Sunnudagur, 19. september 2010
Hrossatungur- heimsókn að handan?
Þegar þetta var allt komið í höfn losuðum við Káta kerruna frá jeppanum og töltum af stað inn á afrétt. Við höfðum ákveðið að dvelja um nóttina í Hrossatungunum. Við ókum í miklum rólegheitum, spókuðum okkur á milli skúra, önduðum að okkur tæru fjallaloftinu. Fuglarnir skoppuðu um grundir, spóinn sat á stuðaranum og við þurftum að taka sveig framhjá rollum þar sem þær lágu jórtrandi með lömbin sín á miðjum veginum.
Já, lífið virtist ná nýjum hæðum á þessu fagra júníkvöldi.
Þegar við vorum búin að hreiðra um okkur í kofanum, velja okkur koju og bera inn matinn, fórum við að sækja vatn fyrir gönguhópinn sem von var á þarna daginn eftir. Við fórum inn að Varmá og fylltum mjólkurbrúsa af vatni á þessum stórfenglega stað, stað sem er án efa einn af fallegustu stöðum sem maður kemur á, þar sem vaðið er á Varmá.
Eftir bíltúr í Blágil, þar sem hin nýja, undurfagra bygging þjóðgarðsins hefur verið reyst, fórum við til baka í Hrossatungurnar. Það var enginn annar í kofanum en ég og hundurinn minn. Ég hugsaði mér gott til glóðarinnar því ég hafði keypt í kaupfélaginu um morguninn bleikt síldarsalat og brauð.
En salatið reyndist ónýtt!
Sem betur fer var hafði ég einnig keypt ítalskt salat, með mæjónesi og baunum, svona til öryggis. Bleika salatið var sent rakleiðis í ruslið og baunasalatið tekið úr pokanum. Ég var hálf feginn því þó síldarsalatið sé gott, þá er svo helv vont að ná því úr fötunum.
Glaðbeittur svipti ég lokinu af dollunni en.....það var líka ónýtt!
Nú var farið að síga í sveitamanninn þar sem hann sat inn á fjöllum með megnið af matnum ónýtan. Eitthvað hefur Maddý klikkað á að kippa sendingunni inn úr sólinni. Sem aftur, betur fer, hafði ég þarna í Kaupfélaginu um morguninn, slitið út úr rekstraraðilunum, lifrarpylsukepp til þrautavara.
Að lokinni máltíðinni, þar sem við Káta skiptum á milli okkar lifrapylsukeppnum, fór ég að fletta myndalbúmunum sem þar eru . Margar og skemmtilegar myndir. Í miðju einu albúminu er mynd af afa mínum heitnum, afar glaðbeittum á góðri stundu. Hugurinn flögraði aftur í tímann og mér var hugsað til afa míns og til þessa tíma þar sem þessir kallar fóru til fjalla og héldu nokkurskonar árshátíð bændanna. Sungið fram á nótt og gleðinni gerð góð skil.
Þar sem ég sat með tárin í augunum, hugsandi um þessa liðnu tíma, aleinn við borðið um nóttina í Hrossatungunum, með 3 kalda á kantinum, leit hundurinn að útihurðinni og urraði.
Mér varð nú reyndar ekki um sel, hafði tekið hundinn með svona ekki síður til halds og trausts en annars, en nú var hundurinn orðinn hræddari en ég. Ég setti í mig kjark og fór til dyra. Kannski var þarna rolla á vappi sem Káta hafði orðið vör við þó ég hefði ekki orðið það.
Ég opnaði hurðina en þar var nákvæmlega ekkert að sjá. Ekki einu sinni fugl. Við vorum alein þarna, ég, Káta og þessi sem við sáum ekki.
Við fórum í bælið, sváfum til morguns og urðum ekki vör við meira af þessu taginu. Hver þarna kom til að athuga með okkur er ekki gott að geta um, en óneytanlega hvarflar sumt frekar að mér en annað...
Athugasemdir
Lak nokkuð gasið í eldhúsinu??
Bergur (IP-tala skráð) 21.9.2010 kl. 22:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.