Þriðjudagur, 22. maí 2007
Vorið
Það var heiðríkja og hinn fegursti dagur. Hestarnir voru bundnir við gamla hesthúsið, nýjárnaðir,og sílspikaðir eftir vorið. Samt rifu þeir í sig grasið úr kampinum eins og þetta væri þeirra fyrsta tugga í langan tíma. Það átti að fara í heiðina. Það var hugur í manskapnum og hundurinn vældi af kátínu.
Við fórum upp Hjalla en Miðbæjarmenn upp Merkiklif, Pabbi og Nonni fóru á traktorum.
Veðrið austan í brekkunum innan við Gömlu brú er alltaf gott. Alltaf logn og ilmurinn af jörðinni eins góður og hugsast getur. Ekki spillir fyrir að horfa á kýrnar hans Davíðs renna sér út í hólmana yfir lygnurnar í Þverárvatninu og finna ilminn af þeim. Við erum spennt og förum í einfaldri röð eftir gömlu götunni innan við Bröttubrekku. Hálf kvíðin samt fyrir steininum sem fyrir löngu féll á götuna og gerir hana svo mjóa að maður verður alltaf að setja höndina á hann til að merjast ekki á leggnum en samt ekki ýta of mikið til þess að detta ekki fram af og rúlla ofaní á. Þetta lukkast nú yfirleitt en stöku ístaðsól rennur úr sæti sínu. Áður en lagt er í brattann er áð og maður nýtur útsýnisins til austurs með strá í munni. Virðir fyrir sér glæsileg túnin á Þverá og lágreist fjöllin í Hverfinu. Harðskafinn stendur þar heldur hærri en hin og svo sá gamli austastur. Eftir gott stopp er hadið af stað og ekki staðar numið fyrr en við hliðið að grösugri heiði Fossmanna.
Þegar komið er með safnið inn í Krókasker, eða inn í Horn eins og sagt er í daglegu tali, blasir við dagsverkið, framundan. Rollur skulu rúnar og settar innfyrir girðingu, hver með sínum lömbum, allt skoðað og þess vandlega gætt að ekkert sé að . Þykir okkur krökkunum svona nánast nóg um nákvæmnina.
Fjörið nær hámarki þegar rekið er inn í dilkinn, einhver kallanna fer og ákveður hvar skilja skal hópinn, þá fer allt af stað, hoppað og hrópað, styrjaldarástand skapast á meðal okkar krakkanna, takmarið er að ná að fella einhvern í hópnum. Ég man samt ekki eftir því að nokkurn tíman hafi einhver kallanna verið felldur. Mikið hafa þeir verið þreyttir á þessum látum, það bara hlýtur að vera.
Eins og gefur að skilja eru matarpásurnar ferskar í minningunni, þar sem við öll settumst í litla gilið austan við réttina. Svali og smurt brauð,kakó kökur, slíkar trakteringar, að hver einasta kaffistofa nútímans væri stolt af slíkum kosti. Hvergi í heiminum held ég að hafi veri búnar til betri kökur og girnilegra brauð en hjá mömmu og ömmu, að ógleymdu kvöldsnarlinu hjá Laufeyju. Ég sá reyndar að Tóta hafði gott lag á þessu, kassinn þeirra var býnsa fagur.
Að loknum degi var ullinni troðið í bala, bundið á kerrurnar og haldið heim. Leiðin heim var óhemju greið, jálkarnir sporléttir og reiðmenn góðir. Hver einasta brekka var tekin á harðastökki og var ekki tekin pása fyrr en stigið var af baki niður við klif.
Mikið ósköp var þetta nú gaman og kleinurnar voru kærkomnar þegar heim var komið. Hestarnir settir upp í brekku þar sem þeir veltu sér og fóru að éta, að bíta gras, og það gerðu þeir þar til smalað var næst.
Athugasemdir
Kæri vinur og félagi.
Þetta var bæði skemmtileg og falleg lesning sem ég fann bæði ilminn af og sá allt fyrir mér í.
Bestu kveðjur frá K. Tomm og först leidí.
Karl Tómasson, 22.5.2007 kl. 23:34
Þú átt alveg þín augnablik vinur minn ... :)
Rúnarsdóttir, 23.5.2007 kl. 00:34
Yndislegar minningar kvikna við þessa lesningu og gaman að deila þeim með þér. Þó stóísk ró hafi ávalt verið yfir köllunum rámar mig í að einstöku sinnum hafi Siggi heitinn og Gaui gantast eitthvað í ykkur strákunum og oftar en ekki kom það ykkur algerlega í opna skjöldu þannig að ávalt lá einhver flatur á eftir. Nestið var alltaf gott því maður var búinn að vinna fyrir því, rúningurinn var hörku vinna og var hver rúin rolla afrek sem merkt var á spýtur réttarinnar með vasahníf. Nú horfa spýturnar skörðóttar fram heiðina sem er ennþá fögur þó engar séu þar rúnar rollurnar lengur. Takk fyrir góða sögu Stína.
Kristín Jónsdóttir, 23.5.2007 kl. 16:57
Meiri væmnin alltaf hreint.
Valdi Kaldi, 24.5.2007 kl. 17:21
Ég sé Valda alveg fyrir mér, tárin niður á kinnar og ætlar að kenna mér um það að hann sé grenjandi . Valdi, þetta er allt í lagi. þú hefur öruglega átt þínar stundir á Klaustri. Gaman væri að fá eina góða sögu á prenti af ykkar prakkaraskap.
kv
Helgi
HP Foss, 25.5.2007 kl. 13:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.