Sunnudagur, 6. maí 2007
Lífsgæðakapphlaupið
Þegar sólin skín inn um gluggann og ég er en í bælinu, sé ég fyrir mér að kýrnar séu enn í tröðunum. Allt komið á fulla ferð, glampar á heyþyrluna hjá pabba. Ég stekk út í Massann og rýk út í Fjall. Opna uppí Stekkatún fyrir beljurnar. Þetta verður góður dagur, vestan andvari og kallarnir búnir að ryðja niður. Það verður tekið á því í dag.
Svo opna ég augun og sé að nú er öldin önnur. Kýrnar eru á bak og burt, einnig fjallið, ekkert heyrist í fossinum, lágværar drunur heyrast úr fjarska. Ég kíki út um gluggann og sé niður á höfnina. Í stað glampans af fjölfætlunni hans pabba blasir við skrokkurin af Wilson Muuga. Ljósavélarnar í rússneskum togara eru það eina sem heyrist í. Ég loka glugganum og rölti niður.
Heimurinn í borginni er svo mikið meira afmarkaður en í sveitinni, afmarkast af skikanum í kringum húsið og svo staðirnir sem maður getur farið á en hefur svo sem ekki neinum skyldum að gegna gagnvart. Lætur sig engu skipta hvort þar séu aðrir á ferli, hvort menn hendi þar rusli, það kemur bara einhver og tekur það upp, einhver annar. Sá er sennilega á kaupi við það.
Allt er við hendina, ef maður gleymir einhverju, þá fer maður bara aðra ferð, ef mann vantar eitthvað, þá fer maður bara eftir því. Öðru vísi er þessu farið í sveitinni, þar notast maður við það sem er við hendina. Það er kannski ekki alltaf það sem passar best, en er nothæft.
Hér er hinsvegar ekkert nógu gott, öllu þarf að skipta út í sífellu, nýtt er komið á markað, það skal keypt. Kaupmennirnir keppast við að troða inn á mann því nýjasta og besta, það sem var best í gær er allt í einu orðið ómögulegt.
Hvernig er þetta hægt, hvernig er hægt að ætlast til að maður rekist með þessari hjörð?
Athugasemdir
Ég gleymi því aldrei þegar að ég spilaði einu sinni með Gildrunni á Reyðarfirði. Eftir frábæra tónleika fórum við félagarnir í heitann pott og nutum þess að horfa út á fjörðin og á kyrðina.
Síðastliðið sumar var ég á ferð með fjölskyldu minni á sömu slóðum og ákvað að láta gamlann draum rætast að fjölskylda mín yrði fyrir sömu hughrifum. Þegar við fórum úr tjaldinu að morgni blasti við okkur ægi fagurt álverið. Fjölskyldan varð heilluð og mín gamla saga um fegurðina náð fullum hæðum þennan morgunn.
Kær kveðja frá Kalla Tomm úr Mosó.
Karl Tómasson, 6.5.2007 kl. 20:31
Við erum að upplifa ótrúlega hraða þróun, tækninni fleygir fram nú sem aldrei fyrr! Ekkert óeðlilegt við að upplifa hinar ýmslu tilfinningar vegna þessa. Hins vegar höfum vil frjálsan vilja, getum notað hann, hver og einn fyrir sig. Berum ekki ábyrgð á neinu nema okkur sjálfum.
Vilborg Eggertsdóttir, 6.5.2007 kl. 21:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.