Mánudagur, 19. mars 2007
Vitlaust fé
Mér er smalamenskan hugleikin og allt í kringum hana. Ekki það að ég sé sérstaklega sniðinn í iðju þessa, þvert á móti, þá ætti að banna menn eins og mig í smölun. Ég ætla þó að hafa smá skoðun á smalamenskum.
Á haustin, þegar allt leikur í lyndi á fjöllum, drifhvítar ærnar líða um grösugar torfur austursíðu afréttar, kallarnir halla sér utan í brekkurnar, hundarnir standa hjá og fylgjast grannt með gangi mála. Sólin í hásuðri kemur í veg fyrir að maður sjái nokkuð í kíkinum en það kemur ekki að sök því hópurinn strollast fram heiðar í langri röð, hver kindin á eftir annari, rétta leið til byggða.
Smalinn stendur upp og rólar í humátt á eftir safninu.
Það er þá sem babbið kemur gjarnan í bátinn. Rolla með tvö lömb stendur og starir á okkur, tekur undir sig stökk þegar við nálgumst. Hefst þá yfirleitt mikill sprettur þegar við, Austursíðumenn, rjúkum af stað til að handsama þessa bévítans skjátu sem ekkert virðist vilja fara nema norður. Þegar við svo erum búnir að handsama þessar óvættir, kemur í ljós að rollan er úr Landbrotinu, á aðiens annað lambið. Allt er það nú samt úr Brotinu.
Það er á þessum stundum sem ég fer að spá í það hvers vegna Landbrytlingar eiga fé á afrétti. Hvers vegna er þetta bandvitlausa fé að ráfast um afréttinn, fé sem er alið upp í Landbrotshólunum og ratar fátt. Hefur ekkert séð nema í næsta hól.
Látum vera að féð sé að villast þetta. Það er nú ekki allt. Til að sækja þessar skjátur eru sendir eigendur þeirra, sem eru, eins og gefur að skilja, líka úr landbrotinu!
Þetta hættuspil gengur ekki lengur, byrjum brunninn áður en Landbrytlingurinn er dottinn í það og stoppum þetta, fáum þá til að hafa sitt fé í hólunum.
Það er best að þetta verði svona, Miðpartsmenn smala svo Vestur-afréttinn, þeir hafa rúman tíma.
kv
Helgi
Athugasemdir
Ætli Helgi muni ekki eftir sínum uppruna, hann er nú bara Landbrytlingur að hálfu hvort sem honum líkar betur eða ver.kv. mamma
mamma (IP-tala skráð) 20.3.2007 kl. 12:43
Hvað er mamma að skemma þetta fyrir mér, þið sjáið þarna hvernig ég er alltaf skammaður fyrir það sem Davíð er að kenna.
HP Foss, 20.3.2007 kl. 19:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.