Laugardagur, 4. apríl 2009
Sumarsaga
Hundurinn var eins og ég, alveg sallarólegur og flatmagaði á stéttinni. Það sem skildi okkur þó að, þennan fallega þriðjudagsmorgun, var að ég sötraði kaffið en hann var í óða önn að gera á sér morgunverkin, þvoði sér mjög vandlega, hátt og lágt og afar vandlega á viðkvæmum stöðum. Gekk þetta drykklanga stund með ótrúlegu kjamsi og smjatti. " Svona, hættu nú!" sagði ég við hundhelvítið og ég kúgaðist. Hundurinn spratt á lappir og ég líka þegar hann svo gerði sig líklegan til að sleikja mig í framan.
Ég rölti uppá tún með kaffibollan til að líta Fossinn minn, Fossinn sem hefur bara ekkert breyst í gengum árin. Alltaf jafn rólegur og staðfastur, fellur fram af brúninni með ótrúlegri mýkt, nánast eins og hann leggðist á klöppina ofurvarlega svo blessaður bæjarlækurinn gæti haldið sínu striki.
En árin líða og strax er maður sjálfur farinn að telja í ártatugum til baka, atvik sem eru eins og gerst hafi í gær. Þegar við krakkarnir vorum í þessari sömu brekku á kvöldin , í ótal leikjum og uppátækjum, þar er verið að tala um 25-30 ár. Sei, sei.
Ég gekk til baka og kallaði á hundinn sem leit upp, eins og bæði hissa og skömmustulegur , þar sem hann var að háma í sig hrossaskít. Svei mér þá, ég held að hann sé að verða ruglaður.Ég gekk inn í bæ, inn í eldhús.
Fyrri tuttuguárum hefði amma verið þar með morgunmat fyrir okkur öll, smurt brauð með eggjum og öllu tilheyrandi. Nú er öldin önnur, enginn er í eldhúsinu og ég fæ mér því ekki neitt.
Já, sumrin voru góð í sveitinni, alltaf nóg að gera og lagðist maður steinþreyttur á koddann á kvöldin, ýmist eftir baggahirðingu eða erfiða leiki. Næsta tún lá sennilega í ljánni eða var komið í næturmúga. Ef hirðingin gekk vel var farið til nágrannanna og létt undir með þeim, þannig fórum við krakkarnir á milli bæjanna eftir því sem þörf var á. Var því oft kátt á hjalla þegar margir söfnuðust saman og verkið gekk vel. Núna hýrast menn einir í traktorunum og það eina sem menn heyra er glamrið í tækjunum.
Athugasemdir
Svona minningar eru ein af aðal ástæðum fyrir því að ég fer með fjölskylduna í Skálavík á sumrin og heyja í bagga,alveg ómetanleg upplifun ! skemmtileg frásögn.
Þórir (IP-tala skráð) 4.4.2009 kl. 07:33
Hvar var móðir þín þennan þriðjudagsmorgun ?
ein sem ekki vill láta nafns síns getið (IP-tala skráð) 4.4.2009 kl. 23:01
Er hægt að fá þetta á hljóðsnældu?
steinimagg, 5.4.2009 kl. 00:03
Já, mamma? sjálfsagt sofandi enn.
HP Foss, 5.4.2009 kl. 09:50
Já Hallsteinn, stafræna upptöku er að finna á hpfoss.is/upptokur/sogur/sumarsaga.
HP Foss, 5.4.2009 kl. 10:04
Snilli, ekki datt mér í hug að þú værir svona tæknilegur :-)
steinimagg, 5.4.2009 kl. 19:21
Það hafa verið örðuleikar á þessu Hallsteinn, álagið á vefinn hefur verið mikið.
HP Foss, 5.4.2009 kl. 20:11
Í sveitinni var smurt í menn
snemma að morgni og seint á kvöldin
Síðan sumir sífra enn
um smörrebröð - þótt ný sé öldin
Því löngu liðin er sú tíð
að amma Magga stóð um hríð
og smurði brauð í erg og gríð
í Fosskrakkana ár og síð
, 5.4.2009 kl. 23:19
Hún Dagný lumar á ýmsu.
mamma (IP-tala skráð) 6.4.2009 kl. 08:03
Já, þetta er nefnilega liðin tíð.
HP Foss, 6.4.2009 kl. 08:30
Sting hér með upp á því að þú hættir að eyða tímanum í blogg og einfaldega hefjir ritun endurminninga. Því þessar endurminninga-færslur benda til þess að slík bók yrði afar ánægjuleg aflestrar.
Ketill Sigurjónsson, 8.4.2009 kl. 13:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.