för heitið og fram í flæðarmál. Þar var harðara undir og það var eins og við manninn mælt, upphófst þessi líka kappaksturinn. Við sjóndeildarhring hillti undir eitthvað sem menn höfðu ekki áður séð og stefna þeir þangað, í rauðabotni. Aldrei bar mikið í milli, báðir fóru svipað hratt yfir og nálguðumst við hið óþekkta óðfluga. Var þetta hvalur? ekki tré, Hnúfubakur? sjórekinn maður?  Nei, þetta var gúmmíbátur. Sódíakk af bestu gerð. Þótti þetta mikill fengur og menn æði búralegir yfir þessu. Sáu menn fyrir sér að nú yrðu háskalegar ævintýraferðir austur yfir Síki  með öðru sniði og hættuminni. Aldrei verða slíkar ferðir samt með öllu hættulausar enda höfðu menn drukknað í Hvalssíkinu hér á árum áður. Bátnum var skellt á toppinn á þeim bláa og haldið heim. Ekki man ég annað en heimferðin hafi gengið vel, Siggeiri skilað heim til sín og voru menn bara aði sperrtir að renna í hlað með þennan feng.            Báturinn hefur verð notaður æði mikið í ferðum Foss- og Sandmanna austur á fjörur með misjöfnum árangri en alltaf hefur ýtrustu varkárni verið gætt í meðferð þessarar fleytu. Það er önnur saga og verður kannski sögð seinna.                                                                                                                                                                                  Helgi Pálsson

 


Bjartir dagar.

Dagarnir í Firðinum hafa verið drungalegir. Rokið hefur þanið hvern einasta  þéttikannt til hins ítrasta, rigningin smogið á bak við hverja einustu flastningu. Sigg Lall hefur ekki farið varhluta af verðinu, einginn vogar sér út úr húsi með seðla í hönd, allt fýkur úr lúkunum á manni. Það verður líklega mikið að gera hjá myndatökumanni Fjarðarpóstsins, á bak við hvert einasta þil, bak við hvert einasta barð, í hverri einustu baklóð er haugur af drasli. Næsti Fjarðarpóstur verður líklega fullur af rusli, rusli sem hefur fokið um víðan veg. Kannski hatturinn hans verðið þar í haugnum. Spurning um að blása til skransölu í kjölfarið.

Mitt í þessum æsingi öllum halda Hafnfirðingar Bjarta daga. Hátið sem hver einasti Hafnfirðingur sækir, ráfar á milli húsa og skoðar sögu Fjarðarins, sögu sem framan af snýst um Bæjarútgerðina en seinni hlutinn nefnist Ísal.

 


Formúlan eins og hún var þegar hún var skemmtileg.

http://www.youtube.com/watch?v=Ejsqeb_kZ8w&mode=related&search=

Uriah Heep- Deep Purple- Creedense

27052007

Fórum feðgarnir á magnaða tónleika um helgina, Uriah Heep og Deep Purple. Þetta var mögnuð upplifun fyrir mig, sveitamanninn sem hafði aldrei séð Uriah Heep. Alveg kyngimagnað að sjá þessa kappa taka lög sem maður hefur hlustað á á plötum og og fengið mann til að engjast.

Eftir frábæra tónleika þeirra var skipt um allt draslið á sviðinu, græjur Heeparanna dregið í burtu og stillt upp fyrir Deep Purple. Þá tóku við magnaðir taktar sem seint gleymast, sennilega á maður ekki eftir að sjá þá aftur á sviðið í svona gír. Söngvarinn var í byrjun líkur Dagfinni í Spaugstofunni en sótti svo í sig veðrið eftri því sem á tónleikana leið og hefur sennilega verið á Lansanum um nóttina með súrefni í æð.

Myndin er tekin þegar verið var að skipta um græjurnar, Pjakkur var hugfanginn af þessu, við hvert gítarsóló færðist yfir andlit hans sældarlegt bros.+

Enduðum síðan á að kíkja á Löng á Töng, þar sem Biggi og Geiri voru með CCR gigg ásamt Hunangi, sem ég veit nú ekkert hverjir eru.

Kv
Helgi


Vatnskarðshólar í Landbroti???

Alveg er það magnað að blaðamenn skuli varla geta farið rétt með þegar þeir skrifa um eitthvað úti á landi. Ef maður þekkir til, þá er eitthvað rangt í  fréttinni. 
Hvenær voru  Vatnsskarðshólar fluttir austur í Landbrot?
mbl.is Vélhjólamót á Kirkjubæjarklaustri gekk vel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mun ég hvergi fara.

Oft detta mér í hug orð Gunnars á Hlíðarenda, "fögur er hlíðin" og fer þá ósjálfrátt að spá i hvort það geti verið að þessi orð hafi verið látin falla á ferðalagi kappans austur á Síðu. Að hann hafi verið þar í góðu yfirlæti og ekkert langað heim.

Mér þykir þetta afar líklegt og sennilega hefði hann sest þar að, hefði hann ráðið sinni tilveru sjálfur. En hann var eins og margir aðrir, kvæntur mikilli frekju, eða eins og kallað var á þeim tíma, kvenskörungi. Nú væri hún talin feministi og sennilega hjá sálfræðingi.

Ég er nú hálf feginn að hún skyldi hafa hann ofan af þessu, hann hefði jú sest að á Fossi og gert allt  vitlaust í kringum sig. Ekki væri hægt að þverfóta um heimahagana fyrir ferðamönnum undir leiðsögn Artúrs Björgvins Bollasonar, pabbi væri í sauðskinsskóm með skóþveng, lúbarinn af mömmu, svona til að gera söguna skírari fyrir ferðamanninn.

Betra eins og það er.

 


Háskaakstur.

Sonurinn farinn að æfa akstur á vélknúnu ökutæki
Sótti hann í vinnuna og þar tók hann við stjórnvölinni, sprönguðum svolítið um bæinn, svona þvers og kruss, fórum í Bílanaust og Handverkshúsið hans Gylfa heitins. þetta gekk bara vel og pjakkurinn bara nokkuð glúrinn í þessu.  Ánægður með hann.Wink

25052007


Vorið

Það var heiðríkja og hinn fegursti dagur. Hestarnir voru bundnir við gamla hesthúsið, nýjárnaðir,og sílspikaðir eftir vorið. Samt rifu þeir í sig grasið úr kampinum eins og þetta væri þeirra fyrsta tugga í langan tíma. Það átti að fara í heiðina. Það var hugur í manskapnum og hundurinn vældi af kátínu.
Við fórum upp Hjalla en Miðbæjarmenn upp Merkiklif, Pabbi og Nonni fóru á traktorum.

Veðrið austan í brekkunum innan við Gömlu brú er alltaf gott. Alltaf logn og ilmurinn af jörðinni eins góður og hugsast getur. Ekki spillir fyrir að horfa á kýrnar hans Davíðs renna sér út í hólmana yfir lygnurnar í Þverárvatninu og finna ilminn af þeim.  Við erum spennt og förum í einfaldri röð eftir gömlu götunni innan við Bröttubrekku. Hálf kvíðin samt fyrir steininum sem fyrir löngu féll á götuna og gerir hana svo mjóa að maður verður alltaf að setja höndina á hann til að merjast ekki á leggnum en samt ekki ýta of mikið til þess að detta ekki fram af og rúlla ofaní á. Þetta lukkast nú yfirleitt en stöku ístaðsól rennur úr sæti sínu. Áður en lagt er í brattann er áð og maður nýtur útsýnisins til austurs með strá í munni. Virðir fyrir sér glæsileg túnin á Þverá og lágreist fjöllin í Hverfinu. Harðskafinn stendur þar heldur hærri en hin og svo sá gamli austastur. Eftir gott stopp er hadið af stað og ekki staðar numið fyrr en við hliðið að grösugri heiði Fossmanna.

Þegar komið er með safnið inn í Krókasker, eða inn í Horn eins og sagt er í daglegu tali, blasir við dagsverkið, framundan. Rollur skulu rúnar og settar innfyrir girðingu, hver með sínum lömbum, allt skoðað og þess vandlega gætt að ekkert sé að . Þykir okkur krökkunum svona nánast nóg um nákvæmnina.

Fjörið nær hámarki þegar rekið er inn í dilkinn, einhver kallanna fer og ákveður hvar skilja skal hópinn, þá fer allt af stað, hoppað og hrópað, styrjaldarástand skapast á meðal okkar krakkanna, takmarið er að ná að fella einhvern í hópnum. Ég man samt ekki eftir því að nokkurn tíman hafi  einhver kallanna verið felldur. Mikið hafa þeir verið þreyttir á þessum látum, það bara hlýtur að vera.

Eins og gefur að skilja eru matarpásurnar ferskar í minningunni, þar sem við öll settumst í litla gilið austan við réttina. Svali og smurt brauð,kakó kökur, slíkar trakteringar, að hver einasta kaffistofa nútímans væri stolt af slíkum kosti. Hvergi í heiminum held ég að hafi veri búnar til betri kökur og girnilegra brauð en hjá mömmu og ömmu, að ógleymdu kvöldsnarlinu hjá Laufeyju. Ég sá reyndar að Tóta hafði gott lag á þessu, kassinn þeirra var býnsa fagur.

Að loknum degi var ullinni troðið í bala, bundið á kerrurnar og haldið heim. Leiðin heim var óhemju greið, jálkarnir sporléttir og reiðmenn góðir. Hver einasta brekka var tekin á harðastökki og var ekki tekin pása fyrr en stigið var af baki niður við klif.

Mikið ósköp var þetta nú gaman og kleinurnar voru kærkomnar þegar heim  var komið. Hestarnir settir upp í brekku þar sem þeir veltu sér og fóru að éta, að bíta gras, og  það gerðu þeir þar til smalað var næst.


The others.

Þegar ég var sendur suður með mjólkurbílnum fyrir tuttugu árum var ég heill. Skaftfellingur í húð og hár og var eins og Bjarni Harðar segist vera, kunni ekki annað en segja satt. Ómengaður sveitamaðurinn var settur á Guð og gaddinn og menn vonuðu það besta.

Fyrstu dagarnir voru erfiðir, stanslausa stressið og geðveikin í bænum ætlaði um þverbak að keyra. Það var ekki hægt að ræða við neinn, enginn vildi aðstoða, afskiptaleysið algert. Djöfulgangurinn og frekjan var það sem gilti í þessu nýja samfélagi.

Heimþráin tók völdin og að mér sótti leiði. Ég setti undir mig hausinn og hugsaði með mér að ég hefði lent á skökkum stað. Staður þar sem það eina sem hugsað er um er eigin hagur, ekkert skal gera fyrir annan nema fá greitt fyrir. 

Sá að eina leiðin væri að vera maður sjálfur, ekki var hægt að verða eins og hinir, svo mikið var víst. Svo fór maður að læra:

Stundvísi skal ekki viðhöfð hér, hér koma menn bara þegar þeim hentar.
Að standa við orði sín skiptir ekki máli, hér breytast aðstæður.
Heiðarleiki er annað orð yfir að tapa.
Sveitamaður er skammaryrði, svipað og ónytjungur.
Veikindadagar eru réttur sem skal nota, 2 dagar í mánuði, hið minnsta, annað er tap.
Ef maður þarf að skreppa í vinnunni dregst það ekki frá unnum tíma.
Ef maður vinnur fram í kaffitíma ber að bæta því við tíma dagsins.
Það er í lagi að taka langa matartíma- dregst ekki af launum.
Ef maður liggur slasaður í götunni er það hans mál.

Þetta er hægt að taka saman í einn pakka, pakka sem gæti kallast , Ég er hinn eini.

Rétt er að taka það fram að ekki eru nú allir svona, sá fljótt að ekki væri gott að binda trúss sitt við slíka jálka. Segi fá hinum hópnum seinna.


Nýr landbúnaðarráherra.

Hver tekur við af Guðna? Hvað tekur við nú? Hef trú á að nú verði lagður grunnur að endalokum landbúnaðar á Íslandi. Verðum þó að vona að íhaldið fari með Landbúnaðarráðuneytið. Samt ekki að ráherrann verði Illugi Gunnarsson. Hann hefur sennilega lítinn skilning á þeirri grein.

Maður bíður bara og vonar.. eða ekki.. skelfur lítð eitt, gott ef maður finnur ekki til ógleði... svona eins og eftir heimsókn i Björkina.


Kjördagur

Fór með hrútana austur að Orustuhól. Vona að þeir rjúki ekki í ferðalanginn í sumar. Það var pest af þeim, hrútalykt. Svipuð og í lok kaffitímans í vinnunni, ef ekki hefur verið opnaður gluggi á skúrnum. Bölvuð pest.  Mætti foreldrum mínum á heimleiðinni. Þau voru að fara að kjósa. Þvíllík einbeiting í tveimur andlitum. Voru greinilega alveg með það á hreinu hvað skyldi kjósa. Það hefur legið í loftinu í svolítinn tíma.

Varð næstum til í sveitinni, var ekki alveg undir það búinn en slapp í bili. Takk fyrir það. Læt Björkina eiga sig á næstunni.


Kosningar

Merkilegt hvað allt er umsnúið þessa dagana. Maður er ekki fyrr búinn að kjósa um stækkun/ ekki stækkun Ísal fyrr en maður þarf að fara að kjósa upp á nýtt. Og jafnvel að kjósa þvert gegn því sem maður kaus í kosningunni um stækkun Ísal. Þeir sem kusu þá gegn stækkun voru taldir fygjandi stefnu Vinstri Grænna! Nei takk, það skulu þeir ekki fá frá mér að þeir hafi haft nokkuð með það að gera að ég skyldi kjósa gegn stækkun, hafi ég gert það.

Ætli ég að kjósa núna er það ekki til umræðu að ég kjósi með stefnu Vinstri Grænna frekar en þá. Á ég þá að kjósa það sama og þeir núna eins og þá?  Nei, það skulu þeir ekki fá frá mér að ég kjósi Vinstir Græna  og kýs ég, líkt og þá, það sem ég tel best, en ekki það sama  og þeir, ólíkt því sem ég kaus um daginn þegar er kaus það sama og þeir.

Voða er vont að vera svona.

kv
Helgi Páls


Lífsgæðakapphlaupið

Þegar sólin skín inn um gluggann og ég er en í bælinu, sé ég fyrir mér að kýrnar séu enn í tröðunum. Allt komið á fulla ferð, glampar á heyþyrluna hjá pabba. Ég stekk út í Massann og rýk út í Fjall. Opna uppí Stekkatún fyrir beljurnar.  Þetta verður góður dagur, vestan andvari og kallarnir búnir að ryðja niður. Það verður tekið á því í dag.

Svo opna ég augun og sé að nú er öldin önnur. Kýrnar eru á bak og burt, einnig fjallið, ekkert heyrist í fossinum, lágværar drunur heyrast úr fjarska. Ég kíki út um gluggann og sé niður á höfnina. Í stað glampans af fjölfætlunni hans pabba blasir við skrokkurin af Wilson Muuga.  Ljósavélarnar í rússneskum togara eru það eina sem heyrist í. Ég loka glugganum og rölti niður.

Heimurinn í borginni er svo mikið meira afmarkaður en í sveitinni, afmarkast af skikanum í kringum húsið og svo staðirnir sem maður getur farið á en hefur svo sem ekki neinum skyldum að gegna gagnvart.  Lætur sig engu skipta hvort þar séu aðrir á ferli, hvort menn hendi þar rusli, það kemur bara einhver og tekur það upp, einhver annar. Sá er sennilega á kaupi við það.

Allt er við hendina, ef maður gleymir einhverju, þá fer maður bara aðra ferð, ef mann vantar eitthvað, þá fer maður bara eftir því. Öðru vísi er þessu farið í sveitinni, þar notast maður við það sem er við hendina. Það er kannski ekki alltaf það sem passar best, en er nothæft.

Hér er hinsvegar ekkert nógu gott,  öllu þarf að skipta út í sífellu, nýtt er komið á markað, það skal keypt. Kaupmennirnir keppast við að troða inn á mann því nýjasta og besta, það sem var best í gær er allt í einu orðið ómögulegt.

Hvernig er þetta hægt, hvernig er hægt að ætlast til að maður rekist með þessari hjörð?


Tónlistarlegt viðrini.

Ég geri það stundum þegar ég heyri skemmtilegt lag í útvarpinu að hringja í þá sem ég veit að hafa lika gaman að laginu, læt símann við útvarpið og læt þá hlusta. Slíkt lag kom áðan í útvarpið og fékk ég tilfinninguna- ungur og hress-. Ákvað að hringja í kunningjana en komst að því að enginn sem ég þekki hlustaði á þetta með mér. Hef sjálfsagt verið fyrir framan hraunbrún á Land Rovernum, einn með sjálfum mér að hlusta á þetta. Fékk það á tilfinninguna að ég hafi verið einmanna grey. Kannski hef ég þurft að fela mig til að geta hlustað á það sem mér þótti gott en Valdi og Jón voru á annari línu, Deep Purple og þess háttar hávaði kom frá tuskujeppanum þeirra. Mátti ég mér lítils á móti þeim, var talinn hálfgerð stelpa á tónlistasviðinu.


Samræmdu prófin.

Pjakkur sonur minn er að fara í samræmt próf á morgun. Með ólíkindum hvað tíminn líður, finnst eins og það hafi verið í fyrradag sem ég var í hans sporum. Pínulítið stressaður og búinn að læra upp fyrir haus, fór maður út í skólabíl, þögull.  Þagði þunnu hljóði  alla leið út að Klaustri, fór í prófið, þagði eftir prófið og sat steinþegjandi í skólabílnum á leiðinni heim “Hvernig gekk, spurði mamma?” en þorði varla að heyra svarið. Vel, sagði ég og sagði ekki meira þann daginn. Ég hafði áhyggjur af næsta prófi.

Stelpurnar höfðu þetta öðru vísi, fóru strax í yfirheyrslugírinn, um leið og þær hittust: Hvað er sögn? Hver er nafnhátturinn af þágufallinu í 3. falli . Allar þessar spurningar. Eftir prófin var haldið áfram: Hverju svöruðu þið í 4. spurningu, en 10.? Allt þetta. Ég þagði. Það átti enginn að komast að mínum vitleysum.

Nú er komið að litla kútnum að fara  í þetta, er búinn að  vera að læra síðustu daga, eitthvað sem maður er ekki búinn að sjá mikið af, síðustu árin. Vonandi gengur það vel.

kv
Helgi Páls


Allt eins og það var.

Var að koma að austan. Hef skipt um skoðun. Það er allt í lagi þó stjórnmálamennirnir hafi ekki áhuga á sveitinni, hún er alveg nógu góð eins og hún er. Það er satt hjá Kjartani kennara, þangað er hægt að koma og detta inn í heiminn sem maður er fæddur í, þar er allt eins og þegar ég fór fyrir tæpum 17 árum. Fólkið sem er þarna er það sama og þá, bara orðið aðeins eldra. Það unir vel við sínum hag, er sátt við Guð og menn. Þeir einu sem vilja meiri asa og meiri hasar í hlutina, sýnist mér að sé fólk sem er komið langt að og finnst Skaftfellingarnir of rólegir. Það er allt í lagi, þeir bara fara þá eitthvað annað sem ekki kunna við staðinn og fólkið.  Annað með þá sem þurft hafa að fara vegna brottflutninga starfa, er ekki að tala um það.

Þessir "fáu" sem eftir eru, eru bara sáttir, nú annars fara þeir bara líka.
Sumir fara til náms og koma ekki aftur, það er eins með þá og annað, þeir hæfustu lifa af, á Síðunni.

kv
Helgi


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband