Bloggaaa!!!

Djöfull fer gepillinn á stöð 2 í taugarnar á mér. Ég hef ekki hugmynd um hvað hann heitir og hef ekki áhuga á að vita það en hann er í Ísland í dag á þeirri aumu stöð.

Hef aldrei þolað manninn, er með eitthvert helvítis glott,sama hvort hann er að fjalla um skaupið eða barnaklám.

Kemur ekki þessi bévítans auli og eina spurningin sem hann hefur á komandi Borgarstjóra er" telur þú þig hafa heilsu í þetta embætti?"

Manninn á að reka og það langt!!!


Íslenski bóndinn.

 

 

Veturinn er ekki beint tími sem maður vildi hafa allt árið. Það er ekki svo að þetta sé óbærilegt, bara eitthvað svo ómögulegt. Blautur í lappirnar, ískalt, kemur inn og er það alltof heitt, allir að reyna að vera sáttir við snjóinn, reyna að telja manni trú um að þetta sé nú eitthvað sem allir alvöru íslendingar eigi að þola, þetta sé bara hollt. Hafið þið séð svertingja í sólbaði? Nei, ekki ég heldur og alveg eins og þeir geta dregið sig í skuggann, vil ég geta komið mér í skjól frá norðan garranum. Komast í hitann og hafa það notalegt. Það má samt ekki vera of heitt, alls ekki. Ekki  þannig að maður þurfi að fara úr bolnum og ekki þannig að það sæki að manni óstöðvandi þorsti.


 

Það þýðir að ekki er í boði að eiga heima á Spáni eða þess háttar stöðum.Ef maður fer svona yfir málið, þá er maður nú bara á því að þetta sé bara skásti kosturinn. Kostur  sem ekki allir fá að kjósa, kjósum samt ekki yfir okkur óstjórn og sundurlyndi. Kjósum ekki yfir okkur stjórn sem eyðir íslenskum landbúnaði. Lanbúnaðarhéruð landsin eru mjög verðmæt. Hvað væri Skaftárhreppurinn án bændanna  og sauðkindarinnar? Það væri einfaldlega ekki neitt. Ekkert nema einn og einn sérvitringur fótgangandi á sumrin. Þar væri engin þjónusta af neinu tagi, ekki verslun, heilsugæsla, bankar, ekkert.

Það er ekki hægt að hlusta endalaust á það að það eigi að losa um verndartolla og höft á innflutning á landbúnaðarvörum. Þá yrðu fluttar inn vörur í ómældu magni  og þær seldar á slikk, þar til íslenska bóndanum hefur verið útrýmt. Þá hækka viðskiptajöfrarnir verðið upp úr öllu valdi til að græða meiri peninga. Til að geta átt stærri einkaþotu, til að geta ráðið fleiri lögfræðinga til að breiða yfir sorann sinn. Hvar verða íslenskir neytendur þá? Hvað ætla neytendasamtökin þá að kaupa ost á Ritzkexið sitt? Hafið þið reynt að nota evrópskar mjólkurvörur?

Hafið þið reynt að borða útlenskt lamakjöt? Bjakk og aftur bjakk.

Stöndum vörð um  landið okkar, ekki aðeins jökulár, móa og mela. Lika íslenska bóndann.

kv

HP Foss


Syfjaðir kennarar

Það var eitthvað við þennan árstima í gamla daga sem gerði það að verkum að vikurnar ætluðu aldrei að líða. Skólinn virtist endalaus, kennararnir geðstirðir, stelpurnar ljótar og langt heim. Gott samt að sjá þangað. Myrkrið hékk yfir öllu mannlífi sem var hálfgert harðlífi. Allir dagar eins, vakna í skólann, bíða eftir að komast heim. Þar var allt í föstum skorðum, mamma með eitthvað gott í gogginn þegar heim var komið.  Þá var að velja um að fara út eða skella sér í heimanámið á undan. Ég held að ég hafi alltaf haft sömu röðina á því.

Venjulega var hægt að finna sér eitthvað að gera úti við,  alltaf þó að moka flórinn, ef ekkert annað betra bauðst. Ekki þó að skilja að maður hafi gengið um óður í vinnu. Nei, öður nær,  þetta var einfaldlega dægrastytting sveitamannsins, að snudda í kringum pabba sinn í búskapnum. Ég er ekkert viss um að ég vildi skipta á því og einhverju öðru,  hvað svo sem það kynni að vera.  Ekki að skilja að ég sé að segja að mín dægrastytting hafi verið betri önnur dægrastytting. Ég kunni bara vel við þetta og þekkti svo sem fátt annað.

Annars var það magnað hvað maður gat verið svangur þegar maður koma heim úr skólanum, algerlega glorsoltinn. Var ekkert búinn að fá síðan um hádegi, þegar maður koma heim rúmlega fjögur.  Hafði þá einnig verið á barmi taugaáfalls af hungri,  enda höfðum við ekki fengið ætan bita frá því rúmlega átta um morguninn, þegar að hádegissverði kom kl tólf eða hálf eitt.

Þetta hékk í að vera í  lagi, svona eftir á séð.

Nú er öldin önnur, sjónvarpið hefur tekið að sér að stytta börnunum tímann, endalaust efni á mörgum stöðvum og óneitanlega er þetta afskaplega auðveld barnapössun, maður getur hangið á netinu óáreittur í marga klukkutíma. 

Það er afskaplega auðvelt að gleyma sér á netinu, klukkutímum saman,  langt fram á nótt. Þetta sér maður gjarnan á færslum bloggara hér á Moggablogginu,  menn eru að setja inn færslur þegar klukkan er jafnvel langt gengin í tvö að nóttu og eiga að mæta í kennslu hjá börnunum okkar að morgni. Hætt er við að flætt geti yfir engi og tún á slíkri nóttu án vitundar bóndans.

Það er ekkert frekar fullorðnu fólki hollt að hanga í tölvunni fram á nætur frekar en börnunum, það getur hæglega valdið geðstirðnum hjá kennurum samtímans, líkt og það sem kallaði fram ónotin hjá kennurunum í gamla daga.


Notaleg frétt.

Rétt er að setja sig í spor aumingja bílstjórans sem hefur nú sennilega ekki átt von á að komst í netmiðlana við þetta hliðarspor. Sumir kunna að telja þetta tæplega fréttnæmt en mér þykir þetta einmitt skemmtileg frétt,  eitthvað saklaust úr hversdagslífinu þar sem enginn var barinn.


mbl.is Fór aðeins of langt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mögnuð vinnubrögð.

Var ekki húsafriðunarnefnd búin að fjalla um málefni þessara húsa? Þetta geta nú ekki talist fagleg vinnubrögð hjá þeim að koma með þetta svona eftir á.


mbl.is Ráðherra friði Laugavegshús
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gömlu Gamlársdagarnir.

Daginn fyrir gamlársdag var farið að safna í brennu að krafti. Við strákapjakkanir fórum um allar grundir, niður á Svartasand, með Álnum og á alla þá staði sem hugsanlega gat verið drasl að finna. Fjárhúsin voru tæmd af baggaböndum og fóðurbætispokum, sumir nágrannarnir áttu jafnvel heilu garðana á brennuna.

Þó var alltaf eitt vandamál, sem þó alltaf leystist. Það var staurinn í miðjunni. Á Fossi er alltaf staur uppúr brennunni, alltaf. Staurinn virtist yfirleitt aldrei vera til en að lokum fannst hann þó, stundum held ég að kallarnir hafi ekki kunnað við annað en segja já við okkur, hafi í raun séð mikið eftir staurunum sem voru oft æði eigulegir. Við spáðum minna í það, pjakkarnir.

Tóta í Miðbænum hafði yfirleitt allt haustið safnað Mogganum og rifið hann í ótrúlega litla snepla sem hún setti síðan í áburðarpoka. Þannig fór meira fyrir þessu og brennan varð stærri fyrir vikið.  Svona lögðu allir hönd á plóg og um hádegi á Gamlársdag var brennan alltaf orðin fullvaxin, dívanar, grindur og margt fleira var í brennunni. Yfir staurinn voru svo sett dekk, oft æði mörg, sem loguðu lengi.

Svo var farið á bæina til að safna olíu, allir í himnaskapi.

Svona eru áramótin eins og ég vil hafa þau og þó ég sé að halla í fertugt, finnst mér ég vera enn sami pjakkurinn þegar ég fer á Massanum, með kerruna, að safna olíunni.

Gleðilegt ár!


Vetrarsólstöður

Við hæfi er að fagna  á vetrarsólstöðum. Það er nú annars fátt sem minnir á veturinn, slíkur er hitinn og slík er vætan.  Árnar kolmórauðar og pollar meðfram vegum og á túnum. Ekki verður maður svo sem var við það hér á höfuðborgarsvæðinu, því allri þeirri vætu sem til jarðar fellur, er samstundis veitt í niðurfall og beina leið til sjávar.

Annað var á teningnum í þá gömlu góðu daga, þegar sólin speglaðist á ísilögðum Landbrotsvötnunum.  Gott var að halla sér að kampinum á Harðavallarhúsinu, horfa fram á sand á meðan ærnar stukku eftir hjarninu til okkar, tróðu sér inn í hús og hámuðu í sig þurrheyið.

Dyrunum var lokað og við feðgarnir röltum niður á veg. Land Roverinn hafði verið látinn ganga hægaganginn á meðan við gáfum.  "Þú keyrir" var pabbi vanur að segja og þurfti ekki að segja það tvisvar. Ég man ekki hvað ég var gamall þegar ég fékk að keyra en þetta þótti pabba ekki nema sjálfsagt. Ég tók miðjusessuna úr og setti hana í bílstjórasætið. Þannig sá ég vel út og leit út fyrir að vara æði fullorðinn. Það var stór dagur í mínu lífi þegar ég gat horft upp fyrir stýrið en ekki í gengum það. Ég var orðinn stór.

Hendurnar voru vel lyktandi eftir gegningarnar.  Sambland af fiskimjöli og lýsi. Þegar við vorum búnir að gefa voru mamma og amma tilbúnar með hádegismatinn, allt var klárt, allt í föstum skorðum og enginn að farast á tauginni.

Þetta voru góðir dagar.

 


Jólaskapið.

Það voru þreyttir snáðar sem lögðust til hvílu í kvöld. Steinþreyttir en afskaplega sælir. Sælubrosið náði langt aftur með andlitinu, augun lyngdust aftur og svitinn perlaði á enninu á þeim. Þetta var góður dagur. Dagur þar sem var tekið á honum stóra sínum allan liðlangan daginn, remst eins rjúpan við staurinn, hver í kapp við annan. Á morgun er annar stór dagur þar sem harðsperrur gærdagsins verða að fjúka sem fyrst ef ekki á að lúta í lægra haldi fyrir félögunum. Ekkert skal til sparað, vandlæti og tepruskapur verða að víkja.
Það er greinilega gott að vera hrútur  um jólin.

 


Grái fiðringurinn.

Nú eru féð komið á gjöf og bóndinn getur farið að telja hvað eftir er af rúllunum frá í fyrra. Jarpur setur rassgatið í gaddavírinn og rennir sér til hægri og vinstri þar til kláðinn er að mestu horfinn. Aðfarir þessar minna á vinnukonurnar í þá gömlu góðu daga þegar fólk klóraði sér þar sem það klæjaði, án þess að vera með feluleik í kringum það. Nú á dögum þorir enginn að hreyfa, hvorki legg né lið, heldur frekar að iða eins og allar lýs hreppsins séu mættar í norðurendann og haldi þar íþróttamót.

Gaddavírinn þoldi álagið og Jarpur heldur áfram að éta. Hann hefur reyndar verið að því í allmörg ár, þegar hann er ekki annað að gera. þetta ótrúlega, áfergjulega át, virðist hafa farið á fullan skrið eftir að húsbóndinn ákvað að hann (Jarpur) skyldi hætta að eltast við hitt kynið. Var ákvörðun þessi tekin úti í rétt á vordegi nokkrum og gat ég ekki séð að Jarpur greyið hefði nokkuð um það að segja. Hinsvegar nutu hundarnir þessarar ákvörðunar á vissan hátt, fóru pakksaddir heim.

Það var eins og við manninn mælt, Jarpur leit ekki við nokkurri hryssu eftir þetta og ef ekki var smölun í gangi, þá var hann að éta?
Ósjálfrátt verður maður hugsi. Getur verið að hér sé að finna eitthvað sem maður kannast við?

Hverfi maður nokkur ár aftur í tímann, rámar mann í stæltan strák sem gat hlaupið upp í miðjar hlíðar Lómagnúps, smalað heiðina aleinn, gangandi. Allt var hægt. Nú fær maður andateppu af því einu að rölta út í sjoppu eftir hamborgaranum. Síðastliðin 17 ár hefur verið óstöðvandi át á þessum manni, allt frá því að hann hætti að leita eftir hinu kyninu. Ef hann ekki liggur á meltunni, þá er hann að éta.

 Dæmi eru um það að menn hafi farið einskonar aftur á stjá, svona eftir fertugt og þannig hafi þeir dottið í gamla farið- holdarfarið, orðið eins og tryppi á ný stæltir og glæsilegir.


Ætli þetta verði harður vetur?


Hátið ljóss og friðar- í fjárhúsinu

  

Hér er saga sem ég sagði fyrir ári- hún er enn í gildi og því sögð á ný:

Fáir fagna jólunum jafn mikið og hlakka meira til þeirra en hrútarnir.
Hrútarnir eru búnir að hlakka til jólanna frá því um seinustu jól.
Þeir hafa enga ástæðu til að hlakka til páskanna, vorsins, verslunarmannahelgarinnar eða nokkurs annars en jólanna.
Í ellefu mánuði á ári fer allur tími hrútanna í át. Étur hver í kapp við annan enda viðurkenndur fylgikvilli þunglyndis, að leggjast í át.
Hópast þeir saman á fjöllum og hreinsa upp grasið á heilu torfunum. Líta sem snöggvast upp þegar lambaskarinn göslast með hoppum og skoppum framhjá þeim og er ekki að sjá að þeir virðist hafa hugmynd um hvernig þessir ólátabelgir verða til.
Þennan tólfta mánuð ársins færist heldur betur fjör í leikinn. Þessir akfeitu, illa lyktandi, stórhyrndu hlunkar, fá allt í einu að yfirgefa stíuna sem þeir voru neyddir inní í haust. Hinum megin við grindverkið eru þær búnar að dilla sér allt haustið, hálfnaktar,nuddandi sér upp við grindina, ómótstæðilegar.
Skyndilega kemur karluglan á bænum og tekur grindina,ellefu mánaða forleikur er aða baki. ( Hann felst eingöngu í áti) Hrútarnir ryðjast inn í hópinn og virðast ekkert setja það fyrir sig hvernig rollan lítur út, hvort hún er hvít eða svört, kollótt eða hyrnd, skiptir engu. Nú er það bara að komast yfir sem flestar þennan eina mánuð sem í boði er. Nei,nei.!! Þá virðist það vera svipað hjá þessum kvenkynsverum sem öðrum að þegar á hólminn er komið skal láta ganga soldið á eftir sér . "Nei, ekki fyrr en á næsta tungli", bla,bla,bla. Allt er það eins. Á "næsta" tungli verður sennilega hann Prins frá Prestsbakka búinn að komast yfir hana og þá vill hún ekki meira það árið.
Það hefði verið dauflegt á Klaustri með þessar reglur í gildi.
Ekki komast nú allir heilir frá þessari vertíð, sumir heltast úr lestinni og jafnvel fara beina leið á gresjurnar endalausu, þar sem étið er tólf mánuði á ári.
Já, Hátíð ljóss og friðar er haldin hátíðleg með ýmsu móti og erfitt að sjá hvar best væri að vera.

Saga höfð eftir Helga Eiríkssyni á Fossi

Við Matthías Stefánsson, bóndi í Miðbæ hér á Fossi, fórum einu sinni á Fossfjöru um sumarmál. Veðrið gat ekki betra verið, glaða sólskin, logn og gott skyggni. Þetta hélst daglangt. Ekkert gerðist sögulegt hjá okkur félögunum þar til við áttum skammt ófarið að Veiðiós sem þá var austast á Hörgslandsfjöru. Vestan við fjöruna, utan við ósinn,  sáum við mann koma á móálóttum hesti. Hann reið austur fjöruna, rétt ofan við sjávarmál. Ég sagði við Mattías: "Þessi hestur er frá Hörgsdal.." "Nei , " kvað Matthías, sem var sérstaklega glöggur á hesta og sauðfé. "Þá er hann frá Keldunúpi." sagði ég "Ekki heldur," andmælti Matthías, og bætti við:" Ég þekki ekki þennan hest og veit ekki hvaðan hann er kominn".             Maðurinn handan við ósinn hélt för sinni rakleitt áfram. Brátt var hann kominn að ósnum og út í hann reið hann hiklaust, rétt innan við úthafsöldurnar. Þá var ferð hans orðin óðs mans æði. Óðum dýpkaði á þeim móálótta, brátt var vatnið á miðjar síður og fyrr en varði hrokasund. Við flýttum okkur  að útfallin. Í sama bili og við komum að því beindi þessi furðulegi reiðmaður hesti sínum beint út til hafs. Þá fyrst gerðum við Matthías okkur grein fyrir því að ekki myndi hann eða hesturinn lúta sömu lögum og við. Upp úr öldukvikinu bar fyrst höfuð hestsins og reiðmanninn sem sat keikur á honum. Við sáum að hann var á efra aldri, alskeggjaður og hárið grátt. Brátt reið mikið ólag inn úr ósnum. Það bar yfir mann og hest. Hvorugur kom aftur í ljós, enda áttum við ekki von á því.

            Þetta er eitt af því fáa sem fyrir mig hefur  borið sem ég á erfitt með að skýra.

Áður birt í bandaríkjunum 2004 


Auðvitað!

Amma mín telur það merki um slaka eiginkonu ef hún veit af körlum í húsverkunum.

Og amma mín er merkilegasta manneskja sem ég  hef kynnst hingað til.


mbl.is Konur vinna enn flest húsverkin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heitt vatn í Skaftárhreppi?

Skaftárhreppur er ekki í félagi sveitafélaga á köldum svæðum. ( Var a.m.k. ekki skráður sem slíkur í fréttum í vikunni)

Hver ætli ástæðan sé fyrir því?


Mosfellsk kvos/ skaftfellsk kvos

Misjafnlega er gæðum landsins skipt. Það sem á einum stað er talið dásamlegt, er á öðrum stað talið til afganga.

Í Mosfellssveit er mikið rætt um Kvosina svokölluðu, sem kennd er við Álafoss. Við förum ekki út í þá sálma núna, en foss er þetta nú kallað. Þar keppast menn við að eiga heima og ef menn geta ekki átt heima þar, þá vilja menn vinna þar. Og ef halda skal hátíð í Mosfellssveit, þá kemur Kvosin fyrst í huga manna. Þar gæti verið gott að flatmaga og velta sér með börnunum daglangt.

Í Landbrotinu er einnig svona kvos. Í henni eru 365 steinar, einn fyrir hvern dag.
Var þar framkvæmd aðgerð sem eðlilegt er að gera einu sinni á dag.
þar er ekki dvalið frekar en nauðsynlegt þykir.


Flugvél lendir í bæjarlæknum.

Ég stökk út í gluggann því hvinurinn var mikill. Helvíti mikil bumba kom svífandi og með ótrúlega miklum látum flaug hún fyrir norðan gamla bæinn og snéri við út við Stóra Hvamm. Kom síðan á fullu blasti og stefndi beint í fossinn, fór þar lóðrétt upp fyrir brún, þá á hvolfi til suðurs og þannig í nokkra hringi og alltaf neðar og neðar. Svo kom að því að hún skall til jarðar, beint ofaní lækinn með skelli. Engan sakaði en ég verð að segja alveg eins og er að svona helvítis draumar eru nú ekki beint til hvíldar.


Polaris besta hjólið

Jæja, það var eins og ég hélt, Polaris hefur verið valið lang besta hjólið, hefur unnið með yfirburðum.

Takk fyrir frábæra þáttöku.


Hræddur umhverfisráðherra.

Skelfing var að heyra að umhverfisráherra skyldi senda fyrirhugaða virkjun Dalsbóndans í umhverfismat. Maðurinn er búinn að leggja þvílíka vinnu í allskonar rannsóknir fyrir hinar og þessar nefndirnar að mann algerlega blöskrar. Og umhverfisráðherra tekur sér marga mánuði í að hugsa málið, hvort eða ekki skuli þessi heimarafstöð fara í umhverfismat.

það kom fram í fréttum að hætta væri á verulegum spjöllum á Skaftáreldahrauninu við lagningu vegar meðfram Hverfisfljótinu inn í Hnútu.  Ja, þvílíkt bull. Hún ætti að fara á staðinn og skoða aðstæður, áður en hún lætur svona vitleysu frá sér í sínu nafni.

Ég held að við séum að sigla inn í umhverfi þar sem umhverfðir umhverfissinnar halda ráðamönnum þessarar þjóðar hreðjataki, þannig að þeir þora sig ekki að hreyfa nema þessu fólki þóknist.

Svona vinnubrögð eru ráðherra til skammar.


Foss á Síðu í 1. sæti

Þá er kosningaslagnum lokið, þar sem kosið var um það hvort lífvænlegra þykir í Þorpinu eða á Fossi.  Það er skemmst frá því að segja að miklill meirihluti landsmanna telur Foss á Síðu langtum betri stað en Þorpið.

Ég verð nú reyndar að viðurkenna að niðurstaðan kemur mér nú ekki í opna skjöldu, hafði fyrir löngu síðan tekið eftir þessu.


HP Foss á lágu ljósunum.

Maður á það til að væla yfir litlum og ómerkilegum hlutum. Veltir sér upp úr þeim fram og til baka,  er alveg ómögulegur yfir einhverju sem akkúrat engu máli skiptir.  Verður svo hugsað til þeirra sem eru virkilega að eiga við tilveruna,  jafnvel fársjúkir, jafnvel dauðvona, engin von framundan. Verður hugsað til barnanna sem missa foreldra sína á unga aldri. Ég get ekki ímyndað mér sorgina sem blessuð börnin þurfa að takast á við, enginn getur sett sig í þessi spor. 

Veltum okkur ekki uppúr veraldlegum hlutum, verum ekki að væla yfir því þó eitt til tvö  fjórhjól fari á kaf í Álinn.  Hvernig dettur manni í hug að fara á lágu ljósin yfir því þó maður hafi verið eins og bláókunnugur 17 ára unglingur á bólakafi í bæjarlæknum heima hjá sér. Og hvað með það þó brúin hafi verið 300 metrum ofar. Allir vita hvað einbreiðar brýr geta verið hættulegar.
Og sundsprettur er bara hressandi.

Taktu þig taki, mannfýla.


Hryllingur

Til hvers í ósköpunum er verið að búa til myndir þar sem allt virðist snúast um að myrða hvern annan á sem hrottafengnasta hátt? Á Skjá einum er kvöld eftir kvöld verið að sýna svo ógeðfelldar myndir að mér algerlega ofbýður. Hvað fær menn til að búa þennan viðbjóð til? Hvað fær menn til að kaupa þetta og sýna í sjónvarpinu? Hvað fær síðan menn til að horfa á þetta, svona líka algerlega viðbjóðslegasta óskapnað sem maður hefur séð?

Mér ofbýður þetta helvíti.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband