Jón Reynir og Jóna fertug

Um Jón:

Fátt sem við jón gerðum var öðrum til ama og náttúrulega engum til leiðinda. Allavega var maður auðfúsu gestur á Hruna og hann að sjálfsögðu á Fossi. Mér finnst nú  eins og ég hafi alltaf þekkt Jón, enda hef ég alltaf þekkt hann, höfum einhvern veginn skottast í gegnum tilveruna, mismiklar samverur, stundum litlar og stundum miklar. Þrátt fyrir  miklar samverustundir í gamla daga, alla andskotans daga að gera einhvern djöfulinn,  gera kennurunum gramt í geði, heilla stelpurnar í bekknum upp úr skónum með fágaðri framkomu og óstjórnlegri kurteisi gangvart hinu kyninu,  man ég ekki eftir einu einasta skipti þar sem ég var pirraður út í Jón. Ekki einu einasta skipti sem ég var orðinn þreyttur á kallinum. Ekki einu einasta skipti þar sem mér fannst að komið væri nóg. Það kann að vera að hann hafi verið orðinn pirraður, leiður og löngu búinn að fá nóg af mér, en það skiptir ekki máli.

Talandi um kennarana. Kennararnir á Klaustri voru upp til hópa önugir og uppstökkir. Það mátti ekkert út af bregða svo þeir færu að hnýta í okkur, segja okkur fyrir verkum og með þess háttar leiðindi.

 T.d. man ég eftir enskutímunum mjög vel. Þeir byrjuðu á því að Áslaug setti upp á töflu, You are, we are, they are, he,she it is. Ótrúlega leiðinlegt og gert með ótrúlegri rassasveiflu. Sennilega gert til þess að fá okkur til að muna eftir þessu, enda fæ ég enn skelfingartilfinningu í barnshjartað.

Hún kom eitt sinn með gæluverkefni, allir áttu að ná sér í  ákveðna bók og þessi bók átti að vera alger bomba í enskukennslu. Bókin var hrútleiðinleg og það tók tímann frá jólum fram að vori þumbast í gegnum hana.

En Jón þráaðist við og fékk sér ekki þessa bók.  Áslaug var alveg fjúkandi vond við Jón, sem gat einhvernvegin fengið mig til að taka hluta af sökinni, enda sat hann við hliðina á mér. Þetta var æði strembið verkefni,  þessi bók, töluverð heimavinna en eitt allsherjar lokapróf, þar sem farið var í alla þætti málsins.

Áslaug var framan af önninni að þrusa í Jóni, og mig í leiðinni en Jón gaf lítið út á þetta allt saman, horfði upp í Systrafoss og svo glottandi á mig þegar hún hjassaðist að töflunni.

Um páskana gaf hún út þá yfirlýsingu að hún nennti ekki að fást við þetta lengur, Jón yrði að sætta sig við að falla í þessu fagi, því án bókarinnar værir þetta vonlaust.

Hún var ekki falleg á svipinn, hún Áslaug, þegar hún svo kom með niðurstöðurnar úr prófinu og Jón var hæstur i bekknum með 10.

Svona gekk skólagangan hans, minnir mig, eitthvað voðalega átakalaust eitthvað.

Jón hafði gjarnan orðið fyrir okkur, hann var mikið fljótari að hugsa en ég og átt þannig mikið betra með að bjarga okkur út úr hinum og þessum krísum. Eftir á að hyggja held ég að þetta hafi verið mistök hjá mér, held að þessi orðsnilld hans hafi jafnvel verið fullmikil á köflum, allavega þegar við vorum látnir læra inni hjá skólastjóranum eftir útskýringar Jóns við kennarana.  Ég var meira til baka, vildi síður að fullorðna fólkið vissi hvað við vorum að bralla.  Jóni var alveg sama.

Þegar maður kom austur að hruna átti maður frekar von á því að þar ríkti kyrrð og ró. Að maður heyrði i læknum renna undan hrauninu og í spóanum vella við túnfótinn. En raunin var yfirleitt önnur. Fuglar voru náttúrulega steinhættir að láta sjá sig á landareigninni því þarna var líkara að menn væru á Gaza ströndinni. Skothríðin var um allt hraun,  hvergi þó mann að sjá, allt eins og í alvöru orrustu. Þetta ástand var sínu verst þegar Oddsteinn var á svæðinu, Þá var eins og allt færi úr böndum. Inni sat síðan Andrés og las í bók, sallarólegur, áhyggjulaus yfir ástandinu úti.

Á kvöldin, eftir að venjulegum útivistatíma lauk, var skotið úr rifflunum út um svefnherbergisgluggann.

Við áttum báðir Willysjeppa. Þeri voru reyndar sjaldan báðir í lagi í einu. Minn var yfirleitt með bilaðan millikassa en hans með bilaða vél. Ja, reyndar var hann yfirleitt með ónýta vél. Jón bar um tíma viðurnefnið „The terminator. "  Einu sinni voru smávægilegar gangtruflanir í Bjúkkanum, V6 mótornum í Willysnum hans. Við spáðum í þetta lengi í bragganum á Fossi, tókum hinn og þennan kertaþráðinn úr sambandi,  fundum samt aldrei almennilega hvaða sylender var lélegastur. Það var eins og þeir væru allir lélegastir. Nonni á Fossi var eitthvað að sýsla í Fergusoninum hans pabba innar í bragganum, var svona að kíkja til okkar af og til , svolítið eitthvað sposkur á svipinn alltaf. Við létum þennan skrítna svip viðgerðamans sveitarinnar ekkert á okkur fá, enda svona mótorar í svo mörgu frábrugðnir Perkinsvélunum í Fergusonunum.

Eftir langa leit og miklar pælingar, þá var ákveðið að kippa pönnunni undan og skoða málið neðan frá. Pannan var skrúfuð undan og í henni lá,  hluti af stimpli, 5 cm bútur úr knastásnum og heilmikið af örðu gromsi.

Þar sem við hálf klumsa stóðum  yfir þessu, grútskítugir upp fyrir haus, kemur Nonni, lítur ofaní pönnuna og segir. Ég held að þig getið nú ekki komið nafni á þessa bilun og þar með lágum við allir af hlátri.

Eftir þetta fékk Jón sér áttu, 350 chevrolet  og eftir  að hún var búin að bræða úr sér 2svar, hásingin búin að umhverfast einu sinni, var bíllin orðinn fínn.

Bensín? Var ég búinn að tala um bensínið?? Jón var aldrei með miklar birgðir af eldsneyti með sér, hann var alltaf á síðasta dropanum og við komumst yfirleitt ekki alveg þangað sem við ætluðum því Jón þurfti að snúa við. Svona hálfskömmustulegur fór hann gjarnan að tala um að vera ekkert að fara lengra. En hann varð aldrei bensínlaus, ljósið gat logað í alveg ótrúlega langan tíma. ÁWillysnum var reyndar ekki ljós heldur kústskaft.

Einu sinni vorum við fara út að Klaustri, búnir að hrista Willysinn í lag í bragganum á Fossi. Ég átti að fara á Jeppanum en hann ætlaði að koma á Skódanum. Ég var eitthvað að tala um það hvort það væri nóg bensín, jájá, sagði Jón, alveg ákveðinn. Farð þú bara af stað, ég kem svo rétt á eftir. Ok, ég lagði af stað og þetta var alveg ljómandi ferð enda afar gott að keyra Willysinn hans Jóns. Brunaði fram hjá þorpinu, upp Hörgsárbrekkuna, út að Breiðbalakvísl en á miðri Kvíslarbrúnni drap hann á sér. Bensínlaus! Ég lét hann fríhjóla út af brúnni svo Jón myndi nú ekki þruma aftan á mig.

En Jón var ekkert á eftir. Eftir langa bið fór ég að ýta bílnum af stað. Ýtti og ýtti og aldrei kom Jón á Skódanum. Þegar ég, móður og másandi, kófsveittur kom með Willisjeppann hans Jóns að dælunni á Klaustri, renndi Jón í hlað alveg slakur. „Jæja, þetta hefur gengið vel?" sagði Jón. Já, já, hvar varst þú? Ég skrapp aðeins heim, kom við á Sléttu og tafðist aðeins.

Ja, kannski að ég hafi verð orðinn pirraður þarna. Nei, satt að segja held ég ekki.

Einu sinni á leið minni austur, vorið 1990, kom ég við hjá Jóni í Ölfusinu. Jón var einn heima og við ákváðum að best væri að ég myndi bara gista þarna og við gerðum okkur þarna glaðan dag. Fengum okkur vel í tánna og skelltum okkur í heita pottinn. Þetta var hin besta nótt en þegar leið á hana fór hungrið að sverfa að. Jón snaraði sér inn í eldhús, sagðist eiga steik í ísskapnum.  Ég á einmitt mynd af okkur þar sem við erum að stífa þetta úr hnefa í pottinum. Að lokinni þessari fínu máltíð þurftum við að bregða okkur á næsta bæ því þar var einhver andskotinn að og Jón þurfti að redda því. Ekkert mál, ég kem, sagði Jón um, miðja nótt í símann, við báðir blindfullir, en ég bara man ekkert eftir því hvernig við fórum þetta.

Daginn eftir hélt ég áfram austur en Jón sagði mér, næst þegar við heyrðumst, að Mónika hefði verið hissa hvað við hefðum étið lítið af steikinni en hinsvegar væri hundamaturinn búinn!

Jón kynntist Báru, seinni konu sinni.  Kom með hana austur á Þorrablót til að sýna okkur hinum lúðunum hvar Davíð keypti ölið. Við litum á nýju konuna hans, svo á okkar konur og sáum að hann kaupir ölið allt annarsstaðar en við. Forkunnar fögur kona, og þá fer Jón náttúrulega að hrúga niður krökkum, getur ómögulega ráðið við sig.  Já, okkur leist sem sagt vel á Báru þarna á þorrablótinu og Jón var eins og Óli á Læk, svo sperrtur var hann.  Rígsaði með hana á milli borða, hló og skríkti framan í hvern sem hann hitti.  Svona þeyttist hann um allt kvöldið en seint í nóttina kom Bára til mín og spurði hvort ég hefði nokkuð  séð hann Jón. Við fórum í könnunarleiðangur og fundum þennan hamingjusama mann inni á klósetti, þar sem hann hélt dauðahaldi um hlandskálina og bindið í henni miðri. Hann var algerlega búinn á því. Ég hljóp í hurðina og bað Báru að bíða bara aðeins, hann væri að míga með Stebba í Þykkvabæ.

Já, eins og ég sagði áðan, þá voru nú stundirnar fleiri í gamla daga, eins og gengur enda dettur mér Jón oft í hug þegar ég hlusta á lag Magnúsar Eiríkssonar, Gamli góði vinur, þar segir eitthvað á þá leið:" ég slæ ei lengur á þitt bak, við látum duga handatak, við þykjumst vera, orðir menn og engum háðir. En þegar vínið vermir sál, við tölum ennþá sama mál, þó er það af sem áður var, við vitum báðir."

Kæru vinir, Jón og Jóna, innilega til hamingju með afmælið og takk fyrir að vera til.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valdi Kaldi

Til hamingju með daginn!!!!!!!!!!!!

Valdi Kaldi, 18.11.2008 kl. 15:57

2 identicon

Algjör snilld,til hamingju með daginn Jón og Jóna. Kv Erlingur

Erlingur (IP-tala skráð) 18.11.2008 kl. 17:52

3 identicon

til hamingju með daginn krakkar

kv steinar og berglind

Steinar frá Fossum (IP-tala skráð) 18.11.2008 kl. 20:36

4 identicon

Jóna og Jón Reynir, hjartanlega til hamingju með afmælið.

Afmæliskveðjur,

Óla á Fossi

Ólafía (IP-tala skráð) 19.11.2008 kl. 09:10

5 identicon

Bara frábær frásögn og til hamingju með 40 árin Jón og Jóna

Laufey (IP-tala skráð) 19.11.2008 kl. 15:05

6 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Prýðis pistill. Fáum við svipaða lesningu um Jónu á morgun? Ekki getur hún verið aukaatriði!

Sigurður Hreiðar, 19.11.2008 kl. 18:13

7 Smámynd: HP Foss

Já, Sigurður, Jóna systir Jóns  er hrókur alls fagnaðar hvar sem hún kemur og í fáu frábruðgðin bróður sínum. Hún er svo sannarlega ekki aukaatriði.

Kveðja- Helgi

HP Foss, 19.11.2008 kl. 22:20

8 identicon

Frábært hjá þér Helgi !
Maður rifjaði upp í huganum hvað var oft gaman fyrir austan þegar ég las þetta :-)

Jónki (IP-tala skráð) 26.11.2008 kl. 20:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband