Fimmtudagur, 8. maí 2008
Og enn á fjöru
Enn var komið að því að fara á fjöru. Fossmenn höfðu hug á því að athuga með reka á fjörunni sem var nú öll orðin austan við Síkið. Það var fallegur sólríkur dagur á Fossi þennan júní morgun. Kýrnar voru komnar út í haga og hundarnir stukku um hlaðið fullir eftirvæntingar . Farið var á traktorum með vagna og gúmmíbáturinn sem Fossmenn fundu á fjörunni um árið var með í för. Við strákarnir sátum í bátnum sem var á einum vagnanna .
Hugur var í mannskapnum og máttum við þakka fyrir að tolla á tuðrunni þegar vagninn fór í verstu holurnar og við skutumst upp í loftið eins og pílur. Ekki hefur þetta þótt árennilegur hópur sem brunaði fram fjörugötuna og hefði eflaust ókunnugur maður orðið smeykur að mæta slíkri fylkingu. Jafnvel þó hann hefði þekkt til. Þarna voru Foss- og Sandmenn mættir, gráir fyrir járnum.
Á augabragði voru menn komnir að Síkinu. Fór hver maður á sinn stað og leysti sitt verk af hendi, fumlaust. Báturinn var gerður klár, pumpað í þau hólf sem voru orðin vindlaus síðan heima á Fossi, árarnar á sinn stað og mannskapurinn hoppaði um borð. Fleytan var fullmönnuð.
Einn var hafður þar sem venjulega er hafður mótor en þar sem enginn var slíkur með í för var notast við stunguskóflu. Reyndar voru árarnar allar af þeirri tegundinni. Restin af áhöfninni raðaði sér til helminga, ýmist á bakborða eða stjórnborða, utan eins, sem var greinilega formaðurinn, því hann sat í stafni og stjórnaði áralagi og hélt uppi andanum í hópnum ásamt lífsvon.
Var þessu stjórnað af mikilli röggsemi, með miklum hrópum, köllum, skömmum og handapati. Fórst honum þetta vel úr hendi.Af öryggisástæðum var hafður vaður úr bátnum í land. Fengum við þrír sem þar voru það hlutverk, að gefa slakann og standa klárir færi eitthvað úrskeiðis. Ekki voru þeir komnir langt frá landi þegar áhöfnin tók að ókyrrast. Menn æddu fram og aftur um bátinn og hafði formaðurinn upp þvílík köll að heyrðist langleiðina upp að Sléttabóli. Var þá vatn tekið að flæða inn í bátinn af miklum krafti. Þarna var augljós hætta á ferðum þar sem helstu höfðingjar sveitarinnar voru saman komnir í einum báti sem var að fyllast af vatni og virtirst ekki eiga annað eftir en sökkva til botns.
Réðust menn í það að finna upptök lekans, um leið og aga var aftur náð. Sáu menn þá hvers kyns var, skóflan í skutnum hafði kippt neglunni úr gatinu. En sem betur fer hékk hún þar í spotta og var snarlega sett á sinn stað. Var þar bráðri hættu afstýrt af mikilli fagmennsku, enda menn með áratuga reynslu af útræði.
Þá var ausið og för haldið fram. Við gáfum út vaðinn eftir því sem þeir mjökuðust út í óvissuna. Út í miðju Síki fór að taka í og hægja á körlunum, þá löngu komnir úr kallfæri og loks stoppaði fleytan. Vissum við ekki hvað var á seyði, svipað uppnám var meðal áhafnarinnar og þegar neglan fór úr, þarna við bakkann í upphafi ferðar, og gerðum við okkur strax grein fyrir alvöru málsins. Þarna voru þeir mitt í úthafinu, bjargarlausir og greinilega vitstola af hræðslu.
Urðu menn nú að bregðast skjótt við ef eitthvað ætti að vera hægt að gera í málinu. Við sáum að þeir voru að niðurlotum komnir, jafnvel að menn væru að gera sig líklega til að stökkva frá borði, því frá landi séð var eins og menn væru komnir með annan fótinn í beljandi jökulvatnið. Myndi slíkur skaði seint bættur. Það var talið erfitt að smala í Mýrdalnum eftir að Ragnar á Höfðabrekku velti bíl sínum í Kerlingadalsánna með alla smalahunda sveitarinnar meðferðis. Þar komst aðeins einn lífs af, Ragnar sjálfur. Ekki er gott að ímynda sér smalamennsku á Fossi með eintóma hunda en öngva karla. Hætt við að það færi handaskolum.
Tókum við þá til við að toga bátinn með karlagreyjunum í land og forða þeim þannig frá bráðum bana. Þeir nálguðust óðfluga enda toguðum við sem mest við máttum. Þarna sátu þeir, flötum beinum og áttum við von á að sjá ljómann í andliti þeirra yfir þessum snöru handtökum og frækilegu björgun.
En við gátum ekki greint gleði í andlitum þeirra þegar þeir renndu að bakkanum. Var lífsreynsla þeirra slík að öll gleði væri horfin úr þessum léttlyndu körlum á einni svipstundu? Nei, þeir voru öskuillir og í stað þess að fá þakkir fyrir afrekið fengum við skammir fyrir uppátækið. Við vissum ekki hvaðan á okkur stóð veðrið þar sem við lágum lafmóðir og másandi eftir átökin. Þeir voru þá víst aldrei í neinni hættu.
Sögðust hafa strandað á sandeyri og voru alveg að komast yfir hana, með því að sitja klofvega á flotholtunum og mjaka bátnum áfram með annarri löppinni. Þá skyndilega hafi þeim verið kippt afturábak þannig að þeir þutu til baka, á tíföldum þeim hraða sem þeir sjálfir gátu með góðu móti náð.Við á vesturbakkanum vorum skömmustulegir þegar við tókum til við að gefa út vaðinn aftur.
Ferðin þeirra í þetta skiptið tókst vel og komust þeir einnig til baka.En ef eitthvað hefði farið úrskeiðis í þessari seinni tilraun, þá er ekki gott að segja til um það hvort við hefðum brugðist við af sömu snerpu og áður. Ekki er einu sinni víst að við hefðum bara yfirleitt tekið eftir nokkrum sköpuðum hlut.
Athugasemdir
Ég hef lesið þessa sögu áður. Reyndar hef ég örugglega lesið hana hundrað sinnum og mér finnst hún alltaf jafn skemmtileg. Ég sé þetta allt ljóslifandi fyrir mér og kemst alltaf í gott skap þegar ég les þetta.
Valdi Kaldi, 8.5.2008 kl. 16:15
Það kemur mér ekki á óvart að þér þyki hausmyndin á blogginu mínu fögur þar sem þú býrð þarna "á næsta bæ". Ef þú sendir mér póst á lara@centrum.is skal ég senda þér myndina um hæl með leyfi fyrir frjálsum afnotum. Ég get líka minnkað hana ef þú vilt nota hana sem hausmynd hjá sjálfum þér - þú segir bara til.
Náttúra Íslands á sér engan líka...
Lára Hanna Einarsdóttir, 8.5.2008 kl. 20:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.