Laugardagur, 10. maí 2008
Rekinn.
Þegar rekanum hafði verið keyrt upp á Sléttabóli, var ekkert annað eftir en skipta honum. Þetta var oft orðin myndarleg hrúga, heilmikið af timbri, sem lá austan við túngarðinn á Sléttabólinu. Þegar maður skaust á fjöru, renndi sér fram hjá Sléttabóli var Öræfajökullinn í austri, og timbrið, en Mýrdalsjökullinn í vestri, og Veiga í glugganum. Veiga og Siggeir fylgdust vel með ferðum fram fjörugötuna og í bakaleiðinni var Veiga á tröppunum og Siggeir gjarnan að sýsla eitthvað í kringum bæinn.Þau þyrsti í fréttir af fjörunni, hvort það hafi verið reki, hvar Síkið væri og hvort við hefðum eitthvað veitt. Gott var að koma að Sléttabóli og þyngra en tárum taki að sá tími sé liðinn að hitta þau systkin þar.
En timbrinu var skipt í þrjú köst, og þess vandlega gætt að jafnt væri í öllum köstunum. Þetta tók nú gömlu jaxlana ekki langan tíma, því þó karlarnir væru ekki mikið fyrir augað, var þeim ekki fisjað saman og heljarmenni til vinnu.
Að þessu loknu var komið að því að ákveða hver ætti hvað, hvaða kast bæirnir vestan lækjar ættu, sem voru Bjarni og pabbi, hvaða kast austurbæirnir fengu en þeir voru Siggi og Bjössi og hvaða kast sandmennirnir ættu, Frikki og Siggeir, bændur á Hraunbóli og Sléttabóli.
Einn karlanna tók sig út úr hópnum, gekk nokkurn spöl í átt til fjalla og horfði upp að Fossi. (Ég geri ráð fyrir að þangað hafi verið horft, því ég hef prófað að standa þarna og þá gat ég ekki annað en horfði í þá átt. ) Þar stóð hann smá stund með hendur fyrir aftan bak eða þar til hann heyrði spurt: Hver á það? Spurði annar úr hópnum og benti á eitt kastið. Þá svaraði sá sem til fjalla horfði Austurbær ( eða vesturbæir eða sandmenn)Þá var það ákveðið og hinum köstunum gerð sömu skil. Þessi stund var ætið magnþrungin, spennandi og algerlega heilög. Saumnál hefði mátt heyra detta, hefði ekki verið dúnmjúkur móinn undir og spóinn syngjandi um allt. Menn gengu hver að sinni hrúgu og virtu fyrir sér, glaðir í bragði, sáu not fyrir hvern drumb, hverja spíru, hvert sprek.
Fossmenn settu sitt á vagna og ekki var krafturinn minni þá, var líkt og aflið hefði tvöfaldast eftir að eign hafði verið slegið á fenginn. Ekki var þó athöfn lokið, því siður sá var viðhafður að austurbæingar tóku þá smognustu, fúnustu og óhrjálustu spýtu sem á þeir áttu, færðu vesturbæingum að gjöf, afhentu með virðingu og gjafmildi hinni mestu. Var gjöfinni ávalt tekið sem höfðinglegri, og svipaður gripur, sem settur hafði verið til hliðar við fermingu vagnsins, gefinn til baka, með sama þakklætinu og sömu djúpu virðingunni.
Gömlu góðu minningarnar frá þessum föstu verkum Fossmanna eru með því dýrmætasta sem ég á, þar sem menn voru alltaf í góðu skapi, léku við hvurn sinn fingur, léttir á brún og brá. Þeim á ég margt að þakka.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.