Fimmtudagur, 27. september 2007
Kvenfólk
Haustið var komið. Þá var kominn tími skólans og fyrir lá að fara þangað. Ég hafði verið svo lánsamur að þurfa ekki að hitta skólafélagana um sumarið. Þessir krakkar voru ágætir, misjafnir, en samt ágætir. Ég veit ekki hvað það var , en það var eins og allt í sambandi við skólann skyldi gleymast um sumarið. Eins og sumarið væri byggt á því að ekkert í sambandi við hann kæmi í hugskot mitt. Það var til dæmis stöku sinnum farið í sund á Klaustri og þá fékk ég ónot í magann þegar ég kom inn í skólann.
Það var ekki það að félagarnir væru slæmir, því sumir þeirra voru mínir bestu vinir. Það var bara eins og þessir árstímar yrðu að vera aðskildir.
Við gengum, systkinin vestrí Miðbæ og þar var rússinn í startholunum, nýmálaður og spegilfagur. Nonni hafði verið skólabílstjóri frá því að ég mundi eftir mér og var hann almennt talinn sá albesti í faginu. Hann hafði brottfarartíma frá Fossi klukkan korter fyrir níu á hverjum morgni og var alltaf mættur á réttum tíma, tíu mínútur yfir níu í, seinasta lagi. Þá gat maður náð áttum áður en klukkan hringdi svo hátt og snjallt.
Við vorum um 12-14 í bekknum og afskaplega sundurleitur hópur. Stelpurnar krunkuðu sig saman og jafnvel í tvo eða fleiri hópa. Við strákarnir tókum hinsvegar höndum saman um hvert verk sem þurfti að inna af hendi enda alltaf mun þroskaðri en þær.Það er annars með ólíkindum hvað konur hafa haft lítið upp úr því að ganga menntaveginn svokallaða, ekkert nema þvermóðskuna. Einnig hefur þetta uppátæki okkar, að leifa þeim þetta, haft það í för með sér að þær eru að glata niður þeim hæfileikum sem þurfa að prýða góða húsmóður. Það er undir hælinn lagt hvort einhver sé heima, hvað þá að maturinn sé klár. Er ekki furða þó menn horist upp og líti út eins og riðuveikar rollur.
Sú kona er vart til lengur sem hefur þessa einstöku lífsgleði , hamingju og þjónustulund sem ömmur okkar hafa. Allt er fyrir mann gert á þeim bænum. Stoppað í sokkana, brauðið er ekki aðeins sett á borðið, heldur smurt og því klárt til átu. Ekkert er gert til að tefja hina vinnandi stétt landsins. Ég er elstur minna systkina og get ég sagt sögu af því hve veður skipast skjótt í lofti .
Þar var vinnuregla sem ekki var deilt um á heimilinu. Við karlmennin vorum í útiverkum og konurnar sáu um heimilið. Gekk þetta ávallt vel. Það var því einn sumardag fyrir margt löngu, að þetta skipulag var lagt af.. Það átti að vera dansleikur í félagsheimilinu um kvöldið og var stefnan sett þangað. Hótelstýran hafði ráðið slíkan hóp af utansveitar stúlkum til vinnu um vorið að við, hinir ólofuðu piltar, gátum vart okkar eigin augum trúað. Hver annarri föngulegri og hafði nú dæmið snúist við frá því að allt flæddi af iðnaðarmönnum úr bænum. Á þeim tímum var eins og við værum ókunnugir en þeir heimamenn. Slík var hrifning stelpnanna af þessum kaffibrúnu steratröllum.
Við gátum nú valið okkur kvonfang ,eins og úr kvellelistanum Var ég búinn að sjá föngulega mær sem var álitleg til undaneldis.Var því mikið atriði að koma vel fram á dansleiknum og vera snyrtilegur í alla staði. Þennan dag var maður í hinum daglegu störfum og samkvæmt verkaskiptingu fyrri ára gat maður verið úti fram á síðustu stundu, stokkið inn í sturtu og þar biðu fötin pressuð, skyrtan straujuð og skórnir stífbónaðir. Þetta hafði litla systir mín alltaf gert fyrir mig , möglunarlaust.
En á þessari ögurstundu brast krosstréð. Hvergi var leppana að sjá og fann ég þá inn í skáp, samankrumpaða frá því á þorrablótinu. Spurði ég hverju þetta sætti, hvort kannski væri búið að kaupa á mig ný föt eða hvort hún hefði gleymt sér. Þótti mér það reyndar ósennilegt þar sem hún var greinilega tilbúin á ballið sjálf. Hún tjáði mér það að ég gæti nú séð um þessa leppa sjálfur!
Þetta var mjög slæmur tími til að vera með uppreisn. Mamma var á ættarmóti á Flúðum og mér því allar bjargir bannaðar. Eftir langan tíma, mikið fát og lélegan árangur var ekki um annað að ræða en drífa sig í samkomuhúsið, enda orðið áliðið og dansinn vafalítið farinn að duna.
Það er ekki kvenþjóðinni að þakka að maður skuli vera búinn að ná sér í konu. Þegar ég loks komst í Klaustur, var fjörið löngu byrjað og mátti engu muna að félagar mínir væru búnir að krækja í stelpuna. Var þar snarræði mínu að þakka að konan sem ég bý með er ekki tengdadóttir annars manns en hans pabba. Þarna kom ég askvaðandi inn á dansgólfið, kófsveittur í illa krumpuðum fermingarfötunum mínum og reif stúlkuna úr fangi strákanna.
Ekki þarf að lýsa því nánar sem á eftir fór en það kom ekki að sök að hún sér illa og þar að auki settist slík móða á gleraugun hennar vegna uppgufunarinnar frá skyrtunni minni sem var nýkomin úr steypibaði gufustraujárnsins, að hún sá ekki krumpurnar í fötunum. Þarna skall hurð nærri hælum. Kvenrembuskapurinn var nærri búinn að hafa af mér þessa úrvals konu.
Strákarnir voru í mörg ár eftir þetta, kvenmannslausir og sumir ekki enn komnir með konur.
Athugasemdir
Þetta heitir sko jafnrétti Helgi minn. Það virkar þannig að við strákarnir göngum núna í öll störf, vöskum upp, þvoum þvotta, eldum mat og svo frv. Það stórmerkilega við þetta jafnrétti er hins vegar það að það virkar bara í aðra áttina. Um leið og vinna þarf "karlmannsverk" þá eru konurnar stikkfrí og snerta ekki á því að laga bílinn, setja upp ljós, smíða og múra og svo frv. Mér finnst að við séum hafðir að fíflum í þessum málum. Spurning um að stofna samtök.
Valdi Kaldi, 28.9.2007 kl. 14:07
Skráið mig sem félaga í alvörukarlavinafélagið
Bogi Jónsson, 28.9.2007 kl. 18:41
Í þá gömlu góðu
þegar karlmenn óðu
burtséð frá allri móðu
í kvennfólkinu fróðu.
Þeir dagar er' á burt
að brauðið sé nú smurt
klofið alltaf þurrt
ég flutti líka burt.
aldrei fær maður slátur
Óskar Þ. G. Eiríksson (IP-tala skráð) 28.9.2007 kl. 19:29
Ert'ekki bara að grínast? Það er ekki hægt að vera svona mikil tímaskekkja, eða hvað? Hlýtur bara að vera að djóka, ha :-)
LKS - hvunndagshetja, 29.9.2007 kl. 08:37
Ég veit ekki hvað segja skal, ég held að margir telji mig tímaskekkju, ég vil frekar meina að tíminn sé ekki réttur.
HP Foss, 29.9.2007 kl. 10:28
Mér finnst nú að það hafi nú einmitt verið hún systir þín sem sá til þess að þú eignaðist konu. Hún hefur skynjað það að það þyrfti eitthvað mikið að koma til svo það mætti verða og stólaði því á æðri máttarvöld því eins og þú veist þá hjálpar Guð þeim sem hjálpa sér sjálfir og sannast það í þessari sögu.
Kristín Jónsdóttir, 30.9.2007 kl. 22:13
já Stína, amma sagði einmitt að ég mætti þakka Guði fyrir
HP Foss, 30.9.2007 kl. 22:48
Þú ert krúttulegur karlrembukall og átt bara að vera þannig! Það er gott að vera kona núna þegar þið gerið allt fyrir okkur...
Hrafnhildur (IP-tala skráð) 2.10.2007 kl. 09:14
Takk, Hrafnhildur, maður verður einfaldlega að vera maður sjálfur, hvernig svo sem maður nú er.
HP Foss, 2.10.2007 kl. 13:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.