Mánudagur, 31. desember 2007
Gömlu Gamlársdagarnir.
Daginn fyrir gamlársdag var farið að safna í brennu að krafti. Við strákapjakkanir fórum um allar grundir, niður á Svartasand, með Álnum og á alla þá staði sem hugsanlega gat verið drasl að finna. Fjárhúsin voru tæmd af baggaböndum og fóðurbætispokum, sumir nágrannarnir áttu jafnvel heilu garðana á brennuna.
Þó var alltaf eitt vandamál, sem þó alltaf leystist. Það var staurinn í miðjunni. Á Fossi er alltaf staur uppúr brennunni, alltaf. Staurinn virtist yfirleitt aldrei vera til en að lokum fannst hann þó, stundum held ég að kallarnir hafi ekki kunnað við annað en segja já við okkur, hafi í raun séð mikið eftir staurunum sem voru oft æði eigulegir. Við spáðum minna í það, pjakkarnir.
Tóta í Miðbænum hafði yfirleitt allt haustið safnað Mogganum og rifið hann í ótrúlega litla snepla sem hún setti síðan í áburðarpoka. Þannig fór meira fyrir þessu og brennan varð stærri fyrir vikið. Svona lögðu allir hönd á plóg og um hádegi á Gamlársdag var brennan alltaf orðin fullvaxin, dívanar, grindur og margt fleira var í brennunni. Yfir staurinn voru svo sett dekk, oft æði mörg, sem loguðu lengi.
Svo var farið á bæina til að safna olíu, allir í himnaskapi.
Svona eru áramótin eins og ég vil hafa þau og þó ég sé að halla í fertugt, finnst mér ég vera enn sami pjakkurinn þegar ég fer á Massanum, með kerruna, að safna olíunni.
Gleðilegt ár!
Athugasemdir
Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það gamla !
Sjúmst hress á nýju ári.
Kveðja í Hafnarfjörðinn úr Rauðalæk 69.
Jónki (IP-tala skráð) 31.12.2007 kl. 15:29
Minningar okkar Jón Geirs eru pínu öðruvísi. Við byrjuðum strax á þriðja í jólum að safna saman dóti og þar var jólapappírinn vinsælastur enda vantaði alltaf eitthvað sem gott var að kveikja í og brann vel til að byrja með því meginpartur brennunar var gamalt og fúið timbur sem alltaf virtist vera nóg af. Ég minnist þess að við söfnuðum öllum jólapappír úr öllum húsum í þorpinu og drógum svo allt saman á snjóþotum og söfnuðum þessu í réttina hjá SS og nutum þar góðvildar velviljaðra manna sem hafa eflaust kunnað vel að meta brasið á okkur strákunum. Ekki má heldur gleym dekkjahaugnum sem kom frá Gunna Vald en hann safnaði alltaf samviskusamlega öllum þeim dekkjum sem ekki átti sér lengri lífdaga auðið undir sjálfrennireiðum og á gamlársdag var þessu svo öllu hent upp á vörubílinn hans Bigga Jóns og allt sett á bálköstinn. Síðan var gengið í hús, olíugjaldið innheimt og svo var farið í sjoppuna til Hilmars og keypt fyrir allan peninginn. Þeir sem voru elstir og reynslumestir sáu svo um að kveikja í brennunni og skvetta olíunni á eldinn. En núna er öldin önnur. Núna er allt svona lagað einfaldlega bannað. Skrýtið, eins og þetta var skemmtilegt og ekki get ég nú séð að nokkur hafi borið skaða af þessu. Mikið rosalega er ég feginn að þetta var ekki bannað þegar ég var polli.
Valdi Kaldi, 2.1.2008 kl. 21:35
Maður er bara komin aftur á Klaustur í brennusöfnun þegar maður les þetta! Vá hvað þetta var alltaf hrikalega gaman,synd að börn nú til dags fái ekki að taka þátt í svona athöfnun...líka spurning hvort að þau hreinlega nenni því!! Mikið áttum við góða barnæsku,það eru ekki allir eins heppnir og við.
Gleðilegt nýtt ár allir og takk fyrir öll þau gömlu.
Sigrún Inga (IP-tala skráð) 3.1.2008 kl. 10:36
Eins og oft áður eru mínar minningar svo líkar þínum!! Man vel eftir þessu trixi með Moggann og tók þátt í troðslunni í áburðarpokana. Ef ég man rétt þá var amma alveg viss um að Mogginn brynni mun betur en Tíminn enda efnismeiri oft á tíðum. Það var ekki laust við að eitthvað vantaði í ár þegar engin benna var á Fossi og þín sárt saknað en maður lifir nú lengi á brennunni 2006 þá tókst vel til. Hvernig var það tilheyrði ekki svo alltaf að horfa á árið, þ.e.a.s. að sjá gamla árið hverfa á skjánum og nýja árið birtast, þetta var heilög stund í mínum huga.
Kristín Jónsdóttir, 3.1.2008 kl. 16:01
þegar mín kona var á Fossi um áramót í fyrsta skipti, þá horfði hún á arið hverfa og hitt koma með okkur hinum. Hún spurði hvort þetta væri eitthvað nýtt. Uppskar hlátur heimamanna. Hafði alltaf verið á Hamrinum í Hafnarfirði fram að því.
Við skulum reyna að vera með brennu að ári, mér finnst annað ómögulegt.
HP Foss, 4.1.2008 kl. 08:35
Já Valdi, þetta var ótrúlega gaman !
Afi og pabbi höfðu líka lúmskt gaman af þessu hjá okkur, enda voru þeir í þessu sjálfir á sýnum tíma.
Svo þegar við vorum orðnir eldri, þá löbbuðum við okkur til hans Lalla Siggeirs og fengum lánaðan hjá honum "Massan" og kerru :-)
Jónki (IP-tala skráð) 6.1.2008 kl. 17:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.