Vor í Hafnfirsku lofti

Saturday, January 27, 2007

Það er vor í lofti. Ilmurinn af jörðinni berst inn um gluggan. ég stend upp og loka glugganum. Þetta er bara pest. Hvurslags endemis pest er þetta? Í sveitinni er maður vanur ýmiskonar lofttegundum, allt frá ilmandi grængresinu í rotnunarlyktina sem berst frá túnunum á svellavetrum. Ekkert kemst í hálfkvist á við þessa djöfulsins pest. Ég hélt að öskutunnan væri að breytast í rotþró eða eitthvað álíka. Það er nefnilega þannig að í þessum Firði, kenndur við Höfn, er lón eitt lítið og ómerkilegt. Lón þetta þykir heimamönnum afar fallegt og ganga þeir þar á bökkum, sperrtir og sprangandi, horfa hátt og blístra fyrir munni. Fyrir venjulega sveitmenn er þessi ganga hrein pína. Loftið er svo mengað og svo mikill óþefur er þarna að hundar veigra sér við að ganga þessa leið. Ekkert fuglalíf þrífst þarna og enginn fiskur er í lóninu. Lónið heitir Hvaleyrarlón og stendur austan Hvaleyrarinnar. Kannski hefur Hvaleyrarlónið verið fallegt hér áður fyrr, fullt af fiski og farfuglarninr hafa án efa verið þar vor og haust.
Nú er öldin önnur og þetta lón er ástæða þess að óþefinn hefur lagt yfir Hafnarfjörðinn undarfarna daga. Lónið hefur samgang við sjó en í sjóinn rennur, einmitt þar sem innsstreymið í lónið er, rennur stríðum straumi skólpið frá stórum hluta Hafnarfjarðar. Þar grommsast gumsið út úr stórum pípunum og á flóðinu tekur hafið þennan óþvera og fleytir honum inn í Lónið. Síðan fjarar út og drullan situr eftir. Af þessari drullu leggur þennan fyrnefnda óþef, óþef sem enginn venjulegur maður getur andað að sér án aukaverkana.
En sem betur fer eru Hafnfirðingar ekki venjulegir menn.
kv
HP Foss

Bóndinn

Saturday, January 20, 2007

Bóndinn

Veturinn er ekki beint tími sem maður vildi hafa allt árið. Það er ekki svo að þetta se óbærilegt, bara eitthvað svo ómögulegt. Blautur í lappirnar, ískalt, kemur inn og er það alltof heitt, allir að reyna að vera sáttir við snjóinn, reyna að telja manni trú um að þetta sé nú eitthvað sem allir alvöru íslendingar eigi að þola, þetta sé bara hollt. Hafið þið séð svertingja í sólbaði? Nei, ekki ég heldur og alveg eins og þeir geta dregið sig í skuggann, vil ég geta komið mér í skjól frá norðan garranum. Komast í hitann og hafa það notalegt. Það má samt ekki vera of heitt, alls ekki. Ekki þannig að maður þurfi að fara úr bolnum og ekki þannig að það sæki að manni óstöðvandi þorsti.
Það þýðir að ekki er í boði að eiga heima á Spáni eða þess háttar stöðum.Ef maður fer svona yfir málið, þá er maður nú bara á því að þetta sé bara skásti kosturinn. Kostur sem ekki allir fá að kjósa, kjósum samt ekki yfir okkur óstjórn og sundurlyndi. Kjósum ekki yfir okkur stjórn sem eyðir íslenskum landbúnaði. Lanbúnaðarhéruðin á landinu okkar eru mjög verðmæt.Hvað væri Skaftárhreppurinn á bændanna og sauðkindarinnar? Það væri einfaldlega ekki neitt. Ekket nema einn og einn sérvitringur fótgangandi á sumrin. Þar væri engin þjónusta af neinu tagi, ekki verslun, heilsugæsla, bankar, ekkert. Það er ekki hægt að hlusta endalaust á það að það eigi að losa um verndartolla og höft á innflutning á lanbúnaðarvörum. Þá yrðu fluttar inn vörur í ómældu magni og þær seldar á slikk, þar til íslenska bóndanum hefur verið útrýmt. Þá hækka viðskiptajöfrarnir verðið upp ú öllu valdi til að græða meiri peninga. Til að geta átt stærri einkaþotu, til að geta ráðið fleiri lögfræðinga til að breiða yfir sorann sinn. Hvar verða íslenskir neytendur þá? Hvað ætla neytendasamtökin þá að kaupa ost á Ritzkexið sitt? Hafið þið reynt að nota evrópskar mjólkurvörur? Hafið þið reynt að borða útlenskt lamakjöt? Bjakk og aftur bjakk.
Stöndum vörð um landið okkar, ekki aðeins jökulár, móa og mela. Lika íslenska bóndann.
kv
HP Foss

Brottfluttur smali

Tuesday, September 12, 2006

Hvað mig snertir er haustið átakatími fyrir líkama og sál. Kólnandi veðurfar gerir hvert áhlaupið á veikburða líkamann á fætur öðru sem fyrir vikið verður af nauðsynlegum næringarefnum, jafnvel dögum saman. Kemur sér þá vel að hafa hugsað um að nærast vel um sumarið og halda hreyfingu í lágmarki. Hinsvegar togast sá þáttur svolítið á í sálartetrinu, hefði kannski verið gott að rölta svolítinn spöl á degi hverjum því það er sárt að sjá hvernig sauðkindin er farin að stíla inn á að vera á minni smalaleið. Þar geta þær verið algerlega óhultar og snúa gjarnan á þunglamalegan smalann af stakri snilld. Hefur örnefnið Grátklettur fengið nýja þýðingu þar sem rollurnar gráta af hlátri þegar löðursveittur, másandi smalinn skríður eftir kindagötunni, stystu leið til byggða. Á mínum gamla afréttir er sú hefð ríkjandi að valinn er feitasti smalinn hvert haust og hef ég fyrir löngu unnið bikarinn til eignar.
Einnig er það greipt í barnssálina að á haustin fara krakkarnir úr sveitinni til síns heima. Vinnukonan á næsta bæ er farin án þess að maður hafi svo mikið sem fengið að leiða hana á eftir beljunum. Vinnumaðurinn á þarnæsta bæ fer með sömu rútu og ég sé að hann sest við hliðina á henni, límdur við hana.
Ég horfi út í myrkrið og það eina sem ég heyri er niðurinn í Fossinum. Í gamla daga vissi barnið ekki hve undurfagurt það hljóð getur orðið þegar árinlíða.
Vélarhljóð berst úr fjarska og nálgast. Það á að fara í heiðina! Ég stekk af stað, þeir hafa sennilega ekki náð í mig í gær til að láta mig vita. Hleyp eins og fætur toga inn í bragga og dreg fjórhjólið undan rúgbagganum frá því í fyrrahaust. Skelli bensíni á tankinn, treð mér í regngallann, set á mig hjálminn og lít niðrá veg. Þeir fara framhjá. Þeir skilja mig eftir. Þeir hafa þá ekki reynt að ná í mig í gær. Ég tek af mér hjálminn, klippi utan af mér regngallann og rölti upp í Foss. Þetta verður slæmur dagur.

Grágæsarhóllinn

Wednesday, May 24, 2006

Ég var nýbúinn að breiða, lagstur utaní Hólinn.Hundurinn leikur sér að fiðrildi utan við hlið.
Ekki er skýhnoðri á himni, stafalogn og glitrar á hamrana sem eru votir eftir morgundöggina. Land Roverinn kemur í rólegheitum niður sléttur, börnin stökkva út , hlaupa til pabba síns og stökkva í fangið á honum. Konan kemur kjagandi á eftir þeim með langþráð kaffi, kökur og brauð með reyktum silungi úr seinasta ádrætti ,úr Hólmunum. Hrossagaukurinn tekur dýfur sem aldrei fyrr og reikar hugurinn ósjálfrátt til bernskunnar, þegar maður var sjálfur barn og lék sér í læknum meðan pabbi breiddi heyið á Hólnum og fyrir neðan hann. Margt var að finna við lækinn, sprek, kúlur og gamalt dót sem fokið hafði í lækinn uppi á Fossi um veturinn.
Já, þá var gaman. Vakinn á morgnana með ljúfum kveðjum, hafragrauturinn beið á borðinu og súr blóðmör. Horfi út um gluggann þar sem Landbrotið skartar sínu fegursta í morgunsólinni. Út, reka kýrnar út á Kálgarðsholtið og rölta síðan út á tún, í heyskapinn. Já svona voru nú uppvaxtarárin á Fossi ágæt..

Vorið fagra

Sunday, May 21, 2006

Vorið fagra

Vorið er komið aftur eftir allan þennan tíma. Veturinn að baki, harður og óvæginn, norðanáttin nístandi köld eins og allt sem að norðan kemur. Valgerður á Lómatjörn hlýtur að hafa skolfið í kuldanum nema að hún hafi haldið á sér hita með frekjunni. Ef krakki væri svona frekur væri hann sendur með hraði til sálfræðings, jafnvel geðlæknis og væri svo sendur heim með stóran stílapakka. Þessi kerling er ástæða þess að framsóknarflokkurinn er að líða undir lok.
Jæja, tölum um eitthvað skemmtilegt.
Konurnar lífi mínu fóru saman í sveitina en við Pjakkur hímum hér í einsemd og það undarlega er að gerast, við erum farnir að sakna erilsins, hrópanna, spurninganna, já og jafnvel nöldursins í húsfreyjunni. Fyrir 15 árum var þetta allt á annan hátt, maður taldi að svona tilvera væri aðeins fyrir feitlagin gamalmenni. Þar sem ég stóð í fyrrakvöld með dóttur minni útí glugga og horfði á sólarlagið, sem speglaðist á firðinum með öllum þeim roða og því sjónarspili sem boðið er uppá, þá fannst mér ég vera einhver annar. Dóttirin spurði og spáði í alla mögulega hluti og lét eins og ég væri það sem hún treysti á. Fyrir 15 árum hefði maður sennilega farið á tauginni og beðið mömmu um að hjálpa sér. Núna fyllist maður stolti og hamingju. Blessuð börnin.
Nú næ ég ekki að skrifa mera því Kristján Hreinsson er í útvarpinu og þar með er allur innblástur á bak og burt.
Kveðja
HP Foss

2. Safn

Sunday, October 02, 2005

Ég fór í 2. safn á dögunum. Með í för voru 3 nýliðar, 2 af Síðunni og einn að norðan. Þann að norðan hafði ég ekki áður séð en hina oft, sérstaklega annan þeirra. Er skemmst frá því að segja að þeir af Síðunni stóðu mikið framar í allri framkomu og háttvísin var í hávegum. Stóðu þeir sig í alla staði vel, sýndu mikinn áhuga á smalamennskunni, hökfrá augun numu hverja þúst og ekkert kvikt slapp undan smásjánni. Var sá að norðan meira að spá í það sem var nær, sá varla eða spáði í það sem við hinir höfðum áhuga á. Var eins og hann hefði áhuga sem lá fjarri því sviði sem fjallmenn á Austursíðu afrétti hafa verið þekktir af. Voru heldur leiðindi af þessu og einn af Síðungum átti virkilega í vök að verjast, enda alkunna að þeir geta hvorki sagt já né nei. Fór nú svo að þótti honum nóg komið af átroðningi og kom til smávægilegra átaka ,sá að norðan var afgreiddur í snatri.
Kom nú í ljós að afrétturinn var illsmalanlegur vegna snjóa, nútímafákar jafnt sem gamlir sátu fastir í hverri laut.
Var því gott að dvelja í Miklafelli og orna sér við eldinn sem logaði glatt undir fögrum náttúrulegur söngvum þar sem hver söng með sínu nefi.
Norðlendingurinn var hafður í bandi frammi í eldhúsi til að hinir skaftfellsku rólyndismenn þyrftu einskis að óttast fram að næsta degi.
Gekk það eftir.
Heimferðin gekk illa, vond færð og Norðlendingurinn við sama heigarðshornið, hafði greinilega ekki fengið það sama uppeldi og við Sunnlendingar.
Yrði gott að vera laus við að horfa upp á slíkar aðfarir aftur, aðfarir sem ekki verður lýst hér.
Er heim var komið var mér hugsað til Landbrytlinganna, sem ekkert þekkja nema sköllótta hóla, ekki hefði maður viljað vita af þeim á þessum slóðum, í þessari færð, í þessu veðri.
Kveðja
HP Foss

Skuggi

Wednesday, August 24, 2005

Haustið var komið á ný og sólin skartaði sínu fegursta í vestanáttinni. Drifhvítar ærnar, með dilkana sína, runnu með Stóragilinu eins og tær fjallalækurinn á milli fagurgrænna torfanna. Við Rauður og Skuggi vorum sendir til að beina hópnum rétta leið, fram yfir Öðulbrúará.
Árið áður var ég staddur á þessum sama stað,í sama tilgangi, ásamt fleirum smölum , hestum fjórhjólum og hundum . Er skemmst frá því að segja að sjaldan hefur strákurinn frá fossi orðið jafn reiður og aldrei reiðari. Hundarnir þustu á móti hópnum sem splundraðist í allar áttir með tilheyrandi spani smalanna og lífshættulegri efirför.
Nú var annað á teningnum, við rauður og Skuggi vorum sendir einir í þetta verkefni. Var nú ekki meira en svo að mér litist á blikuna, minnugur baslsins árið áður og voru þá 10 hundar en nú aðeins einn. Féð streymdi austur af heiðinni og fór brátt að sjá í hvíta kolla á aurnum við ánna. Þetta voru áreiðanlega 3000 kindur sem komu á harðahlaupum. Þarna stóðum við þrír, gráir fyrir járnum. Þegar hópurinn átti um 30 metra í okkur stoppaði hann, allar 3000. Ég stóð grafkyrr, skíthræddur um að tapa öllu safninu út í hraun. Rauður stóð einnig grafkyrr, enda hélt ég í tauminn. Skuggi stóð grafkyrr og horfði beint í augun á fremstu kindunum, einbeittur á svip. Kindurnar horðu á okkur, svo á beljandi Öðulbrúaránna á hægri fót og á hraunið á þann vinstri. Skuggi tók hæga en örugga hreyfingu til hægri og færði sig um fjóra metra. Kindurnar horfðu á hann og síðan á fljótið. Hann settist og virtist sallarólegur. Hann stóð upp og færði sig um tvo metra til viðbótar og settist þar. Tók þá fjárhópurinn undir sig stökk, fleygði sér í ánna, og synti yfir.
Skuggi stóð upp og fyldist með á meðan þessar 3000 kindur fóru sína leið fram á heiðar. Síðan kom hann til okkar Rauðs, gekk einn hring í kringum okkur, dillaði rófunni sinni og settist hjá mér.

Skuggi var besti vinur minn.

Sumar

jæja, þá er nú sumarið að verða búið og það er eins og það hafi aldrei komið. Kannski kom það aldrei. Veit ekki.

Það liggur illa á mér

Sunday, April 17, 2005

Og Þá er vorið á næsta leiti. Ekki það að það sé neitt til að hlakka til. Allur sá óþveri sem veturinn hefur falið kemur upp á yfirborðið, dauðir kettir og hundaskítur og um allt, ekki þverfótað fyrir liði sem spígsporar um göturnar, gjammandi upp í hvert annað. Bullandi um hvað dagurinn sé orpinn langur, eins og það sé eitthvað nýtt að dagurinn lengist. Nær væri að hafa áhyggjur af því hvað stutt er í að dagurinn fari að styttast og svartnættið hellist yfir okkur á ný.
Hvað er að gerast í þessari fyrrum sveit okkar? Er ekkert að gerast í einu eða neinu? Það er alveg sama hvað ber á fingurgóma á klausturpunkturis, það er ekki lífsmark að sjá hjá sveitamanninum. Það er samt ekki svo að menn séu ekki að fylgjast með. Nei,nei. Þetta er eins og með sveitasímann, þeir fylgjast með en þykjast ekkert vita. Halda að það komist upp um þá með því að leggja eitthvað til málanna, að þeir verði taldir minni menn fyrir vikið. Svo dettur þetta í það og þá ryfjast allt upp hjá þessu og skammirnar dynja á manni. Alveg merkilegur fjandi.
"Nei, ég hef nú annað við tímann að gera en að liggja á netinu", heyrir maður en það er samt ekki hægt að ná sambandi við nokkurn mann nema á milli 9 og 12 og 15 og 18, því annað hvort eru menn sofandi eða fullir. Er það furða að landsbyggðin eigi undir högg að sækja.

Hátíð ljóss og friðar

Friday, December 31, 2004

Fáir fagna jólunum jafn mikið og hlakka meira til jólanna en hrútarnir. Hrútarnir eru búnir að hlakka til jólanna frá því um seinustu jól. Þeir hafa enga ástæðu til að hlakka til páskanna, vorsins, verslunarmannahelgarinnar eða nokkurs annars en jólanna. Í ellefu mánuði á ári fer allur timi hrútanna í át. Étur hver í kapp við annan enda viðurkenndur fylgikvilli þunglyndis, að leggjast í át. Hópast þeir saman á fjöllum og hreinsa upp grasið á heilu torfunum. Líta sem snöggvast upp þegar lambaskarinn göslast með hoppum og skoppum framhjá þeim og er ekki að sjá að þeir virðist hafa hugmynd um hvernig þessir ólátabelgir verða til. Þennan tólfta mánuð ársins færist heldur betur fjör í leikinn. Þessir akfeitu, illla lyktandi, stórhyrndu hlunkar, fá allt í einu að yfirgefa stíuna sem þeir voru neyddir inn í, í haust. Hinum megin við grindverkið eru þær búnar að dilla sér allt haustið, hálfnaktar,nuddandi sér upp við grindina, ómótstæðilegar. Skyndilega kemur karluglan á bænum og tekur grindina,ellefu mánaða forleikur er aða baki. ( Hann felst eingöngu í áti) Hrútarnir ryðjast inn í hópinn og virðast ekkert setja það fyrir sig hvenig rollan lítur út, hvort hún er hvít eða svört, kollótt eða hyrnd, skiptir engu. Nú er það bara að komast yfir sem flestar þennan eina mánuð sem í boði er. Nei,nei. Þá virðist það vera svipað hjá þessum kvenkynsverum sem öðrum að þegar á hólminn er komið skal láta ganga soldið á eftir sér . "Nei, ekki fyrr en á næsta tungli", bla,bla,bla. Alllt er það eins. Á "næsta" tungli verður sennilega hann Prins frá Prestsbakka búinn að komast yfir hana og þá vill hún ekki meira það árið. Það hefði verið rólegt á Klaustri með þessar reglur .
Ekki komast nú allir heilir frá þessari vertíð, sumir heltast úr lestinni og jafnvel fara beina leið á gresjurnar endalausu, þar sem étið er tólf mánuði á ári.
Já, Hátíð ljóss og friðar er haldin hátiíðleg með ýmsu móti og erfitt að sjá hvar best væri að vera.
Kveðja,
HP Foss

Sumar

Ég var nýbúinn að breiða, lagstur utaní Hólinn.Hundurinn leikur sér að fiðrildi utan við hlið.
Ekki er skýhnoðri á himni, stafalogn og glitrar á hamrana sem eru votir eftir morgundöggina. Land Roverinn kemur í rólegheitum niður sléttur, börnin stökkva út , hlaupa til pabba síns og stökkva í fangið á honum. Konan kemur kjagandi á eftir þeim með langþráð kaffi, kökur og brauð með reyktum silungi úr seinasta ádrætti ,úr Hólmunum. Hrossagaukurinn tekur dýfur sem aldrei fyrr og reikar hugurinn ósjálfrátt til bernskunnar, þegar maður var sjálfur barn og lék sér í læknum meðan pabbi breiddi heyið á Hólnum og fyrir neðan hann. Margt var að finna við lækinn, sprek, kúlur og gamalt dót sem fokið hafði í lækinn uppi á Fossi um veturinn.
Já, þá var gaman. Vakinn á morgnana með ljúfum kveðjum, hafragrauturinn beið á borðinu og súr blóðmör. Horfi út um gluggann þar sem Landbrotið skartar sínu fegursta í morgunsólinni. Út, reka kýrnar út á Kálgarðsholtið og rölta síðan út á tún, í heyskapinn. Já svona voru nú uppvaxtarárin á Fossi ágæt..

Haust

Nú eru féð komið á gjöf og bóndinn getur farið að telja hvað eftir er af rúllunum frá í fyrra. Jarpur setur rassgatið í gaddavírinn og rennir sér til hægri og vinstri þar til kláðinn er að mestu horfinn. Aðfarir þessar minna á vinnukonurnar í þá gömlu góðu daga þegar fólk klóraði sér þar sem það klæjaði, án þess að vera með feluleik í kringum það. Nú á dögum þorir enginn að hreyfa, hvorki legg né lið, heldur frekar að iða eins og allar lýs hreppsins séu mættar í norðurendann og haldi þar íþróttamót.
Gaddavírinn þoldi álagið og Jarpur heldur áfram að éta. Hann hefur reyndar verið að því í allmörg ár, þegar hann er ekki annað að gera. þetta ótrúlega, áfergjulega át, virðist hafa farið á fullan skrið eftir að húsbóndinn ákvað að hann (Jarpur) skyldi hætta að eltast við hitt kynið. Var ákvörðun þessi tekin út í rétt á vordegi nokkrum og gat ég ekki séð að Jarpur greyið hefði nokkuð um það að segja. Hinsvegar nutu hundarnir þessarar ákvörðunar á vissan hátt, fóru pakksaddir heim. Það var eins og við manninn mælt, Jarpur leit ekki við nokurri hryssu eftir þetta og ef ekki var smölun í gangi, þá var hann að éta. Ósjálfrátt verður maður hugsi. Getur verið að hér sé að finna eitthvað sem maður kannast við? Hverfi maður nokkur ár aftur í tímann, rámar mann í mann sem gat hlaupið upp í miðjar hlíðar Lómagnúps, með hótelstelpu í fanginu, smalað heiðina aleinn, gangandi. Alllt var hægt. Nú fær maður andateppu af því einu að rölta út í sjoppu eftir hamborgaranum. Síðastliiðin 14 ár hefur verið óstöðvandi át á þessum manni, allt frá því að hann hætti að leita eftir hinu kyninu. Ef ekki er verið að vinna, þá er verið að éta. Dæmi eru um það að menn hafi farið einskonar aftur á stjá og þannig hafi þeir dottið í gamla farið- holdarfarið, orðið eins og tryppi á ný.
Ætli þetta verði harður vetur?



Orð eru til alls fyrst

Saturday, November 20, 2004

Sagt er að þeir gusi mest sem grynnst vaði og er nú nokkuð til í því. Það hefur nú samt verið draumurinn að vera þessi þöggla týpa og skal nú reynt að koma til mótsvið þær óskir þess fjölda sem þess hefur farið á leit við kjaftask þann er hér situr og bíður eftir að löðrandi feit steikin hennar Þórdísar sinnar verði klár.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband