Mánudagur, 24. september 2007
Er orðinn hressari
Geðheilsan er hrokkin í lag, eins mans dauði er annars mans brauð, þar sem litli bróðir gekk úr skaftinu í miðju öðru safni, lét ég ekki segja mér það tvisvar og var mættur í hans stað í hinni undurfögru sveit, Síðunni. Sveitinni þar sem grösin virðast grænni, brekkurnar brosa við hverjum sem vill og Fossinn fegurri en nokkurt fljóð.
Í Fellinu stóð föngulegur hópur, hópur sem virtist klár í hvað sem var, gráir fyrir járnum sátu þeir og hámuðu í sig hafragrautinn, sprottnir á lappir, virtust sem nýhreinsaðir hundar.
Ekkert kemur í stað þessara ferða, ferða þar sem fátt fær raskað sálarró. Ró sem hámarki nær á Fjalldalsbrúnum þegar féð streymir fram í löngum röðum, rennur í rólegheitum eftir kindagötunum fram heiðar.
Þetta skilur enginn sem ekki hefur upplifað, það er nefnilega líf utan við skarkalann og háhraðatengirnar. Líf sem er ólíkt því við heyrum af í fréttum á mánudagsmorgnum á Bylgjunni.
Athugasemdir
Ekki hefur þér nú leiðst að þurfa að "skjótast" þetta og mikið assgoti eru þið vígalegir og auðséð að fjallaloftið er allra meina bót þar sem þú ert orðinn svona sprækur og þeir bræður Jón og Bjarni eru risnir úr rekkju og svona líka reffilegir - það er gott að sjá.
Kristín Jónsdóttir, 24.9.2007 kl. 19:15
ja, sko, Stína, myndin er nú eiginlega síðan í fyrra. En hún var bara eitthvað svo fín.
HP Foss, 24.9.2007 kl. 21:58
Fjallaloftið er í aðdrætti nokkuð gott en allt virðist þetta nú svipað þegar því er skilað.
Bestu kveðjur frá Kalla Tomm úr Mosó.
Karl Tómasson, 24.9.2007 kl. 23:21
Já grunaði ekki Gvend, það var eitthvað bogið við það að menn lægju veikir heima í rúmi eina stundina en í fullu fjöri á fjöllum þá næstu. Hvað um það myndin er fín og má örugglega nota næstu árin, þið eldist nú ekki svo hratt er það?
Kristín Jónsdóttir, 25.9.2007 kl. 18:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.