Sunnudagur, 8. desember 2024
Að fara sér engu óðslega
Þeir ákváðu að hlaða sér hesthús við hraunbrúnina, afi minn og Feri í Miðbænum, Helgi Pálsson og Kristófer Bjarnason og þetta hús stóð þar þangað til i sumar. Þetta var litið hesthús, rúmaði með sæmilegu móti fjóra hesta. Gott fyrir tvo. Seinna, eftir að nýrra húsið var hlaðið, notaði Óli á Læk þetta hús í mörg ár undir sín hross.
Úr Fellinu eru til margar sögur, um hitt og þetta sem mönnum þykir erfitt að útskýra. Stundum var beðið lengi eftir smölum sem voru seint á ferðinni úr byggð af einhverjum orsökum og þegar þeir loks komu, var heldur betur vel tekið á móti þeim. Allir komu út á torfu til að taka á móti þessum síðbúnu safnsmönnum, sem kannski voru þyrstir eftir langa reið, eða jafnvel aflögufærir. Var þorstanum í það minnsta sinnt af áfergju, hvaðan sem nú vökvinn kom.
Hundarnir vöktuðu vel allar ferðir í Fellinu, ruku út í myrkrið, geltandi á móti hverjum sem kom. En oft voru fýluferðir úr húsi, þegar enginn kom úr myrkrinu. Þeir sáu eitthvað eða fundu, sem enginn annar sá að fann.
Eitt kvöldið var von á nokkrum köllum inn í Fell, seint um kvöld. Hundarnir ruku út á torfu en núna sátu menn rólegir inn í kofa og fóru ekki út fyrr en búið var að gelta frá sér allt vit, hófadynurinn heyrðist frá hrossunum, glamrið í beislunum og söngurinn i köllunum. En þegar út var komið var þar engan að finna. Nema hundana, sem störðu út í myrkrið, steinþegjandi. Smalarnir síðbúnu, komu svo löngu síðar.
Eitt haustið kom Þorvarður í Hörgsdal svona seint en hann átti hesthús sem stóð nokkuð austur með hrauninu. Hann reið beina leið að hesthúsinu og spretti af. En hann kom frekar umsnúinn inn í kofa. Skammaði kallana, því hann var í tómu brasi að koma hrossunum sínum inn fyrir snarvitlausum hesti sem var þar fyrir. Enginn hinna smalanna hinsvegar kannaðist við að eiga þann hest.
Litla gamla hesthúsið við hraunkanntinn hefur ekki verið notað í langan tíma. Langt er síðan hross voru hýst þar en stundum voru kindur geymdar þar inni í safni en þó ekki nú í mörg ár. Þakið lág orðið laust ofan á hlöðnum veggjunum og heljarinnar tóg var strengt þvert yfir það og var bundið í spítu, sem var einu sinni til. Því var það í sumar að ég fór með rúllur fyrir hestamenn ínn í Fell á sturtuvagni. Mér dattí hug að nota ferðina og rífa gamla húsið.
Það var glaða sólskin þennan morgun og ég vatt mér í verkin hugsunarlaust. Það var hugur í mér í blíðunni, brunaði fram og til baka, mokaði moldinni úr gömlu þorparatóftinni upp á vagn, sótti sand og sléttaði og staflaði rúllunum þar inn til skjóls. Allt saman var þetta gert af miklu kappi á gamla Zetor. Hvergi var hikað, skóflan af og greipin á og aftur greipin af og skóflan á. Í stórum sveig var svo brunað austur fyrir sturtuvagninn, rakleiðis að hraunbrúninni og skólfan rekin af miklu afli í þakgarminn sem umsvifalaust þaut í loft upp og lenti á hryggnum út í hrauni. Sjálfum þótt mér þetta helvíti göslaralegt og er ég þó ýmsu vanur í þeim efnum.Ég stökk út úr traktornum og vatt mér inn í tóftina sem hafði ekki verið þaklaus síðan afi og Feri voru þarna fyrir miðja síðustu öld.
Ég fór hálf skömmustulegur að toga þakslitrurnar úr hrauninu í áttina að trakrornum en fann þá skyndilega allan mátt renna úr fótleggjunum. Þeir titruðu og skulfu svo ég lagðist utan í vesturvegginn. Það setti að mér beyg og ég skildi þarna, að nú hafði ég líklega hlaupið á mig. Ég staulaðist upp i Zetorinn, rak hann i aftrábak og lagði á bakvið sturtuvagninn. Ég staulaðist inn í kofa. Lagðist upp i kojuna mína og lokaði augunum. Hugsaði til afa. Sem ég aldrei hitti en finnst þekkja samt svo vel. Til Fera gamla, sem var alltaf eitthvað að bauka vestrí Miðbæ öll mín uppvaxtarár. Hugsaði um Hoffmann, flugmanninn í Fellinu, sem varð þar heimilismaður án þess að vera spurður, þegar vélin hans brotlenti á skerjunum vestan við Miklafellið í seinna stríðinu. Við fórum þarna félagarnir aðeins yfir stöðuna í huganum og eftir svolítinn tíma var ákveðið að halda áfram með verkið, að rífa gamla hesthúsið við hraunbrúnina.
Eftir þennan samráðsfund, gekk þetta afskaplega vel. Þakgarmurinn rann nú eins og ekkert væri inn á traktorsgálgann og þaðan upp á vagn. Ég lagaði aðeins göslið eftir mig og nú skein sól í öllum sinnum. Hluta af grjótinu í tóftinni notaði ég svo í grillgarm sem ég hróflaði upp, ásamt að nota steina úr vegkanntinum fram hraun. Og svona til að bæta fyrir böðulsskapinn þarna um morguninn, tók ég nokkra stuðlabergssteina úr Súlunni heima og bætti ofaná þessa hörmungar grillhrúgu.
hpfoss 2023
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.