Sunnudagur, 27. apríl 2008
Sendingin frá Siggu á Prestsbakka.
Hér á eftir kemur frekar væmin saga þannig að vatnsberar og vogir eru beðin að vara sig.
Við fórum út að Prestsbakka. Sigga var með þessar líka kökurnar og í minningunni var heklaður dúkur á borðstofuborðinu, kakó, þeyttur rjómi, pönnukökur og flest það sem upp í hugann kemur þegar hugsað er um góðgæti. Það kann að vera að þetta hafi verið eitthvað allt annað en hjartalag Siggu á Prestsbakka, vingarnlegheit og hlýja, verður þess valdandi að maður man þetta svona. Ég var fljótur að drífa í mig sætindin því kötturinn á bænum lá út í horni með 6 kettlinga, nýlega fædda.
Á meðan mamma ræddi við Siggu og Pabbi við Jón, lá ég í kettlingahópnum. Sérstaklega var einn þeirra blíður við mig, lá hjá mér og vildi láta gæla við sig.
Þarna var ég langt fram á kvöld og heimsókn þessi fellur aldrei úr mínu minni, er reyndar ekki viss um að ég hafi í annan tíma farið í heimsókn að Prestsbakka. Ekki nema til að ná í plóg eða eitthvað annað sem Búnaðarfélagið átti.
Morgun einn nokkrum vikum seinna, þegar ég fór á fætur, sátu pabbi og mamma frammi í eldhúsi og voru skringileg á svipinn. Þennan svip þekkti ég svo sem , það var eitthvað í vændum og það ekki af verri endanum. En hvað það var, gat ég nú ekki vitað.
Mér var bent á að kíkja inn í herbergi, sem ég gerði. Stóð þar á miðju gólfi, kettlingurinn frá Prestsbakka, leit á mig og mjálmaði góðlátlega.
Köttinn nefndi ég Kisu, sennilega lítið frumlegt en mikið óskaplega var þetta mikill vinur minn.
Athugasemdir
Nú kveður við annan tón hjá vini mínum Helga Pálssyni frá Fossi á Síðu. Þennan tón þekki ég og geri mér nú grein fyrir að vinur minn er komin heim.
Þetta er fögur saga og það er bjart yfir henni.
Með bestu kveðju úr Mosó frá Kalla Tomm.
Karl Tómasson, 27.4.2008 kl. 22:08
Nei Kalli, hann er ekki kominn heim. Býr enn þá í Hafnarfirði kall greyið eins og ég of fleiri. Ég held hins vegar að kallinn hljóti að hafa fengið sér aðeins of mikið neðan í því eftir að hann kom heim úr skírnarveislunni.
Valdi Kaldi, 27.4.2008 kl. 23:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.