Frásögn 11 ára drengs

Eftir Gísla Gíslason
Rauðabergi Fljótshverfi
Fæddur 1872

Frásögn Gísla úr „Söguþættir Landpóstanna, 1. bindi," eftir Helga
Valtýsson 1942

"Til dæmis um það sem unglingum var ætlað í þá daga, ætla ég
að segja eftirfarandi sögu:

Haustið 1883 var ég sendur af heimili mínu, Rauðabergi í
Fljótshverfi, að Jórvíkurhryggjum í Álftaveri til þess að sækja þangað 5 ær sem
móðir mín hafði keypt þar, því að hún hafði misst nær allt sitt fé vorið áður,
fellisvorið mikla 1882, sama vorið og faðir minn dó. Myndi mörgum virðast það
forsending, því að leiðin, sem ég fór, mun vera stíf fjögurra daga ganga fyrir
fullorðinn mann hvora leið, en sex daga var ég að ganga fyrri leiðina.

Sumt af þessari leið eru erfiðir fjallvegir, því ég fór
vestur allar Síðuheiðar, út í Skaftártungu og síðan suður í Álftaver. Á þessari
leið eru margar smáár og tvær stórár, Svínadalsvatn og Geirlandsá, ennfremur
Hólmsá milli Skaftártungu og Álftavers, en yfir hana mun ég hafa verið reiddur
frá Hrísnesi. Fór ég að mestu eftir tilsögn og ávísan einstakra manna á bæjum
þeim er ég gisti á, en fékk þó fylgd einstaka spotta. Þá var ég 11 ára að
aldri.

Þá bjó á Holti á Síðu Runólfur heitinn hreppsstjóri. Lét
hann fylgja mér nokkuð inn á svonefndan Holtsdal og sagði mér svo til vegar út
heiðarnar. Á þeirri leið kom fyrir smáatvik, sem ég hefi munað síðan. Skömmu
eftir að ég hafði sagt skilið við fylgdarmann minn, mætti ég stelpu einni, á að
giska um fermingaraldur, tötralega búinni og fremur ískyggilegri útlits, svo að
mér stóð tæplega á sama. Ég áræddi þó að ávarpa hana og sagði:  „Sæl vertu"  
Stelpan nam staðar, glápti á mig stórum augum
og sagði síðan: „Sæl vertu segirðu" Mér flaug undir eins í hug, að mér hefði
missýnst og þetta væri strákur en ekki stelpa og sagði því: „ Jæja, eða sæll
vertu þá" En þá tók stelpan til að hlæja án þess að svara mér. Ég spurði þá:"
Hvar áttu heima?" Benti hún þá inn með fjallinu og sagði:" Þarna" Ég leit
þangað, en sá engan bæ. Tók hún því næst á rás fram hjá mér og stefndi upp í
heiðina. En ég hraðaði mér leiðar minnar, því mér duttu strax í hug kynjasögur,
sem nóg var af í þá daga, meðan þjóðtrúin um huldufólk og útilegumenn skipaði
enn öndvegi í hugum manna, og taldi ég líklegt, að þarna hefði eg hitt annnað
hvort vofu, huldukonu eða útilegustelpu. En að vörmu spori kom stelpan á eftir
mér. Var hún nú ríðandi og fór geyst. Kallaði hún til mín og sagði: „ Viltu
ekki fara á bak fyrir aftan mig?" En ég kvað nei við, því mér stóð ógn af
henni. Þeysti hún síðan leiðar sinnar inn með fjallinu og hvarf. Þóttist ég
góðu bættur að vera laus við hana.

Lá nú leið mín um óbyggðan fjallveg, mjög óljósa götuslóða,
en endalausir heiðaflákar á alla vegu, villugjarnir ókunnugum. Þó komst ég alla
leið að Skaftárdal um kvöldið. Er mér minnisstætt, hve feginn ég varð er
ég  sá bæinn, en hann sést eigi fyrr en
komið er heim að túninu, því að hár heiðarkambur umlykur túnið austan og
norðanvert. Þá bjó á Skaftárdal Magnús hinn ríki, sem mörgum var kunnur. Sagði hann
mér, að stelpa sú, er ég mætti á dalnum, hefði verið frá Hervararstöðum, sem er
hjáleigukot frá Holti. (Það kot er komið í eyði fyrir löngu) Var það skammt
frá, sem leið mín lá, en leiti bar á milli. Giskaði Magnús á, að stelpan hefði
verið að sækja hesta upp í heiðina. Var hún geggjuð.

Frá Skaftárdal fór ég að Hlíð í Skaftártungu, þar bjó þá Jón
Eiríksson, frændi minn. Þegar ég kom þangað, var hann hissa að sjá, að ég,
svona lítill hnokki, skyldi hafa komist alla þessa leið yfir veglaus fjöll og
vötn. Í viðurkenningaskyni fyrir þetta afrek mitt gaf hann mér gráa gimbur.
Hafi hann gaman af að sjá til, hversu mér reiddi af með hana alla þá leið,
semég átti fyrir höndum.Hafa víst fáar gjafið orðið mér til meiri fagnaðar en
þessi gimbur. Fór ég síðan, sem leið liggur, út að Hrísnesi og þaðan í
Álftaver. Hafði ég gimbrina í bandi. Rak ég hana síðan með hinum kindunum.
Heimleiðis fór ég um Meðalland og Landbrot. Man ég óglöggt eftir þeirri leið,
fyrr en ég kom að Breiðabólsstað á Síðu. Þar bjó Sigurður heitinn Sigurðsson
trésmiður. Munu engir fullorðnir hafa verið heima, er ég kom þangað. Márgrét,
dóttir Sigurðar, sem þá var 9 ára gömul, varð til að fylgja mér austur að
Hörgsá, sem er smáá skammt austan við Breiðabólsstað. En seinna varð hún konan
mín. Man hún eftir því, að ég fór úr sokkunum yfir ána. Var frost og mýrarnar á
haldi, og hefi ég verið þurr í fætur. En þá var siður að fara úr sokkum, og
jafnvel buxum, ef menn þurftu ekki að vaða nema læki eða ár. Man hún einnig
eftir því, að við kvöddumst með kossi, en það voru algengustu kveðjusiðir í þá
daga. Þessu atviki hafði ég sjálfur gleymt."



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þakka þér fyrir þessa kjarnmiklu frásögn. Ég lít öðru hvoru í bloggin þín.

Með bestu kveðju,

Guðjón frá Kálfafelli

Guðjón (IP-tala skráð) 5.2.2012 kl. 13:59

2 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Þetta þykir mér skemmtileg frásögn, Helgi. Hef ekki séð hana eða heyrt áður svo ég muni. Leit þó oft í söguþætti landpóstanna meðan ég var enn vel innan fermingar, á þeim aldri sem ólæsi stráka er algengt nú til dags. Þetta verður til að ég fer að reyna að rifja þá upp -- á bókasafninu, því ég á þá ekki sjálfur.

Sigurður Hreiðar, 11.2.2012 kl. 16:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband