Miðvikudagur, 7. maí 2008
Aftur á fjöru
Þegar Roverarnir voru um það bil að ná hámarkshraða á rennisléttum ísnum, þar sem Helgi litli 10 ára sat á hækjum sér aftan við varadekkið , stífur af spenningi í þessari miklu kappkeyrslu og Bjarni í Miðbænum stjarfur af hræðslu í framsætinu, brast ísinn undan okkur og ég þeyttist af alefli upp í toppinn og þar eftir niður á gólfið . Roverinn tók þvílíkt stökk upp úr þessari vilpu, enda á ofsahraða, að sá undir öll hjól. Ferðin hélt áfram eins og ekkert hefði í skorist og þetta væri ósköp venjulegur akstursmáti þeirra Fosskarla.
Á fjöruna var alltaf gaman að koma, að sjá sjóinn þegar ekið var fram á kambinn í kollunum. Í þá daga var ekki farið oft á fjöru, í það minnsta ekki eins og síðar varð ,þegar ferðirnar voru reglulegar, nokkrum sinnum í viku. Þessar stundir með Fossköllunum verða alltaf kærar í hugskoti mínu, karlarnir alltaf léttir og skemmtilegir,sagðar sögur og mikið hlegið. Þá var alltaf komið í skýlið og jafnvel étið þar nesti.Fjaran gat oft reynst erfið yfirferðar, barðarnir sukku í gljúpann sandinn og þá dró niður í 62ja hestafla díselmótorunum sem þó yfirleitt skorti ekki afl. En fram með Hvalssíkinu var för heitið og fram í flæðarmál. Þar var harðara undir og það var eins og við manninn mælt, upphófst þessi líka kappaksturinn. Við sjóndeildarhring hillti undir eitthvað sem menn höfðu ekki áður séð og stefna þeir þangað, í rauðabotni. Aldrei bar mikið í milli, báðir fóru svipað hratt yfir og nálguðumst við hið óþekkta óðfluga. Var þetta hvalur? ekki tré, Hnúfubakur? sjórekinn maður? Nei, þetta var gúmmíbátur. Sódíakk af bestu gerð. Þótti þetta mikill fengur og menn æði búralegir yfir þessu. Sáu menn fyrir sér að nú yrðu háskalegar ævintýraferðir austur yfir Síki með öðru sniði og hættuminni. Aldrei verða slíkar ferðir samt með öllu hættulausar enda höfðu menn drukknað í Hvalssíkinu hér á árum áður. Bátnum var skellt á toppinn á þeim bláa og haldið heim.
Ekki man ég annað en heimferðin hafi gengið vel, Siggeiri skilað heim til sín og voru menn bara æði sperrtir að renna í hlað með þennan feng. Báturinn hefur verð notaður æði mikið í ferðum Foss- og Sandmanna austur á fjörur með misjöfnum árangri en alltaf hefur ýtrustu varkárni verið gætt í meðferð þessarar fleytu. Það er önnur saga og verður sögð á morgun
Athugasemdir
Var þetta þungt höfuðhögg Helgi minn. Annars var þetta mjög skemmtileg færsla eins og þín er von og vísa.
Bestu kveðjur úr Tungunni.
Karl Tómasson, 7.5.2008 kl. 19:30
Fer á fjöru í Sumar, það að er alveg neglt. Siggi var nú oft búinn að segja manni sögunna af Zetornum í Síkinu
Óskar Arason (IP-tala skráð) 7.5.2008 kl. 22:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.