Fimmtudagur, 3. september 2009
Afi á Fossum
Í dag hefði afi minn á Fossum orðið 93 ára, væri hann enn á lífi.
Og einmitt í dag fara Landbrytlingar í Leiðólfsfell, sinn 3ja smaladag fara þeir fram fyrir Hellisá og geyma safnið í byrgi rétt austar. Gista síðan í Leiðólfsfelli, í gömlum og gildum kofa, þar sem hver á sína koju, ein þeirra er einmitt merkt afa, þar stendur einfaldlega DAVÍÐ. Þá koju mun í þetta skiptið, eins og mörg síðustu skipti, skipa maður að nafni Kristján Böðvarsson. Tel ég fullvíst að gamli maðurinn muni hafa auga með tengdasyni sínum þetta kvöld, ekki síður en önnur kvöld.
Vonandi fær Kristján sér vel neðan í því.
Ég fór einu sinni fyrir afa í afrétt og fundu karlarnir aðallega að því að ég gæti ekki drukkið nóg og því síður sungið, ég komst ekki í sporin hans afa.
Ljúfa Anna verður líklega sungin þar en afi söng Ljúfu Önnu meira en flestir aðrir, hann kunni fjölmörg erindi af Ljúfu Önnu en gaman væri einmitt ef einhver kynni þessi erindi eða vissi hvar þau er að finna.
Ljúfa Anna, láttu mig vissu fá,
þú ein getur, læknað mín hjartasár,
Í kvöld er ég sigli á sænum,
í svala ljúfa blænum,
æ komdu þá, svo blíð á brá,
út í bátinn mér einum hjá.
Margir sakna afa, hann var þannig að allir sem honum kynntust kunnu vel við hann og fjölskyldan hans elskaði hann af hreinu hjarta. Hann sagði fátt en það sem hann sagði var rétt. Hann tók aldrei undir last í garð annars manns, hann var hjartahreinn maður.
Ekki það að ég geti úttalað mig um mannkosti afa, honum kynntist ég ekki nærri nóg, þó hann væri aðeins í næstu sveit, þá var það nóg, við vorum þó fyrir víst líkir að einu leiti í þá daga, hann fór ekki langt af bæ og ég ekki heldur. Því hittumst við ekki oft fyrr en ég hafði hleypt heimdraganum, þá fór maður að þvælast meira og heimsóknir mínar að Fossum urðu mörgum sinnum fleiri en þær höfðu verið fram að því. Alltaf var gott að koma til afa og ömmu, létt og skemmtilegt spjall við eldhúsborðið var nærandi fyrir sálina. Randalína og mjólk hjá ömmu, kaffi hjá afa.
Til hamingju með afmælið afi minn.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.