Sandurinn.

  Og ekki voru sandsmalanir síðri. Seint á vorin var farið á sandinn og féð rúið þar. Einhvernvegin í minningunni var vestan logn alla morgna, Fossinn með sinn hugljúfa hljóm,  hundarnir stökkvandi um hlaðið og allt það. Beljurnar bíta gras í brekkunni,  blágresið, gleym-mér-eiin og vinnukonurnar allt um kring.

Kallarnir hafa litið út í öll þessi ár eins og þeir líta út í dag, svipsterkir, hvassbrýndir og enganvegin neitt sérstaklega fyrir augað. Innri  hafa þeir þó fegurri menn að geyma.

Réttirnar á sandinum voru nokkrar, Sléttabólsrétt, þar sem mest allan tímann var réttað í einu lagi og stóð réttin langt fram á nótt, stundum til kl 8 á morgnana. Sigríður á Hraunbóli og Veiga á Sléttabóli sáu mannskapnum fyrir mat og drykk, kaffi í glerflöskum, stungnum í ullarsokka og terturnar svo margar, fallegar og góðar að annað eins verður aldrei gert, og þá meina ég aldrei.Ofar á sandinum, á Svæðunum var Svæðnarétt, mun færra fé og vel viðráðanlegt að mati okkar krakkanna. Sú rétt er suðvestur af Tangalæknum, læknum sem gengur fram úr hrauninu á leið fram að Hraunbóli. Eigum við þaðan margar góðar minningar og verður sagt frá síðar.
Svo var rúið upp við gömlu brú, féð af Aurunum og þar í kring.

Smalamennskan á sandinum vafðist aldrei fyrir köllunum, við krakkarnir skottuðumst með, á misgóðum klárunum, samt var eins og Frikki kallinn ætti alltaf þverasta klárinn. Hann stoppaði og fékk sér að drekka þegar hann var þyrstur, úr þeim læk sem honum sýndist, þegar honum sýndist.  Kannski var það hið mjög svo ákveðna fas Frikka á slíkum stundum sem fær mann til  að muna þetta svona vel, ég var eiginlega hissa á klárnum að láta þetta detta sér í hug aftur, slíkar voru skammir gamla höfðingjans við hraunbrúnina. Hundurinn fylgdi með í bandi, ýmist standandi eða dreginn á bakinu. Það gilti einu, hann var aftanvið.

 Víðátturnar á sandinum eru æði miklar og ekki alltaf gott að sjá til næsta manns, hópar fjár gátu hæglega leynst á bakvið einhverja af ótal  bótum sem eru þarna framfrá en kvikir klárarnir og fumlausir Fosskrakkarnir sáu yfirleitt við slíkum skrímum.  Hrunamenn komu austanað og fóru að engu óðslega, yfirvegun og gott skap einkenndi þann hópinn. Einnig var þar Ólafur á Læk, hann var með annarskonar skap, einhverskonar smalaskap, sem hann notaði þegar fé var við það að sleppa. Þá koma þetta smalaskap sér afar vel, skipanir heyrðust marga kílómetra, kannski ekki orðaskil en meiningin komst til skila. Þetta smalaskap átti til að smita út frá sér og helst var Jón Reynir veikur fyrir smitinu og beitti þá þessu sama skapi, að sama skapi, til baka.

Þegar í réttina á Sléttabóli var komið var slíkur og þvílíkur fjöldi fjár að það tók fram á morgun að rýja rollurnar, eins og ég nefndi áður.  Við ýmist héldum eða klipptum krakkarnir, best var að fá vinnukonuna á næsta bæ til að halda rollunni og gat maður verið alveg ótrúlega lengi að komast í gegnum ullarkragann á hálsinum.

En þetta var nú alger undantekning, oftar var þetta Bergur gamli eða einhver af gömlu mönnunum sem hélt og eins gott að halda vel áfram.

Í tóftinni austan við réttina var kaffið og kökurnar. Enga kökuna hef ég séð með jafn fögru kremi og brúnkökuna hennar Sigríðar á Hraunbóli , það var sá fegursti guli litur sem ég hef á æfi minni séð og bragðið eftir því unaðslegt.

Já, þetta voru góðir dagar, dagarnir með köllunum, þegar allir voru saman.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband