Þriðjudagur, 23. september 2008
Frjálst er í fjallasal
Eftir ákveðinn akstur um blómleg héruð Suðurlandsins, með aðeins einu stoppi, renndi ég í hlað á Fossi. Þetta eina stopp var gert á Gatnabrún en þar er gott að rétta úr sér og skoða drífandi framkvæmdirnar á Götum í Mýrdal.
Steikt hjörtu í brúnni sósu biðu sársvangs sveitamannsins, sem slafraði í sig lostætinu með mikilli áfergju, líkt og hann hefði komið fótgangandi úr bænum.
Að lokinni þessari stórkostlegu máltíð var ekki annað framundan en leggjast til svefns.
kl 7 næsta morgun renndi til fjalla samstilltur hópur Síðusmala í 2. safn haustsins, glaðir í hjörtum en þó ósteiktum. Sólin gægðist framundan Öræfajöklinum þannig að glampaði á döggina á Orrustuhólnum. Þetta er fallegur morgun, hugsaði ég, renndi peysunni betur uppí háls og skellti mér uppí 70. Ég rak lestina inn hraun, töluvert á eftir en missti þó sjaldan sjónar á félögunum.
Næstu 3 daga var afrétturinn smalaður, kindur hér og þar, líta upp þegar á þær er hóað. Líta upp og rölta í smáum hópum fram yfir hvert gilið á fætur öðru. Stika fram sömu göturnar og kindurnar á Austur Síðu afrétti hafa þrammað í margar aldir. Við setjumst utan í sömu brekkurnar og forfeður okkar hafa setið í jafn margar aldir. Þar hafa þeir setið, með sólina í andlitið, horft til Lómagnúps, í Hamarinn í Fellinu, horft fram á Stakkinn og klappað hundinum.
Já, gott er að eiga þessar stundir í faðmi fjallanna.
Athugasemdir
Er ekki sprænan í Fossinum með minna móti núna. Einhvernvegin finnst mér það á myndinni að dæma.
Annars gott að heyra hvað allt gekk vel Helgi minn og þykist ég vita að þar hafir þú lagt þitt að mörkum.
Fékkst þú ekki örugglega vel sæta kartöflumús með hjörtunum hjá múttu þinni, eða hvað? Kartöflurnar sem ég fékk hjá múttu þinni með hangiketinu forðum, voru reyndar ómótstæðilegar, það er ekki það.
Bestu kveðjur frá Kalla Tomm úr Mosó.
Karl Tómasson, 23.9.2008 kl. 22:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.