Fimmtudagur, 12. febrúar 2009
Valdi fertugur
Valdi er fertugur í dag. Þessum ótrúlega áfanga nær kallinn eins og ekkert sé sjálfsagðara og án þess að spyrja kóng eða prest.
Hann er að vísu vanur að fara sínar eigin leiðir, hann Valdi, hlustar ekki á það sem aðrir segja, falli það ekki að hans plani. Margt skrítið leynist í kolli Valda og kemur okkur lörfunum á Fossi oft spánskt fyrir sjónir, en það er nú ekkert að marka, ég tek nefnilega eftir því að þetta er gagnkvæmt. Allavega er svipurinn stundum sposkur á kallinum þegar við erum að ráða ráðum okkar og er þó verkefnið kannski ekki annað en að koma þremur heyvinnutækjum út á Kálgarðsholt og einu niður fyrir hól.
Reikna ég þá út að Valda þyki skipulagshæfileikar Fossmanna tæpir. Hann stendur við vaskinn, horfir niður á veg og brosir í kampinn.
Hann hefur sín sérkenni eins og aðrir, eitt er það að hann á það til upp úr þurru að tala um að ná sér í vettlinga. Menn hafa fallið fyrir þessu bragði hans sem ekki hafa verið á varðbergi. Frændi minn var eitt sinn sem oftar í bragganum heima að bardúsa eitthvað og Valdi að hjálpa eitthvað til við það. Skyndilega segir hann: " Ég er farinn að ná mér í vettlinga" Löngu síðar kem ég í braggann og frændi er eitthvað hálf snúðugur. " Hvar er Valdi?" spur hann. "Hann er inni að lesa bók" segi ég og spyr hvað sé að . " Nú, hann var hér áðan að aðstoða mig aðeins, skrapp til að ná sér í vettlinga en kom ekkert aftur?"
Hann vissi nefnilega ekki að þegar Valdi segir þetta, þá þýðir það að hann sé farinn og komi ekki aftur.
Já, þetta voru skrítnir dagar, dagarnir þegar Lára systir kom með kaupfélagsstjórasoninn heim að Fossi. Allt í einu var allt spikk og span hjá mömmu, hvurgi mátti á neinu sjá, allt varð að vera í röð og reglu. Þetta rjátlaðist nú fljót af mömmu því í ljós kom að pjakkurinn var jú í flestu eins og venjulegt fólk og féll strax afar vel að fjölskyldu okkar.
Pabbi sagði eitt sinn um Valda: "Fíni náunginn hann Valdi." Hrós þetta hjá pabba er fullt hús stiga og segir allt sem segja þarf.
Til hamingju með daginn minn kæri mágur.
Athugasemdir
Ég þekki Valda lítið Helgi minn.
Ég hef reyndar oft heyrt þig tala um hann og það fallega.
Fyrir mér skiptir það engu máli.
Það sem skiptir öllu máli fyrir mér, er að hann er Gildrumaður.
Bestu kveðjur úr Mosó frá Kalla Tomm kæri Helgi minn.
P.s. Má ég biðja þig um að skila góðum kveðjum til Valda frá mér.
Karl Tómasson, 13.2.2009 kl. 00:04
Hann er náttúrulega bara snillingur drengurinn ;-)
Jónki (IP-tala skráð) 15.2.2009 kl. 14:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.