....

Það kemur mér stundum á óvart hvað ég á góða konu.  Stundum er ég alveg að gefast upp á henni, finn henni flest til foráttu, til fárra hluta nytsamleg. Skil ekkert í sjálfum mér að nenna að dröslast með hana svona algerlega í eftirdragi. Augu mín opnast þó stöku sinnum og er einna mest þegar ég sé muninn mínum högum og högum félaganna. Þeir virðast margir hverjir fáu ráða um sitt eigið líf,  taka ekki ákvarðanir einir, eru skikkaðir til að raða sínum hlutum eftir því hvernig kerlingunum þóknast.  Undanskil ég eðlilegt samlífi fjölskyldna.

Mikið svakalega er ég eiginlega heppinn með konuna mína, hugsa ég þá, lít til baka og finn að ég get gert akkúrat það sem mig langar til, fer austur þegar mig langar, á fjöll þegar mér dettur í hug, smala eins oft og þörf er á, allt saman ein með sjálfum mér, með ótrúlegum skilningi konunnar geri ég þetta árum saman. Endalaus þolinmæði hennar í minn garð vekur mig til umhugsunar, slíkan kost eiga fáir til að státa af og hreinlega með ólíkindum að hún skuli ekki fyrir löngu vera búin að finna sér almennilegan mann.

Eða eins og amma mín sagði : "Helgi, þú skalt þakka Guði fyrir að eiga svona góða konu"
Og ég spyr: Hvað gerði þá Ragnhildur af sér??


Alvöru Skaftfellingar

 Ég er búinn að fara svo oft í sveitina mína í haust að ég er farinn að ruglast á því hvar ég er, þar sem ég flatmaga á kvöldin í sófanum. Stóð mig að þvíum daginn að rjúka upp til að athuga hver væri að koma í heimsókn. Áttaði mig fljótlega á því að þetta var aðeins ljósastaur sem sveiflaðist um í vindinum, en að öðru leiti pikkfastur í malbikinu á Hlíðarbrautinni. Var ekki bíll á fullu spani upp traðirnar. Ég hlýt að hafa verið rétt í þann mund að blunda, allavega leið mér afskaplega vel.

Átti frábæran dag um daginn austur á  Fossi, þar sem við smöluðum heiðina, Fossmenn, menn sem maður getur reitt sig á koma til dyranna eins og þeir eru klæddir, og þeir eru vel klæddir. Léttir i lundu, frábærir kallar.  það er gott að þekkja menn svona vel og finna að þeir þekkja mann jafnvel betur en maður þekkir sig sjálfur.  Vita um alla takkana á manni og ýta á þann sem hentar best hverju sinni. 
Þeir eru alvöru Skaftfellingar
Heiðarsmölun 3 002


Réttlætið sigrar á Klaustur.is

Lokins hefur gestabókinni á Klaustur.is verið lokað. Þetta gat ekki gengið lengur og hefur hin ágæta sveitastjórn á staðnum stöðvað ærumeiðingar í garð brottfluttra Skaftfellinga.   Nafngreindir einstaklingar voru þar lagðir í einelti, sakaðir um að skrifa aðeins bull og þvælu, hafa ekkert málefnalegt fram að leggja, vera á móti öllu sem breyta átti í gömlu heimahögunum.  Fátt mátti orðið skrifa á síðuna án þess að vera snupraður fyrir.

Svona netdólgar eru sem betur fer stoppaðir af í dag og vonar maður að menn sjái að sér því það er ekki hægt að flytja upp í sveit, hlaða í kringum sig víggirðingar og leggja fæð á okkur hin sem áttum þar heima og erum á þann hátt bundin staðnum tilfinningaböndum.

Þetta er sennilega í ætt við afbrýðisemi,  mörgum mönnum er jú meinilla við fyrri eiginmenn konu sinnar.  Villja hvorki heyra af þeim né sjá.

 


Fjaðralaus og magur?

Hverjum þykir sinn fugl fagur, þó hann sé bæði fjaðralaus og magur, segir amma mín. Hún er vön að segja aðeins það sem rétt er,  annars segri hún bara ekki neitt.  Mér duttu þessi orð hennar í hug áðan þar sem ég stóð og var að dásama fjöllin mín, hvursu fögur þau væru og tignaleg.   Hugsaði með mér, hvílik fegurð, hvíllíkar dásemdir. 

Var þá sem sagt hugsað til hennar ömmu minnar, því það er myrka þoka og sér ekki nema uppí miðjar brekkur. En  ég veit að þau eru þarna í þokunni.

Það er samt gott að þetta skuli vera svona, með fuglinn og fjaðrirnar, því ekki verður konan alltaf nítján ára . Ha?Whistling


Framsóknarmaður úr sveit

Þegar hann fluttist á mölina var ekki um það að villast að maðurinn var úr sveit. Skar sig úr hópnum á flesta vegu. Var alls ekki að falla í þennan ótrúlega hóp, þar sem menn kepptust um að belgja sig sperrast. 

Fljótlega fóru spjótin að beinast að sveitamanninum, hann borinn þungum sökum, átti sökina á flestu því sem misfórst í íslensku samfélagi.  Hann bar ábyrgð á verðbólgunni, atvinnuleysinu, vondu gatnakerfi í borginni, dýru lambakjöti og var það greinilega það sem fór mest fyrir brjóstið á þessum vesalings krötum sem virtust undir hverrjum steini sem við var velt.  Sumir þeirra kusu þó íhaldið, en voru greinilega kratar og ekkert annað.

Strax var maðurinn sagður Framsóknarmaður, sama hvað hann reyndi að malda í móinn, hann var stimplaður Framsóknarmaður.  Klárt mál og sjálfsagt. Og það var ekki talið honum til tekna, öðru nær. Hann var hundskammaður fyrir það að vera Framsóknarmaður, þó aldrei hafi hann viðurkennt það, átti allt vont skilið,  þau skammaryrði sem maðurinn hafði aðeins heyrt notuð á hundana, voru nú notuð á  þennan sakleysislega sveitapilt. Pilt sem átti sér aðeins þann draum að fá að vinna í friði fyrir töffurunum og óþjóðalýðnum sem velti sér upp úr vesöld annara í miðri viku og ælum sínum um helgar. Vildi vera í friði fyrir stanslausum árásum þeirra sem virtust sjaldan fara út úr bænum og þá helst með vonda skapið og neikvæðnina að vopni. Þvældust um landið, bölvandi og ragnandi, öskuillir út í þennan helvítis bændalýð sem hékk eins og æxli utan á vinnandi stétt þeirra fyrir sunnan. Allt Framsóknarmenn!

Hvað ef þessi fallegi sveitapiltur hefði verið með  skarð í vör? Hefði hann verið skamaður fyrir það? Hefði hann verið hundskammaður af krötunum fyrir það.  Sennilega  já, því þannig eru kratarnir.

Það er nefnilega þannig að það vill enginn vera Framsóknarmaður, frekar en með skarð í vör. Menn fæðast bara svona. Og það sem meira en, að vera Framsóknarmaður er genagalli, eitthvað sem ekki er hægt að lækna með lyfjum. það er hægt að halda þessu niðri með handaflinu en þegar í kjörklefann er komið, taka genin við og Xið fer við Béið. Eina leiðin til að losna við það er að mæta ekki á kjöstað, því alveg sama hvað menn eru ákveðnir í að kjósa eitthvað annað, það fer alltaf á sama veginn.

Kveðja,
Helgi Pálsson

 


....

Í skólanum mínum í gamla daga voru frímínúturnar  það sem beðið var eftir . Ekki ósvipað  og í dag.  menn þustu út og ærsluðust allan tíman sem mest þeir máttu.  En það eina sem stefnt var að vara að kaupa fótbolta. Allt snerist um að kaupa bolta, í margar vikur á haustin. Bolta skyldi kaupa og var þegar það var í höfn var heldur betur kátt í höllinni, hjá fótboltaunnendum. Þeir byrjuðu á því að skoða gripinn, í krók og kring og ekki vantaði að fallegur vara hann alltaf.

en það var ekki jafn kátt í höll þeirra sem ekki stunduðu þetta sport.  Maður mátti þakka fyrir að komast óslasaður út út kelfunum, slík voru dúndrin. Og ef maður  var svo óheppinn að þeurfa að fara í leikfimi í næsta tíma eftir frímínútur, þá var þjarmað að manni af fótboltabullunum sem voru á vellinum.

Hefði ekki verið betra að kaupa eitthvað annað?

 


....

Það var tekin ákvörðun um að kaupa græjur í skólanum. Nemendafélagið stóð fyrir því og keyptar voru Marantz græjur af fínustu gerð. Þetta voru mikil tímamót í skólanum fyrir þá sem höfðu gaman af tónlist. Þeir nutu þess til hins ýtrasta og spiluðu sem mest þeir máttu. En þetta var líka stór stund fyrir þá sem höfðu ekki gaman af tónlist. Við sem höfðum ekki gaman af tónlist þurftum að hlusta á það sem í boði var í hvert skipti og ég held að þeir, sem voru í þeirri stöðu á fá að handleika þessar fínu græjur, hafi verið í innbyrðis keppni um hver gæti spilað hæst, hver gæti spilað sem þyngstu tónlistina, hver gæti spilað gófustu og biluðustu tónlistina án þess að kennararnir stoppuðu leikinn.

Sá þröskuldur var ansi hár, því kennararnir voru niðri á kennarastofu að reykja.  Þá sátum við, krakkarnir sem ekki vorum fyrir þessa tónlist, eins og dæmd og þóttumst bara hafa gaman af, því þarna voru eldri krakkarnir á ferinni og þeim skyldi fylgja. Vorum í raun að kveljast undan þessum ógurlegu hljóðum. Hefði ekki verið betra að kaupa eitthvað annað í skólann heldur en þetta ?

Ég er nú bara að hugsa um þetta.


....

Það er sama sagan á Klaustur punkturis, alveg endemis lognmolla, Kjartan kennari sagði okkur að menn hefðu öðrum hnöppum að hneppa en bulla tóma þvælu um ekki neitt, eða eitthvað í þá áttina en fyrr má nú hneppa en dauðhneppa! Það kemur varla stafur frá heimamönnum nema  til að skamma okkur hina sem vogum okkur að stíga fæti inn á ritvöllinn þeirra. Kjartan kennari sér þó tíma í það, gengur þá sjáfsagt í óhnepptu þann daginn. Suss og svei, ekki það að viskan streymi frá manni, enda slíkt varla mjög skemmtilegt á texta en ég segi það satt að mikið vildi ég hafa tækifæri til að lesa eitthvað frá gömlu sveitungunum.

Nema menn séu kannski að rækta korn á ritvellinum? Ja ekki eru menn í sundi. Svo mikið er víst.


Veiðiþjófar í Skaftafellssýslum.

Gunnar Ingi Gunnarsson skrifar ágæta grein í morgunblaðið í dag og fjallar þar um ormaveiði, veiði á laxi með ormum. Þar rekur hann aðdraganda þess að menn hættu að veiða laxinn á orm og hann segir menn nota eingöngu flugu í dag, ef ég skil hann rétt.

Hann telur að enginn alvöru veiðimaður noti maðk og getur það vel verið. En getur verið að hluti af þessum "alvöru veiðimönnum" stundi vorveiði á sjóbirtingi? Getur verið að  þessi "fagmennska" taki aðeins til laxveiðinnar og þessir svokölluðu veiðimenn þjóti í dauðans ofboði þann 1. apríl ár hvert í skaftfellsku árnar til að veiða niðurgöngufiskinn?

Menn eru að vísu farnir að veiða þarna á flugu og segjast sleppa því sem veiðist, enda varla mikill fengur í slíkri veiði sem þessari. Siðleysið er þó það sama.

Þessa veiði á að banna með öllu til að fiskurinn fái frið til að ganga til sjávar, því eins og þeir vita sem til þekkja, bítur hann á næstum hvað sem er á þessari leið. Er þar kannski komin skýringin á áhuga þessara "veiðimanna", ef til vill er þetta þeirra eina von til að fá fisk.

Ábyrgðin liggur hjá landeigendum, þeir sjá stundargróðan, mikil sala á leyfum á vorin, í sumum tilfellum eru þeir einnig með gistingu í boði og stinga því hausnum í sandinn, ef það þá þarf til.

 


Heima að passa...

..því Helga Sara er veik og konan þurfti í vinnuna.

"Bloggvinir"

Voða eru menn að taka þetta blogg alvarlega.  Einhver kona á blogginu agnúast útí mann sem eyddi henni út af blogvinalistanum? Skoðanaágreiningur var ástæðan??

Sumir telja það dónaskap að hafna óskum um þessa vináttu, hvað þá að slíta henni.

Kommon, hvaða rugl er þetta? Ég eyddi af mínu bloggi nokkrum sem voru titlaðir bloggvinir, ég leit ekki svo á að þetta væru sérstakir vinir mínir, ég legg anann og meiri skilning í hugtakið vinur en að nóg sé að vera með krækju hver á annan.  Voru þetta þó menn sem ég hef nokkrar mætur á.  Vissulega er þetta þægilegt til að fylgjast með skrifum sem maður hefur áhuga á en vinátta er held ég fulldjúft í árinni tekið. Nær væri að þetta héti einhverju öðru nafni.

Ég áskil mér rétt til að hafna þeim sem óska eftir að gerast mínir bloggvinir, sýnist mér svo, og hana nú!

Ekki það að þeir bíði í hrönnum. Smile ( Set broskarl til að sýna í hvernig skapi ég er)


Þjófar í Orkuveitunni.

Alveg er það kostulegt að hlusta á þessa gerspilltu menn í Orkuveitunni reyna að fá okkur til að halda að þeir séu sjalfir að trúa því að þeir séu sjálfir að segja satt.

Er það virkilega þannig hjá þessum spjátrungum að laun duga ekki lengur til að halda mönnum við vinnu? Þarf virkilega að bera fé á menn í stórum stíl til að menn tolli í vinnunni.? Eru menn virkilega svo lélegir stjórnendur að allt fari á hliðina ef  einstaklingur segir upp vinnunni hjá viðkomandi fyrirtæki? Eru menn hættir að vinna saman að verkefnum?

Þetta eru svo gerspilltir kónar að þeim er meira að segja sama um almenningsálitið. Aðeins skal græða peninga og það í stórum stíl.

Svandís Svavarsdóttir á heiður skilið fyrir ákveðni sína, er ég þó ekki vanur að hrósa visntri grænum.

Ég hef óbeit á þessum mönnum!


Hættur við að hætta.

Vegna fjölda áskoranna hef ég hætt við að leggja neglurnar á hilluna.

Nei, nei. Bara að grínast. Ég læsti bloggiinu mínu og ætlaði að hætta að blogga en ég hef sennilega bara verið svangur í gær.

Í daga er allt betra.


Brottfluttur smali

 Hvað mig snertir er haustið átakatími fyrir líkama og sál. Kólnandi veðurfar gerir hvert áhlaupið á veikburða líkamann á fætur öðru sem fyrir vikið verður af nauðsynlegum næringarefnum, jafnvel dögum saman. Kemur sér þá vel að hafa hugsað um að nærast vel um sumarið og halda hreyfingu í lágmarki. Hinsvegar togast sá þáttur svolítið á í sálartetrinu, hefði kannski verið gott að rölta svolítinn spöl á degi hverjum því það er sárt að sjá hvernig sauðkindin er farin að stíla inn á að vera á minni smalaleið. Þar geta þær verið algerlega óhultar og snúa gjarnan á þunglamalegan smalann af stakri snilld. Hefur örnefnið Grátklettur fengið nýja þýðingu þar sem rollurnar gráta af hlátri þegar löðursveittur, másandi smalinn skríður eftir kindagötunni, stystu leið til byggða. Á mínum gamla afréttir er sú hefð ríkjandi að valinn er feitasti smalinn hvert haust og hef ég fyrir löngu unnið bikarinn til eignar.
Einnig er það greipt í barnssálina að á haustin fara krakkarnir úr sveitinni til síns heima. Vinnukonan á næsta bæ er farin án þess að maður hafi svo mikið sem fengið að leiða hana á eftir beljunum. Vinnumaðurinn á þar næsta bæ fer með sömu rútu og ég sé að hann sest við hliðina á henni, límdur við hana.
Ég horfi út í myrkrið og það eina sem ég heyri er niðurinn í Fossinum. Í gamla daga vissi barnið ekki hve undurfagurt það hljóð getur orðið þegar árin líða.
En bíddu við!
Vélarhljóð berst úr fjarska og nálgast. Það á að fara í heiðina! Ég stekk af stað, þeir hafa sennilega ekki náð í mig í gær til að láta mig vita. Hleyp eins og fætur toga inn í bragga og dreg fjórhjólið undan rúgbagganum frá því í fyrrahaust. Skelli bensíni á tankinn, treð mér í regngallann, set á mig hjálminn og lít niðrá veg. Þeir fara framhjá. Þeir skilja mig eftir. Þeir hafa þá ekki reynt að ná í mig í gær. Ég tek af mér hjálminn, klippi utan af mér regngallann og rölti upp í Foss.
Þetta verður slæmur dagur.  

Áður birt í Bandaríkjunum 2006

 

 


Kvenfólk

 Haustið var komið. Þá var kominn tími skólans og fyrir lá að fara þangað. Ég hafði verið svo lánsamur að þurfa ekki að hitta skólafélagana  um sumarið. Þessir krakkar voru ágætir, misjafnir, en samt ágætir. Ég veit ekki hvað það var , en það var eins og allt í sambandi við skólann skyldi gleymast um sumarið. Eins og sumarið væri byggt á því að ekkert í sambandi við hann kæmi í hugskot mitt. Það var til dæmis stöku sinnum farið í sund á Klaustri og þá fékk ég ónot í magann þegar ég kom inn í skólann.

Það var ekki það að félagarnir væru slæmir, því sumir þeirra voru mínir bestu vinir. Það var bara eins og þessir árstímar yrðu að vera aðskildir.

Við gengum, systkinin vestrí Miðbæ og þar var rússinn í startholunum, nýmálaður og spegilfagur. Nonni hafði verið skólabílstjóri frá því að ég mundi eftir mér og var hann almennt talinn sá albesti í faginu. Hann hafði brottfarartíma frá Fossi klukkan korter fyrir níu á hverjum morgni og var alltaf mættur á réttum tíma, tíu mínútur yfir níu í, seinasta lagi. Þá gat maður náð áttum áður en  klukkan hringdi svo hátt og snjallt.

 Við vorum um 12-14 í bekknum og afskaplega sundurleitur hópur. Stelpurnar krunkuðu sig saman og jafnvel í tvo eða fleiri hópa. Við strákarnir tókum hinsvegar höndum saman um hvert verk sem þurfti að inna af hendi enda alltaf mun þroskaðri en þær.Það er annars með ólíkindum hvað konur hafa haft lítið upp úr því að ganga menntaveginn svokallaða, ekkert nema þvermóðskuna. Einnig hefur þetta uppátæki okkar, að leifa þeim þetta, haft það í för með sér að þær eru að glata niður þeim hæfileikum sem þurfa að prýða góða húsmóður. Það er undir hælinn lagt hvort einhver sé heima, hvað þá að maturinn sé klár. Er ekki furða þó menn horist upp og líti út eins og riðuveikar rollur.

Sú kona er vart til lengur sem hefur þessa einstöku lífsgleði , hamingju og þjónustulund  sem ömmur okkar hafa. Allt er fyrir mann gert á þeim bænum. Stoppað í sokkana, brauðið er ekki aðeins sett á borðið, heldur smurt og því klárt til átu. Ekkert er gert til að tefja hina vinnandi stétt landsins. Ég er elstur minna systkina og  get ég sagt sögu af því hve veður skipast skjótt í lofti .

 Þar var vinnuregla sem ekki var deilt um á heimilinu. Við karlmennin vorum í útiverkum og konurnar sáu um heimilið. Gekk þetta ávallt vel. Það var því einn sumardag fyrir margt löngu, að þetta skipulag var lagt af.. Það átti að vera dansleikur í félagsheimilinu um kvöldið og var stefnan sett þangað. Hótelstýran  hafði ráðið slíkan hóp af utansveitar stúlkum til vinnu um vorið að við, hinir ólofuðu piltar, gátum vart okkar eigin augum trúað. Hver annarri föngulegri og hafði nú dæmið snúist við frá því að allt flæddi af iðnaðarmönnum úr bænum. Á þeim tímum var eins og við værum ókunnugir en þeir heimamenn. Slík var hrifning stelpnanna af þessum kaffibrúnu steratröllum.

Við gátum nú valið okkur kvonfang ,eins og  úr kvellelistanum Var ég búinn að sjá föngulega mær sem var álitleg til undaneldis.Var því mikið atriði að koma vel fram á dansleiknum og vera snyrtilegur í alla staði. Þennan dag var maður í hinum daglegu störfum og samkvæmt verkaskiptingu fyrri ára gat maður verið úti fram á síðustu stundu, stokkið inn í sturtu og þar biðu fötin pressuð, skyrtan straujuð og skórnir stífbónaðir. Þetta hafði litla systir mín alltaf gert fyrir mig , möglunarlaust.

 En á þessari ögurstundu brast krosstréð. Hvergi var leppana að sjá og fann ég þá inn í skáp, samankrumpaða frá því á þorrablótinu. Spurði ég hverju þetta sætti, hvort kannski væri búið að kaupa á mig ný föt eða hvort hún hefði gleymt sér. Þótti mér það reyndar ósennilegt þar sem hún var greinilega tilbúin á ballið sjálf. Hún tjáði mér það að ég gæti nú séð um þessa leppa sjálfur!

 Þetta var mjög slæmur tími til að vera með uppreisn. Mamma var á ættarmóti á Flúðum og mér því allar bjargir bannaðar. Eftir langan tíma, mikið fát og  lélegan árangur var ekki um annað að ræða en drífa sig í samkomuhúsið, enda orðið áliðið og dansinn vafalítið farinn að duna.

Það er ekki kvenþjóðinni að þakka að maður skuli vera búinn að ná sér í konu. Þegar ég loks komst í Klaustur, var fjörið löngu byrjað og mátti engu muna að félagar mínir væru búnir að krækja í stelpuna. Var þar snarræði mínu að þakka að konan sem ég bý með er ekki tengdadóttir annars manns en hans pabba. Þarna kom ég askvaðandi inn á dansgólfið, kófsveittur í illa krumpuðum fermingarfötunum mínum og reif stúlkuna úr fangi strákanna.

 Ekki þarf að lýsa því nánar sem á eftir fór en það kom ekki að sök að hún sér illa og þar að auki settist slík móða á gleraugun hennar vegna uppgufunarinnar frá skyrtunni minni sem var nýkomin úr steypibaði gufustraujárnsins, að hún sá ekki krumpurnar í fötunum. Þarna skall hurð nærri hælum. Kvenrembuskapurinn var nærri búinn að hafa af mér þessa úrvals konu.

Strákarnir voru í mörg ár eftir þetta, kvenmannslausir og sumir ekki enn komnir með konur.                                                                                                                                                                                                                       


Lygsaga

Þar sem ég sat og át matinn minn, kom maðurinn og sparkaði stólnum undan mér. Stóllinn þaut út í glugga og langt út á hlað. Eins og gefur að skilja hlunkaðist ég í gólfið og lá þar reyndar í smá stund. Hugsaði málið. Átti  ég að spretta á lappir og hjóla í mannhelvítið? Ég  valdi hinn kostinn, þann ömurlega kost sem presturinn kenndi okkur í stofu fimm, að bjóða fram hina kinnina. Það er svo sem ágætt að kunna þetta, sérstaklega þegar um veifaskata eins og mig er að ræða, skræfu sem þorir ekki að slá frá mér.

Ég stóð upp og sterafulli, kaffibrúni, einfaldi leiðindapúkinn var þegar sestur í sætið mitt, sem var að hans mati hans sæti. Ég gekk að kaffikönnunni, fékk mér vænan sopa af brennheitu kaffi. Hugsaði með mér: Seinna, seinna væni minn og þá verður það duglegt.


Er orðinn hressari

Geðheilsan er hrokkin í lag, eins mans dauði er annars mans brauð, þar sem litli bróðir gekk úr skaftinu í miðju öðru safni, lét ég ekki segja mér það tvisvar og var mættur í hans stað í hinni undurfögru sveit, Síðunni. Sveitinni þar sem grösin virðast grænni, brekkurnar brosa við hverjum sem vill og Fossinn fegurri en nokkurt fljóð.

Í Fellinu stóð föngulegur hópur, hópur sem virtist klár í hvað sem var, gráir fyrir járnum sátu þeir og hámuðu í sig hafragrautinn, sprottnir á lappir, virtust sem nýhreinsaðir hundar.

Ekkert kemur í stað þessara ferða, ferða þar sem fátt fær raskað sálarró. Ró sem hámarki nær á Fjalldalsbrúnum þegar féð streymir fram í löngum röðum, rennur í rólegheitum eftir kindagötunum fram heiðar.

Þetta skilur enginn sem ekki hefur upplifað, það er nefnilega líf utan við skarkalann og háhraðatengirnar. Líf sem er ólíkt því við heyrum af í fréttum á mánudagsmorgnum á Bylgjunni.

2. Safn 2006 086


Ég er ..........

................lélegur.


Skaftárvirkjun

það verður nú meiri munurinn þegar búið verður að virkja þessa kolmórauðu á, sem flæmist um með sinni eyðileggingu,  flestum til ama og leiðinda. Þegar Lakalón verður orðið að veruleika verður þessi líka fína tæra spræna algert augnayndi. 

Heimamenn koma ár sinni fyrir borð á meðan framkvæmdum stendur, taka vel á því og leggja grunninn að velferð framtíðarinnar.

Hátækniiðnaðurinn blómstrar þá utan í hverjum hól og ferðamennskan sem aldrei fyrr. Siglt verður með ferðamennina til að skoða Lakagígana og í Laka sjálfum verður veitingastaður og sögusafn.

Bændur geta gengið að ám sínum vísum í þeim hólma sem þeir settu þær í um vorið og kjötið því sérmerkt þeim gíg sem það var alið á.

Lakalamb á diskinn þinn. Hljómar vel.

Þegar þetta er allt um garð gengið, þá flytjum við öll hin austur til að sinna því sem heimamenn eru hættir að nenna að gera í góðærinu, taka upp kartöflur, stinga út skán, gera við girðingar og fleira í þeim dúr.

þetta verður gott.


Réttastúss

Septembermánuðurinn í gömlu góðu sveitinni minni verður kærari í mínu auma hjarta eftir því sem árin líða. Þessi mánuður hauststillunnar og sólskinsstundanna ásamt öllu sem því fylgir var eitt sinn tími sem maður kveið allt frá því að skóla lauk í maí. Að sjá á eftir öllum vinunum og félögunum sem maður var búinn að veltast með í blíðu og stríðu allt sumarið. 
  Á vorin komu þeir hver á eftir öðrum, einn í einu. Var sauðburður þá yfirleitt í hámarki því lengri tíma virtist þurfa til að skóla Höfuðborgarbúa því krakkarnir þar voru yfirleitt talsvert lengur í skólanum á vorin en við. Hefur þar verið kennd þessi svokallaða saga, sem við í sveitinni höfum aldrei þurft að læra. Ýmislegt annað voru þau að tala um sem við höfðum aldrei heyrt um. Líklega hefðum við ekki haft gáfur til að nema þessi vorfræði þeirra Reykjavíkurbúa.         
  Fyrstu vikurnar hitti maður ekki vinnumennina á næstu bæjum. Þeir voru önnum kafnir við sauðburðarstreð. Maður sá þá aðeins álengdar, þar sem hausarnir á þeim, gægðust upp úr kerrunum. Munurinn á þeim og kindunum var að féð var yfirleitt kollótt. Er leið á sumarið kom hins vegar tími hinna ýmsu leikja og uppátækja.  
  Þegar haustið nálgast, dugar ekki að leggja hendur í skaut, heldur opna dyr og fagna þessum árlega gesti. Hann ber nefnilega með sér afar skemmtilegar stundir og blíðuna sem áður er getið.
En fremstar í flokki fara réttirnar.          
  

 Það hefur verið til siðs að draga í sundur það fé sem smalað er af afréttarlöndum sveitanna. Til að koma þessum skjátum til byggða, þarf ýmislegt til. Það þarf að smala saman þeim klárum sem finnast og brúka þá til verksins. Eru þessar ferðir hestanna í sumum tilfellum einu ferðir þeirra allt árið. Má nærri geta hvað þeir hlakka til.  Menn flykkjast að frá öllum landshornum til að komast í þetta réttarrugl. Gamlir sveitamenn komast í sitt eldra form og verða sperrtir sem aldrei fyrr. Kerlingarnar sýna allt í einu fyrri takta og smyrja dýrindis nesti fyrir karla sína. Þar sem þessar nútímaréttir eru aðeins til gamans og varla í neinni alvöru, fá kvinnurnar að fljóta með og standa þær þá gjarnan fyrir utan réttarvegginn til að ekki hljótist slys af. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband