Föstudagur, 29. júní 2007
Er fiskur matur?
Einn góður maður sagði eitt sinn í einlægni sinni" Mér finnst allur fiskur vondur, nema silungur og kjöt" Ég skil svo algerlega hvað maðurinn var að meina, talað svona rétt á meðan hugsað var, fiskur er vondur, silungurinn þó ágætur, samt fiskur en kjötið best og kemur alltaf í hugann þegar hungrið sverfur að.
Það var 20 stiga hiti í dag á Sparisjóðsmælinum kl sex og hugsaði ég með mér að nú væri kannski upplagt að grilla feita sneið af lambi. Slafra henni í sig með nokkrum tegundum af sósum. Þegar ég kom heim spurði ég dóttur mína varfærnislega hvort hún héldi að mamma hennar væri nokkuð með mat? " Jú, það er bleikur fiskur í matinn" Ég fann fyrir máttleysi í fótunum og maginn tók stökk aftur fyrri mænu og faldi sig þar eins og lafhræddur hundur. Bleikur fiskur! Hvað er manneskjan að elda? Á ég að trúa því að nú sé ætlast til að ég, sársvangur maðurinn, útþvældur eftir harða vinnuviku, eigi að fara að éta bleikan fisk.
Ég hugsaði með mér að rétt væri að hugsa málið í svolitla stund svo ekki kæmi til leiðinda. Ég hélt áfram að moka skurðinn, kófsveittur, ( af hita því ég er með gröfu á leigu) og lét ónotin líða hjá að mestu. Stökk þá inn og leit inn í eldhús og sagði blíðri röddu . " Ertu með lax í matinn?"" Jebb, steiktann lax" sagði hún og ljómaði eins og sólin sjálf, haldandi það að ég væri svona hoppandi kátur með uppátækið. "Það er bara ekkert annað", sagði ég og hækkaði á viftunni svo pestin færi ekki út um allt hús.
Ég hélt áfram að grafa þangað til ég heyrði : "MATUR" Það var búið að leggja á borð úti og á kanntinum stóð einn ískaldur fyrir húsbóndann. Og viti menn, bleiki fiskurinn var bara helv. góður. Ég fékk mér vænann skammt og var kominn aftur í ljómandi skap þegar eitt barnið horfði í augun á pabba sínum með stóra skál í höndunum , í skálinni var brætt smjör og laukur. " Viltu lauk feiti?" sagði barnið og restin af fjölskyldunni lagðist í grasið af hlátri.
Athugasemdir
Æ, Helgi minn....mér finnst svo gaman að lesa bloggið þitt. Ekki oft sem maður hlær upphátt að því sem maður les.
Bestu kveðjur úr bláa húsinu í Grafarvoginum.
Íris Rut.
Íris Rut A. (IP-tala skráð) 29.6.2007 kl. 23:57
"Viltu lauk feiti?"
Djöfull hló ég ...
Rúnarsdóttir, 1.7.2007 kl. 21:09
Já, bragð er að þá barnið finnur .
Kristín Jónsdóttir, 2.7.2007 kl. 20:12
Sæll Helgi minn, alltaf jafn gaman að lesa hjá þér. Mikill rithöfundur blundar í þér, það er á hreinu. Ætlaði að bara að kvitta og segja gangi þér vel og ykkur í stígvélaboltanum, vildi að ég kæmist. Kærar kveðjur
Ágústa Ágústsdóttir (IP-tala skráð) 4.7.2007 kl. 22:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.