Meira um Willysinn hans Kára.

Við fórum á fjöru, ég á jeppanum hans Jóns og Kári á sínum. Þetta var síðla vetrar, milt í veðri og leysingar, töluvert vatn á Sléttabólsgötunni. Brautin liggur á kafla meðfram hyldjúpum læk, sem í við svona aðstæður er barmafullur, 2ja metra breiður, meira en mittisdjúpur. Drulla og slark vill verða í brautinni, þannig að sleipt verður og lágir bílar vilja sitja á kviðnum. Willysinn hans Kára var jú einmitt af þeirri gerðinni, með fjaðrirnar neðan á hásingunni og barðarnir voru 700/16, sólaðir.

Jóns bíll skautaði yfir þetta svona á ská og skjön og þegar ég var kominn yfir þetta leit ég í spegilinn til að sjá hvernig Kára gengi. Hvort hann væri á kviðnum eða við stuðarann hjá mér. En ég sá ekkert í speglinum. Kári var ekkert á slóðanum. Ég leit í vestur vegna þess að menn gátu þar krækt fram hjá þessari vilpu með því að keyra utaní sandölu þar skammt frá. En Kári var ekki heldur þar. Þá sneri ég við, sem gat verið æði mál, vökvastýrisreimin blaut og rafspin að framan.

Þegar ótrúlega stórum radíus var lokið og við snerum loks í norður sást hvar Kári var. Hann var í læknum.  Willysinn sat pikkfastur í læknum, vatnið var upp fyrir bretti, svolítið uppá húddið. Lofthreinsarinn á Hraðkananum hefur verið það eina sem stóð uppúr þarna innundir húddinu. Kári og Hjalti sátu á sætisbökunum og biðu björgunar. Brosið á Kára náði alveg aftur að eyrum eins og það getur mest orðið. Þetta voru aðstæður sem Kári gat ekki sleppt, til þess var lækurinn of freistandi.

Fjöruferðin gekk vel, Kári velti ekki og ekkert bilaði.  Það þurfti að passa upp á olíuna á mótornum, hann var farinn að brenna soldið, eins og mátti greina á reyknum sem aftrúr honum kom. Var hann mestur við gangsetningu og þegar undanhaldi var lokið og gamli stiginn í botn á ný.

Olían sem valin var á mótorinn var alltaf að þykkna, HDX 20 var orðin HDX 30, svo eitthvað enn þykkara en áður en lagt var í þessa ferð var sett gírolía, 80/90 og hana mátti Hurricane maskínan frá USA reyna á éta!

Daginn eftir spurði ég Kára hvernig statusinn hefði verið á olíunum í lok ferðar. " Á afturdrifinu var ekkert mjög mikið vatn, soldið meira á framdrifinu, millikassinn var helv vel vatnsblandaður og á gírkassanum var bara vatn. En þegar ég tók tappann úr pönnunni, kom bara andvarp" sagði Kári, enn með sama stóra brosið.

Hann náði sér aldrei að fullu eftir þessa ferð, gamli brúni Willysinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Karl Tómasson

Þeir eltu hann á átta hófahreinum
og aðra tvenna höfðu þeir til reiðar
en Skúli gamli sat á Sörla einum
svo að heldur þótti gott til veiðar.

Meðan allar voru götur greiðar
gekk ei sundur með þeim og ei saman,
en er tóku holtin við og heiðar
heldur fór að kárna reiðargaman.

Henti Sörli sig á harða stökki,
hvergi sinnti hann gjótum, hvergi grjóti,
óð svo fram í þykkum moldarmekki,
mylsnu hrauns og dökku sandaróti.

Þynnast bráðum gerði fjandaflokkur,
fimm á Tröllahálsi klárar sprungu,
og í Víðikerum var ei nokkur
vel fær nema Jarpar Sveins í Tungu.

Ei var áð og ekkert strá þeir fengu,
orðnir svangir jóar voru og mjóir,
en - þótt miðlað væri mörum engu,
móðurinn þó og kraftar voru nógir.

Leiddist Skúla, leikinn vildi hann skakka,
ljóð við Ok úr söðli fastar gyrti.
Strauk hann Sörla um brjóst og stinnan makka,
sté á bak og svo á klárinn yrti:

Willy minn! Þig hef ég ungan alið
og aldrei valið nema besta fóður.
Nú er líf mitt þínum fótum falið,
forðaðu mér nú undan, klárinn góður.?

Það var eins og blessuð skepnan skildi
Skúla bæn því háls og eyru hann reisti,
frýsaði hart - og þar með gammurinn gildi
glennti sig og fram á hraunið þeysti.

Á kostum Sörli fór í fyrsta sinni,
furðar dverga hve í klungrum syngur.
Aldrei hefur enn í manna minni
meira riðið nokkur Íslendingur.

Tíðara Sörli en sendlingur á leiru
sinastælta bar í gljúfrum leggi,
glumruðu Skúla skeifurnar um eyrum,
skóf af klettunum í hófahreggi.

Rann hann yfir urðir eins og örin
eða skjótur hvirfilbylur þjóti.
Ennþá sjást í hellum hófaförin,
harðir fætur ruddu braut í grjóti.

Örðug fór að verða eftirreiðin,
allir hinir brátt úr sögu detta.
En ekki urðu fleiri Skúla skeiðin,
skeið hans fyrsta og síðasta var þetta.

Hann forðaði Skúla undan fári þungu,
fjöri sjálfs sín hlífði klárinn miður -
og svo með blóðga leggi, brostin lungu
á bökkum Hvítár féll hann dauður niður.

Sörli er heygður Húsafells í túni,
hneggjar þar við stall með öllum tygjum,
krafsar hrauna salla blakkurinn brúni,
bíður eftir vegum fjalla nýjum.

Karl Tómasson, 14.1.2009 kl. 22:15

2 Smámynd: Karl Tómasson

Það átti að standa................

Willy minn! Þig hef ég ungan alið
og aldrei valið nema besta fóður.
Nú er líf mitt þínum fótum falið,
forðaðu mér nú undan, gamli skrjóður.?

Þvílíkt klúður.

Karl Tómasson, 14.1.2009 kl. 22:17

3 Smámynd: HP Foss

Drykkfelldir Hvanneyringar áttu hauk í horni hjá Skúla í Skarði. Ég hitti hann ekki.

HP Foss, 14.1.2009 kl. 23:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband