Föstudagur, 14. september 2007
Aftur um aldarfjórðung
Þau voru létt, sporin hans þegar gúmmíbáturinn náði loks landi austan við Síkið. Hljóp við fót og þótt hann væri fæddur sama ár og afi minn, var hann langt á undan. Við vorum forvitnir, strákarnir, þutum í hringi, sparkandi í allt sem við sáum, hnubbandi hvor í annan. Gamli maðurinn fjarlægðist meir og meir og þegar við ætluðum að taka sprettinn, þá var það of seint. Siggeir var þegar kominn austur að Melós, langt á undan okkur.
Mikið hlýtur hann að hafa vedrið hissa á galgopahættinum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 9. september 2007
Kærleikur á fjöllum.
Ég hef oft talað um hvað smalamenskan er mér kær, hvað það er unaðslegt að skottast um heiðarnar og sjúga í sig fjallaloftið, eltast við misjafna sauðina, misjafnlega stefndur sjálfur. Hvað það getur verið mikil slökun frá skarkala höfuðborgarinnar, fjarri sambandi gsm símans, aðeins dagsbirtan stjórnar för. Hve mikils virði það er fyrir okkur sauðina að sunnan að geta dottið inn í samfélagið sem við erum aldir upp við, eins og tíminn hafi staðið í stað.
Þó er eins og hundarnir hafi ekki eins gaman af þessum fundum, að þeir sjái ekki að sátt og samlyndi er það sem skiptir máli ef gaman skal hafa af. Þeir eru roknir saman um leið og stoppað er , slást sem mest sem þeir mega og möguleg vinátta virðist fokin út í veður og vind. Augnaráðið í kjölfarið er magnþrungið og hver er á verði gagnvart öðrum.
Þannig ná þeir að skemma afkaplega ánægjulegar stundir með stærilátum og leiðindum. Stundir sem hefðu átt að vera í staðinn kærleiksstundir þeirra, þar sem hver ber virðingu fyrir örðum, hver horfir framhjá galla hins, hver styður annan.
Já, þeir átta sig kannski ekki á þessu fyrr en of seint.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 26. ágúst 2007
Urð og grjót / Blómstrandi brekkur
Var boðið í gær í ferð inn undir Langjökul, fórum frá Þingvöllum, Norðlendingaleið, austur að Hagavatni og um það svæði. Frábær ferð með ágætum mönnum.
Ekki þótti mér mikið til haglendis svæðisins koma, fátt annað en urð og grjót, sem þó getur nú talist fagur, en meira að segja Austur-Síðu afréttismanninum blöskraði og er þá víst mikið sagt.
Set hér tvær myndir til samanburðar.
Hlöðufell
Miklafell.
Segir meira en mörg orð.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Föstudagur, 24. ágúst 2007
Helga Sara í skóla
Oft er ég sakaður um að vera hranalegur í framkomu, að ég geti varla pantað pylsu nema með látum. Geti varla óskað fjölskyldunni góðrar nætur án þess að himinn jörð virðist vera að farast.
En mitt í öllum þessum misskilningi er þó alltaf einn sem ég á vísan, sem alltaf skilur hvað ég á við, þó málrómurinn sé mishár og andlitið misþrútið. Það er hann Pjakkur, hundurinn hans pabba.
En eitt er þó það sem ég á enn erfiðara með að skilja, það er að ég skuli í öðru orðinu vera kallaður hrotti en í hinu kelling. Kannski er það sú hlið karlmansins sem ekki er flíkað nema við hátíðleg tækifæri og þá helst þegar enginn sér. Nú sér mig enginn og því get ég með góðri samvisku upplýst þá sem vilja vita, hvað óskaplega það er skrítin tilfinning þegar börnin mans fara í fyrsta skiptið í skóla. Það var einmitt í dag sem dóttir mín mætti sinn fyrsta dag í skóla , afskaplega spennt og glöð en ég var eiginlega ekkert betri. Virkaði áreiðanlega hálfkjánalegur, hlaupandi um með myndavélina, kennararnum og nemendum til ama og dóttur minni sennilega til ævarandi skammar.
Hér situr hún út við gluggann og bíður þess að ég komi mér út úr stofunni.
En myndinni náði ég.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Föstudagur, 24. ágúst 2007
Borgarstjórinn ei skóflufær?
Tókuð þið eftri því að Vilhjálmur snéri skóflunni öfugt.
Skóflan var að vísu skringileg en samt... klaufalegt.
Ætlann hafi verið nýbúinn að slokra niður volgum bjór?
Landið helgað með eldi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Mánudagur, 20. ágúst 2007
Kvennamál
Með ólíkindum má víst teljast að maðurinn skyldi ná sér í konu og hvað þá eignast börn. Það er engu að síður staðreynd og það sem meira er , öll virðast þau mannvænleg og prúð. Meira að segja virðast þau myndarleg og eru menn þar ekki á eitt sáttir, hverju það skal þakka.
Eitt er þó víst. Það er ekki skaftfellskri kvenþjóð að þakka hvað börnin eru fín, né heldur að þau skulu yfirleitt vera komin í heiminn. Skaftafellssýslan hefur í þrjátíu og níu ár átt hug hans allan og erfitt yrði að finna þann mann sem þjáist af meiri heimþrá en þessi umsnúni undanvillingur Síðunnar. Vorin, með gróandann og dýrðina, þar sem hrossagaukurinn leikur við hvern sinn fingur, sumrin, með heyskapinn, útreiðartúrana, ádráttinn í Hólmunum, félagarnir allt um kring. Haustin, með afréttisferðirnar þar sem allir eru samstíga og sælir með sitt, féð rennur af fjalli líkt og lækir, niður klifin þar sem golan ýfir hvíta ullina. Þetta er aðeins minningin ein og því aðeins hægt að velta sér upp úr henni og láta það gott heita.
Nei, það er ekki tekið út með sældinni að gerast Gaflari.
Það var aldrei ætlunin að verða burtfluttur Skaftfellingur. Hann var búinn að prófa að vera í sollinum í borg Davíðs. Ekki líkaði mönnum vistin þar og því ákveðið að hverfa alfarið þaðan og alkominn í sveitina sína, sem var honum hans ær og kýr.
En allir menn skydu ná sér í konu og þar stóð hnífurinn í kúnni, því þó nóg væri af kvenkostinum í sveitinn var eins og það væri ekki skilningur á þeirri nauðsyn að standa saman. Sama var hve mikið menn lögðu á sig við að ganga í augun á þessum prímadonnum, aldrei var svo mikið sem litið í áttina að manni. En, ef aðkomumenn bar að garði, þá var öldin önnur. Það var eins og þá risu þær frá dauðum. Yfir gaddfreðin andlitin færðist bros og jafnvel svolítill roði. Þær stukku af stað og andlitsfarðarnir seldust upp á kaupfélaginu. Allt þótti fyndið sem þessir leppalúðar létu út úr sér, þó ekki kæmi orð af viti upp úr þeim, enda aldir upp á mölinn með öllu sem því fylgir.
Það kom hins vegar að því að mælirinn fylltist og var þá farið að líta í kringum sig. Kom þá hitt og þetta í ljós sem var haldið leyndu fyrir saklausum sveitapiltunum. Þeir voru nefnilega vanir að renna í hádeginu,uppá gamla hótel, í fínar steikur hjá Grétu og Vigdísi. Svo þegar sumraði, þá færðist reksturinn niður í skóla. Piltunum var sagt að það væri vegna svefnpokaplássins í kennslustofunum og þar mætti fá aukapening fyrir hótelið.
Þangað var þeim sagt að fara aldrei. Gréta og Vigdís hefðu svo mikið að gera þar að þeir myndu aðeins þvælast fyrir. En þangað ráfuðu þeir samt í þunglyndi sínu og kom þá í ljós að skólinn, sem var búið að breyta í hótel, var kjaftfullur af ótrúlega fallegum stelpum sem voru þar við störf. Slíka fegurð höfðu menn aldrei séð. Hver stúlkan var annari fegurri.
Gáfu menn það alveg upp á bátinn að eltast við afundnar,dyntóttar og húmorslausar heimastelpurnar.Menn snéru sér að þessari fínu nýlendu og völdu sér kvonfang þar. Úr nógu var að moða og menn hurfu þaðan nokkuð brattir og sáttir við sitt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Föstudagur, 17. ágúst 2007
17. ágúst Margrét Helgadóttir 90 ára
Hún elsku besta amma mín er 90 ára í dag. Hún heldur upp á afmælið sitt heima á Fossi, þar sem fjölskyldan ætlar að koma saman um helgina. Reyna að gera henni, og okkur öllum, glaðan dag. Hangikjet í kvöld og kökur á morgun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Laugardagur, 11. ágúst 2007
11.ágúst Margrét Helgadóttir 9 ára
Margrét mín afmæli í dag. Þennan dag fyrir 9 árum kom hún í heiminn, 7 árum seinna en bróðir hennar, sem var búinn að gefa upp alla von um að eignast systkyn. Eitthvað þótti okkur hann nú taka henni frekar fálega þegar við sóttum hann til að kíkja á spítalann, stuttu eftir fæðinguna. Snéri sér frá henni og vildi ekki fyrir nokkurn mun kjassast í henni. Þegar við fórum að ræða þetta við hann, sagðist hann bara ekkert þekkja hana og var því kurteisin uppmáluð.
Núna er hann 16 ára, fyrirmynd systra sinna sem dýrka hann og dá, enda hinn vænsti bróðir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Þriðjudagur, 7. ágúst 2007
Klaustur.is ?
Skelfing er nú að horfa uppá doðann á klaustur.is. Skammirnar sem við fengum í fyrra fyrir að skrifa á síðuna eru mér í fersku minni, var þar vegið að átthagatryggð minni svo um munaði. Ég varð að sjálfsögðu við ósk heimamanna og hætti skrifum hið snarasta á síðu þeirra, enda ekki ætlun mín að ergja, hvorki fyrrum sveitunga mína, né þá sem þangað fluttu seinna.
Ég held að þar hafi þeir sem mest hörðu sig í frammi, bæði undir nafni og dulnefni, átt frekar að halda sig til hlés. Síðan er nokkurnvegin dauð, fátt er skrifað og seint. Viðburðir fást ekki skrifaðir í viðburðardagatalið ( ef marka má skrif heimamanna) og annað eftir því.
Hefði nú ekki verið skárra að umbera okkur brottflutta og leyfa okkur spekúlera um hitt og þetta, ræða það sem á döfinni er og fleira í þeim dúr. Jafnvel þótt stöku gagnrýni hafi komið fram.
En svo var ég að hugsa, kannski líður þeim ,sem um sveitina mína hafa að gera, eins og við brottfluttir séum einhverskonar fyrrverandi makar sveitarinnar, gamlir kærastar eða kærustur, sem núverandi makar vilja ekkert af vita.
Nú þá skil ég þetta afar vel.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Föstudagur, 3. ágúst 2007
Heimskur um verslunarmannahelgina.
Mannskepnan er gædd þeim hæfileika að aðlagast hinum verstu aðstæðum. Það hefur skaparinn sennilega sett í okkur vegna þess að han hefur náttúrulega vitað sem var, að tæplega kæmist hann yfir að halda öllum kátum og glöðum með það sem við höfum. Hann varð að setja þetta í okkur, sem nokkurskonar aukabúnað. Svona eins og hina kveikjuna í flugvélum. Þar er borð fyrir báru, vaðið fyrir neðan, allt það.
Ég fer nefnilega ekki austur um helgina, er búinn að vera að glíma við það í dag, var með beinverki í morgun, ofskynjanir eftir hádegið og ranghugmyndir seinnipartinn. Hringdi þá í einn sem ég vissi að var á leiðinni austur. Hann var staddur í Breiðholtinu, á rauðu ljósi, pirraður í skapinu.
Ég rabbaði við hann smá stund og kvaddi þegar hann var kominn að næsta rauða ljósi. Ég lagði símann frá mér, hallaði mér aftur og setti Stevie Ray Vaughan á spilarann.
Guð er góður.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Miðvikudagur, 1. ágúst 2007
Boð og bönn.
Hefur maður kannski alltaf rangt fyrir sér. Getur verið að maður velji alltaf skakka leið og vaði endalaust villu vegar. Hvað er þá hið rétta? Er það rétta það sem hinn telur rétt. Hefur hann réttu handbókina? Hvar fékk hann þær leiððbeiningar og hver skrifaði þær. Var það ekki bara breiskur maður eins og við hin, manneskja með sína sérvisku? Og hvað er það sem segir að sú sé að gera hið rétta? Hver ákveður að þetta meðgi þarna en ekki hitt?
Ja, ég bara spyr.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 30. júlí 2007
Frá einmannaleika að heimþrá
Júlí er að verða búinn og ég er að falla í nett lyndi. Og þá er ég ekki að tala um léttlyndi. Þar eymir af gömlum gambra þegar kvíðinn settist að í hjarta sveitamannsins og dagarnir voru taldir niður þar til sumarkrakkarnir á Fossi fóru í bæinn. Hurfu á braut með Austurleiðarrútunni og skildu mann eftir með hundspottið gjammandi í hælunum á manni. Ég horfði á eftir rútunni þangað til hún hvarf út fyrir Draugasteina. Snéri heim og bað hundinn að róa sig. Komdu hvutti.
Nú líður að því að Verslunarmannahelgin gangi í garð og einhvernvegin styttist þá í haustið. Grasið í vegkönntunum tekur að sölna og skyggja fer á kvöldin.
En hvað er ég að bulla þetta, kominn undir fertugt og löngu farinn að heiman. Þarf ekki að lengur að syrgja töffaranna úr bænum, þvert á móti er maður kominn með nett leið á einmitt töffurum í bænum.
Og hvað þá? Þá snýst dæmið algerlega við. Maður fer að þrá að komst í sveitina sína, horfa á sólina faðma brekkurnar sem virðast fegurri en nokkru sinni fyrr í haustblænum. Drifhvítar ærnar um allt með lömbin sín, rígvæn eftir sumarið. Maður þráir það mest af öllu að vera innan um kallana, kallana í sveitinni sem aldrei fóru suður og eru því ómengaðir sveitamenn, alvörumenn þar sem orð standa. Segja það sem segja þarf en ekki endilega neitt meira en það.
Já, svona er nú tilveran mögnuð.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Sunnudagur, 29. júlí 2007
Ritfrelsi?
Nú er verið að ræða um að menn megi ekki skrifa hvað sem er á Bloggið, að maður megi ekki hella úr skálum reiði sinnar að þessum vettvangi. Ég hef einhvernvegin talið það í mínu valdi að velja hvað ég skrifa hér, að ég geti sjálfur ákveðið hvort ég hrósa þorpurum eða hasti á þá, eins með Björgvin Halldórson, Saddam Hússein, Ingibjörgu Sólrúnu og hven þann sem ákveður að gera persónu sína að umtalsefni.
En ætli maður verði ekki að skrifa þetta hjá sér og brenna því síðan eða bölva bara ofaní bringuna á sér og brosa síðan framan í heiminn, sama hvað gert er á hlut mans. Nú, svo gæti maður náttúrulega gerst bara þöggla týpan.
Þetta er nú meiri veröldin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 23. júlí 2007
Sveitaskreppur
Við skruppumheim að Fossi á laugardaginn, áttum erindi við Bjarna í Miðbænum. Skoðuðum Skógafoss sem er í miklu uppáhaldi hjá stelpunum en þær voru mikið að spá í kistu Þrasa og fannst magnað að skoða gaflhringinn á safninu, það eina sem hefur náðst af kistunni.
Jújú, snotur foss en full vatnslítill fyrir minn smekk.
Símstöðin frá Klaustri var þarna , stöðin sem mamma mín vann við á sínum tíma, gaf samband á milli sveita og í bæinn þar sem voru sjálfvirkir símar.
Sólin skein alla leiðina austur en þegar austur fyrir Hörgslandskot var komið, fór að rigna og hellirigna austan við Draugasteina. Þetta var að sjálfsögðu fyrir gróðurinn. Reyndi að útskýra þetta fyrri konunni, en hún náði þessu ekki þó óneytanlega hafi þetta einnig verið gott fyrir frjóofnæmið hennar, að fá góða skúr rétt á meðan rennt var í hlað. Magnað hvað allt verður gott í sveitinni.
Í bakaleiðinni fórum við niður í Reynishverfið, þetta afar blómlega hérað og næstum því fallega. Skoðuðum Hálsnefogeyrnahelli í Reynisfjöru.
Fínn dagur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Fimmtudagur, 19. júlí 2007
TF-SIF
Er maður orðinn gamall? Nei, allavega finnst mér það ekki en þegar maður horfir á þyrlusveitina þá dettur manni í hug að kannski sé maður farinn að reskjast. Þegar þyrlur gæslunnar svífa yfir hausamótunum á manni, setur maður upp ákveðna hugmynd um gerð flugamannanna, svipsterkir en algerlega án svipbrigða, pollrólegir, svona ekkert ósvipaðir Burt Reynolds, og svo náttúrulega Benóní Ásgrímsson, menn sem svara ekki gsm símanum þótt konan hringi. Svo koma þessir flugmenn í sjónvarpið og þá eru þetta bara strákar! Og Benóní eins og afi þeirra, kemur svona með eins og til að passa að þeir bulli nú ekki einhverja vitleysu eða stökvi í burtu. Helvíti held ég samt að hann hafi skammað þá, tekið í lurginn á þeim eins og Pabbi skammaði mig fyrir að láta Allisinn renna niður brekkuna fyrir ofan hlöðu, þar sem hann stóð til að hann færi í gang.
Nei, þessi fumlausu handtök og hárnákvæma flug kemur úr höndum þessara stráka, stráka sem eru klárir í hvað sem er, til að hjálpa ósjálfbjarga mönnum eins og mér, þegar allt er komið í hönk.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Þriðjudagur, 17. júlí 2007
Sumarhugleiðing
Það var hásumar. Vestanáttin eins og áður hefur verið lýst, einstök. Vestanáttin er eiginlega það eina góða sem kemur frá Víkinni. Svona hlý og notaleg. Þá er ég að sjálfsögðu að skilja frá, Elínu á Keldunúpi, Sólveigu í Prestsbakkakoti, Sveinbjörgu, Jóhönnu og allar þessar Kerlingar sem sóttar voru út yfir sand til að bæta annars furðugóðan stofninn sem fyrir var. Þær flokkast náttúrulega með vestanáttinni, svona hlýjar og notalegar.
Hundurinn var eins og ég, alveg sallarólegur og flatmagaði á stéttinni. Það sem skildi okkur að, þennan fallega þriðjudagsmorgun, var að ég sötraði kaffið en hann var í óða önn að gera á sér morgunverkin, þvoði sér mjög vandlega, hátt og lágt og afar vandlega á viðkvæmum stöðum. Gekk þetta drykklanga stund með ótúlegu kjamsi og smjatti. Svona, hættu nú! sagði ég við hundhelvítið og mér lá við að kúgast. Hundurinn spratt á lappir og ég líka þegar hann gerði sig líklegan til að þvo mér í framan, með sama þvottapokanum.
Ég rölti uppá tún með kaffibollan til að líta Fossinn minn, Fossinn sem hefur bara ekkert breyst í gegnum árin. Alltaf jafn rólegur og staðfastur, fellur fram af brúninni með ótrúlegri natni, nánast eins og hann leggist mjúklega á klöppina svo bæjarlækurinn geti haldið sínu striki.
En árin líða og strax er maður sjálfur farinn að telja í áratuttugum til baka, atvik sem eru eins og gerst hafi í gær. Þegar við krakkarnir vorum í þessari sömu brekku á kvöldin , í ótal leikjum og uppátækjum, þar er verið að tala um 25-30 ár. Sei, sei.
Ég gekk til baka og kallaði á hundinn sem leit upp, eins og steinhissa og hálf skömmustulegur í framan, þar sem hann var að háma í sig hrossaskít. Svei mér þá, ég held að hann sé að verða ruglaður. Gekk inn í bæ, inn í eldhús. Fyrri tuttuguárum hefði amma verið þar með morgunmat fyrir okkur öll, smurt brauð með eggjum og öllu tilheyrandi. Nú er öldin önnur, enginn er í eldhúsinu og ég fæ mér því ekki neitt.
Já, sumrin voru góð í sveitinni, alltaf nóg að gera og lagðist maður steinþreyttur á koddann á kvöldin, ýmist eftir baggahirðingu eða erfiða leiki. Næsta tún lá sennilega í ljánni eða var komið í næturmúga. Ef hirðingin gekk vel var farið til nágrannanna og létt undir með þeim, þannig fórum við krakkarnir á milli bæjanna eftir því sem þörf var á. Var því oft kátt á hjalla þegar margir söfnuðust saman og verkið gekk vel.
Núna hýrast menn einir í traktorunum og það eina sem menn heyra eru skellirnir í tækjunum.
Bloggar | Breytt 18.7.2007 kl. 02:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 16. júlí 2007
Stígvélafótboltinn á Klaustri
Spiluðum stígvélafótboltann á laugardaginn fyrir austan, mafgfalt fleiri en í fyrra. Sá háttur var hafður í ár að fullorðnir og börn kepptu saman. Það lukkaðist bara vel, ótrúleg barátta í þessum ungu piltum sem skoruðu nokkur af mörkum leiksins. Ekki var spilað Klaustur á móti rest, heldur skipað í liðin af handahófi. Jafntefli varð niðurstaða leiksins og því allir sáttir í leikslok, kófsveittir í frábæru veðri.
Kristín á Fljótum ætlar að koma saman dagskrá fyrir þennan dag að ári, gera eitthvað meira úr deginum. Hljómar það vel og gæti orðið nokkurskonar íþróttaviðburðardagur, ratleikir, hástökk og allt það sem gaman var að gera í gamla daga og nauðsynlegt að ryfja upp með börnunum okkar.
Takk fyrir skemmtilega stund.
Helgi
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 11. júlí 2007
Miklafell.
Mikið er nú fjallaloftið heilnæmt. Eftir óhemju mikla vinnu og endalausa natni við ótrúlega gróskumikinn, fagurgænan, undurfagran, balan í Fellinu, sótti að manni gríðarleg þreyta, þreyta sem venjulegt fólk hefur varla fundið fyrir. Hangikjetið gaf að vísu gott spark en sennilega var það kjetið sem setti af stað þennan voðalega þorsta, þorsta sem slökknaði ekki fyrr en um miðja nótt og þá gátu loks vinnulúnir menn lagst útaf, algerlega úrvinda, skögrandi og rámir. Slík voru átökin að þann næsta dag var sem unnið hafi verið alla nóttina, svimi og óbærileg ógleði, ásamt ólgum í maga og miðtaugakerfi. Kerfi sem virtist ekki ætla í lag.
Hvernig hefði manni reitt af í byggð?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 29. júní 2007
Er fiskur matur?
Einn góður maður sagði eitt sinn í einlægni sinni" Mér finnst allur fiskur vondur, nema silungur og kjöt" Ég skil svo algerlega hvað maðurinn var að meina, talað svona rétt á meðan hugsað var, fiskur er vondur, silungurinn þó ágætur, samt fiskur en kjötið best og kemur alltaf í hugann þegar hungrið sverfur að.
Það var 20 stiga hiti í dag á Sparisjóðsmælinum kl sex og hugsaði ég með mér að nú væri kannski upplagt að grilla feita sneið af lambi. Slafra henni í sig með nokkrum tegundum af sósum. Þegar ég kom heim spurði ég dóttur mína varfærnislega hvort hún héldi að mamma hennar væri nokkuð með mat? " Jú, það er bleikur fiskur í matinn" Ég fann fyrir máttleysi í fótunum og maginn tók stökk aftur fyrri mænu og faldi sig þar eins og lafhræddur hundur. Bleikur fiskur! Hvað er manneskjan að elda? Á ég að trúa því að nú sé ætlast til að ég, sársvangur maðurinn, útþvældur eftir harða vinnuviku, eigi að fara að éta bleikan fisk.
Ég hugsaði með mér að rétt væri að hugsa málið í svolitla stund svo ekki kæmi til leiðinda. Ég hélt áfram að moka skurðinn, kófsveittur, ( af hita því ég er með gröfu á leigu) og lét ónotin líða hjá að mestu. Stökk þá inn og leit inn í eldhús og sagði blíðri röddu . " Ertu með lax í matinn?"" Jebb, steiktann lax" sagði hún og ljómaði eins og sólin sjálf, haldandi það að ég væri svona hoppandi kátur með uppátækið. "Það er bara ekkert annað", sagði ég og hækkaði á viftunni svo pestin færi ekki út um allt hús.
Ég hélt áfram að grafa þangað til ég heyrði : "MATUR" Það var búið að leggja á borð úti og á kanntinum stóð einn ískaldur fyrir húsbóndann. Og viti menn, bleiki fiskurinn var bara helv. góður. Ég fékk mér vænann skammt og var kominn aftur í ljómandi skap þegar eitt barnið horfði í augun á pabba sínum með stóra skál í höndunum , í skálinni var brætt smjör og laukur. " Viltu lauk feiti?" sagði barnið og restin af fjölskyldunni lagðist í grasið af hlátri.
Bloggar | Breytt 30.6.2007 kl. 10:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Sunnudagur, 24. júní 2007
Hin magnaða Jónsmessunótt á Fossi
Ég hef lengi ætla að upplifa Jónsmessunóttina í sveitinni minni og sjúga í mig strauma hins góða. Upplifa nóttina þar sem svo margt á að vera á ferli, fara upp í Foss og vera þar aleinn fram á nótt. Þar býr huldufólk í steinunum, afar gæfar verur . Þarna hafa þær lifað í sátt við mannfólkið í aldir, ekkert hefur verið gert sem truflar íbúa Fossins.
Nú var komið að því, ég í sveitinni minni ásamt megninu af fjölskyldunni, heyinu var rúllað í gær svo ekki þurfti að hafa áhyggjur af því í dag. Nú var komið að því að rölta upp í Foss um miðnæturbil, leggjast þar á grænan bala og láta hugann reika. Reika til bernskudaganna, daganna þar sem við krakkarnir fórum að vaða í Fossinum á heitum dögum. Búa til stíflur við hylinn, skemmta okkur við hitt og þetta. Huldufólkið hlýtur að hafa verið þarna með okkur og sjálfsagt hafa þeirra börn leikið sér með okkur, þótt við hefðum ekki tekið sérstaklega eftir því. Nú var kannski komið að því, á Jónsmessunótt árið 2007.
En ég sofnaði kl 23 og vaknaði kl 8, í rúminu mínu.
Kannski að ári.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)