Meira um Willysinn hans Kára.

Við fórum á fjöru, ég á jeppanum hans Jóns og Kári á sínum. Þetta var síðla vetrar, milt í veðri og leysingar, töluvert vatn á Sléttabólsgötunni. Brautin liggur á kafla meðfram hyldjúpum læk, sem í við svona aðstæður er barmafullur, 2ja metra breiður, meira en mittisdjúpur. Drulla og slark vill verða í brautinni, þannig að sleipt verður og lágir bílar vilja sitja á kviðnum. Willysinn hans Kára var jú einmitt af þeirri gerðinni, með fjaðrirnar neðan á hásingunni og barðarnir voru 700/16, sólaðir.

Jóns bíll skautaði yfir þetta svona á ská og skjön og þegar ég var kominn yfir þetta leit ég í spegilinn til að sjá hvernig Kára gengi. Hvort hann væri á kviðnum eða við stuðarann hjá mér. En ég sá ekkert í speglinum. Kári var ekkert á slóðanum. Ég leit í vestur vegna þess að menn gátu þar krækt fram hjá þessari vilpu með því að keyra utaní sandölu þar skammt frá. En Kári var ekki heldur þar. Þá sneri ég við, sem gat verið æði mál, vökvastýrisreimin blaut og rafspin að framan.

Þegar ótrúlega stórum radíus var lokið og við snerum loks í norður sást hvar Kári var. Hann var í læknum.  Willysinn sat pikkfastur í læknum, vatnið var upp fyrir bretti, svolítið uppá húddið. Lofthreinsarinn á Hraðkananum hefur verið það eina sem stóð uppúr þarna innundir húddinu. Kári og Hjalti sátu á sætisbökunum og biðu björgunar. Brosið á Kára náði alveg aftur að eyrum eins og það getur mest orðið. Þetta voru aðstæður sem Kári gat ekki sleppt, til þess var lækurinn of freistandi.

Fjöruferðin gekk vel, Kári velti ekki og ekkert bilaði.  Það þurfti að passa upp á olíuna á mótornum, hann var farinn að brenna soldið, eins og mátti greina á reyknum sem aftrúr honum kom. Var hann mestur við gangsetningu og þegar undanhaldi var lokið og gamli stiginn í botn á ný.

Olían sem valin var á mótorinn var alltaf að þykkna, HDX 20 var orðin HDX 30, svo eitthvað enn þykkara en áður en lagt var í þessa ferð var sett gírolía, 80/90 og hana mátti Hurricane maskínan frá USA reyna á éta!

Daginn eftir spurði ég Kára hvernig statusinn hefði verið á olíunum í lok ferðar. " Á afturdrifinu var ekkert mjög mikið vatn, soldið meira á framdrifinu, millikassinn var helv vel vatnsblandaður og á gírkassanum var bara vatn. En þegar ég tók tappann úr pönnunni, kom bara andvarp" sagði Kári, enn með sama stóra brosið.

Hann náði sér aldrei að fullu eftir þessa ferð, gamli brúni Willysinn.


Willysinn hans Kára.

Hann Kári átti einu sinni Willysjeppa sem var svona frekar þreyttur. Orðinn lasinn á marga kannta en samt gangfær. Hann var nokkurnvegin orginal, reyndar yfirbyggður en annað var upprunalegt, með Hraðkanann í húddinu, dana 44 að attan og 30 að framan. Ca 60 módelið.
Til að möguleiki væri á að fley þetta gengi, þurfti að gæta að því að gripurinn fengi það sem til þurfti til að snúast.  Hver hlutur þurfti sitt, olía á drifið, kassana og vélina, bensín á rokkinn. Á meðan þetta var passað, gekk gripurinn.

Ég hef fyrir einhverja góðmennsku skaparans, hlotið þá náð, að missa ekki matarlystina, hversu veikur sem ég kann að verða. Hjá mér fær hvert hólf sitt að næringu, hver hlutur er eins og vel smurð vél, þó mökkurinn kunni að standa frá mér og gufan undan húddinu.

Ég held fast í vonina, minnugur Willysins hans Kára.


Kristján og Sólveig.

polaris.blog.is

Þríburarnir.

L1000682


Helga Sara

Júlí 2008 078


Jólatréð úr Hvamminum í ár.

Við fórum, ég og stelpurnar mínar upp í Stórahvamm á Fossi á sunnudaginn en í Vitanum auglýsti skógræktarfélagið Mörk að velja mætti tré og kaupa úr Hvamminum. Þessi stutta ferð var frábær,  stelpurnar völdu tréð og svo var boðið upp á kakó og smákökur á eftir hjá Elínu Önnu, Einari Bjarnasyni og Jóni formanni Þorberssyni en þau stóðu þarna vaktina.
Þetta væri gaman að gera að árlegum sið.

 

Des 08 450 D 166

Des 08 450 D 167

Des 08 450 D 172

Des 08 450 D 186

 


Skaftá.

Des 08 450 D 123

Des 08 450 D 126

Des 08 450 D 131

Des 08 450 D 134

Des 08 450 D 135

Des 08 450 D 140

Des 08 450 D 151

Des 08 450 D 158


Hátíð á bæ

Árleg jólasaga

Fáir fagna jólunum jafn mikið og hlakka meira til þeirra en hrútarnir.
Hrútarnir eru búnir að hlakka til jólanna frá því um seinustu jól.
Þeir hafa enga ástæðu til að hlakka til páskanna, vorsins,  eða nokkurs annars en jólanna.
Í ellefu mánuði á ári fer allur tími hrútanna í át. Étur hver í kapp við annan enda viðurkenndur fylgikvilli þunglyndis, að leggjast í át.
Hópast þeir saman á fjöllum og hreinsa upp grasið á heilu torfunum. Líta sem vart upp þegar lambaskarinn göslast með hoppum og skoppum framhjá þeim og er ekki að sjá að þeir  hafi hugmynd um hvernig þessir ólátabelgir urðu til.
Þennan tólfta mánuð ársins færist heldur betur fjör í leikinn. Þessir akfeitu, illa lyktandi, hlunkar, fá allt í einu að yfirgefa stíuna sem þeir voru neyddir inní í haust. Hinum megin við grindverkið eru þær búnar að dilla sér allt haustið, nuddandi sér upp við grindina, ómótstæðilegar. 
Loks kemur karlinn á bænum og tekur grindina,ellefu mánaða bið er að baki. ( Hún felst eingöngu í áti) Hrútarnir ryðjast inn í hópinn og virðast ekkert setja það fyrir sig hvernig rollan lítur út, hvort hún er hvít eða svört, kollótt eða hyrnd, skiptir engu. Nú er það bara að komast yfir sem flestar þennan eina mánuð sem í boði er. Nei,nei.!! Þá virðist það vera svipað hjá þessum kvenkynsverum sem öðrum að þegar á hólminn er komið skal láta ganga soldið á eftir sér . "Nei, ekki fyrr en á næsta tungli", jarm,jarm,jarm. Allt er það eins. Á "næsta" tungli verður sennilega hann Prins frá Prestsbakka búinn að komast yfir hana og þá vill hún ekki meira það árið.
Það hefði verið dauflegtí gamla daga á Klaustri með þessar reglur.
Ekki komast nú allir heilir frá þessari vertíð, sumir heltast úr lestinni og jafnvel fara beina leið á gresjurnar endalausu, þar sem étið er í tólf mánuði á ári.
Já, Hátíð ljóss og friðar er haldin hátíðleg með ýmsu móti og erfitt að sjá hvar best er að vera.


Músagangur

Ekki er það talið gott að  vera með mýs á heimilum. Valda skaða á innanstokksmunum, skemma raflagnir og forgera mat.  Þetta vissu systur tvær sem í yfirgefið foreldrahús komu og uppgötvuðu að músagangur væri í kofanum. Ég frétti það í gengum miðil að vasklega hafi verið gengið til verks og vaðið í málið.

Þetta kom svo sterkt í gegn á þessum miðilsfundi að það var eins og ég horfði á beina útsendingu frá aðgerðunum.

Þar sem jólin voru í nánd var strax tekin ákvörðun um að fatan sem brúka skyldi til verksins yrði að vera rauð.  Tandurhrein fatan var sett á mitt stofugólfið og dauðskefldar systurnar, stukku út úr húsinu og brunuðu upp Brot. Nú mættu þær passa sig, skrambans mýslurnar. "En heyrðu systir. Hvernig drepast þær í fötunni ef ekkert er vatnið í henni?", spurði hin systirin.  Bláa Toyotan tók handbremsubeygju og brunaði til baka, núna niður Brot.

Með mikilli varúð kíktu þær systur ofaní fötuna en þeim til mikillar undrunnar var ekkert í fötunni. " Systir, það er engin mús í fötunni?" Sagði hin systirin og undrunina mátti lesa úr andlitunum.  " þær hafa hoppað uppúr, ekkert er vatnið, manstu systir?"

Nú skyldu þær drepast.  Hálf full fatan stóð á miðju stofugólfinu og mýsnar áttu ekkert eftir nema að stinga sér í fötuna og bíða þess sem koma skyldi. Aftur var brunað upp Brot, en núna voru þær enn borubrattari og minntu óneitanlega eiganda bifreiðarinnar.

Miðillinn sagðist hafa kíkt á stofuna skömmu seinna og séð góðlegan mann í slökkviliðsbúningi, horfa á  fötuna á miðju gólfi, eldrauða fötu hálfa af vatni. " Hva, er nú þakið farið að leka?" Sagði  maðurinn við sjálfan sig og leit upp í loft en sá ekki neitt. Hann brosti góðlátlega, sagði ekkert en rölti út i vestanáttina og upp í stóran pikkupp.

Systurnar gerðu víðreist um sveitina, heimsóttu alla þá sem þær þekktu til að örugglega væru nú mýsnar dauðar sem í húsinu væru.  En þegar þær komu til baka fundu þær fötuna á sínum stað en án músa. Engin mús hafði klifrað upp meira en þverhnýpta 10 lítra fötuna til að drekkja sér.

Vonbrigði systranna var mikil því alla þeirra tíð var það talin langbesta aðferðin við að veiða mýs að veiða þær í fötu!

Þær röltu yfir hlaðið til að leita ráða hjá bróður sínum. Þessi bróðir þeirra myndi hjálpa þeim í vandræðum þeirra án þess að það færi lengra. Honum gætu þær treyst, því hann er þessi þögla og trausta manngerð.

"Er spýtan kannski dottiiiin?" Spurði bróðirinn hægum rómi. " Hvaða spýta?"svaraði önnur systirin svo hvassri röddu,  að bróðirinn tók eitt skref afturábak. " Nú, spýtan til að mýsnar komist upp á fötubrúninaaa. " Sagði bróðirinn, sömu rólegu röddinni og hin systirin kippti í peysuna hjá þeirri hvössu, sem snéri rauða kollinum leiftursnöggt á hana og strunsaði til baka.

"Hver skremillinn, aulagangur getur nú verið í þessum músum, að komst ekki hjálparlaust upp í svona pínulitla fötu"

Miðillin sagði mér að hann hefði kíkt á þetta mál á sunnudagskvöldi, þegar systraheimsókn þessari var lokið. Fatan var á sínum stað, spýtan vissulega komin en fátt var til að tæla mýslurnar að fötunni, ekkert hjól, engin vír, enginn ostur. Kannksi verða þær leiðar á lífinu og henda sér framaf. Mýsnar stukku um gófin og virtust ekki hafa áhyggjur af fötunni, eða sýna henni áhuga yfirleitt.

Miðillinn sá tvo menn á vettvangi, þennan í slökkviliðsbúningnum og annan eldri.  Hvorugur sagði neitt en báðir brostu í kampinn.


Færsla frá því 14. apríl 2008

Ég var að skrolla niður bloggið mitt til að athuga hvaða vitleysu ég hafi verið búinn að setja inn og rakst á þetta. Mig setur hljóðan. 

 

,,1783 tók sá alvitri guð að, bæði í vöku og svefni að benda mér og öðrum að vér skyldum taka vara á oss og búa oss við yfirhangandi og ókomnu straffi. Eldroði sást á lofti og teikn, ormar og pestarflugur á jörðu, skrímsli í vötnum og eldmaurildi á jörðu, item; hljóð og veinan í hennar iðrum, vanskapan á nokkrum lömbum. Drambsemin sté upp, sem ávallt er fallinu næst. Marga skikkanlega menn dreymdi það sem eftir kom.''

,,Hér lifðu menn í sælgæti matar og drykkjar, sumir orðnir svo matvandir, einkanlegast þjónustufólk, húsgangs-lýður og letingjar, að ei vildu nema þá allra bestu og krydduðu fæðu. Drykkjuskapur og tóbakssvall fór að sama lagi, að á einu ári upp gekk hér í gildi, heimboð og þess kyns brennivín upp á 4000 fiska, eftir sem ég með öðrum vitanlega sannreiknuðum,
er svo hátt steig, að prestar fundust þeir hér, sem ei þóttust geta framflutt með reglu og andakt guðsþjónustugjörð nema fyrir brennivíns tilstyrk, hverjum og svo urðu síðan sín hús í eyði látinn og margra annarra sem féllu á sömu sveif.''

Þannig ritar eldklerkurinn í ævisögu sinni.

Óhugnanlega er þetta eitthvað líkt ástandinu á vorum dögum. ´

Ég ætla að hafa varan á.

 


Hundalíf

Það er fæstum efst í huga að lifa hundalífi. Það er yfirleitt tekið sem dæmi um lélegt líf. Hvað svo sem lélegt líf er, er svo ekki gott að skilgreina. Hundurinn hefur mikla hæfileika til að sætta sig við það líf sem honum er boðið uppá. Hundurinn gerir sér það að góðu sem hann hefur, notar þó tækifærið til að létta sér tilveruna, sjái hann tækifæri til.
106a9e8a-5a66-47f0-8deb-330e54f07903[1]
Það myndu  nú ekki allri slá hendinni á móti slíkum siðvenjum

Detti manni í hug að skreppa í göngutúr, sem er nú kannski ekki svo líklegt, þá vill hundurinn endilega skreppa með . Hann veltir því ekki fyrir sér hvert skuli halda, ekki hvað lengi skuli vera að heiman, veltir því ekki fyrir sér hvort þurfi að taka með sér nesti. Hann veit að fyrir því er hugsað. Hann kemur með, jafnvel þó veðrið sé þannig að hundi sé ekki út sigandi.

DX-22A

Ég hef reyndar ekki enn orðið vitni að slíku veðri, eða átt það latan hund.

Hundurinn getur yfirleitt látið sér líða nokkuð vel, hann getur yfirleitt um frjálst höfuð strokið. Hann fer sínar leiðir en það vill þannig til að þær leiðir eru leiðirnar sem við ætlum honum. Þess vegna hefur hundinum og manninum samið svo vel í gegnum aldirnar, þó maðurinn hafi haft tilhneigingu til að ráða yfir þessum besta vini mansins. En hundurinn lítur ekki þannig á málið.  Hafið þið lagst við  tæran fjallalæk til að svala þorstanum. Eftir langa göngu, sárþyrstur, veit maður af lækjarsprænu, skellir sér flötum og stingur andlitinu ofan í lækinn. Hundurinn fer aldrei neðan við mann, hann hefur ekki geð á því, hann fer án undantekninga ofan í lækinn fyrir ofan mann. Veður upp í kvið og skolar af sér drullu dagsins.


Hundurinn fer sínu fram, hann lætur ekki að sér hæða, hann á gott líf.

DX-28A


Við Kóngsveg.

Júní 2008 027

Beislið

Ferð var heitið inn til fjalla , með skömmum fyrirvara. Hörður á Fossum var við stjórn. Hann vildi ólmur fara þessa ferð, sagðist verða að sjá, og helst fá, beisli eitt mikið og merkilegt. Hefur það legið á öræfum áratugum saman, án þess að nokkur maður hirti um það. Mun þetta beisli vera hið mesta djásn og menn eins og Hörður á Fossum sjá það sem ekki aðrir sjá. Var lagt af stað fyrir allar aldir úr byggð.

 

Hörður á Fossum hefur verið fremstur í flokki  í sinni sveit, í því að koma auga á verðmæti í hlutum ,sem almúginn heldur að sé einskis virði , jafnvel rusl. Má þar nefna skip nokkuð, sem lengi hefur legið á sandfjörum Síðumanna og menn brunað þar fram hjá án þess að virða það viðlits. Hörður á Fossum sá að þetta gat ekki gengið lengur og gekkst í að bjarga fleygi þessu. Fékk til þess tæki og tól, stórvirkar vélar og flutti til byggða. Þar með munu mikil menningarverðmæti vera  hólpin. Reyndar stendur hann í einhverjum deilum við flutningsaðilann sem kyrrsett hefur gripinn.

Nú, fjallferðin hófst á því að brunað var fram hjá Þverárbóndanum á miklu spani, enda ekki gott að verða á hans leið, þó ekki sé reyndar annað hægt, inn allt hraun, til Mikla Fells. Þar var ráðgert að gera stutt stopp. Komust ferðalangar að því, að með í för var úttektarmaður hreppsins á fjallaskálum og var gerð allsherjar úttekt á kofanum. Þetta var Hörður á Fossum. Reyndar var farið í hvern þann skála sem sást og gerð slík úttekt. Tafði þetta heldur ferð okkar. Mikið span var á ferðamönnum þessum og hefði ekki verið gott að vera með konur í þessari ferð , slík var ferðin. Inn með Blæng var haldið, niður með giljum að sunnan og upp með þeim að norðan, allt eins og menn þekktu þetta sem sína eigin lófa. Blöstu þá herlegheitin við, andlit fararstjórans ljómaði líkt og sólin sjálf, eins og barn á jólum. Kolryðguð járnahrúgan lá þar í drullunni. Einu gestir undarfarna áratugi  hafa verið rollur, í þeim eina tilgangi að ná kláðanum úr rassgatinu á sér.. Þá hefur einn og einn smali stoppað þarna, étið nestið sitt og kvatt með því að míga utan í beislið.
Hörður á Fossum mældi þennan kostagrip og stikaði fram og aftur. Myndir voru teknar og við svo búið var haldið heim. Þessu skyldi bjarga og það fljótt.

005 

                                                                                                                           


Jón Reynir og Jóna fertug

Um Jón:

Fátt sem við jón gerðum var öðrum til ama og náttúrulega engum til leiðinda. Allavega var maður auðfúsu gestur á Hruna og hann að sjálfsögðu á Fossi. Mér finnst nú  eins og ég hafi alltaf þekkt Jón, enda hef ég alltaf þekkt hann, höfum einhvern veginn skottast í gegnum tilveruna, mismiklar samverur, stundum litlar og stundum miklar. Þrátt fyrir  miklar samverustundir í gamla daga, alla andskotans daga að gera einhvern djöfulinn,  gera kennurunum gramt í geði, heilla stelpurnar í bekknum upp úr skónum með fágaðri framkomu og óstjórnlegri kurteisi gangvart hinu kyninu,  man ég ekki eftir einu einasta skipti þar sem ég var pirraður út í Jón. Ekki einu einasta skipti sem ég var orðinn þreyttur á kallinum. Ekki einu einasta skipti þar sem mér fannst að komið væri nóg. Það kann að vera að hann hafi verið orðinn pirraður, leiður og löngu búinn að fá nóg af mér, en það skiptir ekki máli.

Talandi um kennarana. Kennararnir á Klaustri voru upp til hópa önugir og uppstökkir. Það mátti ekkert út af bregða svo þeir færu að hnýta í okkur, segja okkur fyrir verkum og með þess háttar leiðindi.

 T.d. man ég eftir enskutímunum mjög vel. Þeir byrjuðu á því að Áslaug setti upp á töflu, You are, we are, they are, he,she it is. Ótrúlega leiðinlegt og gert með ótrúlegri rassasveiflu. Sennilega gert til þess að fá okkur til að muna eftir þessu, enda fæ ég enn skelfingartilfinningu í barnshjartað.

Hún kom eitt sinn með gæluverkefni, allir áttu að ná sér í  ákveðna bók og þessi bók átti að vera alger bomba í enskukennslu. Bókin var hrútleiðinleg og það tók tímann frá jólum fram að vori þumbast í gegnum hana.

En Jón þráaðist við og fékk sér ekki þessa bók.  Áslaug var alveg fjúkandi vond við Jón, sem gat einhvernvegin fengið mig til að taka hluta af sökinni, enda sat hann við hliðina á mér. Þetta var æði strembið verkefni,  þessi bók, töluverð heimavinna en eitt allsherjar lokapróf, þar sem farið var í alla þætti málsins.

Áslaug var framan af önninni að þrusa í Jóni, og mig í leiðinni en Jón gaf lítið út á þetta allt saman, horfði upp í Systrafoss og svo glottandi á mig þegar hún hjassaðist að töflunni.

Um páskana gaf hún út þá yfirlýsingu að hún nennti ekki að fást við þetta lengur, Jón yrði að sætta sig við að falla í þessu fagi, því án bókarinnar værir þetta vonlaust.

Hún var ekki falleg á svipinn, hún Áslaug, þegar hún svo kom með niðurstöðurnar úr prófinu og Jón var hæstur i bekknum með 10.

Svona gekk skólagangan hans, minnir mig, eitthvað voðalega átakalaust eitthvað.

Jón hafði gjarnan orðið fyrir okkur, hann var mikið fljótari að hugsa en ég og átt þannig mikið betra með að bjarga okkur út úr hinum og þessum krísum. Eftir á að hyggja held ég að þetta hafi verið mistök hjá mér, held að þessi orðsnilld hans hafi jafnvel verið fullmikil á köflum, allavega þegar við vorum látnir læra inni hjá skólastjóranum eftir útskýringar Jóns við kennarana.  Ég var meira til baka, vildi síður að fullorðna fólkið vissi hvað við vorum að bralla.  Jóni var alveg sama.

Þegar maður kom austur að hruna átti maður frekar von á því að þar ríkti kyrrð og ró. Að maður heyrði i læknum renna undan hrauninu og í spóanum vella við túnfótinn. En raunin var yfirleitt önnur. Fuglar voru náttúrulega steinhættir að láta sjá sig á landareigninni því þarna var líkara að menn væru á Gaza ströndinni. Skothríðin var um allt hraun,  hvergi þó mann að sjá, allt eins og í alvöru orrustu. Þetta ástand var sínu verst þegar Oddsteinn var á svæðinu, Þá var eins og allt færi úr böndum. Inni sat síðan Andrés og las í bók, sallarólegur, áhyggjulaus yfir ástandinu úti.

Á kvöldin, eftir að venjulegum útivistatíma lauk, var skotið úr rifflunum út um svefnherbergisgluggann.

Við áttum báðir Willysjeppa. Þeri voru reyndar sjaldan báðir í lagi í einu. Minn var yfirleitt með bilaðan millikassa en hans með bilaða vél. Ja, reyndar var hann yfirleitt með ónýta vél. Jón bar um tíma viðurnefnið „The terminator. "  Einu sinni voru smávægilegar gangtruflanir í Bjúkkanum, V6 mótornum í Willysnum hans. Við spáðum í þetta lengi í bragganum á Fossi, tókum hinn og þennan kertaþráðinn úr sambandi,  fundum samt aldrei almennilega hvaða sylender var lélegastur. Það var eins og þeir væru allir lélegastir. Nonni á Fossi var eitthvað að sýsla í Fergusoninum hans pabba innar í bragganum, var svona að kíkja til okkar af og til , svolítið eitthvað sposkur á svipinn alltaf. Við létum þennan skrítna svip viðgerðamans sveitarinnar ekkert á okkur fá, enda svona mótorar í svo mörgu frábrugðnir Perkinsvélunum í Fergusonunum.

Eftir langa leit og miklar pælingar, þá var ákveðið að kippa pönnunni undan og skoða málið neðan frá. Pannan var skrúfuð undan og í henni lá,  hluti af stimpli, 5 cm bútur úr knastásnum og heilmikið af örðu gromsi.

Þar sem við hálf klumsa stóðum  yfir þessu, grútskítugir upp fyrir haus, kemur Nonni, lítur ofaní pönnuna og segir. Ég held að þig getið nú ekki komið nafni á þessa bilun og þar með lágum við allir af hlátri.

Eftir þetta fékk Jón sér áttu, 350 chevrolet  og eftir  að hún var búin að bræða úr sér 2svar, hásingin búin að umhverfast einu sinni, var bíllin orðinn fínn.

Bensín? Var ég búinn að tala um bensínið?? Jón var aldrei með miklar birgðir af eldsneyti með sér, hann var alltaf á síðasta dropanum og við komumst yfirleitt ekki alveg þangað sem við ætluðum því Jón þurfti að snúa við. Svona hálfskömmustulegur fór hann gjarnan að tala um að vera ekkert að fara lengra. En hann varð aldrei bensínlaus, ljósið gat logað í alveg ótrúlega langan tíma. ÁWillysnum var reyndar ekki ljós heldur kústskaft.

Einu sinni vorum við fara út að Klaustri, búnir að hrista Willysinn í lag í bragganum á Fossi. Ég átti að fara á Jeppanum en hann ætlaði að koma á Skódanum. Ég var eitthvað að tala um það hvort það væri nóg bensín, jájá, sagði Jón, alveg ákveðinn. Farð þú bara af stað, ég kem svo rétt á eftir. Ok, ég lagði af stað og þetta var alveg ljómandi ferð enda afar gott að keyra Willysinn hans Jóns. Brunaði fram hjá þorpinu, upp Hörgsárbrekkuna, út að Breiðbalakvísl en á miðri Kvíslarbrúnni drap hann á sér. Bensínlaus! Ég lét hann fríhjóla út af brúnni svo Jón myndi nú ekki þruma aftan á mig.

En Jón var ekkert á eftir. Eftir langa bið fór ég að ýta bílnum af stað. Ýtti og ýtti og aldrei kom Jón á Skódanum. Þegar ég, móður og másandi, kófsveittur kom með Willisjeppann hans Jóns að dælunni á Klaustri, renndi Jón í hlað alveg slakur. „Jæja, þetta hefur gengið vel?" sagði Jón. Já, já, hvar varst þú? Ég skrapp aðeins heim, kom við á Sléttu og tafðist aðeins.

Ja, kannski að ég hafi verð orðinn pirraður þarna. Nei, satt að segja held ég ekki.

Einu sinni á leið minni austur, vorið 1990, kom ég við hjá Jóni í Ölfusinu. Jón var einn heima og við ákváðum að best væri að ég myndi bara gista þarna og við gerðum okkur þarna glaðan dag. Fengum okkur vel í tánna og skelltum okkur í heita pottinn. Þetta var hin besta nótt en þegar leið á hana fór hungrið að sverfa að. Jón snaraði sér inn í eldhús, sagðist eiga steik í ísskapnum.  Ég á einmitt mynd af okkur þar sem við erum að stífa þetta úr hnefa í pottinum. Að lokinni þessari fínu máltíð þurftum við að bregða okkur á næsta bæ því þar var einhver andskotinn að og Jón þurfti að redda því. Ekkert mál, ég kem, sagði Jón um, miðja nótt í símann, við báðir blindfullir, en ég bara man ekkert eftir því hvernig við fórum þetta.

Daginn eftir hélt ég áfram austur en Jón sagði mér, næst þegar við heyrðumst, að Mónika hefði verið hissa hvað við hefðum étið lítið af steikinni en hinsvegar væri hundamaturinn búinn!

Jón kynntist Báru, seinni konu sinni.  Kom með hana austur á Þorrablót til að sýna okkur hinum lúðunum hvar Davíð keypti ölið. Við litum á nýju konuna hans, svo á okkar konur og sáum að hann kaupir ölið allt annarsstaðar en við. Forkunnar fögur kona, og þá fer Jón náttúrulega að hrúga niður krökkum, getur ómögulega ráðið við sig.  Já, okkur leist sem sagt vel á Báru þarna á þorrablótinu og Jón var eins og Óli á Læk, svo sperrtur var hann.  Rígsaði með hana á milli borða, hló og skríkti framan í hvern sem hann hitti.  Svona þeyttist hann um allt kvöldið en seint í nóttina kom Bára til mín og spurði hvort ég hefði nokkuð  séð hann Jón. Við fórum í könnunarleiðangur og fundum þennan hamingjusama mann inni á klósetti, þar sem hann hélt dauðahaldi um hlandskálina og bindið í henni miðri. Hann var algerlega búinn á því. Ég hljóp í hurðina og bað Báru að bíða bara aðeins, hann væri að míga með Stebba í Þykkvabæ.

Já, eins og ég sagði áðan, þá voru nú stundirnar fleiri í gamla daga, eins og gengur enda dettur mér Jón oft í hug þegar ég hlusta á lag Magnúsar Eiríkssonar, Gamli góði vinur, þar segir eitthvað á þá leið:" ég slæ ei lengur á þitt bak, við látum duga handatak, við þykjumst vera, orðir menn og engum háðir. En þegar vínið vermir sál, við tölum ennþá sama mál, þó er það af sem áður var, við vitum báðir."

Kæru vinir, Jón og Jóna, innilega til hamingju með afmælið og takk fyrir að vera til.

 


Þingmanns saknað.

Það er vont að missa Bjarna Harðar af þingi. Ég hef sagt að ég hef þá trú að enginn annar þingmaður veit hvar Skaftárhreppur er á landinu. Í það minnsta kæra þeir sig kollótta. Aðrir hafa frakar gert bölvun en gagn.

Ég hafði tröllatrú á Bjarna sem þingmanni Sunnlendinga og veit það að hann vann að góðum málum fyrir þá alla. Alla, ekki bara Selfyssinga og Hornfirðinga. Hingað til, og þá hér eftir, hafa þingmenn og ráðherrar þessa kjördæmis, utan Bjarna,  einblínt á þessa þéttbýliskjarna án þess að líta þessar fáu hræður utan þeirra viðlits. Til þess eru þær sennilega og fáar. Það er jú gjöfulast að ráðast á þéttasta berjalyngið en láta hin gisnari lönd og leið.

Eyjamenn hafa Árna.

Nú hef ég, genatíski framsóknarmaðurinn, sagt skilið við Framsóknarflokkinn, hann er ekki lengur sá flokkur sem stóð vörð um landsbyggðina alla, bændur og búalið. Vötn hans renna víst hér eftir til Evrópu, í gengum Lómatjörn og verður sennilega af lagður eftir næstu kosningar. Þingmenn flokksins verða svo endurnýttir í moðsuðu Samfylkingar. Þökk sé Halldóri og hans fólki.

Ég sé nú eftir að vera ekki í flokknum, því þá myndi ég segja mig úr honum.

Ps. Í virðingaskyni við Bjarna hef ég dregið hann efstan á bloggvinalistann, ofan við fjölskyldu og nána vini og verður hann þar fram að aðventu.

 


Haustsagan. ( gömul)

 

Nú eru féð komið á gjöf og bóndinn getur farið að telja hvað eftir er af rúllunum frá í fyrra. Jarpur setur rassgatið í gaddavírinn og rennir sér til hægri og vinstri þar til kláðinn er að mestu horfinn. Aðfarir þessar minna á vinnukonurnar í þá gömlu góðu daga þegar fólk klóraði sér þar sem það klæjaði, án þess að vera með feluleik í kringum það.

Gaddavírinn þoldi álagið og Jarpur heldur áfram að éta. Hann hefur reyndar verið að því í allmörg ár, þegar hann er ekki annað að gera. þetta ótrúlega, áfergjulega, át, virðist hafa farið á fullan skrið eftir að húsbóndi hans ákvað að hann (Jarpur) skyldi hætta að eltast við hitt kynið.

Var ákvörðun þessi tekin út í rétt á vordegi nokkrum og gat ég ekki séð að Jarpur greyið hefði nokkuð um það að segja. Hinsvegar nutu hundarnir þessarar ákvörðunar á vissan hátt, fóru pakksaddir heim. Það var eins og við manninn mælt, Jarpur leit ekki við nokkurri hryssu eftir þetta og ef ekki var smölun í gangi, þá var hann að éta.
Ósjálfrátt verður maður hugsi. Getur verið að hér sé að finna eitthvað sem maður kannast við? Hverfi maður nokkur ár aftur í tímann, rámar mann í stæltan strák sem gat hlaupið upp í miðjar hlíðar Lómagnúps, smalað heiðina aleinn, gangandi. Allt var hægt. Nú fær maður andateppu af því einu að rölta út í sjoppu.
Síðastliðin 14 ár hefur verið óstöðvandi át á þessum manni, allt frá því að hann hætti að leita að maka.  Ef ekki er verið að sofa, þá er verið að éta.
Dæmi eru þó um það að menn hafi farið einskonar aftur á stjá og þannig hafi þeir dottið í gamla farið- holdarfarið, orðið eins og tryppi á ný.
Ætli þetta verði harður vetur?


Zetor 25

Úr Austurbænum kom þetta, að manni núna finnst, undurfagra hljóð, þegar Siggi startaði bláa Zetornum sínum í gang. Hann átti reyndar tvo en þeir voru eingöngu notaðir við heyskap eftir að ég fór að taka eftir því sem var að gerast í kringum mig.

Þessi gangsetning er svo ótrúlega nákvæmlega eins,eftir að vélin tekur við sér, en í Austurbænum var þessum traktorum oftast snúið í gang. Þegar Siggi snéri vél í gang, þá var það náttúrulega eins og 24 volta start, slíkt var aflið.


Hann er að borí nef.

Á haustin fer ég nokkrum sinnum að Fossi og gjarnan einn míns liðs, til að smala með körlunum. Þá er upplagt að hlusta á eittvað á leiðinni og í haust hef ég hlustað töluvert á Era, stórkostlega hljómsveit. Í eitt skiptið voru Margrét og Einar með mér og ég að hlusta á Era. Tek ég þá eftir því að þau lágu í hláturskasti, gersamlega grenjandi úr hlátri. Þá voru þau líka að hlusta og fannst í viðlaginu vera sungið, "hann er að borí nef". Hlustið á lagið og þá skiljið þið hvað þau voru að meina. Smile Æ, það er svo gaman að fylgjast með krökkunum.

 


Síðasta smölun haustsins

Rollunum var smalað úr heiðinni um daginn. Það er notaleg tilfinning þegar blessaðar ærnar eru komnar í heimahagana, í öruggu skjóli bónda síns sem tekur þær á gjöf um leið og harnar á dalnum, hafi hann ekki gert það fyrr. Þær fá að rölta upp í heiði eftir að lömbin eru tekin frá þeim. Ömurlegur dagur í lífi ánna , þegar lömbin eru tekin frá þeim og sett inn á tún. Á fjallsbrúnirnar raða þær sér, jarma til lambanna sem standa svo í túnunum. Morgunin eftir eru þær svo algerlega búnar að jafna sig.

Okt 08 001

Okt 08 004

 

Norðanáttin gerði Það að verkum að ekki var efi í mans huga að þessi síðasta smölun haustsins var tímabær. Lamhúshetta og síðar brækur, ullarsokkar og vettlingar, öllu var tjaldað þennan bísna kalda laugardag. En, mikið óskaplega er þetta eithvað notalegt og nærandi, fjarri argaþrasi og síbylju útvarps og annara manngerðra dægrastyttinga. 

Okt 08 054

Ekki skemmdi fyrir að krakkarnir hittu fyrir gamla vini sína, Snoppu og Blettu.

 

 

 

 

 

 

Okt 08 065

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Okt 08 063


Áður sögð saga ( hugmyndakreppa)

 Gamli vinnumaðurinn hans Helga gamla var í heimsókn í Austurbænum. Hann hafði verið í sveit á Fossi sem stráklingur. Þeir voru margir sem komu að sunnan í sveit að Fossi. Eins voru margar vinnukonur sem þar höfðu sumardvöl. Þessi fyrrum vinnumaður hafði tekið einkaflugmannspróf og var kominn á lítilli einshreyfils rellu. Hann stoppaði ekki lengi, aðeins part úr degi.

Björn var við heyskap í Stórahvammi þennan dag og var þar mikið hey að vanda. Hann sló Hvamminn alltaf í lok heyskapar og því var hann sprottinn eins og mögulegt var. Heybindivélin hans var af Welger gerð og því með kúplingu á svinghjólinu í stað öryggisboltans sem var í New Hollandinum. Eins og gefur að skilja kom oft góður slurkur í vélina þegar þeir félagar helltu sér í seinasta flekk sumarsins, Björn með Welgerinn í eftirdragi, eins og hann væri í sporttúr um svæðurnar, þar sem Massinn var staðinn eftir Hvamminum og Eiður með rakstrarvélina á fullu spani, skárarnir hlóðust upp þannig að bar við himinn. Þá stíflaðist vélin gjarnan og kúplingin á svinghjólinu tók að snuða með slíku væli að söng í hömrunum. Voru þá þá viðhöfð handtök sem ekki verða kennd við vettlinga, Heyinu svipt úr sópvindunni þannig að frá Fossi séð var eins og hann væri skollinn á af norðvestri.

Hitt er annað mál að þegar þessi fyrrum vinnumaður, sem var þó ekki sá hinn sami og í Hvamminum, fór í burtu þennan fagra sumardag á Fossi, þá hóf hann vél sína á loft af Svartasandi, þar sem hann hafði lent henni fyrr um daginn. Fylgdist ég grannt með tilburðum mannsins á vellinum og sá þegar hann fór í loftið. Tók hann stefnuna yfir Stórahvamminn og fór æði lágt. Þegar hann var farinn að nálgast hamrana gaf hann allt í botn og var vélin allt að því lóðrétt upp á endann á móts við hamrabrún. Hélst hún þannig dágóða stund, fór hvorki afturábak né áfram, þar til þyngdaraflið bar hana ofurliði og hún skall á bakið í nýsleginn flekkinn hjá Birni. Þetta var mikil reynsla að sjá þetta svona og upplifa.

Rifjaðist þá upp fyrir mér atvik sem gerðist skömmu áður. Var ég þá í Reykjavík, eitthvað að snattast þegar kunningi minn bauð mér í flugferð. Hann var reyndur flugmaður og hugsaði ég mig ekki um áður en ég tók þessu kostaboði. Í slíkar ferðir er manni ekki boðið á hverjum degi. Þegar við vorum komnir út á flugvöll varð mér ljóst að flugvélin var ekki þessi hefðbundna flugvél með fjórum sætum. Þessi vél var síðan úr stríðinu og var búið að mála hana fagur rauða. Það var nú ekki allt því sætin voru aðeins tvö, tvö göt ofan í skrokkinn og ekkert þak. Þetta var nú spennandi og fórum við í loftið. Við flugum upp á Sandskeið, yfir Bláfjöllin, Hengilinn og komum aftur til baka yfir Hólmsánna. Þá tók hann upp á því að snúa vélinni við, þannig að hún flaug á hvolfi eins og listflugvél. Þetta hefði kannski verið skemmtilegt ef ég hefði verið með beltin spennt. En það var ég ekki og alls ekki búinn undir slíkar æfingar. Skipti engum togum að ég datt úr sætinu en náði að hanga á fingurgómunum á sætisbakinu.  Þannig flaug mannfýlan og lækkaði flugið. Ég var alveg að missa takið og hélt þetta mitt síðasta. Alltaf lækkaði flugið, niður undir trjátoppana á 150 kílómetra hraða. Þá sleppti ég takinu og kútveltist eftir jörðinni. Tel ég að þarna hafi hurð skollið nærri hælum.

Hurðin skall einnig nærri hælum við gamla bæinn fyrir mörgum árum. Þá var ég 10 vetra gemlingur á Fossi. Ég var einn heima í gamla bænum þegar herþyrla kom inn í landhelgi Fossmanna. Þessi vél var ekki frá bandamönnum vorum heldur frá Sovétríkjunum gömlu. Vissi ég ekki mitt rjúkandi ráð og vonaði í lengstu lög að þeir færu hjá án þess að verða til vandræða. Fór þá ekki druslan að hiksta. Greinilegt var að  eitthvað var að. Ég man þetta eins og hafi gerst í gær, dynkina og drunurnar frá þyrluspöðunum, sem nálguðust hægt og sígandi. Mér til mikillar skelfingar, lækkaði vélin flugið og skall að lokum til jarðar um meter frá gamla bænum. Allt varð kyrrt og dauðaþögn. Ekki einu sinni Fossinn þorði að láta á sér bæra. Slík þögn hafði ekki verið á Fossi síðan paparnir ræktuðu kartöflur í brekkunni hér fyrir löngu. Þá voru skyndilega rifnar upp hurðirnar á þyrlunni og hermenn þustu út og æddu um hlaðið. Ég þorði hinsvegar ekki að láta á mér bæra.

 

                                                                                                                                      Kveðja Helgi á Fossi


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband