Hrútarnir eru búnir að hlakka til jólanna frá því um seinustu jól.
Þeir hafa enga ástæðu til að hlakka til páskanna, vorsins, verslunarmannahelgarinnar eða nokkurs annars en jólanna.
Í ellefu mánuði á ári fer allur tími hrútanna í át. Étur hver í kapp við annan enda viðurkenndur fylgikvilli þunglyndis, að leggjast í át.
Hópast þeir saman á fjöllum og hreinsa upp grasið á heilu torfunum. Líta sem snöggvast upp þegar lambaskarinn göslast með hoppum og skoppum framhjá þeim og er ekki að sjá að þeir virðist hafa hugmynd um hvernig þessir ólátabelgir verða til.
Þennan tólfta mánuð ársins færist heldur betur fjör í leikinn. Þessir akfeitu, illa lyktandi, stórhyrndu hlunkar, fá allt í einu að yfirgefa stíuna sem þeir voru neyddir inní í haust. Hinum megin við grindverkið eru þær búnar að dilla sér allt haustið, hálfnaktar,nuddandi sér upp við grindina, ómótstæðilegar.
Skyndilega kemur karluglan á bænum og tekur grindina,ellefu mánaða forleikur er aða baki. ( Hann felst eingöngu í áti) Hrútarnir ryðjast inn í hópinn og virðast ekkert setja það fyrir sig hvernig rollan lítur út, hvort hún er hvít eða svört, kollótt eða hyrnd, skiptir engu. Nú er það bara að komast yfir sem flestar þennan eina mánuð sem í boði er. Nei,nei.!! Þá virðist það vera svipað hjá þessum kvenkynsverum sem öðrum að þegar á hólminn er komið skal láta ganga soldið á eftir sér . "Nei, ekki fyrr en á næsta tungli", bla,bla,bla. Allt er það eins. Á "næsta" tungli verður sennilega hann Prins frá Prestsbakka búinn að komast yfir hana og þá vill hún ekki meira það árið.
Það hefði verið dauflegt á Klaustri með þessar reglur í gildi.
Ekki komast nú allir heilir frá þessari vertíð, sumir heltast úr lestinni og jafnvel fara beina leið á gresjurnar endalausu, þar sem étið er tólf mánuði á ári.
Já, Hátíð ljóss og friðar er haldin hátíðleg með ýmsu móti og erfitt að sjá hvar best væri að vera.