Þriðjudagur, 2. september 2008
Fjallkóngurinn
Nokkrir fjallkóngar hafa verið á afréttinum heima síðan ég byrjaði að fara. Bjarni á Fossi var þegar ég fór fyrst og var í mörg ár. Frábær kóngur og auðvitað þekkti maður kallinn vel. Kiddi á Hörgslandi var seinna einnig Jói á Breiðabólstað.
Sá sem nú er og er búinn að vera í nokkuð mörg ár, er Siggi á Hörgslandi. Nýjum mönnum fylgja oft nýir siðir. Ein sú nýbreytni sem hann tók upp og féll mér vel var að hann tók að senda mann á staði sem maður hafði ekki áður smalað. Hver bær átti gjarnan sitt svæði, hver fór sína leið eins og hann var vanur og hafði lært af sínum föður. Það gekk undantekningalítið vel, margir voru á afrétti, maður frá hverjum bæ og stundum fleiri en einn, allir á hestum og féð vant að vera smalað.
Að fá að smala þar sem "hinir" voru vanir að smala, opnaði manni nýja sýn, loks áttaði maður sig á helvítis biðinni, hvers vegna í ósköpunum þeir gátu verið svona lengi. Snilldar leikur hjá Sigga og skyndilega voru allir vanir að smala hvar sem var.
Fyrsta kvöldið er oft glatt á hjalla í kofanum, eftir ljúffengan kvöldmat hjá kokknum og smá leggju (ekki hjá kokknum) fá menn sér gjarnan smá tár og sungin eru óskaplega falleg lög, óskaplega fögrum röddum, fram eftir kvöldi.
Á hárréttu augnabliki (sem maður kannski skilur ekki alveg þá stundina) stendur kóngsi upp og segir, jæja, nú förum við að sofa. Sér um að allir skili sér í koju og eftir skamma stund tekur annar kór við, kór hinna fögru hrota.
Siggi er góður kóngur!
Þegar þetta er skrifað, kl tíu mínútur fyrir miðnætti, er sennilega verið að syngja, undir dalanna sól.
Ég er með Fellsþrá.
Athugasemdir
já og mig lanar í réttir
Laufey (IP-tala skráð) 3.9.2008 kl. 09:02
Ég væri nú til í að vera einhversstaðar annars staðar en fyrir framan tölvu akkúrat núna.
Valdi Kaldi, 3.9.2008 kl. 12:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.