Laugardagur, 10. febrúar 2007
Nú eru féð komið á gjöf og bóndinn getur farið að telja hvað eftir er af rúllunum frá í fyrra. Jarpur setur rassgatið í gaddavírinn og rennir sér til hægri og vinstri þar til kláðinn er að mestu horfinn. Aðfarir þessar minna á vinnukonurnar í þá gömlu góðu daga þegar fólk klóraði sér þar sem það klæjaði, án þess að vera með feluleik í kringum það. Nú á dögum þorir enginn að hreyfa, hvorki legg né lið, heldur frekar að iða eins og allar lýs hreppsins séu mættar í norðurendann og haldi þar íþróttamót.
Gaddavírinn þoldi álagið og Jarpur heldur áfram að éta. Hann hefur reyndar verið að því í allmörg ár, þegar hann er ekki annað að gera. þetta ótrúlega, áfergjulega át, virðist hafa farið á fullan skrið eftir að húsbóndinn ákvað að hann (Jarpur) skyldi hætta að eltast við hitt kynið. Var ákvörðun þessi tekin út í rétt á vordegi nokkrum og gat ég ekki séð að Jarpur greyið hefði nokkuð um það að segja. Hinsvegar nutu hundarnir þessarar ákvörðunar á vissan hátt, fóru pakksaddir heim. Það var eins og við manninn mælt, Jarpur leit ekki við nokurri hryssu eftir þetta og ef ekki var smölun í gangi, þá var hann að éta. Ósjálfrátt verður maður hugsi. Getur verið að hér sé að finna eitthvað sem maður kannast við? Hverfi maður nokkur ár aftur í tímann, rámar mann í mann sem gat hlaupið upp í miðjar hlíðar Lómagnúps, með hótelstelpu í fanginu, smalað heiðina aleinn, gangandi. Alllt var hægt. Nú fær maður andateppu af því einu að rölta út í sjoppu eftir hamborgaranum. Síðastliiðin 14 ár hefur verið óstöðvandi át á þessum manni, allt frá því að hann hætti að leita eftir hinu kyninu. Ef ekki er verið að vinna, þá er verið að éta. Dæmi eru um það að menn hafi farið einskonar aftur á stjá og þannig hafi þeir dottið í gamla farið- holdarfarið, orðið eins og tryppi á ný.
Ætli þetta verði harður vetur?