Sunnudagur, 8. desember 2024
Að fara sér engu óðslega
Þeir ákváðu að hlaða sér hesthús við hraunbrúnina, afi minn og Feri í Miðbænum, Helgi Pálsson og Kristófer Bjarnason og þetta hús stóð þar þangað til i sumar. Þetta var litið hesthús, rúmaði með sæmilegu móti fjóra hesta. Gott fyrir tvo. Seinna, eftir að nýrra húsið var hlaðið, notaði Óli á Læk þetta hús í mörg ár undir sín hross.
Úr Fellinu eru til margar sögur, um hitt og þetta sem mönnum þykir erfitt að útskýra. Stundum var beðið lengi eftir smölum sem voru seint á ferðinni úr byggð af einhverjum orsökum og þegar þeir loks komu, var heldur betur vel tekið á móti þeim. Allir komu út á torfu til að taka á móti þessum síðbúnu safnsmönnum, sem kannski voru þyrstir eftir langa reið, eða jafnvel aflögufærir. Var þorstanum í það minnsta sinnt af áfergju, hvaðan sem nú vökvinn kom.
Hundarnir vöktuðu vel allar ferðir í Fellinu, ruku út í myrkrið, geltandi á móti hverjum sem kom. En oft voru fýluferðir úr húsi, þegar enginn kom úr myrkrinu. Þeir sáu eitthvað eða fundu, sem enginn annar sá að fann.
Eitt kvöldið var von á nokkrum köllum inn í Fell, seint um kvöld. Hundarnir ruku út á torfu en núna sátu menn rólegir inn í kofa og fóru ekki út fyrr en búið var að gelta frá sér allt vit, hófadynurinn heyrðist frá hrossunum, glamrið í beislunum og söngurinn i köllunum. En þegar út var komið var þar engan að finna. Nema hundana, sem störðu út í myrkrið, steinþegjandi. Smalarnir síðbúnu, komu svo löngu síðar.
Eitt haustið kom Þorvarður í Hörgsdal svona seint en hann átti hesthús sem stóð nokkuð austur með hrauninu. Hann reið beina leið að hesthúsinu og spretti af. En hann kom frekar umsnúinn inn í kofa. Skammaði kallana, því hann var í tómu brasi að koma hrossunum sínum inn fyrir snarvitlausum hesti sem var þar fyrir. Enginn hinna smalanna hinsvegar kannaðist við að eiga þann hest.
Litla gamla hesthúsið við hraunkanntinn hefur ekki verið notað í langan tíma. Langt er síðan hross voru hýst þar en stundum voru kindur geymdar þar inni í safni en þó ekki nú í mörg ár. Þakið lág orðið laust ofan á hlöðnum veggjunum og heljarinnar tóg var strengt þvert yfir það og var bundið í spítu, sem var einu sinni til. Því var það í sumar að ég fór með rúllur fyrir hestamenn ínn í Fell á sturtuvagni. Mér dattí hug að nota ferðina og rífa gamla húsið.
Það var glaða sólskin þennan morgun og ég vatt mér í verkin hugsunarlaust. Það var hugur í mér í blíðunni, brunaði fram og til baka, mokaði moldinni úr gömlu þorparatóftinni upp á vagn, sótti sand og sléttaði og staflaði rúllunum þar inn til skjóls. Allt saman var þetta gert af miklu kappi á gamla Zetor. Hvergi var hikað, skóflan af og greipin á og aftur greipin af og skóflan á. Í stórum sveig var svo brunað austur fyrir sturtuvagninn, rakleiðis að hraunbrúninni og skólfan rekin af miklu afli í þakgarminn sem umsvifalaust þaut í loft upp og lenti á hryggnum út í hrauni. Sjálfum þótt mér þetta helvíti göslaralegt og er ég þó ýmsu vanur í þeim efnum.Ég stökk út úr traktornum og vatt mér inn í tóftina sem hafði ekki verið þaklaus síðan afi og Feri voru þarna fyrir miðja síðustu öld.
Ég fór hálf skömmustulegur að toga þakslitrurnar úr hrauninu í áttina að trakrornum en fann þá skyndilega allan mátt renna úr fótleggjunum. Þeir titruðu og skulfu svo ég lagðist utan í vesturvegginn. Það setti að mér beyg og ég skildi þarna, að nú hafði ég líklega hlaupið á mig. Ég staulaðist upp i Zetorinn, rak hann i aftrábak og lagði á bakvið sturtuvagninn. Ég staulaðist inn í kofa. Lagðist upp i kojuna mína og lokaði augunum. Hugsaði til afa. Sem ég aldrei hitti en finnst þekkja samt svo vel. Til Fera gamla, sem var alltaf eitthvað að bauka vestrí Miðbæ öll mín uppvaxtarár. Hugsaði um Hoffmann, flugmanninn í Fellinu, sem varð þar heimilismaður án þess að vera spurður, þegar vélin hans brotlenti á skerjunum vestan við Miklafellið í seinna stríðinu. Við fórum þarna félagarnir aðeins yfir stöðuna í huganum og eftir svolítinn tíma var ákveðið að halda áfram með verkið, að rífa gamla hesthúsið við hraunbrúnina.
Eftir þennan samráðsfund, gekk þetta afskaplega vel. Þakgarmurinn rann nú eins og ekkert væri inn á traktorsgálgann og þaðan upp á vagn. Ég lagaði aðeins göslið eftir mig og nú skein sól í öllum sinnum. Hluta af grjótinu í tóftinni notaði ég svo í grillgarm sem ég hróflaði upp, ásamt að nota steina úr vegkanntinum fram hraun. Og svona til að bæta fyrir böðulsskapinn þarna um morguninn, tók ég nokkra stuðlabergssteina úr Súlunni heima og bætti ofaná þessa hörmungar grillhrúgu.
hpfoss 2023
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 28. ágúst 2016
Jón og Ranka í Gýgjarhólskoti
23. apríl 1985 kom ég að Gýgjarhólskoti í verknám, sendur frá Hvanneyri 16 ára gamall. Í Gýgjarhólskoti var ég í 3 frábæra mánuði, hjá Jóni og Rönku, sem voru ein þau mestu sómahjón sem ég hef kynnst og tóks með okkur ævilöng vinátta, vinskapur sem reyndar var ekki ræktaður nærri eins og ég hefði viljað, horfandi á eftir þeim báðum yfir móðuna miklu í vor.
Jóni leist reyndar ekki á blikuna þegar Ranka færði honum þau tíðindi að von væri á strák þessum frá Hvanneri:
Hann er sjálfsagt hrekkjaþræll,
hrotti, skammahvatur.
Þjösni, böðull, þegi dæll,
Þjófóttur og latur.
Eftir vændræðalega byrjun, þar sem ég, svona til að segja eitthvað, spurði Jón hvað skerið við bæinn héti, fann ég strax að þarna var alvöru maður á ferð og hvílík gæðakona hún Ranka. Jón sagði mér sem sagt þarna við eldhúsborðið, nokkuð ákveðið fannst mér, að þau kölluðu þetta FJALL, og það héti Gýgjarhólsfjall, Ranka bauð mér brúnköku og mjólk í eftirrétt.
Allir dagar voru skipulagðir og vinna var það sem lífið gekk út á í Kotinu. Búskapurinn var sérlega glæsilegur og bar þeim vitni um þann dugnað sem í þeim bjó. Á sunnudögum var svo eitthvað gert til skemmtunar, útreiðar og annað í þeim dúr.
Þegar voraði, sem var reyndar vonum seinna en á Síðunni, var mikið að gera og til að tefja mig ekki frá búskapnum, fann Ranka fyrir mig allar plönturnar í grasasafnið, sem okkur var skylt að skila á Hvanneyri, greindi þær og þurrkaði. Við Grímur, Jón og Kalli skrölluðumst í verkunum.
Á hverjum jólum fékk ég senda smá greinagerð frá þeim hvað væri svona að frétta og vísa fylgdi alltaf með, enda Jón mikill hagyrðingur.
Þegar ég var búinn að vera nokkurn tíma í Kotinu, skrifaði Jón þessa niður:
Vinafús og verkaknár,
vandur að sínu ráði.
Helgi reynist heldur skár,
heldur en ég spáði.
Og þegar sumraði í Tungunum, kom að lokum dvalar minnar í Gýgjarhólskoti. frábærum tíma sem á sess í mínu hjarta alla ævina og allar minningarnar ljúfar.
Jón lést svo í mars og Ranka í maí, sem er reyndar lýsandi þeirri samstöðu sem einkenndi þeirra hjúskap.
Það er svolítið skrítið að sakna fólks sem maður var í raun ekki með lengur en þessa 3 mánuði, en marka svo djúp spor í minningar manns og því var mér mikill heiður sýndur, þegar Eiríkur hafði samband við við og spurði hvort ég hefði hug að að eignast málverkið sem hékk í stofunni hjá þeim og var víst áður í hjá föður Jóns, Karli. Það var nefniega það fyrsta sem mér var sýnt á bænum, því fyrir ofan sófann í stofunni hékk málverk af Fossi á Síðu. Þótti okkur öllum þetta skemmtilega tilviljun.
Í dag fór ég sem sagt í Tungurnar og sótti þennan forláta grip, sem ég mun geyma eins og sjáaldur augna minna og ég er ekki vinn um að þau systkynin í Kotinu, viti hvað þetta er mér mikils virði.
Þess má svo geta, að þegar ég fór frá Gýgjarhólskoti, 10. júlí 1985, fékk ég að gjöf ofangreinadar vísur, sem ég hafði að sjálfsögðu ekki hugmynd um, og eina í víðbót, sem er reyndar eitt það fallegsasta sem einhver hefur látið um mig falla, ég er reyndar frekar feiminn með hana og hef því ekki áður birt en er í dag bæði meir og lítill í mér:
Leggur út á lífsins braut
hispurslaus og prúður.
Helgi laysir hverja þraut.
laus við þras og múður.
Blessuð sé minning Jóns og Rönku.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 14. apríl 2014
Vor"veiðimenn"
Ég ætla svo sannarlega að vona að svokallaðir veiðimenn sem nú standa í skaftfellsku ánum, fái ekki bröndu. Tæplega verðu mér að ósk minni, niðurgöngufiskur bítur á hvað sem er.
Það er gott fyrir menn sem veiða yfirleitt lítið að fara í vorveiði. Einnig er það gott fyrir menn sem ekki hafa þroskann til að bíða eftir að fiskurinn komi til baka að skella sér í vorveiði. Vorveiði er kjörin fyrir menn sem í raun kunna ekki að umgangast veiðiár.
Á seinni árum hafa menn reyndar farið út í að veiða aðeins á flugu og veiða og sleppa stíllinn er sagður viðhafður. Það er nú líka það eina sem hægt er að gera við niðurgöngufiskinn, nema ef vera skyldi að setja hann í ruslagáminn á Klaustri, eina og oft hefur sést.
Mýtan um nýgenginn sjóbirtinginn er jafn hjákátleg og áður, enda sér maður það sjaldnar nefnt í bólgnum greinum þar sem menn stæra sig af tugfiska veiði á dag. Sjóbirtingurinn sem fer ferð eftir ferð upp og niður árnar til að ná rétta saltmagninu,( er að smolta sig) er sleginn út af laginu í ótrúlega aumingjalegum slag við mann með sem stendur í miðri á með agn á línu, agn sem fiskurinn getur ekki staðist, eftir veturlanga dvöl á hrygningastöðvunum. Magnað að landeigendur skulu ganga svona um náttúruna.
Mér þykir súrt í broti að horfa upp á þetta háttarlag, áratugum saman, án þess að nokkur hreyfi mótmælum. Landeigendur sjá þarna aura og á meðan þetta er löglegt verður það peningagræðgin sem ræður för, vart getur það verið annað.
Látum af þessum ósóma, gefum náttúrunni sinn sjens.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 7. desember 2013
Náttúruvernd eða tóm leiðindi.
Ferðamenn hafa í áranna rás, rölt upp í Foss heima, skoðað sig um, skolað sig í læknum, legið mót sólinni með strá í munni, notið staðar og stundar. Slíkt hefur verið notaleg viðbót við flóruna í sveitinni, En öllu má nú ofgera.
Strax sumarið 2010 sá maður að fleiri rútur stoppuðu, fjöldinn greinilega margfaldaðist.
Veturnir eru orðnir svipaðir og sumrin voru fyrir nokkrum árum, slíkur er fjöldinn sem ferðast um landið. Bílaleigubílar, smárútur, jeppar og 60 manna rútur voru komnar upp fyrir hlöðu hjá Sigga heitnum, tóku svo hringinn uppi á túni. Ótrúlegur fjöldi var stundum samankominn í Fossinum, upp um alla brekku, ofaná öllum steinum, utan í klettum, þannig að hreinlega fór um mann, maður bað þess að enginn slasaðist.
Það var svo síðastliðið vor að mér fannst að það yrði að bregðast við, Fossinn var að traðkaðst niður í svaðið. Götur að myndast og slóðarnir að skerast niður úr sverðinum. Svo ekki sé talað um mannaskítinn og klósettpappír á milli steinanna þar sem áður var legið með strá í munni.
Við krakkarnir á Fossi vorum alin upp við virðingu gagnvart Fossinum, steinunum, torfunum. Okkur var kennt að hlífa þessum dásamlega stað, við rifum ekki gróðurinn upp í Fossinum, spörkuðum ekki gróðrinum af klettunum. Við lékum okkur í læknum, mynduðum stíflur, veiddum silung, nutum þess að vera þarna og var sagt að þarna byggi huldufólk.
Það var þrennt í stöðunni, þarna í vor sem sagt:
a) Að láta sem ekkert sé.
b) At taka í taumana þegar allt verður í svað farið.
eða c ) Að grípa þegar inní áður og halda hlífiskyldi yfir Fossinum kæra og hans umhverfi.
c) varð fyrir valinu. Loka fyrir gangandi umferð upp í Foss.
Þannig verður ráð til að meta stöðuna, gera aðstöðu til skoðunarferða eða hvað menn vilja gera í þeim efnum.
Það verður að hafa það þó einhverjir verði pirraðir, maður verður jú að láta náttúrna njóta vafans :)
Bloggar | Breytt 9.12.2013 kl. 20:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 21. mars 2012
Vor"veiðimennirnir"
Það er gott fyrir menn sem veiða yfirleitt lítið að fara í vorveiði. Einnig er það gott fyrir menn sem ekki hafa þroskann til að bíða eftir að fiskurinn komi til baka að skella sér í vorveiði. Vorveiði er kjörin fyrir menn sem í raun kunna ekki að umgangast veiðiár.
Á seinni árum hafa menn reyndar farið út í að veiða aðeins á flugu og veiða og sleppa stíllinn er sagður viðhafður. Það er nú líka það eina sem hægt er að gera við niðurgöngufiskinn, nema ef vera skyldi að setja hann í ruslagáminn á Klaustri, eina og oft hefur sést.
Mýtan um nýgenginn sjóbirtinginn er jafn hjákátleg og áður, enda sér maður það sjaldnar nefnt í bólgnum greinum þar sem menn stæra sig af tugfiska veiði á dag. Sjóbirtingurinn sem fer ferð eftir ferð upp og niður árnar til að ná rétta saltmagninu,( er að smolta sig) er sleginn út af laginu í ótrúlega aumingjalegum slag við mann með sem stendur í miðri á með agn á línu, agn sem fiskurinn getur ekki staðist, eftir veturlanga dvöl á hrygningastöðvunum. Magnað að landeigendur skulu ganga svona um náttúruna.Mér þykir súrt í broti að horfa upp á þetta háttarlag, áratugum saman, án þess að nokkur hreyfi mótmælum. Landeigendur sjá þarna aura og á meðan þetta er löglegt verður það peningagræðgin sem ræður för, vart getur það verið annað.
Látum af þessum ósóma, gefum náttúrunni sinn sjens.
KvHelgi Pálsson.Bloggar | Breytt 14.4.2014 kl. 18:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 2. febrúar 2012
Frásögn 11 ára drengs
Eftir Gísla Gíslason
Rauðabergi Fljótshverfi
Fæddur 1872
Frásögn Gísla úr Söguþættir Landpóstanna, 1. bindi," eftir Helga
Valtýsson 1942
"Til dæmis um það sem unglingum var ætlað í þá daga, ætla ég
að segja eftirfarandi sögu:
Haustið 1883 var ég sendur af heimili mínu, Rauðabergi í
Fljótshverfi, að Jórvíkurhryggjum í Álftaveri til þess að sækja þangað 5 ær sem
móðir mín hafði keypt þar, því að hún hafði misst nær allt sitt fé vorið áður,
fellisvorið mikla 1882, sama vorið og faðir minn dó. Myndi mörgum virðast það
forsending, því að leiðin, sem ég fór, mun vera stíf fjögurra daga ganga fyrir
fullorðinn mann hvora leið, en sex daga var ég að ganga fyrri leiðina.
Sumt af þessari leið eru erfiðir fjallvegir, því ég fór
vestur allar Síðuheiðar, út í Skaftártungu og síðan suður í Álftaver. Á þessari
leið eru margar smáár og tvær stórár, Svínadalsvatn og Geirlandsá, ennfremur
Hólmsá milli Skaftártungu og Álftavers, en yfir hana mun ég hafa verið reiddur
frá Hrísnesi. Fór ég að mestu eftir tilsögn og ávísan einstakra manna á bæjum
þeim er ég gisti á, en fékk þó fylgd einstaka spotta. Þá var ég 11 ára að
aldri.
Þá bjó á Holti á Síðu Runólfur heitinn hreppsstjóri. Lét
hann fylgja mér nokkuð inn á svonefndan Holtsdal og sagði mér svo til vegar út
heiðarnar. Á þeirri leið kom fyrir smáatvik, sem ég hefi munað síðan. Skömmu
eftir að ég hafði sagt skilið við fylgdarmann minn, mætti ég stelpu einni, á að
giska um fermingaraldur, tötralega búinni og fremur ískyggilegri útlits, svo að
mér stóð tæplega á sama. Ég áræddi þó að ávarpa hana og sagði: Sæl vertu"
Stelpan nam staðar, glápti á mig stórum augum
og sagði síðan: Sæl vertu segirðu" Mér flaug undir eins í hug, að mér hefði
missýnst og þetta væri strákur en ekki stelpa og sagði því: Jæja, eða sæll
vertu þá" En þá tók stelpan til að hlæja án þess að svara mér. Ég spurði þá:"
Hvar áttu heima?" Benti hún þá inn með fjallinu og sagði:" Þarna" Ég leit
þangað, en sá engan bæ. Tók hún því næst á rás fram hjá mér og stefndi upp í
heiðina. En ég hraðaði mér leiðar minnar, því mér duttu strax í hug kynjasögur,
sem nóg var af í þá daga, meðan þjóðtrúin um huldufólk og útilegumenn skipaði
enn öndvegi í hugum manna, og taldi ég líklegt, að þarna hefði eg hitt annnað
hvort vofu, huldukonu eða útilegustelpu. En að vörmu spori kom stelpan á eftir
mér. Var hún nú ríðandi og fór geyst. Kallaði hún til mín og sagði: Viltu
ekki fara á bak fyrir aftan mig?" En ég kvað nei við, því mér stóð ógn af
henni. Þeysti hún síðan leiðar sinnar inn með fjallinu og hvarf. Þóttist ég
góðu bættur að vera laus við hana.
Lá nú leið mín um óbyggðan fjallveg, mjög óljósa götuslóða,
en endalausir heiðaflákar á alla vegu, villugjarnir ókunnugum. Þó komst ég alla
leið að Skaftárdal um kvöldið. Er mér minnisstætt, hve feginn ég varð er
ég sá bæinn, en hann sést eigi fyrr en
komið er heim að túninu, því að hár heiðarkambur umlykur túnið austan og
norðanvert. Þá bjó á Skaftárdal Magnús hinn ríki, sem mörgum var kunnur. Sagði hann
mér, að stelpa sú, er ég mætti á dalnum, hefði verið frá Hervararstöðum, sem er
hjáleigukot frá Holti. (Það kot er komið í eyði fyrir löngu) Var það skammt
frá, sem leið mín lá, en leiti bar á milli. Giskaði Magnús á, að stelpan hefði
verið að sækja hesta upp í heiðina. Var hún geggjuð.
Frá Skaftárdal fór ég að Hlíð í Skaftártungu, þar bjó þá Jón
Eiríksson, frændi minn. Þegar ég kom þangað, var hann hissa að sjá, að ég,
svona lítill hnokki, skyldi hafa komist alla þessa leið yfir veglaus fjöll og
vötn. Í viðurkenningaskyni fyrir þetta afrek mitt gaf hann mér gráa gimbur.
Hafi hann gaman af að sjá til, hversu mér reiddi af með hana alla þá leið,
semég átti fyrir höndum.Hafa víst fáar gjafið orðið mér til meiri fagnaðar en
þessi gimbur. Fór ég síðan, sem leið liggur, út að Hrísnesi og þaðan í
Álftaver. Hafði ég gimbrina í bandi. Rak ég hana síðan með hinum kindunum.
Heimleiðis fór ég um Meðalland og Landbrot. Man ég óglöggt eftir þeirri leið,
fyrr en ég kom að Breiðabólsstað á Síðu. Þar bjó Sigurður heitinn Sigurðsson
trésmiður. Munu engir fullorðnir hafa verið heima, er ég kom þangað. Márgrét,
dóttir Sigurðar, sem þá var 9 ára gömul, varð til að fylgja mér austur að
Hörgsá, sem er smáá skammt austan við Breiðabólsstað. En seinna varð hún konan
mín. Man hún eftir því, að ég fór úr sokkunum yfir ána. Var frost og mýrarnar á
haldi, og hefi ég verið þurr í fætur. En þá var siður að fara úr sokkum, og
jafnvel buxum, ef menn þurftu ekki að vaða nema læki eða ár. Man hún einnig
eftir því, að við kvöddumst með kossi, en það voru algengustu kveðjusiðir í þá
daga. Þessu atviki hafði ég sjálfur gleymt."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 31. október 2011
Foss á Síðu
Bæjaskipan á Fossi: Austurbærinn ( Stuðlafoss-Foss 1 og Fagrifoss), Vesturbærinn í miðjunni og Miðbærinn vestastur. Skákin neðan vegar. ( Hamrafoss)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 27. október 2011
Sumardagurinn fyrsti 2009
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 30. september 2011
Austursíðuafréttur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 15. september 2011
Týndu sauðirnir.
Á árum áður reis áburðarverksmiðja í Reykjavík sem framleiddi áburð fyrir landsmenn. Þessi verksmiðja var mikil búbót fyrir bændur landsins sem gátu keypt tilbúinn áburð að vild og aukið uppskeru sína mjög mikið.
Svo stækkaði byggðin í Reykjavík og teygði sig upp undir verksmiðjuna. Þegar húsbyggjendur réttu úr bognum bökum sínum eftir uppbygginguna litu þeir yfir sundin blá og sáu þar áburðarverksmiðju þessa. Hún var fara umsvifalaust.
Nú flytja menn inn áburð sem kostar hvítuna úr augunum.
Á árum áður bjuggu allir í sveit, enda engir bæir til. Synir byggðu sér á jörðum feðra sinna og stofnuðu fjölskyldur þar, og þeir áttu síðan börn sem brátt þurftu sitt jarðnæði. Fólk fór að hópast saman í bæi sem stækkuðu og þéttbýlið jókst. Bændurnir voru eftir á jörðum sínum og voru fljótt undir bæjarbúa komnir með þá aðdrætti sem sífellt voru fjölbreyttari og hluti af nútíma þess tíma. Kaupmenn höfðu gjarnan þessa bændur í vasa sínum.
Kaupstaðir stækkuðu og döfnuðu vel, fólk gat mentað sig og notið lífsins.
Svo réttu menn úr bökum sínum og sáu að bændur voru að framkvæma á jörðum sínum upp á sitt einsdæmi. Nú er það svo komið að þeir allra hörðustu kaupstaðabúar vilja fá að kjósa um deiliskipulag í sveitarfélögum landsins, eins og holdgervingur þessa Andri Snær Magnason lét út úr sér á dögunum , eignarétt manna skal endurskoða, sérstaklega ef menn eiga jarðir.
Sennilega vilja slíkir menn að ríkið eignist allar jarðir á landinu og þeir geti leigt sem vilja.
já, þeir eru komnir til baka, týndu sauðirnir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 13. september 2011
Austursíðu afréttur
Hvað er það sem dregur mann í afrétt ár eftir ár? Streðið, hangsið í kofanum, kamarinn á torfunni? Nei, slíkt gleymist ótúrulega fljótt.
Eftir mikið kjötsúpuát hjá ömmu og óhemju magn af kökum á Þverá, tekur á móti manni faðmlag fjallanna fyrir austan. Blágilin skarta sínu fegursta, líkt og þau fagni manni persónulega eftir langa fjarveru.
Hvernig er hægt að þykja svo ósköp vænt um fjöll, skriður og fossa, með iðagrænum grasbölum, þar sem drifhvítar kindurnar standa á beit? Hvernig er hægt að fyllast ró við það eitt að standa og horfa á æskustöðvarnar? Ekki er víst að maður myndi upplifa þetta ef maður hefði ekki flutt á mölina, því enginn veit hvað átt hefur, fyrr en misst hefur.
Pelinn í brjóstvasanum gengur á milli manna og í Öxlinni er tekið duglegt stopp. Hver er með sína sortina, sumt gott, annað minna gott. Pelarnir ganga hring eftir hring, brátt veit enginn hver var búinn að fá hvað eða hver átti hvað.
Loks er stigið á bak og klárarnir færast í aukana við hvert pelastoppið. Inn við Stein eru menn farnir að ræða málin umbúðalaust. Bros á hverju andliti og orðvarir menn láta allt flakka, kyssast og hrósa til hægri og vinstri.Við Ufsatangann eru klárarninr farnir að sýna takta sem ekki var vitað um , töltið ægilegt og viljinn varhugaverður.
Miklafellið skartar sinni þekktu fegurð og hundar, hross og menn fyllast innri gleði og ró er inn á torfuna er riðið í ótrúlega fögrum hópi reiðmanna af Síðunni. Eftir að hafa velt sér og fengið sér vatn, fara menn og skepnur í sína kofa og gangnamenn stíga dans og syngja fagra söngva fram eftir kvöldi uns þeir sofna svefni hinna sælu, sáttir við Guð og menn.
Það er þetta sem dregur mann aftur og aftur í afrétt.
Lagt af stað í afrétt.
Guðjón Bergsson-Baldur Þ Bjarnason-Steingrímur Lárusson-Bjarni Kristófersson-Helgi Pálsson,
inn við Stein.
Sigurður Lárusson-Helgi Pálsson-Páll Helgason-Ólafur J Jónsson-Björn Helgason, í Fellinu
Steini-Óli-Pabbi og Bjössi við Blængskofann.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 3. september 2011
Haust.
Hvað mig snertir er haustið átakatími fyrir líkama og sál. Kólnandi veðurfar gerir hvert áhlaupið á veikburða líkamann á fætur öðru sem fyrir vikið verður af nauðsynlegum næringarefnum, jafnvel dögum saman. Kemur sér þá vel að hafa hugsað um að nærast vel um sumarið og halda hreyfingu í lágmarki. Hinsvegar togast sá þáttur svolítið á í sálartetrinu, hefði kannski verið gott að rölta svolítinn spöl á degi hverjum því það er sárt að sjá hvernig sauðkindin er farin að stíla inn á að vera á minni smalaleið. Þar geta þær verið þokkalega rólegar og sárt að horfa til þeirra glottandi, þegar löðursveittur, másandi smalinn skríður eftir kindagötunni, styðstu leið til byggð.
Einnig er það greipt í barnssálina, að á haustin fara krakkarnir úr sveitinni til síns heima. Vinnukonan á næsta bæ er farin án þess að maður hafi svo mikið sem fengið að leiða hana á eftir beljunum. Vinnumaðurinn á þar næsta bæ fer með sömu rútu og ég sé að hann sest við hliðina á henni, límdur við hana. Ég horfi út í myrkrið og það eina sem ég heyri er niðurinn í Fossinum.
Skyndilega heyrast vélarhljóð úr fjarska og nálgast hratt. Þeir eru að fara í heiðina! Ég stekk af stað og hugsa, þeir hafa sennilega ekki náð í mig í gær til að láta mig vita. Hleyp eins og fætur toga inn í bragga og dreg fjórhjólið undan rúgbagganum frá því í fyrrahaust. Skelli bensíni á tankinn, treð mér í regngallann, set á mig hjálminn og lít niðrá veg. En þeir fara framhjá án þess að hægja á. Þeir skilja mig eftir. Þeir hafa þá ekki reynt að ná í mig í gær.
Ég tek af mér hjálminn, klippi utan af mér regngallann og rölti upp í Foss.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 18. ágúst 2011
Ágúst
það rann upp fyrir mér í dag að það er ekki sjálfsagður hlutur að hlakka til haustsins. Hér áður fyrr var ágústmánuður mánuðurinn sem krakkarnir fóru aftur til Reykjavíkur eftir sumarsvölina á Fossi, eins og margoft hefur komið fram í sögunni. Treginn gerði vart við löngu áður en þeir fóru, mánuðurinn var eiginlega hálf lélegur af þessum sökum. Ekki var það til að bæta það að Sveinn og Laufey fóru líka í bæinn í þessum mánuði, Sveinn bað mig um að fara með verkfæratöskuna í rútuna sem mér fannst ég vera nýbúinn að sækja í rútuna. Helgi B átti þó afmæli þann 24. og þá var kátt á hjalla, sumarið virtist í algleymi og ekki virtist fararsnið á nokkrum manni.
Félagi minn sagði nefnilega við mig í dag að það væri allt skemmtileg búið að árinu. Sumarfríið búið og hann búinn að ná í hreindýrið sitt. Hva, haustið er allt eftir, sagði ég glaður í bragði, búinn fyrir mörgum árum að taka þá árstíð í sátt. Þú getur trútt um talað sagði hann, allar smalamennskurnar og áð allt.
Það er nefnilega svo stórkostlegt að fá vorið bókstaflega upp að olnbogum í sauðburðinum löngu áður en nokkur er farinn að hugsa um sumarið hér í vestrinu og svo að hnýta aftan við sumarið heilum stórkostlegum tíma sem getur varið í 2 mánuði, blessaðar smalamennskurnar og stússið í kringum þær. Stillurnar, drifhvítu lömbin, tæru pollarnir og fersku fjallalækirnir blása lífi í glæður sumarsins sem vöknuðu um vorið á hnjánum með lítið lamb í fangi og hrossagaukinn allt um kring.
Fullkomnun þessara tíma virðist alger þegar litið er um öxl á liðnar stundir, samt ekkert hreindýr og ekki heldur 10.000 manna útihátíð.
Sveitin gefur mér það sem á vantar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 6. ágúst 2011
Hlíðin fagra.
Himnarnir virtust hrynja yfir mann í maí, að upplifa þessar hörmungar verður líklega, þegar fram líða stundir, eitthvað sem verður manni vel minnisstætt. Að lesa nú lýsingar Sr Jóns Steingrímssonar um fyrstu daga eldgossins í Lakagígum, er allt öðruvísi en áður en maður upplifði öskufallið á eigin skinni. Lýsingarnar hans, þar sem skriðurnar verða gráar, grasið visnar, myrkrið....þetta sá maður nú fyrir sér með öðrum hætti, maður upplifir stað og stund. Að ganga í kringum lambféð, yfir hlöðin, líta yfir húsin, allt þakið ösku, verður ekki með orðum lýst. Þetta var eitthvað sem maður las um í gömlum heimildum, sá í fréttum frá útlöndum, árinu áður undir Eyjafjöllum. Maður taldi sig geta sett sig í spor þessa fólks, en það var svo fjarri því að maður hefði nokkurn tíman getað ímyndað sér líðanina.
Að komast ekki á milli húsa fyrir myrkri, sjá ekki fram fyrir þurrkublöðin á bílnum þrátt fyrir sterk ljós, komast ekki til kindanna, geta ekki neitt nema sitja við eldhúsborðið og vonað. Vonað að þetta taki fljótt af, vita ekkert um það, hvort þetta verða klukkutímar, dagar, vikur eða mánuðir.
Það létti eftir hádegið og við Valdi gátum klárað ferðina heim að Fossi, vorum búir að vera fastir á Klaustri í 3 langa klukkutíma, reyndar í góðu yfirlæti hjá Elínu Vald. Höfðum skotist á milli húsa, farið fetið án þess að sjá nema á gangstéttabrúnina við hlið okkar, vonlaust var að anda að sér þessum óþverra nema í gengnum grímu eða fötin sín. Við brunuðum heim og ég var smeykur um að okkar hlutverk yrði að keyra um túnin og tína upp dauð lömb, varla höfðu þau átt góða vist í þessu helvíti.
því kom það skemmtilega á óvart að sjá kindur á beit og lömbin stökkva til og frá í leik, eins og eftir góða regnskúr. Við fórumí það að koma heyrúllum á þá staði sem ærnar voru, opna hlið til að þær kæmu ekki að lokuðum dyrum, að þær gætu komst leiðar sinnar. En vatnið var ekki björgulegt, þeir tæru fjallalækir, sem í gegnum áratugina höfðu ekki orðið annað en vel mórauðir í stórrigningum voru nú eins og sementseðja. Engin vissi hvað var í öskunni, hvort hún væri eitruð eða eins og hún sem betur fer reyndist vera, fremur skaðlítil í vatninu. Blessaðar kindurnar reyndu að drekka þennan óþverra því ekki var annað að hafa.
Öskufall á Fossi 21 maí 2011
En þrátt fyrir ömurleikann sem blasti við manni hefur þetta skánað og mun verða betra með tímanum þótt askan sé allstaðar, Síðan hefur ávallt verið gjöful sveit og þar drýpur smjör á hverju strái í skilningi gróðurfars. Heyfengur reyndar rýrari en í meðalári vegna þéttrar ösku í sverðinum og ekki allstaðar heyjað af þeim sökum.
Oft hafa hrotið af vörum mínum orð Gunnars á Hlíðarenda, Fögur er hlíðin og satt best að segja gat ég ekki séð í vor að hún yrði fögur í bráð en annað koma á daginn, iðagrænar, blómstrandi brekkur, með ösku í sverði, Fögur er hlíðin .
Foss á Síðu 31. júlí 2011
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 6. júní 2011
Slæmar aðstæður eystra.
Grafalvarlegri stöðu sveitanna í austanverðum Skaftárhreppi verður vonandi mætt með einhverjum hætti og augljóst er að mikið hey þarf á svæðið ásamt ýmsu öðru sem úrskeiðið mun fara í þessari ótrúlegu stöðu sem fólkið býr við og mun þurfa að búa við næstu misserin.
Sem betur fer er hópur manna, allskonar sérfræðinga, að skoða allar hliðar þessa máls og vonandi verður þeim niðurstöðum sem úr þeim skoðunum koma, fylgt eftir með aðgerðum sem verða til þess að þessi sveit nái að yfirstíga þessi ósköp með sæmilegum hætti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 25. apríl 2011
Skaftfellskt vor
Vinnumennirnir koma einn af öðrum, með splunkunýja takta eftir veturinn. Allt er svo unaðslegt á þessum dásamlegu dögum. Menn og skepnur leika við hvern sinn fingur og sletta úr klaufum. Amma með pönnukökurnar tilbúnar þegar við komum inn eftir leiki kvöldsins og þeim skolað niður með ískaldri mjólkinni.
Já, það er ljúft að alast upp við þessar aðstæður. Þessar minningar æskunnar eiga eftir að fylgja manni um ókomna tíð, alla tíð, ylja um hjartaræturnar þegar maður lætur hugann reika. Þessar minningar eru það sterkar að hreinlega hvarflar að manni að um heimþrá sé að ræða eða jafnvel átthagafjötra.
Með kveðju, HP Foss.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 22. apríl 2011
Sumrin .
Grasið spratt og tilhlökkunin jókst að sama skapi. Réttastússið var senn á enda og það stóð á endum að heyskapurinn hófst þá þegar. Hvanngræn túnin bylgjuðust í vestanáttinni, heitur vindurinn strauk vanga sveitapiltsins þar hann brunaði út á Borgarholt á gamla Ferguson, með uppbrettar ermar og í tandurhreinum stígvélum. Leiðin út í Fjall gat verið mjög holótt og ef maður ætlaði að halda ferðinni, án þess að annað hvort skjótast úr traktorum eða hljóta varanleg bakmeiðsl, eða önnur verri meiðsl, þurfti maður að þekkja hverja holu.
Gat þetta verið mikil rússíbanareið, stýrinu snúið borð í borð, í 4ða gír og í rauða botni. Ef þetta klikkaði og traktorinn lenti í holu, hoppaði maður upp út sætinu, ámoksturstækin fóru á háaloft, lentu á tjökkum sínum á sama augnabliki í maður sjálfur skall á grjóthörðu járnsætinu.
Þetta var ávallt mikið högg, tennur skullu þannig saman að njólinn, sem maður var með í kjaftinum frá því um morguninn í kúarekstrinum, hrökk í sundur.
Veghefillinn kom endrum og sinnum og eyðilagði vandrataðan krákustíginn. Það marga daga að læra á nýjar holur.
Reimin og stykkið neðan við lá í ljánni, sumarið var framundan, fátt stóð í vegi.
Já, svona voru nú sumrin.´
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 31. mars 2011
Vorveiði-skömm veiðimannanna.
Það er gott fyrir menn sem veiða yfirleitt lítið að fara í vorveiði.
Einnig er það gott fyrir menn sem ekki hafa þroska til að bíða eftir að fiskurinn komi til baka að skella sér í vorveiði.
Vorveiði er kjörin fyrir menn sem ná ekki að kallast veiðimenn. Á seinni árum hafa menn reyndar farið út í að veiða aðeins á flugu og bráðinni er sleppt, ef hægt er. Það er nú líka það eina sem hægt er að gera við niðurgöngufiskinn, nema ef vera skyldi að setja hann í ruslagáminn á Klaustri.Þessir menn sem vorveiðina stunda, vilja meina að þeir séu að veiða nýgengna fiska. Það er fjarri sanni en þeir kunna að líta út sem slíkir, gljáandi á hreistrið og lúsugir. Það er hinsvegar vegna ferða fisksins fram og til baka fram að sjó og upp í ánna til að ná rétta saltmagninu í sig, .Mér þykir það súrt í broti að horfa upp á þetta háttarlag, áratugum saman, án þess að nokkur hreyfi mótmælum. Landeigendur sjá þarna aura og á meðan þetta er löglegt verða alltaf nokkrir gráðugir landeigendur sem þetta leyfa.
Kv
Helgi Pálsson.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)