Sumarhugleiðing

Það var hásumar. Vestanáttin eins og áður hefur verið lýst, einstök. Vestanáttin er eiginlega það eina góða sem kemur frá Víkinni. Svona hlý og notaleg. Þá er ég að sjálfsögðu að skilja frá, Elínu á Keldunúpi, Sólveigu í Prestsbakkakoti, Sveinbjörgu, Jóhönnu og allar þessar Kerlingar sem sóttar voru út yfir sand til að bæta annars furðugóðan stofninn sem fyrir var. Þær flokkast náttúrulega með vestanáttinni, svona hlýjar og notalegar.

 Hundurinn var eins og ég, alveg sallarólegur og flatmagaði á stéttinni. Það sem skildi okkur að, þennan fallega þriðjudagsmorgun, var að ég sötraði kaffið en hann var í óða önn að gera á sér morgunverkin, þvoði sér mjög vandlega, hátt og lágt og afar vandlega á viðkvæmum stöðum. Gekk þetta drykklanga stund með ótúlegu kjamsi og smjatti. “ Svona, hættu nú!” sagði ég við hundhelvítið og mér lá við að kúgast. Hundurinn spratt á lappir og ég líka þegar hann gerði sig líklegan til að þvo mér í framan, með sama þvottapokanum.
Ég  rölti uppá tún með kaffibollan til að líta Fossinn minn, Fossinn sem hefur bara ekkert breyst í gegnum árin. Alltaf jafn rólegur og staðfastur, fellur fram af brúninni með ótrúlegri natni, nánast eins og hann leggist mjúklega á klöppina svo bæjarlækurinn geti haldið sínu striki.
En árin líða og strax er maður sjálfur farinn að telja í áratuttugum til baka, atvik sem eru eins og gerst hafi í gær. Þegar við krakkarnir vorum í þessari sömu brekku á kvöldin , í ótal leikjum og uppátækjum, þar er verið að tala um 25-30 ár. Sei, sei.

Ég gekk til baka og kallaði á hundinn sem leit upp, eins og steinhissa og hálf skömmustulegur í framan, þar sem hann var að háma í sig hrossaskít. Svei mér þá, ég held að hann sé að verða ruglaður. Gekk inn í bæ, inn í eldhús. Fyrri tuttuguárum hefði amma verið þar með morgunmat fyrir okkur öll, smurt brauð með eggjum og öllu tilheyrandi. Nú er öldin önnur, enginn er í eldhúsinu og ég fæ mér því ekki neitt. 

Já, sumrin voru góð í sveitinni, alltaf nóg að gera og lagðist maður steinþreyttur á koddann á kvöldin, ýmist eftir baggahirðingu eða erfiða leiki. Næsta tún lá sennilega í ljánni eða var komið í næturmúga. Ef hirðingin gekk vel var farið til nágrannanna og létt undir með þeim, þannig fórum við krakkarnir á milli bæjanna eftir því sem þörf var á. Var því oft kátt á hjalla þegar margir söfnuðust saman og verkið gekk vel.
Núna hýrast menn einir í traktorunum og það eina sem menn heyra eru skellirnir í tækjunum.
  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Helgi.

Svona í minningunni var heyskapurinn alltaf skemmtilegur tími. Heyskapurinn var stundum bara blóð sviti og tár. Sem betur fer voru góðu stundirnar fleirri.

 Það er gaman að lesa blöggið þitt, haltu áfram!!!

Kv.

Jón Þór

Jón Þór Helgason (IP-tala skráð) 18.7.2007 kl. 01:57

2 identicon

Já sammála, alltaf gaman að kíkja í síðuna þína:) Takk fyrir mig.

Kveðja, Anna Lóa

Anna Lóa (IP-tala skráð) 18.7.2007 kl. 12:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband