Lára systir fertug!!

 Það er svo ótrúlega einkennilegt að hún Lára skili vera orðin fertug.  Litla systir, sem var lengst af alveg magnaður óviti orðin fertug og nálgast mig óðfluga að aldri. Hún er sjálfsagt eitthvað að bauka núna á afmælisdaginn sinn, eins og vant er , enda dugnaðarforkur á ferð. Hún hefur alltaf verið dugleg hún Lára sívinnandi frá því ég man eftir mér. Það er til ágætismynd af okkur frændunum, mér og Helga B, svona kannski 5-6 ára pjakkar, úti að hlaði í rigningu, haugblautir og drulluskítugir eftir einhverja bölvaða gloríuna, tel ég víst. Allavega gefur svipurinn á okkur til kynna að það hafi nú ekki verið neitt sérstaklega gáfulegt, það sem við vorum að gera. En á bak við okkur stendur Lára, algölluð í rigningunni að gefa heimalningnum. Sú mynd segir allt, meira þarf í raun ekki að segja.

En eitt var það sem Lára var ekki sátt við, það var að koma með okkur pabba að gefa á fjárhúsin. Það var alveg sama hvað við reyndum að gera þetta skemmtilegt,( þetta var um þennan sama aldur, ég 6 ára, hún 5 ára) alltaf máttum við keyra hana heim áður en við vorum búnir að gefa. Svo var það í eitt skiptið að við fórum út í Fjall að gefa og Lára kom með.
Við byrjuðum í Harðavellinum, gamla fjárhúsinu þar sem hlaðan var undir sama þaki en þil á milli í um 2ja metra hæð. Við brugðum á það ráð að setja Láru inn í hlöðu, upp á heyið. Þar gæti hún leikið sér og við karlmennirnir gefið í snarhasti á meðan.
Varla höfðum við snúið okkur við, tæplega búnir að sópa garðann, þegar Lára kom svífandi í stórum boga ofan úr hlöðu og beint á höfuðið niður á fjárhúsgólfið. Lára hafði séð, að á heyinu var hin besta aðstaða til að æfa kollhnísa. Við keyrðum hana heim. Þvílíkt org! 

En þetta er líka það eina sem Lára hefur ekki leyst af hendi umyrðalaust, hún möglar hvorki né maldar í móinn yfir sínum verkum. Hvílíkt gæðaskap,  alltaf er Lára kát og glöð.
Ég er þess alveg viss, að skaparinn hafi ætlað mér hluta af þessu skapi,  hann hafi einfaldlega gleymt að gefa mér þann eðlilega skammt sem hverri manneskju er venjulega gefið, tekið of seint eftir því en látið það allt í það næsta. Og það var Lára.
 

Til hamingju með daginn elsku Lára mín, takk fyrir að vera systir mín. J


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valdi Kaldi

Takk fyrir að vera konan mín.

Valdi Kaldi, 25.7.2009 kl. 20:33

2 identicon

fallega sagt Helgi

jóhann páll (IP-tala skráð) 30.7.2009 kl. 23:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband