Föstudagur, 24. október 2008
Áður sögð saga ( hugmyndakreppa)
Björn var við heyskap í Stórahvammi þennan dag og var þar mikið hey að vanda. Hann sló Hvamminn alltaf í lok heyskapar og því var hann sprottinn eins og mögulegt var. Heybindivélin hans var af Welger gerð og því með kúplingu á svinghjólinu í stað öryggisboltans sem var í New Hollandinum. Eins og gefur að skilja kom oft góður slurkur í vélina þegar þeir félagar helltu sér í seinasta flekk sumarsins, Björn með Welgerinn í eftirdragi, eins og hann væri í sporttúr um svæðurnar, þar sem Massinn var staðinn eftir Hvamminum og Eiður með rakstrarvélina á fullu spani, skárarnir hlóðust upp þannig að bar við himinn. Þá stíflaðist vélin gjarnan og kúplingin á svinghjólinu tók að snuða með slíku væli að söng í hömrunum. Voru þá þá viðhöfð handtök sem ekki verða kennd við vettlinga, Heyinu svipt úr sópvindunni þannig að frá Fossi séð var eins og hann væri skollinn á af norðvestri.
Hitt er annað mál að þegar þessi fyrrum vinnumaður, sem var þó ekki sá hinn sami og í Hvamminum, fór í burtu þennan fagra sumardag á Fossi, þá hóf hann vél sína á loft af Svartasandi, þar sem hann hafði lent henni fyrr um daginn. Fylgdist ég grannt með tilburðum mannsins á vellinum og sá þegar hann fór í loftið. Tók hann stefnuna yfir Stórahvamminn og fór æði lágt. Þegar hann var farinn að nálgast hamrana gaf hann allt í botn og var vélin allt að því lóðrétt upp á endann á móts við hamrabrún. Hélst hún þannig dágóða stund, fór hvorki afturábak né áfram, þar til þyngdaraflið bar hana ofurliði og hún skall á bakið í nýsleginn flekkinn hjá Birni. Þetta var mikil reynsla að sjá þetta svona og upplifa.
Rifjaðist þá upp fyrir mér atvik sem gerðist skömmu áður. Var ég þá í Reykjavík, eitthvað að snattast þegar kunningi minn bauð mér í flugferð. Hann var reyndur flugmaður og hugsaði ég mig ekki um áður en ég tók þessu kostaboði. Í slíkar ferðir er manni ekki boðið á hverjum degi. Þegar við vorum komnir út á flugvöll varð mér ljóst að flugvélin var ekki þessi hefðbundna flugvél með fjórum sætum. Þessi vél var síðan úr stríðinu og var búið að mála hana fagur rauða. Það var nú ekki allt því sætin voru aðeins tvö, tvö göt ofan í skrokkinn og ekkert þak. Þetta var nú spennandi og fórum við í loftið. Við flugum upp á Sandskeið, yfir Bláfjöllin, Hengilinn og komum aftur til baka yfir Hólmsánna. Þá tók hann upp á því að snúa vélinni við, þannig að hún flaug á hvolfi eins og listflugvél. Þetta hefði kannski verið skemmtilegt ef ég hefði verið með beltin spennt. En það var ég ekki og alls ekki búinn undir slíkar æfingar. Skipti engum togum að ég datt úr sætinu en náði að hanga á fingurgómunum á sætisbakinu. Þannig flaug mannfýlan og lækkaði flugið. Ég var alveg að missa takið og hélt þetta mitt síðasta. Alltaf lækkaði flugið, niður undir trjátoppana á 150 kílómetra hraða. Þá sleppti ég takinu og kútveltist eftir jörðinni. Tel ég að þarna hafi hurð skollið nærri hælum.
Hurðin skall einnig nærri hælum við gamla bæinn fyrir mörgum árum. Þá var ég 10 vetra gemlingur á Fossi. Ég var einn heima í gamla bænum þegar herþyrla kom inn í landhelgi Fossmanna. Þessi vél var ekki frá bandamönnum vorum heldur frá Sovétríkjunum gömlu. Vissi ég ekki mitt rjúkandi ráð og vonaði í lengstu lög að þeir færu hjá án þess að verða til vandræða. Fór þá ekki druslan að hiksta. Greinilegt var að eitthvað var að. Ég man þetta eins og hafi gerst í gær, dynkina og drunurnar frá þyrluspöðunum, sem nálguðust hægt og sígandi. Mér til mikillar skelfingar, lækkaði vélin flugið og skall að lokum til jarðar um meter frá gamla bænum. Allt varð kyrrt og dauðaþögn. Ekki einu sinni Fossinn þorði að láta á sér bæra. Slík þögn hafði ekki verið á Fossi síðan paparnir ræktuðu kartöflur í brekkunni hér fyrir löngu. Þá voru skyndilega rifnar upp hurðirnar á þyrlunni og hermenn þustu út og æddu um hlaðið. Ég þorði hinsvegar ekki að láta á mér bæra.
Kveðja Helgi á Fossi
Athugasemdir
Sagan af Bjössa og heybaggavélinni er klárlega sönn, eru hinar það líka?
Skrambi var þetta nú annars skemmtileg lesning.
Með kveðju úr Mosó.
Karl Tómasson, 27.10.2008 kl. 10:28
Þetta er nú ljóta dellann!!!!! Hvað varstu eiginlega búinn að fá þér marga G&T þegar þú settir þetta inn?
Valdi Kaldi, 27.10.2008 kl. 12:44
skondinn ertu Framsóknarmaður !
Jónki (IP-tala skráð) 27.10.2008 kl. 17:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.